Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þýðing Daníelsbókar fyrir þig

Þýðing Daníelsbókar fyrir þig

Fyrsti kafli

Þýðing Daníelsbókar fyrir þig

1, 2. (a) Nefndu nokkrar óvenjulegar aðstæður sem Daníelsbók lýsir. (b) Hvaða spurningar er eðlilegt að vakni um Daníelsbók?

 VOLDUGUR konungur hótar að lífláta vitringa sína af því að þeir geta hvorki birt né ráðið torskilinn draum sem hann hefur dreymt. Þrír ungir menn neita að tilbiðja himinhátt líkneski. Þeim er kastað í ofurheitan eldsofn en komast óskaddaðir úr honum. Í miklum gleðskap sjá hundruð manna birtast hönd sem skrifar dularfull orð á hallarvegg. Illir samsærismenn láta kasta öldruðum manni í ljónagryfju en hann kemst heill á húfi úr henni. Fjögur dýr birtast spámanni Guðs í sýn. Spádómleg merking þeirra nær þúsundir ára fram í tímann.

2 Þetta eru aðeins fáeinar glefsur úr Daníelsbók. Er hún alvarlegrar athugunar virði? Getur þessi aldagamla bók haft einhverja þýðingu fyrir okkur nútímamenn? Hvernig geta atburðir, sem áttu sér stað fyrir 2600 árum, skipt okkur máli?

DANÍELSBÓK — FORN BÓK SEM Á ERINDI TIL OKKAR

3, 4. Af hverju hafa margir réttilega áhyggjur af framtíð mannkyns?

3 Stór hluti Daníelsbókar fjallar um stjórn heimsins sem er mál málanna um þessar mundir. Nálega allir fallast á að við lifum erfiða tíma. Daglega dynja á okkur ótíðindi sem minna á að mannlegt samfélag er að sökkva í fen flókinna vandamála, þrátt fyrir ótrúleg afrek á sviði vísinda og tækni.

4 Hugsaðu þér: Menn hafa gengið á tunglinu en geta ekki rölt um götur á jörðu niðri án þess að óttast um líf og limi. Menn geta búið heimili sín alls konar þægindum en gengur æ verr að halda fjölskyldunni saman. Og maðurinn bjó til upplýsingasamfélagið en getur ekki kennt fólki að búa saman í sátt og samlyndi. Hugh Thomas, prófessor í sagnfræði, skrifaði einu sinni: „Þrátt fyrir aukna þekkingu og menntun hefur maðurinn lítið lært um sjálfstjórn og þaðan af minna um friðsamlega sambúð við aðra.“

5. Hvaða afleiðingar hefur stjórn manna mestmegnis haft?

5 Menn hafa skipað sér undir fjölbreytt stjórnarfar til að freista þess að tryggja einhvers konar þjóðfélagsreglu. Ekkert stjórnarfar hefur þó komist undan sannleikanum í orðum Salómons konungs: „Einn maðurinn drottnar yfir öðrum honum til ógæfu.“ (Prédikarinn 4:1; 8:9) Stjórnendur hafa auðvitað átt sér göfugar hugsjónir, sumir hverjir. En enginn konungur, forseti eða einræðisherra getur unnið bug á sjúkdómum og dauða. Enginn maður megnar að umbreyta jörðinni í þá paradís sem Guð ætlaði henni að vera.

6. Hvers vegna þarf Jehóva ekki samvinnu við stjórnir manna til að framkvæma vilja sinn?

6 En skaparinn er bæði fús til þess og fær um það. Hann þarf ekki leyfi mennskra stjórnvalda til að hrinda vilja sínum í framkvæmd því að í augum hans eru „þjóðirnar . . . sem dropi í vatnskjólu og metnar sem ryk á vogarskálum.“ (Jesaja 40:15) Já, Jehóva er alvaldur Drottinn alheimsins og fer þar af leiðandi með langtum meira vald en stjórnir manna. Guðsríki á eftir að víkja öllum stjórnum manna úr vegi, mannkyni til eilífrar blessunar. Sennilega kemur það hvergi skýrar fram en í Daníelsbók.

DANÍEL — ÁSTFÓLGINN GUÐI

7. Hver var Daníel og hvaða álit hafði Jehóva á honum?

7 Jehóva Guði þótti afar vænt um Daníel sem var spámaður hans um langt árabil. Engill Guðs kallaði Daníel reyndar ‚ástmög Guðs.‘ (Daníel 9:23) Hebreska orðið, sem þýtt er „ástmögur,“ getur merkt „mjög ástfólginn,“ „mikils metinn“ og jafnvel „uppáhald.“ Daníel var Guði mjög hjartfólginn.

8. Hvernig atvikaðist það að Daníel var í Babýlon?

8 Kynnum okkur stuttlega hinar sérstöku aðstæður sem þessi elskaði spámaður bjó við. Nebúkadnesar konungur Babýlonar settist um Jerúsalem árið 618 f.o.t. (Daníel 1:1) Skömmu síðar voru velmenntaðir, ungir Gyðingar fluttir nauðugir í útlegð til Babýlonar. Daníel var einn þeirra, þá sennilega á unglingsaldri.

9. Hvaða þjálfun fengu Daníel og félagar hans þrír?

9 Daníel og félagar hans, þeir Hananja, Mísael og Asarja, voru í hópi Hebrea sem valdir voru til að hljóta þriggja ára menntun í ‚bókmenntum og tungu Kaldea.‘ (Daníel 1:3, 4) Sumir fræðimenn benda á að trúlega hafi þetta verið meira en tungumálanám. Prófessor C. F. Keil segir til dæmis: „Daníel og félagar hans áttu að fá menntun í speki kaldeískra presta og menntamanna sem kennd var í skólum Babýlonar.“ Þeir hlutu sem sagt sérstaka þjálfun til stjórnsýslustarfa.

10, 11. Hverju stóðu Daníel og félagar hans frammi fyrir og hvernig hjálpaði Jehóva þeim?

10 Þetta var gríðarleg breyting á aðstæðum Daníels og félaga hans. Í Júda höfðu þeir búið meðal tilbiðjenda Jehóva. Núna voru þeir umkringdir fólki sem tilbað goðsögulega guði og gyðjur. En Daníel, Hananja, Mísael og Asarja létu það ekki skelfa sig. Þeir voru staðráðnir í að hvika ekki frá sannri tilbeiðslu, þrátt fyrir þessar ógæfulegu aðstæður.

11 Það yrði ekki auðvelt. Nebúkadnesar konungur var dyggur dýrkandi Mardúks, helsta guðs Babýlonar. Kröfur konungs voru stundum með öllu óaðgengilegar fyrir tilbiðjanda Jehóva. (Sjá til dæmis Daníel 3:1-7.) En Daníel og félagar hans nutu óbrigðullar leiðsagnar Jehóva. Þau þrjú ár, sem menntun þeirra stóð, blessaði Guð þá með ‚kunnáttu og skilningi á alls konar rit og vísindi.‘ Auk þess var Daníel veitt skyn á vitrunum og draumum. Síðar, þegar konungur spurði ungu mennina fjóra út úr, reyndust þeir „tíu sinnum fremri en allir spásagnamenn og særingamenn í öllu ríki hans.“ — Daníel 1:17, 20.

AÐ BOÐA BOÐSKAP GUÐS

12. Hvaða sérstöku hlutverki gegndi Daníel?

12 Öll þau ár, sem Daníel dvaldist í Babýlon, var hann boðberi Guðs til manna svo sem konunganna Nebúkadnesars og Belsasars. Daníel gegndi mjög þýðingarmiklu hlutverki. Jehóva hafði notað Nebúkadnesar sem eins konar verkfæri og leyft honum að eyða Jerúsalem. Síðar yrði Babýlon eytt. Daníelsbók miklar Jehóva sem hinn hæsta Guð og valdhafa yfir „konungdómi mannanna.“ — Daníel 4:17.

13, 14. Hvað varð um Daníel eftir fall Babýlonar?

13 Daníel þjónaði við hirðina í rúma sjö áratugi uns Babýlon féll. Hann lifði það að sjá marga Gyðinga snúa aftur heim árið 537 f.o.t., þótt Biblían láti ósagt hvort hann hafi farið heim með þeim. Daníel var eljusamur að minnsta kosti fram á þriðja stjórnarár Kýrusar konungs, stofnanda Persaveldis, og hlýtur þá að hafa verið um tírætt!

14 Eftir fall Babýlonar færði Daníel þýðingarmestu atburði ævi sinnar í letur. Bók hans tilheyrir nú heilagri Biblíu og kallast Daníelsbók. En af hverju ættum við að rýna í þessa ævafornu bók?

TVEIR ÞRÆÐIR, EINN BOÐSKAPUR

15. (a) Hvaða tveir þræðir ganga gegnum Daníelsbók? (b) Hvernig getum við haft gagn af söguhluta Daníelsbókar?

15 Tveir mjög ólíkir þræðir ganga gegnum Daníelsbók, annar sögulegur, hinn spádómlegur. Báðir geta byggt upp trú okkar. Hvernig? Söguhlutinn — einn sá líflegasti í Biblíunni — sýnir okkur að Jehóva Guð blessar og annast þá sem varðveita ráðvendni við hann. Daníel og félagar hans þrír voru staðfastir í lífshættulegum prófraunum. Allir sem vilja varðveita hollustu við Jehóva geta sótt styrk í fordæmi þeirra.

16. Hvað lærum við af spádómshluta Daníelsbókar?

16 Spádómshluti Daníelsbókar styrkir trúna með því að sýna fram á að Jehóva þekkir gang sögunnar aldir — eða jafnvel árþúsundir — fram í tímann. Daníelsbók lýsir til dæmis uppgangi og falli heimsvelda frá tímum Forn-Babýlonar allt fram að „endalokunum.“ (Daníel 12:4) Hún beinir athygli okkar að ríki Guðs í höndum hins skipaða konungs hans og ‚hinna heilögu‘ sem stjórna með honum. Hún bendir á að sú stjórn standi að eilífu. Þessi stjórn mun fullkomna tilgang Jehóva með jörðina og veita blessun öllum sem vilja þjóna honum. — Daníel 2:44; 7:13, 14, 22.

17, 18. (a) Hvernig styrkir nákvæm rannsókn á Daníelsbók trú okkar? (b) Hvað þurfum við að skoða áður en við sökkvum okkur niður í þessa spádómsbók Biblíunnar?

17 Sem betur fer þegir Jehóva ekki yfir þekkingunni á ókomnum atburðum heldur „opinberar leynda hluti.“ (Daníel 2:28) Það styrkir trúna á fyrirheit Guðs að velta fyrir sér uppfyllingu þeirra spádóma sem sagt er frá í Daníelsbók. Það eflir þá sannfæringu okkar að Guð hrindi fyrirætlunum sínum í framkvæmd nákvæmlega á réttum tíma og á þann hátt sem hann velur.

18 Allir sem kynna sér Daníelsbók með opnu hjarta styrkja trú sína. En áður en við sökkvum okkur niður í bókina þurfum við að kynna okkur rökin fyrir því að hún sé áreiðanleg og ósvikin. Sumir hafa ráðist harkalega gegn Daníelsbók og fullyrða að spádómar hennar séu í raun réttri skrifaðir eftir uppfyllingu þeirra. Eiga þessar ásakanir vantrúarmanna við rök að styðjast? Næsti kafli fjallar um það.

Hvað lærðir þú?

• Af hverju á Daníelsbók erindi til nútímamanna?

• Hvernig atvikaðist það að Daníel og félagar hans störfuðu við stjórnsýslu Babýlonar?

• Hvaða sérstakt verkefni hafði Daníel í Babýlon?

• Hvers vegna ættum við að gefa gaum að spádómum Daníels?

[Spurningar]

[Heilsíðumynd á blaðsíðu 4]

[Heilsíðumynd á blaðsíðu 11]