Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

3. KAFLI

Traust hjónaband byggist á ást og virðingu

Traust hjónaband byggist á ást og virðingu

1, 2. (a) Hve lengi á hjónabandið að vara? (b) Hvernig er það hægt?

 ÞEGAR GUÐ gaf fyrstu hjónin saman var ekkert sem benti til þess að þetta ætti aðeins að vera tímabundið samband. Adam og Eva áttu að vera saman alla ævi. (1. Mósebók 2:24) Guð setti þá reglu um heiðvirt hjónaband að það væri samband eins karls og einnar konu. Því aðeins mættu þau skilja og giftast á ný að annað þeirra eða bæði gerðu sig sek um gróft kynferðislegt siðleysi. — Matteus 5:32.

2 En geta tveir einstaklingar búið saman í hamingjuríku hjónabandi um aldur og ævi? Já og Biblían bendir á tvennt sem þarf til að svo megi verða. Ef hjónin halda þetta í heiðri mun það færa þeim hamingju og blessun. Hvaða tveir þættir eru þetta?

ÁST

3. Hvaða þrjár myndir kærleikans ættu hjón að sýna?

3 Fyrri þátturinn er ást eða kærleikur. Athygli vekur að í Biblíunni er rætt um mismunandi kærleika. Í fyrsta lagi er minnst á hlýlegan kærleika milli náina vina. (Jóhannes 11:3) Í öðru lagi nefnir Biblían kærleika innan fjölskyldunnar. (Rómverjabréfið 12:10) Og í þriðja lagi er talað um ást milli karls og konu. (Orðskviðirnir 5:15-20) Auðvitað ættu hjón að sýna kærleika í öllum þessum myndum. En fjórða mynd kærleikans er enn mikilvægari en hinar þrjár.

4. Hver er fjórða mynd kærleikans?

4 Á frummáli Grísku ritninganna kallast þessi fjórða mynd kærleikans agaʹpe. Þetta orð er notað í 1. Jóhannesarbréfi 4:8 þar sem segir: „Guð er kærleikur.“ Já, „vér elskum, því að [Guð] elskaði oss að fyrra bragði“. (1. Jóhannesarbréf 4:19) Kristnir menn glæða fyrst með sér slíkan kærleika til Jehóva Guðs og síðan til náungans. (Markús 12:29-31) Orðið agaʹpe er líka notað í Efesusbréfinu 5:2 þar sem segir: „Lifið í kærleika, eins og Kristur elskaði oss og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir oss.“ Jesús sagði að þessi kærleikur myndi einkenna sanna fylgjendur sína: „Á því munu allir þekkja, að þér eruð mínir lærisveinar, ef þér berið elsku [agaʹpe] hver til annars.“ (Jóhannes 13:35) Taktu líka eftir hvernig agaʹpe er notað í 1. Korintubréfi 13:13: „Nú varir trú, von og kærleikur, þetta þrennt, en þeirra er kærleikurinn [agaʹpe] mestur.“

5, 6. (a) Hvers vegna er kærleikurinn meiri en trú og von? (b) Nefnið nokkrar ástæður þess að kærleikurinn stuðlar að varanlegu hjónabandi.

5 Af hverju er agaʹpe-kærleikurinn meiri en trú og von? Hann stjórnast af meginreglum, réttum meginreglum sem er finna í orði Guðs. (Sálmur 119:105) Hann er óeigingjarn áhugi á að gera fyrir aðra það sem er rétt og gott í augum Guðs, hvort sem þeir virðast eiga það skilið eða ekki. Slíkur kærleikur auðveldar hjónum að fylgja leiðbeiningum Biblíunnar í Kólossubréfinu 3:13: „Umberið hver annan og fyrirgefið hver öðrum, ef einhver hefur sök á hendur öðrum. Eins og Drottinn hefur fyrirgefið yður, svo skuluð þér og gjöra.“ Ástrík hjón glæða með sér „brennandi kærleika [agaʹpe]“ hvort til annars „því að kærleikur hylur fjölda synda“. (1. Pétursbréf 4:8) Taktu eftir að kærleikurinn hylur mistök. Hann kemur ekki í veg fyrir þau því að enginn ófullkominn maður getur verið syndlaus. — Sálmur 130:3, 4; Jakobsbréfið 3:2.

6 Þegar hjón bera slíkan kærleika til Guðs og hvort til annars verður hjónabandið traust og hamingjuríkt því að „kærleikurinn fellur aldrei úr gildi“. (1. Korintubréf 13:8) Kærleikurinn er „band algjörleikans“. (Kólossubréfið 3:14) En hvernig geta hjón glætt með sér slíkan kærleika? Lesið saman í orði Guðs og ræðið um það sem þið lesið. Kynnið ykkur vel kærleika Jesú og reynið að líkja eftir honum með því að hugsa eins og hann og hegða ykkur eins og hann. Sækið safnaðarsamkomur því að þar fáið þið kennslu byggða á orði Guðs. Biðjið Guð að hjálpa ykkur að sýna þennan háleita kærleika sem er ávöxtur heilags anda hans. — Orðskviðirnir 3:5, 6; Jóhannes 17:3; Galatabréfið 5:22; Hebreabréfið 10:24, 25.

VIRÐING

7. Hvað er virðing og hverjir eiga að sýna virðingu innan hjónabandsins?

7 Hjón, sem elska hvort annað, bera líka virðingu hvort fyrir öðru en virðing er hinn þátturinn sem stuðlar að traustu hjónabandi. Að virða merkir að heiðra, bera traust til og hafa mætur á. Orð Guðs hvetur alla kristna menn, þar á meðal hjón: „Verið hver yðar fyrri til að veita öðrum virðing.“ (Rómverjabréfið 12:10) Pétur postuli skrifaði: „Þér eiginmenn, búið með skynsemi saman við konur yðar sem veikari ker og veitið þeim virðingu.“ (1. Pétursbréf 3:7) Eiginkonur eru hvattar til að sýna eiginmönnum sínum djúpa virðingu. (Efesusbréfið 5:33) Að virða aðra manneskju felur í sér að vera vingjarnlegur við hana, virða reisn hennar og skoðanir og vera fús til að uppfylla óskir hennar, séu þær innan skynsamlegra marka.

8-10. Hvernig stuðlar virðing að því að hjónabandið sé traust og hamingjuríkt?

8 Þeir sem vilja að hjónaband sitt sé hamingjuríkt sýna maka sínum virðingu með því að líta „ekki aðeins á eigin hag, heldur einnig [hag makans].“ (Filippíbréfið 2:4) Þeir hugsa ekki bara um sjálfa sig því að það væri eigingjarnt. Þeir hugsa fyrst og fremst um hag maka síns.

9 Hjón, sem virða hvort annað, gera sér grein fyrir því að þau geta ekki alltaf verið sammála um allt. Varla er raunhæft að ætlast til þess að tveir einstaklingar hafi sömu skoðanir á öllu. Það er ekki sjálfgefið að hjón telji sömu hlutina mikilvæga eða hafi sama smekk. En þau ættu bæði að virða skoðanir og ákvarðanir hins, svo framarlega sem þær stangast ekki á við lög og meginreglur Jehóva. (1. Pétursbréf 2:16; samanber Fílemonsbréfið 14.) Hjón ættu líka að sýna hvort öðru þá virðingu að tala ekki niðrandi hvort um annað eða gera grín hvort að öðru, einslega eða í fjölmenni.

10 Já, það er ákaflega mikilvægt að hjón elski Guð og hvort annað og beri gagnkvæma virðingu hvort fyrir öðru. En hvernig er hægt að byggja á þessum grunni á öðrum sviðum hjónabandsins?

LÍKTU EFTIR FORYSTU KRISTS

11. Hver fer með forystuna í hjónabandinu samkvæmt Biblíunni?

11 Biblían segir að karlmanninum hafi verið áskapaðir eiginleikar til að veita fjölskyldu góða forstöðu. Hann er því ábyrgur frammi fyrir Guði fyrir andlegri og líkamlegri velferð eiginkonunnar og barnanna. Hann þarf að taka skynsamlegar ákvarðanir í samræmi við vilja Jehóva og vera góð fyrirmynd í guðrækni. „Verið hver öðrum undirgefnir í ótta Krists: Konurnar eiginmönnum sínum eins og það væri Drottinn. Því að maðurinn er höfuð konunnar, eins og Kristur er höfuð kirkjunnar.“ (Efesusbréfið 5:21-23) Biblían segir líka að eiginmaðurinn þurfi að lúta forystu. Páll postuli skrifaði: „Ég vil, að þér vitið, að Kristur er höfuð sérhvers manns, maðurinn er höfuð konunnar og Guð höfuð Krists.“ (1. Korintubréf 11:3) Vitur eiginmaður lærir að fara með forystu með því að líkja eftir Jesú Kristi sem er höfuð hans.

12. Hvernig gaf Jesús gott fordæmi í því að sýna undirgefni og fara með forystu?

12 Jesús þarf líka að lúta forystu — forystu Jehóva. Hann sýnir honum viðeigandi undirgefni. Jesús sagði: „Ég leita ekki míns vilja, heldur vilja þess, sem sendi mig.“ (Jóhannes 5:30) Þetta er frábært fordæmi fyrir okkur. Jesús er „frumburður allrar sköpunar“. (Kólossubréfið 1:15) Hann varð Messías og átti að veita söfnuði andasmurðra kristinna manna forystu og vera konungur Guðsríkis, æðri öllum englunum. (Filippíbréfið 2:9-11; Hebreabréfið 1:4) En þótt maðurinn Jesús ætti þessa háu stöðu í vændum var hann aldrei hranalegur, ósveigjanlegur eða kröfuharður. Hann var ekki harðstjóri sem minnti lærisveinana stöðugt á að þeir ættu að hlýða sér. Hann var ástríkur og samúðarfullur, sérstaklega í garð hinna niðurbeygðu. Hann sagði: „Komið til mín, allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar, og ég mun veita yður hvíld. Takið á yður mitt ok og lærið af mér, því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur, og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar. Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt.“ (Matteus 11:28-30) Það var ánægjulegt að vera í návist hans.

13, 14. Hvernig getur eiginmaður líkt eftir fordæmi Jesú þegar hann fer með forystuhlutverkið?

13 Eignmaður, sem vill að fjölskyldan sé hamingjusöm, ætti að gefa gaum að góðum eiginleikum Jesú. Góður eiginmaður er ekki hranalegur harðstjóri sem misbeitir valdi sínu og kúgar konuna heldur elskar hann hana og virðir. Jesús var „af hjarta lítillátur“. Eiginmaður hefur enn ríkari ástæðu til að vera lítillátur því að hann gerir mistök ólíkt Jesú. Þegar hann gerir mistök vill hann að eiginkonan sýni honum skilning. Auðmjúkur eiginmaður viðurkennir því mistök sín þótt það geti verið erfitt fyrir hann að segja: „Fyrirgefðu, þú hafðir rétt fyrir þér.“ Það er mun auðveldara fyrir eiginkonu að virða forystu eiginmanns sem er hógvær og auðmjúkur en þess sem er stoltur og þrjóskur. Góð eiginkona biðst líka afsökunar þegar henni verða á mistök.

14 Guð áskapaði konunni góða eiginleika sem hún getur notað til að stuðla að farsælu hjónabandi. Vitur eiginmaður gerir sér grein fyrir þessu og kúgar ekki konu sína. Konur eru oft umhyggjusamari og næmari en karlar sem er mikilvægt til að annast fjölskyldu og hlúa að mannlegum samskiptum. Þær eru yfirleitt mjög duglegar að gera heimilið notalegt. Væna konan, sem lýst er í 31. kafla Orðskviðanna, var mjög hæfileikarík og hafði marga góða eiginleika. Fjölskylda hennar naut góðs af vegna þess að ‚hjarta manns hennar treysti henni‘. — Orðskviðirnir 31:10, 11.

15. Hvernig getur eiginmaður sýnt eiginkonunni ást og virðingu?

15 Í sumum menningarsamfélögum er lögð of mikil áhersla á forystu eiginmannsins og það er jafnvel talin óvirðing að spyrja hann spurninga. Ef til vill kemur hann fram við konuna næstum eins og þræl. Slík misbeiting á húsbóndavaldinu stuðlar bæði að slæmu sambandi við eiginkonuna og Guð. (Samanber 1. Jóhannesarbréf 4:20, 21.) Sumir eiginmenn taka hins vegar ekki forystuna heldur láta eiginkonuna stjórna heimilinu. Eiginmaður, sem sýnir Kristi viðeigandi undirgefni, notfærir sér hvorki konuna né rænir hana sjálfsvirðingunni. Hann líkir eftir óeigingjörnum kærleika Jesú og fylgir leiðbeiningum Páls: „Þér menn, elskið konur yðar eins og Kristur elskaði kirkjuna og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir hana.“ (Efesusbréfið 5:25) Jesús elskaði fylgjendur sína svo heitt að hann gaf líf sitt fyrir þá. Góður eiginmaður leggur sig fram um að sýna sömu óeigingirni og reynir að gera konunni gott í stað þess að ætlast til of mikils af henni. Ef eiginmaðurinn er undirgefinn Kristi og sýnir konu sinni ást og virðingu langar hana til að vera honum undirgefin. — Efesusbréfið 5:28, 29, 33.

UNDIRGEFIN EIGINKONA

16. Hvaða eiginleika á kona að sýna í samskiptum við manninn sinn?

16 Nokkru eftir sköpun Adams sagði Jehóva: „Eigi er það gott, að maðurinn sé einsamall. Ég vil gjöra honum meðhjálp við hans hæfi.“ (1. Mósebók 2:18) Guð skapaði Evu sem „meðhjálp“ en ekki keppinaut. Hjónabandið átti ekki að vera eins og skip með tvo skipstjóra sem keppast um yfirráðin. Eiginmaðurinn átti að fara með kærleiksríka forystu og eiginkonan átti að sýna ást, virðingu og fúsa undirgefni.

17, 18. Hvernig getur eiginkona verið manni sínum góð meðhjálp?

17 En góð eiginkona er ekki bara undirgefin. Hún reynir einnig að vera „meðhjálp“ eiginmannsins með því að styðja ákvarðanir hans. Auðvitað er það auðveldara ef hún er sammála honum. En jafnvel þótt svo sé ekki getur stuðningur hennar orðið til þess að ákvörðun hans fái betri framgang.

18 Eiginkonan getur hjálpað manninum á fleiri vegu að leysa forystuhlutverkið vel af hendi. Í stað þess að gagnrýna hann eða láta honum finnast eins og hann geri aldrei nógu vel við hana getur hún sagt honum hve þakklát hún sé fyrir forystu hans. Í samskiptum sínum við hann ætti hún að muna að hógvær og kyrrlátur andi er ekki bara dýrmætur í augum hans heldur einnig „í augum Guðs“. (1. Pétursbréf 3:3, 4; Kólossubréfið 3:12) En hvað ætti hún að gera ef eiginmaðurinn er ekki í trúnni? Hvort sem hann er í trúnni eða ekki segir Biblían eiginkonum að „elska menn sína og börn, vera hóglátar, skírlífar, heimilisræknar, góðlátar og eiginmönnum sínum undirgefnar, til þess að orði Guðs verði ekki lastmælt“. (Títusarbréfið 2:4, 5) Komi eitthvað upp, sem eiginkonan vill ekki taka þátt í samviskunnar vegna, eru meiri líkur á að vantrúaður eiginmaður virði afstöðu hennar ef hún skýrir hana „með hógværð og virðingu“. Sumir vantrúaðir eiginmenn vinnast „orðalaust við hegðun kvenna sinna, þegar þeir sjá [þeirra] grandvöru og skírlífu hegðun“. — 1. Pétursbréf 3:1, 2, 15, 16; 1. Korintubréf 7:13-16.

19. Hvað gerir eiginkona ef maðurinn hennar ætlast til að hún brjóti lög Guðs?

19 En hvað ætti kona að gera ef eiginmaðurinn biður hana að gera eitthvað sem Guð bannar? Ef sú staða kemur upp verður hún að muna að Guð er æðsti yfirboðari hennar. Hún líkir eftir því sem postularnir gerðu þegar yfirvöld fyrirskipuðu þeim að brjóta lög Guðs. Í Postulasögunni 5:29 segir: „Pétur og hinir postularnir svöruðu: ‚Framar ber að hlýða Guði en mönnum.‘“

GÓÐ TJÁSKIPTI

20. Á hvaða sviði er nauðsynlegt að sýna ást og virðingu?

20 Hjón þurfa einnig að sýna ást og virðingu í tjáskiptum hvort við annað. Ástríkur eiginmaður talar við konuna um störf hennar, vandamál og skoðanir á ýmsum málum. Hún þarf á því að halda. Eiginmaðurinn sýnir henni ást og virðingu með því að gefa sér tíma til að tala við hana og hlusta vel á það sem hún segir. (Jakobsbréfið 1:19) Sumar konur kvarta undan því að eiginmenn þeirra tali lítið við þær. Það er sorglegt. Auðvitað hafa flestir mikið að gera nú á dögum. Eiginmenn vinna kannski langan vinnudag utan heimilisins og sumar eiginkonur þurfa að vinna úti af fjárhagsástæðum. En hjón þurfa að taka frá tíma til að vera saman. Annars gætu þau fjarlægst hvort annað. Ef þeim finnst þau tilneydd að leita eftir skilningi og vináttu fyrir utan hjónabandið gæti það leitt til alvarlegra vandamála.

21. Hvernig getum við stuðlað að hamingju í hjónabandinu með tali okkar?

21 Það skiptir máli hvernig hjón tala saman. „Vingjarnleg orð eru . . . sæt fyrir sálina, lækning fyrir beinin.“ (Orðskviðirnir 16:24) Hvort sem makinn er í trúnni eða ekki hvetur Biblían: „Mál yðar sé ætíð ljúflegt, en salti kryddað,“ það er að segja smekklegt og viðeigandi. (Kólossubréfið 4:6) Þegar annað hjónanna hefur átt erfiðan dag geta nokkur vingjarnleg orð frá hinu haft mikið að segja. „Gullepli í skrautlegum silfurskálum — svo eru orð í tíma töluð.“ (Orðskviðirnir 25:11) Tónninn og orðavalið skipta miklu máli. Það væri til dæmis hægt að segja ergilega og í skipunartón: „Lokaðu dyrunum!“ En ef orðin eiga að vera salti krydduð væri betra að segja á rólegan og yfirvegaðan hátt: „Gætirðu lokað dyrunum fyrir mig?“

22. Hvaða viðhorf þurfa hjón að hafa til að tjáskiptin séu góð?

22 Ljúf orð, hlýlegt látbragð eða augnatillit, góðvild, skilningur og blíða örvar góð tjáskipti. Ef hjónin vinna að því að viðhalda góðum tjáskiptum verður auðveldara fyrir þau að tala opinskátt um tilfinningar sínar og þarfir. Það auðveldar þeim að hjálpa hvort öðru að glíma við vonbrigði og álag. Orð Guðs hvetur okkur til að hughreysta hvert annað. (1. Þessaloníkubréf 5:14) Eiginmaðurinn getur orðið niðurdreginn á köflum og eiginkonan líka. Þá geta þau hughreyst og styrkt hvort annað. — Rómverjabréfið 15:2.

23, 24. Hvernig getur kærleikur og virðing hjálpað hjónum þegar ágreiningur kemur upp? Nefndu dæmi.

23 Hjón, sem elska og virða hvort annað, líta ekki á allan ágreining sem stórvandamál. Þau leggja sig fram um að vera ekki ‚beisk‘ hvort við annað. (Kólossubréfið 3:19) Bæði ættu að hafa hugfast að „mjúklegt andsvar stöðvar bræði“. (Orðskviðirnir 15:1) Gættu þess að fordæma ekki maka þinn eða gera lítið úr honum ef hann úthellir hjarta sínu fyrir þér. Líttu frekar á það sem tækifæri til að skilja sjónarmið hans. Reynið að leysa saman úr ágreiningsmálum og komast að sameiginlegri niðurstöðu.

24 Manstu þegar Sara hvatti Abraham til að leysa ákveðið vandamál á vissan hátt? Honum leist ekki á tillöguna en Guð sagði við hann: „Hlýð þú Söru.“ (1. Mósebók 21:9-12) Abraham gerði það og hlaut blessun fyrir. Eins ætti eiginmaður að minnsta kosti að hlusta á eiginkonu sína þótt hún hafi aðra lausn í huga en hann. Konan verður samt að gæta þess að einoka ekki samræðurnar heldur hlusta á það sem eiginmaðurinn hefur að segja. (Orðskviðirnir 25:24) Ef annað hvort hjónanna heimtar alltaf að fá sínum vilja framgengt er það merki um kærleiks- og virðingarleysi.

25. Hvernig stuðla góð tjáskipti að hamingju í samlífi hjóna?

25 Góð tjáskipti eru líka mikilvæg í kynlífi hjónanna. Eigingirni og skortur á sjálfstjórn geta skaðað alvarlega þetta nána samband. Þolinmæði og opinská og heiðarleg skoðanaskipti eru nauðsynleg. Þegar báðir aðilar sýna óeigingirni og hafa velferð hins í huga er kynlíf sjaldan alvarlegt vandamál. Í þessu máli og öðrum ættu hjónin ekki að hyggja að eigin hag heldur hag makans. — 1. Korintubréf 7:3-5; 10:24.

26. Hvernig njóta hjón góðs af því að hlýða á orð Guðs?

26 Orð Guðs gefur okkur einstaklega góðar leiðbeiningar. Auðvitað skiptast á skin og skúrir í hverju hjónabandi. En ef hjónin tileinka sér viðhorf Jehóva eins og þeim er lýst í Biblíunni og byggja samband sitt á ást og virðingu eru allar líkur á að hjónabandið verði varanlegt og hamingjuríkt. Þannig virða þau ekki aðeins hvort annað heldur líka höfund hjónabandsins, Jehóva Guð.