Hoppa beint í efnið

Farsælt fjölskyldulíf

Farsælt fjölskyldulíf

Farsælt fjölskyldulíf

Geta fjölskyldur verið hamingjusamar?

Hvernig er það hægt?

Þekkir þú einhverjar fjölskyldur sem eru sameinaðar og hamingjusamar eins og þær sem sjást á myndunum í þessu smáriti? Hvarvetna eru fjölskyldur að leysast upp. Skilnaður, ótrygg atvinna, erfiðleikar einstæðra foreldra, vonbrigði — allt stuðlar þetta að vandanum. Sérfræðingur í fjölskyldumálum sagði mæðulega: „Nú er svo komið að allir kannast við spár um endalok fjölskyldunnar.“

Hvers vegna eiga fjölskyldur í svona alvarlegum erfiðleikum nú á dögum? Hvernig getum við notið farsæls fjölskyldulífs?

Uppruni fjölskyldunnar

Til að svara þessum spurningum þurfum við að þekkja uppruna hjónabandsins og fjölskyldunnar. Ef rekja má upprunann til vitsmunaveru — skapara — þá ættu meðlimir fjölskyldunnar að leita leiðsagnar hjá honum því að hann hlýtur að vita best hvernig við getum lifað hvað haminguríkustu fjölskyldulífi.

Það er athyglisvert að margir trúa því að enginn standi á bak við fjölskyldufyrirkomulagið. The Encyclopedia Americana segir: „Sumir fræðimenn hallast að því að rekja megi uppruna hjúskaparins til pörunar dýra óæðri manninum.“ Jesús Kristur talaði þó um sköpun manns og konu. Hann vitnaði til fyrri frásagnar Biblíunnar sem heimildar og sagði: „Það sem Guð hefur tengt saman, má maður eigi sundur skilja.“ — Matteus 19:4-6.

Jesús Kristur hefur rétt fyrir sér. Greindur Guð skapaði fyrstu mannverurnar og lagði grunninn að farsælu fjölskyldulífi. Guð leiddi fyrsta manninn og konuna saman í hjónaband og sagði að maðurinn ‚yrði að búa við eiginkonu sína og þau skyldu verða eitt hold.‘ (1. Mósebók 2:22-24) Getur þá hugsast að fjölskylduvandamál nútímans séu afleiðing þess að menn lifi ekki eftir reglum sem skaparinn setur fram í orði sínu, Biblíunni?

Hvor leiðin er farsælli?

Það hefur varla farið fram hjá þér að heimur nútímans kyndir undir eigingirni og sjálfsfullnægju. „Ágirnd er heilsusamleg,“ sagði fjármálamaður við bandaríska háskólanema sem voru að útskrifast. „Það er hægt að vera ágjarn en samt mjög sáttur við sjálfan sig.“ En það leiðir ekki til farsældar að sækjast eftir efnislegum eignum. Efnishyggjan er ein stærsta einstaka ógnunin við fjölskyldulífið af því að hún spillir mannlegum samskiptum og étur upp tíma manna og fjármuni. Taktu eftir hvernig tveir af orðskviðum Biblíunnar hjálpa okkur að skilja hvað það er sem stuðlar að hamingju.

„Betra er að borða grænmeti með ástvinum en að borða hið besta kjöt þar sem hatur ríkir.“

„Betra er að borða þurra brauðskorpu með hugarró en fá veislumat í húsi sem er fullt af deilum.“

Orðskviðirnir 15:17; 17:1, „Today’s English Version.“

Eru þetta ekki kröftug orð? Ímyndaðu þér hversu allur annar heimurinn væri ef sérhver fjölskylda hugsaði þannig. Biblían veitir einnig verðmæta leiðsögn um hvernig fjölskyldumeðlimirnir skuli koma fram hver við annan. Hér eru aðeins nokkrar af leiðbeiningum hennar.

Eiginmaður: ‚Elskaðu konuna þína eins og eigin líkama.‘ — Efesusbréfið 5:28-30.

Einfalt en mjög raunhæft! Biblían skipar líka eiginmanninum að ‚veita konu sinni virðingu.‘ (1. Pétursbréf 3:7) Hann gerir það með því að gefa henni sérstakan gaum, uppörva hana og sýna henni blíðu og skilning. Hann metur einnig skoðanir hennar og hlustar á hana. (Samanber 1. Mósebók 21:12.) Er það ekki hverri fjölskyldu til blessunar ef eiginmaðurinn sýnir konu sinni umhyggju og kemur fram við hana eins og hann vildi sjálfur láta koma fram við sig? — Matteus 7:12.

Eiginkona: ‚Berðu djúpa virðingu fyrir eiginmanni þínum.‘ — Efesusbréfið 5:33. „New World Translation.“

Eiginkonan stuðlar að hamingju fjölskyldunnar með því að hjálpa manni sínum að sinna til fulls þeirri miklu ábyrgð sem á honum hvílir. Það var líka ætlunin því að Guð skapaði konuna til að vera manninum „meðhjálp við hans hæfi.“ (1. Mósebók 2:18) Getur þú gert þér í hugarlund þá blessun sem það er fjölskyldulífinu þegar konan sýnir manni sínum virðingu með því að styðja ákvarðanir hans og vinna með honum að þeim markmiðum sem fjölskyldan setur sér?

Hjón: „Eiginmenn og eiginkonur verða að vera hvort öðru trú.“ — Hebreabréfið 13:4, TEV

Það er mjög til góðs fyrir fjölskyldulífið þegar þau eru það. Hórdómur leggur oft fjölskylduna í rúst. (Orðskviðirnir 6:27-29, 32) Hvatning Biblíunnar er því skynsamleg: „Vertu ánægður með konuna þína og finndu gleði þína með stúlkunni sem þú kvæntist . . . Hvers vegna skyldir þú gefa annarri konu ást þína?“ — Orðskviðirnir 5:18-20, TEV.

Foreldrar: ‚Fræðið börnin ykkar um veginn sem þau eiga að halda.‘ — Orðskviðirnir 22:6.

Þegar foreldrarnir gefa börnunum tíma og athygli bætir það tvímælalaust fjölskyldulífið. Biblían hvetur því foreldra til að kenna börnum sínum réttar frumreglur ‚þegar þeir eru heima og þegar þeir eru á ferðalagi, þegar þeir leggjast til hvíldar og þegar þeir fara á fætur.‘ (5. Mósebók 11:19) Biblían segir einnig að foreldrar ættu að sýna að þeir elski börnin sín með því að aga þau. — Efesusbréfið 6:4.

Börn: „Börn, hlýðið foreldrum yðar vegna Drottins.“ — Efesusbréfið 6:1.

Að vísu er ekki alltaf auðvelt að hlýða foreldrum sínum í þessum löglausa heimi. En fellst þú ekki á að það sé skynsamlegt að gera það sem skapari fjölskyldunnar segir okkur? Hann veit hvað helst gerir fjölskyldulíf okkar hamingjuríkt. Reyndu því af alefli að hlýða foreldrum þínum. Vertu staðráðinn í að forðast hinar mörgu freistingar heimsins til illra verka. — Orðskviðirnir 1:10-19.

Því meir sem fjölskyldumeðlimirnir fara eftir ráðleggingum Biblíunnar þeim mun betur farnast fjölskyldunni. Hún mun ekki aðeins njóta betra lífs núna heldur líka geta átt í vændum dásamlega framtíð í nýja heiminum sem Guð lofar. (2. Pétursbréf 3:13; Opinberunarbókin 21:3, 4) Gerið það því að venju að nema Biblíuna saman sem fjölskylda. Milljónir fjölskyldna um víða veröld hafa haft mikið gagn af leiðbeiningum myndskreyttrar bókar sem heitir Þú getur lifað að eilífu í paradís á jörð.

Nema annað sé tekið fram eru allar tilvitnanir í Biblíuna teknar úr íslensku biblíunni frá 1981.

[Mynd credit line á blaðsíðu 6]

Rétthafi myndar: Hvolpar: Með leyfi Hartebeespoortdam Snake and Animal Park.