Fjögur orð sem breyttu heiminum
Sjöundi kafli
Fjögur orð sem breyttu heiminum
1. Hve áhrifarík voru fjögur orð sem skrifuð voru á vegg endur fyrir löngu?
FJÖGUR einföld orð eru skrifuð á kalkaðan vegg. Voldugur þjóðhöfðingi er næstum vitstola af ótta. Orðin boða að tveir konungar verði sviptir völdum, annar þeirra deyi og voldugt heimsveldi líði undir lok. Þau boða auðmýkingu virtrar trúarreglu. Og síðast en ekki síst upphefja þau hreina tilbeiðslu á Jehóva og ítreka drottinvald hans þegar flestir virða hann lítils. Þessi orð varpa meira að segja ljósi á heimsatburði á okkar dögum! Hvernig geta fjögur orð verið svona máttug? Athugum það nánar.
2. (a) Hvað gerðist í Babýlon eftir dauða Nebúkadnesars? (b) Hver fór nú með völd?
2 Áratugir eru liðnir frá þeim atburðum sem lýst er í 4. kafla Daníelsbókar. Hinn drambsami Nebúkadnesar konungur lést árið 582 f.o.t. og lauk þar með 43 ára stjórnarferli hans í Babýlon. Nokkrir arftakar af ætt hans hafa farið með völd um tíma en allir verið skammlífir, ýmist ráðnir af dögum eða dáið af öðrum orsökum. Loks hafði Nabónídus nokkur sölsað undir sig hásætið í uppreisn. Móðir hans var yfirhofgyðja tunglguðsins Sin, en ekki verður séð að hann hafi verið skyldur konungsætt Babýlonar. Sumir heimildarmenn telja að hann hafi kvænst dóttur Nebúkadnesars til að lögfesta yfirráð sín, hafi gert Belsasar son þeirra meðstjórnanda sinn og falið honum stjórn Babýlonar um nokkurra ára skeið í senn. Ef það er rétt var Belsasar dóttursonur Nebúkadnesars. Hafði hann lært af reynslu afa síns að Jehóva er hinn æðsti Guð og getur auðmýkt hvaða konung sem er? Greinilega ekki. — Daníel 4:37.
VEISLA FER ÚR BÖNDUM
3. Lýstu veislu Belsasars.
3 Fimmti kafli Daníelsbókar hefst á veisluhöldum. „Belsasar konungur hélt veislu mikla þúsund stórmennum sínum og drakk vín í augsýn þeirra þúsund.“ (Daníel 5:1) Eins og þú getur ímyndað þér hefur þurft nokkuð stóran sal handa þessum fjölda, að viðbættum konum og hjákonum konungs. Fræðimaður segir: „Veislur Babýloníumanna voru stórfenglegar en enduðu yfirleitt í drykkjusvalli. Borð voru hlaðin innfluttu víni og alls kyns munaði. Salurinn angaði af ilmvatni og söngvarar og hljóðfæraleikarar skemmtu gestum.“ Allir sáu til Belsasars þar sem hann stýrði veisluhöldum og drakk — og hann drakk stíft.
4. (a) Af hverju vekur furðu að Babýloníumenn skyldu halda veislu nóttina 5./6. október árið 539 f.o.t.? (b) Af hverju töldu Babýloníumenn sig óhulta fyrir innrásarherjum?
4 Það vekur nokkra furðu að Babýloníumenn skuli hafa verið svona veisluglaðir þessa nótt — 5./6. október árið 539 f.o.t. Þjóðin átti í stríði og vegnaði miður. Nabónídus hafði fyrir skemmstu beðið ósigur fyrir innrásarher Meda og Persa og flúið til Borsippa suðvestur af Babýlon. Og nú höfðu hersveitir Kýrusar reist sér búðir rétt utan við Babýlon. En það virðist ekki valda Belsasar og stórmennum hans teljandi áhyggjum. Borgin Babýlon var hvort eð er ósigrandi! Risavaxnir múrar gnæfðu yfir djúp síkin sem Efratfljótið fyllti er það rann gegnum borgina. Borgin hafði ekki verið tekin í áhlaupi í meira en þúsund ár. Var þá nokkuð að óttast? Kannski hefur Belsasar hugsað sem svo að hávaðinn af gleðskapnum og svallinu bæri vott um sjálfstraust þeirra og drægi kjark úr óvinunum fyrir utan.
5, 6. Hvað gerði Belsasar í vímunni og af hverju var það gróf móðgun við Jehóva?
5 En hóflaus drykkja Belsasars sljóvgaði dómgreind hans fyrr en varði. Eins og Orðskviðirnir 20:1 segja er vínið „spottari.“ Í vímunni fremur konungur ógurlegt glapræði. Hann fyrirskipar að hin helgu ker úr musteri Jehóva skuli sótt. Nebúkadnesar hafði tekið þessi ker herfangi þegar hann vann Jerúsalem og þau mátti aðeins nota við hreina tilbeiðslu. Jafnvel prestar Gyðinga, sem höfðu umboð til að nota þau í musterinu í Jerúsalem forðum daga, höfðu fengið ströng fyrirmæli um að halda sér hreinum. — Daníel 5:2; samanber Jesaja 52:11.
6 En Belsasar hafði ósvífnislegan verknað í huga. „Konungurinn, stórmenni hans, konur hans og hjákonur . . . drukku vín og vegsömuðu guði sína úr gulli, silfri, eiri, járni, tré og steini.“ (Daníel 5:3, 4) Belsasar hugðist upphefja falsguði sína yfir Jehóva. Þetta hugarfar virðist dæmigert fyrir Babýloníumenn. Þeir fyrirlitu Gyðingana, sem þeir höfðu flutt í útlegð, hæddust að tilbeiðslu þeirra og gáfu þeim enga von um fararleyfi heim til ástkærrar ættjarðar þeirra. (Sálmur 137:1-3; Jesaja 14:16, 17) Þessi drukkni einvaldur hélt sig kannski geta vakið hrifningu kvenna sinna og embættismanna með því að niðurlægja útlagana og smána Guð þeirra. Kannski ímyndaði hann sér að það væri styrkleikamerki. * En hafi hann haft einhverja ánægju af því að flíka valdi sínu entist hún stutt.
SKRIFTIN Á VEGGNUM
7, 8. Hvað truflaði veislu Belsasars og hvaða áhrif hafði það á hann?
7 „Á sömu stundu,“ segir hin innblásna frásaga, „komu fram fingur af mannshendi og rituðu á kalkið á veggnum í konungshöllinni, gegnt ljósastikunni, og konungurinn sá fingur handarinnar, sem ritaði.“ (Daníel 5:5) Hvílík sjón! Hönd birtist skyndilega og svífur í lausu lofti við upplýstan hluta veggjarins. Þögn slær á samkvæmið, gestirnir snúa sér við og góna á höndina sem tekur að rita dularfullan boðskap á kalkaðan vegginn. * Svo ískyggilegt var þetta og svo ógleymanlegt að enn þann dag í dag tala menn um „skriftina á veggnum“ og eiga þá við yfirvofandi skapadóm.
8 Hvaða áhrif hafði þetta á hinn hrokafulla konung sem reynt hafði að upphefja sjálfan sig og guði sína yfir Jehóva? „Þá gjörðist konungur litverpur, og hugsanir hans skelfdu hann, og var sem mjaðmarliðir hans gengju sundur, og kné hans skulfu.“ (Daníel 5:6) Belsasar hafði ætlað sér að sýnast mikill og tígulegur frammi fyrir þegnum sínum. En nú var hann skelfingin uppmáluð — náfölur, riðandi og hríðskalf svo að hnjánum sló saman. Orð Davíðs, sem hann flutti Jehóva í söng, voru dagsönn: ‚Þú gerir alla hrokafulla niðurlúta.‘ — 2. Samúelsbók 22:1, 28; samanber Orðskviðina 18:12.
9. (a) Af hverju var ótti Belsasars ekki guðsótti? (b) Hvað bauð konungur vitringum Babýlonar?
9 Rétt er að nefna að ótti Belsasars er ekki guðsótti sem er djúp lotning fyrir Jehóva og er upphaf allrar visku. (Orðskviðirnir 9:10) Hinn skjálfandi einvaldur er gripinn sjúklegri skelfingu og hún kveikir engan viskuneista hjá honum. * Í stað þess að biðjast fyrirgefningar hjá þeim Guði, sem hann hafði smánað, kallar hann háum rómi að sækja skuli „særingamennina, Kaldeana og stjörnuspekingana.“ Hann lýsir meira að segja yfir: „Hver sem les þetta letur og segir mér þýðing þess, skal klæddur verða purpura og bera gullfesti á hálsi sér og vera þriðji yfirhöfðingi í ríkinu!“ (Daníel 5:7) Þetta var valdamikil staða því að aðeins tveir voru æðri, konungarnir Nabónídus og Belsasar sjálfur. Þetta embætti hefði að öllu jöfnu verið ætlað elsta syni Belsasars, þannig að konungi var greinilega mikið í mun að fá þennan torkennilega boðskap túlkaðan.
10. Hvernig gekk vitringunum að þýða skriftina á veggnum?
10 Vitringarnir ganga inn í salinn mikla. Nóg var af þeim því að Babýlon var mikil falstrúarborg og moraði af hofum og musterum. Þar var enginn hörgull á mönnum sem þóttust geta lesið fyrirboða og ráðið dularfulla texta. Vitringarnir hljóta að hafa verið himinlifandi að fá slíkt tækifæri. Nú gátu þeir sýnt list sína frammi fyrir háttsettu fólki, áunnið sér hylli konungs og komist til mikilla áhrifa. En það fór öðruvísi en þeir ætluðu því að „þeir gátu ekki lesið letrið og sagt konungi þýðing þess.“ * — Daníel 5:8.
11. Hvað getur hafa valdið því að vitringar Babýlonar gátu ekki lesið skriftina?
11 Við vitum ekki hvort vitringar Babýlonar gátu lesið skriftina — sjálfa stafina. Ef ekki hefðu þessir ófyrirleitnu menn svo sem getað lesið hvað sem þeim sýndist úr skriftinni, kannski logið upp einhverju skjalli um konung. Annar möguleiki er sá að stafirnir hafi verið vel læsilegir, en þar eð arameíska og hebreska voru skrifaðar án sérhljóða gat hvert orð hugsanlega haft nokkrar merkingar. Ef svo var hafa þessir vitringar trúlega ekki getað komist að niðurstöðu um hver orðin ættu að vera. Og þótt þeir hefðu getað það hefðu þeir hvorki skilið merkingu þeirra né getað túlkað þau. Eitt er að minnsta kosti víst: Vitringum Babýlonar mistókst hrapallega!
12. Hvað sannaðist þegar vitringarnir gátu ekki lesið skriftina?
12 Vitringarnir voru þannig afhjúpaðir sem loddarar og hin virta trúarregla þeirra sem svikamylla. Þeir ollu Belsasar sárum vonbrigðum! Þegar hann komst að raun um að það var til einskis að treysta á þessa menn jókst skelfing hans, hann fölnaði enn meir og „fát mikið“ kom jafnvel á stórmenni hans. * — Daníel 5:9.
KUNNÁTTUMAÐUR KALLAÐUR TIL
13. (a) Af hverju stakk drottningin upp á að kallað yrði á Daníel? (b) Hvers konar lífi lifði Daníel?
13 Á þessari örlagastund gengur drottningin sjálf — sennilega drottningarmóðirin — í veislusalinn. Hún hafði heyrt um uppnámið í veislunni og vissi um mann sem gat þýtt skriftina á veggnum. Áratugum áður hafði Nebúkadnesar faðir hennar skipað Daníel yfirmann allra vitringa sinna. Drottning minntist hans fyrir ‚skýrleik, þekkingu og speki.‘ Þar eð Belsasar virðist ekki þekkja til Daníels má ætla að spámaðurinn hafi misst hið háa stjórnarembætti sitt eftir dauða Nebúkadnesars. En mannvirðingar skipta Daníel litlu máli. Hann er sennilega kominn á tíræðisaldur en er enn þá trúfastur þjónn Jehóva. Þrátt fyrir hér um bil áttatíu ára útlegð í Babýlon er hann enn þekktur undir hebresku nafni sínu. Drottningin kallar hann meira að segja Daníel en ekki babýlonska nafninu sem honum hafði verið gefið. Hún hvetur konung: „Lát nú kalla Daníel, og mun hann segja, hvað þetta merkir.“ — Daníel 1:7; 5:10-12.
14. Af hverju var Daníel í óþægilegri stöðu þegar hann sá skriftina á veggnum?
14 Daníel er nú sóttur og gengur fyrir Belsasar. Heldur er það vandræðalegt fyrir konung að biðja þennan Gyðing bónar því að konungur er nýbúinn að smána Guð hans. En konungur reynir að skjalla Daníel og býður honum sömu laun og hinum — þriðju æðstu stöðu í ríkinu — geti hann lesið og þýtt hin dularfullu orð. (Daníel 5:13-16) Daníel lítur upp, horfir á skriftina á veggnum og heilagur andi gerir honum kleift að skilja merkingu hennar. Þetta er dómsboðskapur frá Jehóva Guði! Hvernig gat Daníel lesið upp harðan dóm yfir þessum hégómlega konungi — upp í opið geðið á honum og í áheyrn kvenna hans og stórmenna? Þetta var í meira lagi óþægileg staða! Lét hann smjaður konungs og boð hans um auð og mannvirðingar hafa áhrif á sig? Myndi hann nú milda dóm Jehóva?
15, 16. Hvað hafði Belsasar ekki lært af liðinni sögu og hvað er líkt því nú á dögum?
15 Daníel mælti hugrakkur í bragði: „Haltu sjálfur gáfum þínum og gef einhverjum öðrum gjafir þínar, en letrið mun ég lesa fyrir konunginn og segja honum þýðing þess.“ (Daníel 5:17) Því næst viðurkennir Daníel að Nebúkadnesar konungur hafi verið mikill, svo voldugur að hann hafi getað líflátið, upphafið eða niðurlægt hvern sem hann vildi. En Daníel minnir Belsasar á að það hafi verið Jehóva, „Guð hinn hæsti,“ sem gerði Nebúkadnesar mikinn. Það var Jehóva sem niðurlægði þennan mikla konung þegar hann varð drambsamur. Nebúkadnesar hafði neyðst til að viðurkenna að „Guð hinn hæsti ræður yfir konungdómi mannanna og veitir hann hverjum sem hann vill.“ — Daníel 5:18-21.
16 Belsasar ‚vissi allt þetta‘ en hafði þó ekki lært af sögunni. Hann hafði gengið miklu lengra en Nebúkadnesar, sem syndgaði með drambi sínu, og gerst sekur um hreina ósvífni gagnvart Jehóva. Daníel bendir konungi umbúðalaust á synd hans. Og frammi fyrir þessum heiðna mannsöfnuði segir hann Belsasar djarfmannlega að falsguðirnir ‚sjái ekki, heyri ekki og viti ekkert.‘ Hinn hugrakki spámaður Guðs bætir við til samanburðar að Jehóva sé Guð sem hafi ‚lífsanda konungs í hendi sér.‘ Enn í dag gera menn lífvana hluti að guðum og dýrka peninga, frama, orðstír og jafnvel skemmtun og nautnir. En ekkert af þessu getur veitt manni líf. Jehóva er sá eini sem við öll eigum tilveru okkar að þakka, og hver andardráttur okkar er honum háður. — Daníel 5:22, 23; Postulasagan 17:24, 25.
GÁTAN LEYST
17, 18. Hvaða fjögur orð stóðu á veggnum og hvað merkja þau bókstaflega?
17 Nú gerir hinn aldraði spámaður það sem allir vitringar Babýlonar höfðu verið ófærir um. Hann les og þýðir skriftina á veggnum. Orðin voru: „Mene, mene, tekel ufarsin.“ (Daníel 5:24, 25) Hvað þýða þau?
18 Bókstaflega merkja orðin „mína, mína, sikill og hálfir siklar.“ Orðin voru öll þyngdareiningar gjaldmiðils og stóðu í fallandi röð. Þetta var mikil ráðgáta! Hafi vitringar Babýlonar getað þekkt stafina er ekkert undarlegt að þeir skyldu ekki geta þýtt orðin.
19. Hvernig þýddi Daníel orðið „mene“?
19 Undir áhrifum heilags anda Guðs útskýrir Daníel: „Þessi er þýðing orðanna: mene, Guð hefir talið ríkisár þín og leitt þau til enda.“ (Daníel 5:26) Samhljóðarnir í fyrsta orðinu gátu bæði boðið upp á orðið „mína“ og mynd af arameísku orði sem merkir „talinn út“ eða „talinn,“ og réðst það af sérhljóðunum sem lesandinn skaut inn í. Daníel vissi mætavel að útlegðartími Gyðinga var senn á enda. Hann átti að vera 70 ár og nú voru 68 liðin. (Jeremía 29:10) Tímavörðurinn mikli, Jehóva, hafði talið daga Babýlonar sem heimsveldis og endirinn var nær en nokkurn mann í veislu Belsasars grunaði. Í rauninni var tíminn runninn út — bæði fyrir Belsasar og Nabónídus föður hans. Það kann að vera ástæðan fyrir því að orðið „mene“ er tvítekið — til að boða að konungdómur beggja væri á enda.
20. Hvernig skýrði Daníel orðið „tekel“ og hvernig átti það við Belsasar?
20 „Tekel“ stóð hins vegar aðeins einu sinni og var í eintölu. Það bendir kannski til að því hafi verið beint sérstaklega til Belsasars. Og það hefði átt vel við því að hann hafði persónulega sýnt Jehóva gróft virðingarleysi. Orðið sjálft merkir „sikill“ en samhljóðarnir bjóða einnig upp á orðið „veginn.“ Því sagði Daníel konungi: „Tekel, þú ert veginn á skálum og léttvægur fundinn.“ (Daníel 5:27) Í augum Jehóva eru heilu þjóðirnar jafnlítilfjörlegar og ryk á vogarskálum. (Jesaja 40:15) Þeim er algerlega um megn að hindra það sem hann ætlar sér. Hvað gat þá einn hrokafullur konungur gert? Belsasar hafði reynt að upphefja sjálfan sig yfir Drottin alheimsins. Þessi aumi maður hafði vogað sér að smána Jehóva og hæðast að hreinni tilbeiðslu en verið „léttvægur fundinn.“ Belsasar átti fyllilega skilið þann dóm sem var að bresta á!
21. Hvernig var orðið „farsin“ þríþættur orðaleikur og hvað gaf það til kynna um framtíð Babýlonar sem heimsveldis?
21 Síðasta orðið á veggnum var „ufarsin.“ Daníel las það í eintölu, „peres,“ sennilega af því að hann var að ávarpa annan konunginn en hinn var fjarri. * Hin mikla gáta frá Jehóva náði hér hámarki í þríþættum orðaleik. Orðið „farsin“ merkir bókstaflega „hálfir siklar,“ en stafirnir bjóða líka upp á tvær aðrar merkingar — „skiptingar“ og „Persar.“ Daníel boðaði því: „Peres, ríki þitt er deilt og gefið Medum og Persum.“ — Daníel 5:28.
22. Hvernig brást Belsasar við ráðningu gátunnar og til hvers kann hann að hafa vonast?
22 Gátan var leyst. Hin volduga Babýlon var í þann mund að falla fyrir sveitum Meda og Persa. Þótt lúpulegur sé eftir þennan dóm stendur Belsasar við orð sín. Hann lætur þjóna sína klæða Daníel í purpura, setja gullfesti um háls honum og lýsa hann þriðja yfirhöfðingja í ríkinu. (Daníel 5:29) Daníel færist ekki undan þessari virðingu því að honum er ljóst að hún endurspeglar þá virðingu sem Jehóva ber. Auðvitað má vera að Belsasar hafi vonast til að geta mildað dóm Jehóva með því að heiðra spámann hans. En hafi hann ætlað sér það var það um seinan.
FALL BABÝLONAR
23. Hvaða forn spádómur var að rætast meðan veisla Belsasars var í fullum gangi?
23 Meðan Belsasar og hirðmenn hans drukku til heiðurs guðum sínum og spottuðu Jehóva var mikill sjónleikur í uppsiglingu í myrkrinu utan hallarinnar. Nú var að rætast spádómur sem Jesaja hafði borið fram nærri tveim öldum áður. Jehóva hafði spáð um Babýlon: „Ég gjöri enda á öllum andvörpum.“ Öll kúgun útvalinna þjóna Guðs af völdum þessarar illu borgar yrði á enda. Hvernig? Í sama spádómi segir: „Áfram, Elamítar! Gjörið umsát, Medíumenn!“ Elam varð hluti af Persíu eftir daga spámannsins Jesaja. Þegar kom að veislu Belsasars, sem einnig hafði verið sögð fyrir í sama spádómi Jesaja, höfðu Medar og Persar tekið höndum saman um að ráðast gegn Babýlon og ‚gera umsát‘ um hana. — Jesaja 21:1, 2, 5, 6.
24. Hverju hafði Jesaja spáð um fall Babýlonar?
24 Foringi þessara hersveita hafði meira að segja verið nafngreindur og hernaðaráætlun hans lýst í megindráttum. Um 200 árum áður hafði Jesaja spáð að Jehóva myndi smyrja mann er Kýrus héti til að ráðast gegn Babýlon. Í áhlaupi hans yrði öllum hindrunum rutt úr vegi. Vötn Babýlonar skyldu ‚þurrkuð upp‘ og hin miklu borgarhlið standa opin. (Jesaja 44:27–45:3) Og sú varð raunin. Sveitir Kýrusar veittu Efrat úr farvegi hennar og vatnsborðið lækkaði svo að þeir gátu vaðið ána. Kærulausir verðir höfðu skilið borgarhliðin eftir opin. Sagnfræðingar eru sammála um að borgarbúar hafi verið að skemmta sér þegar innrásin átti sér stað. Babýlon var tekin nánast mótþróalaust. (Jeremía 51:30) Einn féll þó að minnsta kosti. Daníel greinir frá því: „Á hinni sömu nótt var Belsasar Kaldeakonungur drepinn. Daríus frá Medalandi tók við ríkinu og hafði þá tvo vetur um sextugt.“ — Daníel 5:30–6:1.
HVAÐ LÆRA MÁ AF SKRIFTINNI Á VEGGNUM
25. (a) Af hverju er Babýlon fortíðar viðeigandi tákn um heimskerfi falstrúarbragða nútímans? (b) Í hvaða skilningi voru nútímaþjónar Guðs í ánauð Babýlonar?
25 Hin innblásna frásaga í 5. kafla Daníelsbókar er mjög þýðingarmikil fyrir okkur. Babýlon fortíðar var miðstöð falskra trúariðkana og er þar af leiðandi viðeigandi tákn um allt heimsveldi falskra trúarbragða. Þessi samsteypa blekkingarinnar birtist í Opinberunarbókinni í gervi blóðþyrstrar skækju sem kölluð er „Babýlon hin mikla.“ (Opinberunarbókin 17:5) Hún sinnir engri viðvörun um að hún svívirði Guð með falskenningum sínum og siðum, og ofsækir þá sem prédika sannleikann í orði hans. Trúfastar leifar smurðra kristinna manna voru eins og sendar í útlegð til ‚Babýlonar hinnar miklu‘ árið 1918, en þá lagðist prédikun Guðsríkis næstum af sökum ofsókna að undirlagi klerka. Það var líkt komið fyrir þeim og íbúum Jerúsalem og Júda forðum daga.
26. (a) Hvernig féll „Babýlon hin mikla“ árið 1919? (b) Hvaða viðvörun ættum við að taka til okkar og segja öðrum frá?
26 En skyndilega féll „Babýlon hin mikla.“ Fallið var næstum hljóðlaust eins og fall Babýlonar fortíðar árið 539 f.o.t. Engu að síður hafði þetta táknræna fall hrikalegar afleiðingar fyrir hana. Það átti sér stað árið 1919 þegar fólk Jehóva var frelsað úr babýlonskri ánauð og hlaut velþóknun hans. Þar með missti „Babýlon hin mikla“ tök sín á fólki Guðs og opinber afhjúpun þessarar svikamyllu var hafin. Þetta fall hennar er óbreytanlegt og endanleg tortíming yfirvofandi. Þjónar Jehóva hafa endurómað viðvörunina: „Gangið út, mitt fólk, út úr henni, svo að þér eigið engan hlut í syndum hennar.“ (Opinberunarbókin 18:4) Hefur þú gert það? Varar þú aðra við? *
27, 28. (a) Hvaða mikilvægum sannleika missti Daníel aldrei sjónar á? (b) Hvað vitnar um að Jehóva láti bráðlega til skarar skríða gegn illum heimi nútímans?
27 Skriftin stendur á veggnum núna — en ekki aðeins fyrir ‚Babýlon hina miklu.‘ Mundu eftir mikilvægum sannleika sem er eins og þungamiðja Daníelsbókar: Jehóva er alheimsdrottinn. Hann og hann einn á rétt á að skipa valdhafa yfir mannkyninu. (Daníel 4:17, 25; 5:21) Þegar þar að kemur lætur hann til skarar skríða og allt sem stendur gegn tilgangi hans verður þurrkað út. (Habakkuk 2:3) Daníel var kominn á tíræðisaldur þegar hann sá Jehóva grípa í taumana. Hann sá Jehóva svipta heimsveldi völdum — heimsveldi sem hafði kúgað fólk Guðs síðan Daníel var ungur drengur.
28 Óyggjandi sannanir eru fyrir því að Jehóva Guð hafi sett stjórnanda mannkyns í himneskt hásæti. Að heimurinn skuli hafa hunsað þennan konung og barist gegn stjórn hans er glöggt merki þess að Jehóva afmái innan skamms alla andstæðinga stjórnar sinnar. (Sálmur 2:1-11; 2. Pétursbréf 3:3-7) Ert þú vakandi fyrir því hvað tímanum líður og setur þú traust þitt á ríki Guðs? Ef þú gerir það, þá hefurðu lært af skriftinni á veggnum!
[Neðanmáls]
^ gr. 6 Í fornri áletrun segir Kýrus konungur um Belsasar: „Væskill hefur verið gerður að [stjórnanda] lands síns.“
^ gr. 7 Enn sem fyrr er frásaga Daníels nákvæm í smáatriðum því að fornleifarannsóknir hafa sýnt að hallarveggir í Babýlon fortíðar voru úr kalkhúðuðum tigulsteini.
^ gr. 9 Hjátrú Babýloníumanna hefur eflaust magnað skelfinguna sem greip þá. Bókin Babylonian Life and History segir: „Auk þess að dýrka fjölda guða voru Babýloníumenn ofurseldir trú á anda, og svo mögnuð var þessi trú að verulegur hluti af trúarritum þeirra voru bænir og særingaþulur gegn öndunum.“
^ gr. 10 Tímaritið Biblical Archaeology Review segir: „Babýlonskir sérfræðingar skrásettu þúsundir óheillatákna. . . . Þegar Belsasar heimtaði þýðingu skriftarinnar á veggnum flettu vitringar Babýlonar eflaust upp í þessum fyrirboðabókum. En þær dugðu ekki.“
^ gr. 12 Orðabókarhöfundar benda á að orðið, sem þýtt er „fát mikið,“ þýði mikið uppnám, rétt eins og alger ringulreið hafi orðið í veislunni.
^ gr. 21 Íslenska biblían frá 1981 gefur eftirfarandi skýringu neðanmáls: „Peres er önnur mynd orðsins farsin (pharsin) í 25. v. (u-farsin, ‚u‘ merkir ‚og‘), og er hér orðaleikur orðsins Persar við sögn, er merkir að deila, skipta.“
^ gr. 26 Sjá bókina Revelation — Its Grand Climax At Hand!, bls. 205-71, gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.
HVAÐ LÆRÐIR ÞÚ?
• Hvað truflaði veisluhöld Belsasars nóttina 5./6. október árið 539 f.o.t.?
• Hver var þýðing skriftarinnar á veggnum?
• Hvaða spádómur um fall Babýlonar var að rætast meðan á veislu Belsasars stóð?
• Hvaða þýðingu hefur skriftin á veggnum fyrir okkur sem nú lifum?
[Spurningar]
[Heilsíðumynd á blaðsíðu 98]
[Heilsíðumynd á blaðsíðu 103]