Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Mikill meistari gefur okkur skýrari mynd af skaparanum

Mikill meistari gefur okkur skýrari mynd af skaparanum

Níundi kafli

Mikill meistari gefur okkur skýrari mynd af skaparanum

„EFTIRVÆNTING [var] vakin“ hjá mönnum í Palestínu á fyrstu öldinni. Eftir hverju? „Kristi“ eða „Messíasi“ sem spámenn Guðs höfðu öldum áður sagt að koma skyldi. Fólkið var fullvisst um að Biblían væri skrifuð undir leiðsögn Guðs og að í henni væru forspár um framtíðina. Ein slík forspá í Daníel benti til þess að Messías kæmi fram snemma á fyrstu öld. — Lúkas 3:15; Daníel 9:24-26.

Menn þyrftu þó að sýna aðgát vegna þess að sjálfskipaðir messíasar risu upp. (Matteus 24:5) Gyðingurinn og sagnfræðingurinn Jósefus nefnir nokkra: Þevdas sem leiddi fylgjendur sína að Jórdanánni og fullyrti að vatnið í henni myndi klofna og leið opnast yfir ána; mann frá Egyptalandi sem leiddi fólk að Olíufjallinu og hélt því fram að múrar Jerúsalem féllu við skipun hans; og svikahrapp á dögum Festusar landstjóra sem hét fólki lausn frá vanda og kvíða. — Samanber Postulasöguna 5:36; 21:38.

Hópur, sem seinna var nefndur „kristnir“ menn, var alger andstæða þeirra sem létu tælast til fylgis við slíka svikara. Þessi hópur leit á Jesú frá Nasaret sem mikinn meistara eða kennara og hinn sanna Messías. (Postulasagan 11:26; Markús 10:47) Jesús var ósvikinn messías; hann hafði allt það sem krafist var eins og ríkulega er staðfest í sögulegu bókunum fjórum sem nefnd eru guðspjöllin. * Gyðingar vissu til dæmis að Messías skyldi fæðast í Betlehem, vera af ætt Davíðs og vinna undursamleg verk. Jesús stóðst allar þær kröfur og jafnvel vitnisburður andstæðinga hans staðfestir það. Já, Jesús var gæddur því sem Messías Biblíunnar skyldi búa yfir. — Matteus 2:3-6; 22:41-45; Jóhannes 7:31, 42.

Fjöldi fólks, sem hitti Jesú, sá einstök verk hans, hlýddi á óviðjafnanleg vísdómsorð hans og gerði sér grein fyrir framsýni hans, sannfærðist um að hann væri Messías. Þau ár, sem hann prédikaði (29-33), hlóðst upp vitnisburður um að hann væri hinn sanni Messías. Jesús reyndist satt að segja vera meira en Messías. Lærisveinn, sem þekkti vel til mála, komst að þeirri niðurstöðu að „Jesús sé Kristur, sonur Guðs.“ *Jóhannes 20:31.

Sökum þess að Jesús hafði svo náið samband við Guð gat hann útskýrt og opinberað hvernig skaparinn er. (Lúkas 10:22; Jóhannes 1:18) Jesús sagði sjálfur að hið nána samband hans við föðurinn hafi hafist á himni þar sem hann vann með Guði að allri annarri sköpun, lifandi sem lífvana. — Jóhannes 3:13; 6:38; 8:23, 42; 13:3; Kólossubréfið 1:15, 16.

Biblían greinir frá því að sonurinn hafi verið fluttur frá hinu andlega tilverusviði og ‚orðið mönnum líkur.‘ (Filippíbréfið 2:5-8) Slíkur atburður er ekki eðlilegur, en er hann mögulegur? Vísindamenn hafa komist að raun um að frumefni, eins og úrani, megi breyta í annað; þeir geta jafnvel reiknað út afleiðingar þess að massi breytist í orku (E=mc2). Er þá ástæða til að efast um orð Biblíunnar um að andaveru hafi verið umbreytt í mann sem lifði á jörðinni?

Til að lýsa þessu með öðru dæmi getum við hugsað okkur það sem læknar hafa náð að gera með glasafrjóvgun. Líf, sem hefst í „tilraunaglasi,“ er flutt inn í konu og fæðist síðan sem barn. Biblían fullyrðir að „kraftur hins hæsta“ hafi flutt líf Jesú inn í mey sem hét María. Hún var af ætt Davíðs til þess að Jesús gæti orðið hinn varanlegi erfingi messíasarríkisins sem Davíð hafði verið heitið. — Lúkas 1:26-38; 3:23-38; Matteus 1:23.

Sökum þess hve náið samband Jesús hafði við skaparann og líktist honum mikið gat hann sagt: „Sá sem hefur séð mig, hefur séð föðurinn.“ (Jóhannes 14:9) Hann sagði einnig: „Enginn veit . . . hver faðirinn er, nema sonurinn og sá sem sonurinn vill opinbera hann.“ (Lúkas 10:22) Þegar við kynnum okkur það sem Jesús kenndi og gerði á jörðinni fáum við þar af leiðandi gleggri mynd af persónuleika skaparans. Með þetta í huga skulum við skoða reynslu bæði karla og kvenna af samskiptum við Jesú.

Samversk kona

„Skyldi hann vera Kristur?“ spurði samversk kona eftir að hafa talað við Jesú nokkra stund. (Jóhannes 4:29) Hún hvatti jafnvel fólk frá Síkar, bæ þar í grenndinni, til að hitta Jesú. Hvað fékk hana til að viðurkenna að Jesús væri Messías?

Þessi kona hitti Jesús þegar hann var að hvíla sig eftir göngu allan morguninn á rykugum vegum í fjallshlíðum Samaríu. Þótt Jesús væri þreyttur talaði hann við hana. Jesús tók eftir áhuga hennar á andlegum málum og leyfði henni að heyra mikilvæg sannindi sem snerust um nauðsyn þess að „tilbiðja föðurinn í anda og sannleika.“ Áður en samtalið var á enda gerði hann uppskátt við hana að hann væri Kristur, en það hafði hann ekki játað opinberlega áður. — Jóhannes 4:3-26.

Þetta samtal samversku konunnar við Jesú hafði mikla þýðingu fyrir hana. Fram að því hafði trúariðkun hennar snúist um tilbeiðslu uppi á Garísímfjalli og var einungis byggð á fyrstu fimm bókum Biblíunnar. Gyðingar sniðgengu Samverja sem áttu margir hverjir ættir að rekja til blandaðra hjónabanda einstaklinga af ættkvíslunum tíu, sem myndað höfðu Ísraelsríki, og aðfluttra manna. Afstaða Jesú var allt önnur. Hann kenndi Samverjum fúslega jafnvel þó að hann hafi verið sendur til „týndra sauða af Ísraelsætt.“ (Matteus 15:24) Jesús endurspeglaði hér fúsleika Jehóva til að taka á móti einlægu fólki af öllum þjóðum. (1. Konungabók 8:41-43) Já, Jesús og Jehóva eru báðir hafnir yfir þá þröngsýni og fjandskap sem svo oft einkennir samskipti fólks af ólíkum trúarbrögðum nú á dögum. Vitneskjan um þetta ætti að laða okkur að skaparanum og syni hans.

Aðra lexíu má læra af fúsleika Jesú til að kenna samversku konunni. Þegar samtal þeirra fór fram bjó hún með manni sem var ekki eiginmaður hennar. (Jóhannes 4:16-19) Samt lét Jesús það ekki hindra sig í að tala við hana. Það er næsta víst að hún hefur kunnað að meta að hann kom virðulega fram við hana. Og reynsla hennar var ekkert einsdæmi. Þegar nokkrir leiðtogar meðal Gyðinga (farísear) átöldu Jesú fyrir að setjast til borðs með iðrunarfullum syndurum sagði hann: „Ekki þurfa heilbrigðir læknis við, heldur þeir sem sjúkir eru. Farið og nemið, hvað þetta merkir: ‚Miskunnsemi vil ég, ekki fórnir.‘ Ég er ekki kominn til að kalla réttláta, heldur syndara.“ (Matteus 9:10-13) Jesús rétti því fólki hjálparhönd sem var að sligast undan syndum sínum — yfirtroðslu sinni á lögum Guðs og stöðlum. Það yljar okkur sannarlega um hjartaræturnar að sjá að Guð og sonur hans hjálpa þeim sem líða vegna afleiðinganna af fyrri hegðun sinni. — Matteus 11:28-30. *

Látum það ekki fara fram hjá okkur að það var kona sem Jesús talaði svo vingjarnlega við og hjálpaði við þetta tækifæri í Samaríu. Hvers vegna skiptir það máli? Vegna þess að á þessum tímum var karlmönnum meðal Gyðinga kennt að forðast að tala við konur á götum úti, jafnvel eiginkonur sínar. Rabbínar töldu konur ekki færar um að meðtaka andlega fræðslu sem risti djúpt. Þeir álitu þær „hégómlegar í hugsun.“ Sumir sögðu: „Frekar skyldi brenna orð lögmálsins en flytja þau konum.“ Lærisveinar Jesú ólust upp við slíkan hugsunarhátt. Þegar þeir því komu aftur til Jesú, eftir að hafa brugðið sér frá, „furðuðu [þeir] sig á því, að hann var að tala við konu.“ (Jóhannes 4:27) Þessi frásaga, sem er ein af mörgum, sýnir að Jesús líktist föður sínum sem skapaði manninn og konuna og veitti þeim báðum virðingarvert hlutverk. — 1. Mósebók 2:18.

Samverska konan fékk síðan aðra íbúa í bænum sínum til að hlusta á Jesú. Margir þeirra kynntu sér staðreyndirnar, tóku trú og sögðu við konuna: „Vér höfum sjálfir heyrt hann og vitum, að hann er sannarlega frelsari heimsins.“ (Jóhannes 4:39-42) Þar sem við erum hluti af þessum „heimi,“ mannheiminum, hefur Jesús líka mikla þýðingu fyrir framtíð okkar.

Viðhorf fiskimanns

Skoðum núna Jesú með augum tveggja náinna félaga hans — Péturs og síðan Jóhannesar. Þessir óbreyttu fiskimenn voru meðal fyrstu fylgjenda hans. (Matteus 4:13-22; Jóhannes 1:35-42) Farísearnir litu á þá sem ‚ólærða leikmenn,‘ þann hluta landslýðsins (am-haarets) sem álitinn var lítilfjörlegur vegna þess að hann hafði ekki gengið í skóla rabbínanna. (Postulasagan 4:13; Jóhannes 7:49) Margt af því fólki, sem ‚erfiði hafði og þungar byrðar‘ vegna oksins sem trúarleiðtogar, fastheldnir á rótgróna siði, lögðu á það, þráði að fá fræðslu í andlegum málum. Prófessor Charles Guignebert við Sorbonneháskóla hefur sagt að þetta fólk „hafi verið heilshugar við Jahve [Jehóva].“ Jesús sneri ekki baki við þessu auðmjúka fólki til að sinna fyrst og fremst hinum ríku og mikilsmegandi. Nei, hann opinberaði því föðurinn með kennslu sinni og verkum. — Matteus 11:25-28.

Pétur fékk sjálfur að reyna umhyggjusemi Jesú. Skömmu eftir að Pétur tók að fylgja Jesú á prédikunarferðum hans lagðist tengdamóðir hans veik með sótthita. Þegar Jesús kom í hús Péturs tók hann í hönd henni og sótthitinn hvarf. Við vitum ekki nákvæmlega hvernig hún læknaðist, eins og læknar nú á tímum geta ekki fyllilega útskýrt hvernig sum mein læknast, en sótthitinn fór úr konunni. Það sem skiptir meira máli en að vita hvaða lækningaraðferðum Jesús beitti er að gera sér ljóst að lækningar hans á sjúkum og hrjáðum sýndu samúð hans með þeim. Hann vildi sannarlega hjálpa fólki og það vill faðir hans líka. (Markús 1:29-31, 40-43; 6:34) Pétur gat séð af reynslu sinni af Jesú að skaparinn metur hvern mann þess virði að borin sé umhyggja fyrir honum. — 1. Pétursbréf 5:7.

Seinna var Jesús í forgarði kvennanna í musterinu í Jerúsalem. Hann horfði á fólk leggja fram peninga í fjárhirsluna. Auðmenn létu mikið af hendi rakna. Jesús fylgdist vel með og sá fátæka ekkju láta þar tvo smápeninga, afskaplega verðlitla. Jesús sagði við Pétur, Jóhannes og hina: „Sannlega segi ég yður, þessi fátæka ekkja gaf meira en allir hinir, er lögðu í fjárhirsluna. Allir gáfu þeir af allsnægtum sínum, en hún gaf af skorti sínum allt sem hún átti.“ — Markús 12:41-44.

Ljóst er að Jesús tók eftir því góða í mönnum og að hann kunni að meta viðleitni hvers og eins. Hvaða áhrif skyldi það hafa haft á Pétur og hina postulana? Fordæmi Jesú hjálpaði Pétri til að skynja hvernig Jehóva er og seinna vitnaði hann í einn sálmanna: „Augu [Jehóva] eru yfir hinum réttlátu og eyru hans hneigjast að bænum þeirra.“ (1. Pétursbréf 3:12; Sálmur 34:16, 17) Er hægt annað en að laðast að skapara og syni hans sem vilja finna eitthvað gott í hverjum manni og hlusta á áköll hans?

Þegar Pétur hafði verið félagi Jesú í um það bil tvö ár var hann viss um að Jesús væri Messías. Eitt sinn spurði Jesús lærisveina sína: „Hvern segja menn mig vera?“ Hann fékk ýmis svör. Þá spurði hann þá: „En þér, hvern segið þér mig vera?“ Pétur svaraði af sannfæringarkrafti: „Þú ert Kristur.“ Þér finnst ef til vill einkennilegt hvernig Jesús brást þá við. Hann „lagði ríkt á við þá að segja engum“ frá því. (Markús 8:27-30; 9:30; Matteus 12:16) Hvers vegna skyldi hann hafa gert það? Jesús var þarna sjálfur og vildi ekki að fólk drægi ályktanir um hann út frá sögusögnum. Verður það ekki að teljast rökrétt? (Jóhannes 10:24-26) Af þessu má læra að skaparinn vill sömuleiðis að við kynnumst honum með því að kanna sjálf hinn áreiðanlega vitnisburð. Hann ætlast til þess að trúarsannfæring okkar sé grundvölluð á staðreyndum. — Postulasagan 17:27.

Eins og nærri má geta voru sumir landar Jesú ekki tilbúnir að viðurkenna hann þrátt fyrir nægan vitnisburð um að skaparinn stæði að baki honum. Margir hugsuðu fyrst og fremst um stöðu sína eða pólitísk markmið og þessi einlægi og lítilláti Messías féll þeim ekki í geð. Þegar boðunarstarfi Jesú var um það bil að ljúka sagði hann: „Jerúsalem, Jerúsalem! Þú sem líflætur spámennina og grýtir þá, sem sendir eru til þín! Hversu oft vildi ég safna börnum þínum [saman] . . .  og þér vilduð eigi. Hús yðar verður í eyði látið.“ (Matteus 23:37, 38) Þessi breytta staða hjá Gyðingaþjóðinni var þýðingarmikill þáttur í því að sú fyrirætlun Guðs að blessa allar þjóðir yrði að veruleika.

Skömmu síðar heyrðu Pétur og þrír aðrir postular Jesú fara með ítarlegan spádóm um ‚endalok veraldar.‘ * Það sem Jesús spáði uppfylltist í fyrstu þá er Rómverjar réðust á og eyðilögðu Jerúsalem á árunum 66 til 70. Sagan staðfestir að það sem Jesús sagði fyrir kom fram. Pétur varð vottur að mörgu því sem Jesús hafði spáð og það endurspeglast í biblíubókunum tveimur sem Pétur skrifaði, Fyrra og Síðara Pétursbréfi.1. Pétursbréf 1:13; 4:7; 5:7, 8; 2. Pétursbréf 3:1-3, 11, 12.

Á meðan Jesús fór um og prédikaði hafði hann með þolinmæði sýnt Gyðingunum góðvild. Hann lét þó ekki hjá líða að fordæma illa breytni. Það hjálpaði Pétri og ætti að hjálpa okkur að skilja skaparann betur. Þegar Pétur sá annað sem Jesús hafði spáð fara að gerast skrifaði hann að kristnir menn skyldu sífellt ‚hugfesta nærveru dags Jehóva.‘ Pétur sagði líka: „Ekki er [Jehóva] seinn á sér með fyrirheitið, þótt sumir álíti það seinlæti, heldur er hann langlyndur við yður, þar eð hann vill ekki að neinir glatist, heldur að allir komist til iðrunar.“ Síðan skrifaði Pétur hughreystingarorð um ‚nýjan himin og nýja jörð þar sem réttlæti býr.‘ (2. Pétursbréf 3:3-13, vers 12 samkvæmt New World Translation.) Kunnum við eins og Pétur að meta eiginleika Guðs sem endurspeglast í Jesú og treystum við fyrirheitum hans?

Hvers vegna dó Jesús?

Síðasta kvöldið með lærisveinum sínum neytti Jesús sérstakrar máltíðar með þeim. Við slíka máltíð hjá Gyðingum sýndi gestgjafinn yfirleitt þá gestrisni að þvo fætur gesta sinna sem voru gjarnan komnir gangandi á ilskóm um rykugan veg. En enginn tók sig til og þvoði fætur Jesú. Hann stóð því upp í lítillæti, tók handklæði og skál og hóf að þvo fætur postulanna. Þegar kom að Pétri skammaðist hann sín fyrir að þiggja slíka þjónustu af Jesú. Pétur sagði: „Aldrei að eilífu skaltu þvo fætur mína.“ „Ef ég þvæ þér ekki,“ svaraði Jesús, „áttu enga samleið með mér.“ Jesús vissi að dauði hans var skammt undan og bætti því við: „Fyrst ég, sem er herra og meistari, hef nú þvegið yður um fæturna, þá ber yður einnig að þvo hver annars fætur. Ég hef gefið yður eftirdæmi, að þér breytið eins og ég breytti við yður.“ — Jóhannes 13:5-17.

Áratugum síðar hvatti Pétur kristna menn til að líkja eftir Jesú, ekki með fótaþvottarhelgisið heldur með því að þjóna öðrum í auðmýkt í stað þess að „drottna yfir“ þeim. Pétur gerði sér einnig grein fyrir að fordæmi Jesú sannaði að „Guð stendur gegn dramblátum, en auðmjúkum veitir hann náð.“ Hvílík lexía um skaparann! (1. Pétursbréf 5:1-5; Sálmur 18:36) En Pétur lærði fleira.

Eftir þessa síðustu kvöldmáltíð leiddi Júdas Ískaríot, sem var postuli en varð þjófur, flokk vopnaðra manna til að handtaka Jesú. Þegar mennirnir gerðu það greip Pétur til sinna ráða. Hann dró upp sverð og særði einn úr hópnum. Jesús setti ofan í við Pétur: „Slíðra sverð þitt! Allir, sem sverði bregða, munu fyrir sverði falla.“ Pétur sá að því búnu Jesú snerta manninn og græða sár hans. (Matteus 26:47-52; Lúkas 22:49-51) Greinilega lifði Jesús samkvæmt þeirri kenningu sinni að menn skuli ‚elska óvini sína‘ og líkja þar með eftir föðurnum á himni er „lætur sól sína renna upp yfir vonda sem góða og rigna yfir réttláta sem rangláta.“ — Matteus 5:44, 45.

Þessi nótt reyndi mjög á Jesú. Æðsti dómstóll Gyðinga hélt skyndiréttarhöld yfir honum. Hann var ákærður fyrir guðlast, leiddur fyrir rómverska landstjórann og síðan framseldur til lífláts þótt saklaus væri. Gyðingar og Rómverjar spottuðu hann. Honum var hrottalega misþyrmt og að síðustu var hann staurfestur. Margt í þessari meðferð á honum uppfyllti aldagamla spádóma. Jafnvel hermenn, sem fylgdust með Jesú á kvalastaurnum, urðu að viðurkenna: „Sannarlega var þessi maður sonur Guðs.“ — Matteus 26:57–27:54; Jóhannes 18:12–19:37.

Þessi atburðarás hlýtur að hafa fengið Pétur og aðra til að spyrja: „Hvers vegna varð Kristur að deyja?“ Þeir skildu það ekki fyrr en síðar. Þessir atburðir voru meðal annars uppfylling á spádóminum í 53. kafla Jesaja sem bar það með sér að Kristur myndi ekki aðeins gera Gyðingum heldur öllu mannkyni kleift að öðlast frelsi. Pétur skrifaði: „Hann bar sjálfur syndir vorar á líkama sínum upp á tréð, til þess að vér skyldum deyja frá syndunum og lifa réttlætinu. Fyrir hans benjar eruð þér læknaðir.“ (1. Pétursbréf 2:21-25) Pétur hafði skilið sannindi sem Jesús hafði kunngert: „Mannssonurinn er ekki kominn til þess að láta þjóna sér, heldur til að þjóna og gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir marga.“ (Matteus 20:28) Já, Jesús þurfti að afsala sér lífsrétti sínum sem fullkominn maður til þess að leysa mannkynið úr þeim syndafjötrum sem það erfði frá Adam. Þetta er ein af grundvallarkenningum Biblíunnar — kenningin um lausnargjaldið.

Hvað felst í lausnargjaldinu? Það má ef til vill skýra það með eftirfarandi dæmi: Segjum að einhver hafi komið fyrir galla (eða veiru) í einhverri skrá tölvuforrits sem er að öðru leyti fullkomið. Það er sambærilegt við áhrif þess sem Adam gerði þegar hann af ásettu ráði óhlýðnaðist Guði, syndgaði. Við getum haldið samlíkingunni áfram. Öll afrit af skemmdu skránni verða með sama galla og hún. Staðan er þó ekki vonlaus. Með sérstöku forriti er hægt að finna veiruna og fjarlægja hana úr skránum og tölvunni. Á sambærilegan hátt hefur allt mannkynið fengið „veiru,“ synd, frá Adam og Evu og við þurfum utanaðkomandi aðstoð til að losna við hana. (Rómverjabréfið 5:12) Samkvæmt Biblíunni notar Guð dauða Jesú til að hreinsa okkur af syndinni. Hann er kærleiksrík ráðstöfun okkur til heilla. — 1. Korintubréf 15:22.

Pétur mat mikils það sem Jesús hafði gert og það fékk hann til að ‚lifa ekki framar í mannlegum fýsnum, heldur lifa tímann, sem eftir var, að vilja Guðs.‘ Fyrir Pétur þýddi það að forðast spillta siði og siðlaust líferni, og sama gildir um okkur núna. Menn kunna að reyna að gera lífið erfitt þeim manni sem leitast við að gera „vilja Guðs.“ Engu að síður kemst hann að raun um að líf hans verður innihaldsríkara. (1. Pétursbréf 4:1-3, 7-10, 15, 16) Þannig var um Pétur og þannig getur orðið um okkur þegar við ‚felum sálir okkar, líf okkar, í hendur hinum trúa skapara og höldum áfram að gera hið góða.‘ — 1. Pétursbréf 4:19.

Lærisveinn sem bar kennsl á kærleikann

Jóhannes postuli var annar lærisveinn sem var mikið með Jesú og getur þar af leiðandi hjálpað okkur að fá enn skarpari mynd af skaparanum. Jóhannes skrifaði guðspjall og líka þrjú bréf (Fyrsta, Annað og Þriðja Jóhannesarbréf). Í einu bréfanna skrifaði hann: „Vér vitum, að Guðs sonur er kominn og hefur gefið oss skilning, til þess að vér þekkjum sannan Guð [skaparann]. Vér erum í hinum sanna Guði fyrir samfélag vort við son hans Jesú Krist. Hann er hinn sanni Guð og eilífa lífið.“ — 1. Jóhannesarbréf 5:20.

Jóhannes þurfti að hafa „skilning“ til að geta þekkt „sannan Guð.“ Hvað náði Jóhannes að skilja um eiginleika skaparans? „Guð er kærleikur,“ skrifaði Jóhannes, „og sá sem er stöðugur í kærleikanum er stöðugur í Guði.“ Af hverju gat Jóhannes verið viss um það? „Þetta er kærleikurinn: Ekki að vér elskuðum Guð, heldur að hann elskaði oss og sendi son sinn“ til að bera fram lausnarfórnina fyrir okkur. (1. Jóhannesarbréf 4:10, 16) Jóhannes var eins og Pétur djúpt snortinn af þeim kærleika sem Guð sýndi með því að senda son sinn til að deyja í okkar þágu.

Jóhannes hafði verið mjög náinn Jesú og skildi því tilfinningar hans. Atburður í Betaníu, nærri Jerúsalem, hafði mikil áhrif á Jóhannes. Jesús hafði frétt að vinur sinn Lasarus væri fársjúkur en þegar hann og postularnir náðu til Betaníu voru liðnir í það minnsta fjórir dagar síðan Lasarus lést. Jóhannes vissi að máttur Jesú var kominn frá skaparanum, uppsprettu lífsins. Gæti Jesús þá vakið Lasarus upp frá dauðum? (Lúkas 7:11-17; 8:41, 42, 49-56) Jesús sagði við Mörtu, systur Lasarusar: „Bróðir þinn mun upp rísa.“ — Jóhannes 11:1-23.

Jóhannes sá því næst aðra systur Lasarusar, Maríu, koma út til móts við Jesú. Hvernig brást Jesús við? „[Hann komst] við í anda og varð hrærður mjög.“ Til að lýsa viðbrögðum Jesú notaði Jóhannes grískt orð (þýtt „að komast við“ á íslensku) sem merkir svo sára tilfinningu að djúp stuna líður ósjálfrátt frá brjóstinu. Jóhannes sá að Jesús var „hrærður mjög,“ í uppnámi hið innra, fullur sorgar. Jesús lét sér ekki á sama standa, sýndi ekki fálæti. Hann „grét.“ (Jóhannes 11:30-37) Með Jesú bærðust greinilega djúpar og innilegar tilfinningar og að sjá það hjálpaði Jóhannesi að skilja tilfinningar skaparans. Áhrifin á okkur ættu að vera þau sömu.

Jóhannes vissi að tilfinningar Jesú leiddu til jákvæðra verka því að hann heyrði Jesú hrópa: „Lasarus, kom út!“ Og þannig fór. Lasarus lifnaði við og kom út úr grafhýsinu. Mikil hlýtur gleði systranna og hinna sem á horfðu að hafa orðið. Margir fóru þá að trúa á Jesú. Óvinir hans gátu ekki neitað því að hann hefði reist Lasarus upp en þegar það tók að spyrjast út lögðu þeir á ráðin að taka bæði Lasarus og Jesú af lífi. — Jóhannes 11:43; 12:9-11.

Biblían lýsir Jesú sem ‚ímynd veru skaparans.‘ (Hebreabréfið 1:3) Starf Jesú hér á jörð er þess vegna næg sönnun um ákafa löngun hans og föður hans að afturkalla það tjón sem sjúkdómar og dauði hafa valdið. Það nær miklu lengra en að reisa upp þá fáu einstaklinga sem greint er frá í Biblíunni. Jóhannes heyrði Jesú segja: „Sú stund kemur, þegar allir þeir, sem í gröfunum eru, munu heyra raust [sonarins] og ganga fram.“ (Jóhannes 5:28, 29) Í stað þess að nota hið venjulega orð um gröf notaði Jóhannes hér orð sem bókstaflega þýðir „minningargröf.“ Hvers vegna?

Minni Guðs kemur hér við sögu. Vissulega getur skapari hins gríðarstóra alheims lagt á minnið allt sem einkennir hina látnu, þar með talda bæði arfgengna og áunna eiginleika. (Samanber Jesaja 40:26.) Það er ekki aðeins að hann geti munað eftir því. Hann og sonur hans vilja báðir gera það. Í tengslum við upprisuvonina dásamlegu sagði hinn trúfasti Job um Guð: „Þegar maðurinn deyr, lifnar hann þá aftur? . . . Þú [Jehóva] mundir kalla, og ég — ég mundi svara þér, þú mundir þrá verk handa þinna.“ (Jobsbók 14:14, 15; Markús 1:40-42) Við eigum dásamlegan skapara sem verðskuldar tilbeiðslu okkar.

Tilgangsríkt líf byggist á upprisu Jesú

Jóhannes, lærisveinninn sem Jesús elskaði, fylgdist vandlega með Jesú þar til hann dó. Þar að auki skráði Jóhannes frásögu af þýðingarmestu upprisu frá dauðum sem átt hefur sér stað, atburði sem leggur traustan grunn að því að við getum öðlast varanlegt og tilgangsríkt líf.

Óvinir Jesú fengu hann tekinn af lífi, negldan á staur eins og ótíndan glæpamann. Þeir sem á horfðu, trúarleiðtogar þar með taldir, hæddu hann þegar hann þjáðist í margar klukkustundir. Sárkvalinn á staurnum kom Jesús samt auga á móður sína og sagði við hana um Jóhannes: „Kona, nú er hann sonur þinn.“ María hlýtur að hafa verið orðin ekkja og önnur börn hennar voru ekki enn orðin lærisveinar. * Jesús fól þess vegna Jóhannesi, lærisveini sínum, að annast móður sína sem tekin var að reskjast. Hér endurspeglaði hann enn á ný hugsunarhátt skaparans sem hvetur menn til að annast ekkjur og munaðarlausa. — Jóhannes 7:5; 19:12-30; Markús 15:16-39; Jakobsbréfið 1:27.

En hvernig gat Jesús, núna þegar hann var látinn, gengt hlutverki sínu sem „afkvæmi“ sem ‚allar þjóðir á jörðinni skulu hljóta blessun af‘? (1. Mósebók 22:18) Með dauða sínum síðdegis þennan apríldag árið 33 gaf Jesús líf sitt sem grundvöll lausnargjaldsins. Það hlýtur að hafa verið sársaukafullt fyrir föður Jesú, sem er næmur á tilfinningar og hugarástand annarra, að sjá þá miklu kvöl sem saklaus sonur hans mátti þola. En á þennan hátt var greitt það lausnargjald sem nauðsynlegt var til að leysa mannkynið úr fjötrum syndar og dauða. (Jóhannes 3:16; 1. Jóhannesarbréf 1:7) Nú var allt tilbúið fyrir stórkostlegan lokaþátt.

Þar sem Jesús Kristur gegnir veigamiklu hlutverki í áframhaldandi framvindu fyrirætlunar Guðs varð hann að lifna á ný. Það gerðist líka og Jóhannes varð vitni að því. Snemma á þriðja degi eftir dauða Jesú og greftrun fóru nokkrir lærisveinar út að grafhýsinu. Það var tómt. Það gerði þá ráðvillta uns Jesús birtist ýmsum þeirra. María Magdalena sagði við lærisveinana: „Ég hef séð Drottin.“ Þeir trúðu henni ekki. Nokkru síðar voru lærisveinarnir saman komnir í læstu herbergi og Jesús birtist þá aftur og átti jafnvel samræður við þá. Innan fárra daga urðu meira en 500 karlar og konur sjónarvottar að því að Jesús væri sannarlega lifandi. Vantrúaðir samtímamenn þeirra gátu rætt við þessa trúverðugu votta og fengið vitnisburð þeirra staðfestan. Hinir kristnu gátu verið vissir um að Jesús hafði verið reistur upp frá dauðum og væri lifandi sem andavera eins og skaparinn. Vísbendingarnar um það voru svo ríkulegar og áreiðanlegar að margir mættu frekar dauða sínum en að afneita því að Jesús hefði verið reistur upp. — Jóhannes 20:1-29; Lúkas 24:46-48; 1. Korintubréf 15:3-8. *

Jóhannes postuli þoldi sjálfur ofsóknir fyrir að vitna um upprisu Jesú. (Opinberunarbókin 1:9) En í útlegð fékk hann óvenjulega umbun. Jesús lét hann sjá allmargar sýnir sem gefa okkur enn skýrari mynd af skaparanum og opinbera hvað framtíðin ber í skauti sér. Þessar sýnir er að finna í Opinberunarbókinni sem rík er af táknmáli. Þar er dregin upp mynd af Jesú Kristi sem sigursælum konungi sem innan skamms vinnur endanlegan sigur á óvinum sínum. Meðal þessara óvina er dauðinn (óvinur okkar allra) og hin gjörspillta andavera sem nefnist Satan. — Opinberunarbókin 6:1, 2; 12:7-9; 19:19–20:3, 13, 14.

Þegar Jóhannes hafði fengið nær allan boðskapinn í Opinberunarbókinni var honum gefin sýn af þeim tíma þegar jörðin verður paradís. Rödd lýsti ástandinu sem þá ríkir: „Guð sjálfur mun vera hjá [mönnunum], Guð þeirra. Og hann mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.“ (Opinberunarbókin 21:3, 4) Þegar fyrirætlun Guðs nær fram að ganga verður uppfyllt loforðið sem Guð gaf Abraham. — 1. Mósebók 12:3; 18:18.

Lífið þá verður „hið sanna líf,“ sambærilegt við það sem Adam átti í vændum þá er hann var skapaður. (1. Tímóteusarbréf 6:19) Menn fálma þá ekki lengur til að finna skapara sinn og skilja tengsl sín við hann. En þér er kannski spurn: ‚Hvenær verður þetta að veruleika og hvers vegna leyfir umhyggjusamur skapari tilvist illsku og þjáninga allt fram á þennan dag?‘ Í næsta kafla skoðum við þessar spurningar.

[Neðanmáls]

^ gr. 5 Matteus, Markús og Jóhannes voru sjónarvottar. Lúkas rannsakaði skjöl og vitnisburð sjónarvotta af fræðimannlegri nákvæmni. Guðspjöllin sýna í hvívetna merki þess að vera heiðarlegar, nákvæmar og trúverðugar frásagnir. — Sjá Bók fyrir alla menn, blaðsíðu 16-17, gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.

^ gr. 6 Kóraninn segir: „Nafn hans skal vera Messías, Jesús, sonur Maríu; tignaður skal hann þessa heims og annars.“ (Þáttur 3:46) Sem maður var Jesús sonur Maríu. En hvert var faðerni hans? Kóraninn segir: „Jesús er sem Adam í augum Allah [Guðs].“ (Þáttur 3:60) Heilög ritning talar um Adam sem ‚son Guðs.‘ (Lúkas 3:23, 38) Hvorki Adam né Jesús áttu mennskan föður; hvorugur þeirra var afleiðing kynmaka við konu. Þar af leiðandi var Adam sonur Guð og sama gilti um Jesú.

^ gr. 15 Viðhorf Jesú endurspeglar afstöðu Jehóva eins og henni er lýst í Sálmi 103 og hjá Jesaja 1:18-20.

^ gr. 45 Í það minnsta tvö þeirra urðu síðar lærisveinar og skrifuðu uppörvandi bréf sem eru í Biblíunni, Jakobsbréfið og Júdasarbréf.

^ gr. 47 Pétur var sjónarvottur að upprisunni og háttsettur rómverskur herforingi hlustaði á vitnisburð hans: „Þér vitið, hvað gjörst hefur um alla Júdeu . . . Guð uppvakti hann á þriðja degi og lét hann birtast . . . Hann bauð oss að prédika fyrir lýðnum og vitna, að hann er sá dómari lifenda og dauðra, sem Guð hefur fyrirhugað.“ — Postulasagan 2:32; 3:15; 10:34-42.

[Rammi á blaðsíðu 150]

Það er skemmtilegt að bera saman hliðstæðu frásagnirnar af því þegar Jesús læknaði tengdamóður Péturs. (Matteus 8:14-17; Markús 1:29-31; Lúkas 4:38, 39) Læknirinn Lúkas gefur þá læknisfræðilegu greiningu að hún hafi verið „altekin sótthita.“ Hvað gerði Jesú fært að lækna hana og aðra? Lúkas segir að ‚kraftur Jehóva hafi verið með Jesú til þess að lækna.‘ — Lúkas 5:17; 6:19; 9:43.

[Rammagrein á blaðsíðu 152]

Besta ræða sem sögur fara af

Hindúaleiðtoginn Mohandas Gandhi er sagður hafa sagt að færu menn eftir boðskap ræðunnar „værum við búin að leysa vandamál . . . alls heimsins.“ Þekktur mannfræðingur, Ashley Montagu, skrifaði að niðurstöður athuganna á sálfræðilegu mikilvægi kærleikans séu einungis „staðfesting“ á þessari ræðu.

Þessir menn voru að vísa til fjallræðu Jesú. Gandhi sagði líka að „kenningar fjallræðunnar væru ætlaðar hverju og einu okkar.“ Prófessor Hans Dieter Betz skrifaði nýlega: „Áhrifa fjallræðunnar gætir yfirleitt langt út yfir áhrifasvæði gyðingdómsins og kristindómsins eða jafnvel vestrænnar menningar.“ Hann bætti við að þessi ræða „skírskoti á sérstæðan hátt til alls heimsins.“

Væri ekki rétt að lesa þessa tiltölulega stuttu en hrífandi ræðu? Hana er að finna í Matteusi, kafla 5 til 7 og í Lúkasi 6:20-49. Hér eru nokkrir meginþættir úr þessari bestu ræðu sem sögur fara af:

Hvernig hægt er að verða hamingjusamur — Matteus 5:3-12; Lúkas 6:20-23.

Hvernig halda má sjálfsvirðingu sinni — Matteus 5:14-16, 37; 6:2-4, 16-18; Lúkas 6:43-45.

Hvernig bæta má samskiptin við aðra — Matteus 5:22-26, 38-48; 7:1-5, 12; Lúkas 6:27-38, 41, 42.

Hvernig draga má úr hjónabandsvandamálum — Matteus 5:27-32.

Hvernig glíma má við áhyggjur — Matteus 6:25-34.

Hvernig sjá má við svikum í trúmálum — Matteus 6:5-8, 16-18; 7:15-23.

Hvernig finna má tilgang lífsins — Matteus 6:9-13, 19-24, 33; 7:7-11, 13, 14, 24-27; Lúkas 6:46-49.

[Rammagrein á blaðsíðu 159]

Athafnamaður

Jesús Kristur var ekki óvirkur einsetumaður. Hann var ákveðinn og lét hendur standa fram úr ermum. Hann fór „um þorpin“ og hjálpaði mönnum sem voru „hrjáðir og umkomulausir eins og sauðir, er engan hirði hafa.“ (Markús 6:6; Matteus 9:36; Lúkas 8:1) Jesús rakaði ekki saman auði eins og margir ríkir trúarleiðtogar nú á tímum; hann átti „hvergi höfði sínu að að halla.“ — Matteus 8:20.

Jesús lagði megináherslu á að ráða bót á andlegum meinum manna og gefa þeim andlega fæðu en hann leit þó ekki fram hjá líkamlegum þörfum þeirra. Sjúka, fatlaða og þá sem haldnir voru illum öndum læknaði hann. (Markús 1:32-34) Tvisvar mettaði hann þúsundir hungraðra áheyrenda sinna vegna þess að hann fann til með þeim. (Markús 6:35-44; 8:1-8) Það var umhyggja fyrir fólki sem fékk hann til að gera kraftaverk sín. — Markús 1:40-42.

Jesús tók rösklega til hendinni þegar hann losaði musterið við ágjarna sölumenn. Þeim sem á horfðu komu í hug orð sálmaritarans: „Vandlæting vegna húss þíns mun tæra mig upp.“ (Jóhannes 2:14-17) Hann vandaði hræsnisfullum trúarleiðtogum ekki kveðjurnar þegar hann fordæmdi þá. (Matteus 23:1-39) Hann lét heldur ekki undan þrýstingi frá áhrifamönnum í samfélaginu. — Matteus 26:59-64; Jóhannes 18:33-37.

Það er hrífandi að lesa um þróttmikið prédikunarstarf Jesú. Margir sem gera það í fyrsta sinn byrja á stuttri en þó líflegri frásögu Markúsar af þessum athafnamanni.

[Rammagrein á blaðsíðu 164]

Jesús fékk þá til athafna

Í Postulasögunni er að finna sögulega frásögn af því hvernig Pétur, Jóhannes og fleiri báru vitni um upprisu Jesú. Stór hluti þeirrar biblíubókar fer í að greina frá atburðum er tengjast greindum og lögfróðum manni sem hét Sál, eða Páll, og hafði hatrammlega ofsótt kristna menn. Hinn upprisni Jesús birtist honum. (Postulasagan 9:1-16) Páll, sem fékk þar óvéfengjanlega sönnun um að Jesús væri á lífi á himni, vitnaði upp frá því kröftuglega um þá staðreynd fyrir Gyðingum sem öðrum, þar með töldum heimspekingum og þjóðarleiðtogum. Það er áhrifaríkt að lesa það sem hann sagði við slíka mennta- og áhrifamenn. — Postulasagan 17:1-3, 16-34; 26:1-29.

Á nokkrum áratugum skrifaði Páll margar af bókum hins svokallaða Nýja testamentis eða hinna kristnu Grísku ritninga. Í flestum biblíuútgáfum er að finna efnisyfirlit eða lista yfir biblíubækurnar. Af þeim skrifaði Páll 14, frá Rómverjabréfinu til Hebreabréfsins. Þar voru sett fram djúpstæð sannindi og viturlegar leiðbeiningar fyrir kristna menn á þeim tíma. Þessi rit eru jafnvel enn gagnlegri okkur sem getum ekki rætt við postulana og aðra votta að kenningum Jesú, starfi og upprisu. Lesir þú það sem Páll skrifaði getur það hjálpað þér í fjölskyldulífinu, í samskiptum þínum við vinnufélaga og nágranna, og að stýra lífi þínu inn á braut sem gefur því raunverulegan tilgang og færir þér ósvikna ánægju.

[Mynd á blaðsíðu 146]

Vísindamenn geta framkallað frjóvgun í tilraunaglasi. Skaparinn yfirfærði líf sonar síns sem varð þá maður hér á jörð.

[Mynd á blaðsíðu 148]

Margir sem hlýddu á Jesú og sáu samskipti hans við menn kynntust föður hans betur.

[Mynd á blaðsíðu 154]

Jesús þvoði fætur postulanna og gaf með því fordæmi um lítillæti sem skaparinn kann að meta.

[Mynd á blaðsíðu 157]

Hugbúnaðarvillu (eða tölvuveiru) má hreinsa úr tölvu; menn þarfnast lausnarfórnar Jesú til að losna við meðfæddan ófullkomleika.

[Mynd á blaðsíðu 163]

Sjónarvottar sáu Jesú lagðan í grafhýsi (líkt þessu) og reistan upp á þriðja degi.