Hver á að stjórna heiminum?
Níundi kafli
Hver á að stjórna heiminum?
1-3. Lýstu draumnum og sýnunum sem Daníel sá á fyrsta stjórnarári Belsasars.
SÖGUSVIÐ Daníelsbókar flyst nú aftur í tímann til fyrsta stjórnarárs Belsasars konungs í Babýlon. Daníel hefur verið útlagi þar um langt skeið en aldrei hvikað frá ráðvendni sinni við Jehóva. Hinn trúfasti spámaður er kominn á áttræðisaldur þegar hann dreymir ‚draum, og sýnir ber fyrir hann í rekkju hans.‘ Sýnirnar skelfdu hann. — Daníel 7:1, 15.
2 „Ég sá í sýn minni á næturþeli, hversu þeir fjórir vindar himinsins rótuðu upp hinu mikla hafi. Og fjögur stór dýr stigu upp af hafinu, hvert öðru ólíkt,“ segir Daníel. Þetta eru einkennileg dýr! Hið fyrsta er vængjað ljón, annað líkist bjarndýri og síðan kemur pardusdýr með fjóra vængi og fjögur höfuð! Fjórða dýrið er óvenjusterkt og hefur stórar járntennur og tíu horn. Á milli hornanna tíu sprettur svo upp „lítið“ horn með „augu, eins og mannsaugu, og munn, sem talaði gífuryrði.“ — Daníel 7:2-8.
3 Sjónarsvið sýnarinnar flyst nú til himna. Hinn aldraði situr dýrlegur í hásæti sem dómari við hinn himneska dómstól. ‚Þúsundir þúsunda þjóna honum og tíþúsundir tíþúsunda standa frammi fyrir honum.‘ Hann dæmir dýrin, sviptir þau völdum og eyðir því fjórða. ‚Einhverjum sem mannssyni líkist‘ er fengið varanlegt stjórnvald yfir ‚lýðum, þjóðum og tungum.‘ — Daníel 7:9-14.
4. (a) Hvern bað Daníel um áreiðanlega skýringu? (b) Af hverju er það sem Daníel sá og heyrði þessa nótt mjög þýðingarmikið fyrir okkur?
4 „Út af þessu varð ég, Daníel, sturlaður, og sýnirnar, sem fyrir mig bar, skelfdu mig,“ segir spámaðurinn. Hann biður því engil um „áreiðanlega skýring á öllu þessu“ og engillinn gefur honum „þýðing alls þessa.“ (Daníel 7:15-28) Það sem Daníel sá og heyrði þessa nótt er afar áhugavert fyrir okkur því að það lýsir í stórum dráttum heimsatburðunum fram til okkar tíma þegar ‚einhverjum sem mannssyni líkist‘ er fengið stjórnvald yfir öllum ‚lýðum, þjóðum og tungum.‘ Með hjálp orðs Guðs og anda getum við líka skilið hvað þessar spádómlegu sýnir merkja. *
FJÖGUR DÝR KOMA UPP ÚR HAFINU
5. Hvað táknar hið vindbarða haf?
5 „Fjögur stór dýr stigu upp af hafinu,“ segir Daníel. (Daníel 7:3) Hvað táknaði vindbarið hafið? Löngu síðar sá Jóhannes postuli sjöhöfða villidýr koma upp úr „hafinu.“ Hafið táknaði ‚lýði og fólk, þjóðir og tungur‘ — hið mikla mannhaf sem er fráhverft Guði. Hafið er því viðeigandi tákn fjöldans sem er Guði afhuga. — Opinberunarbókin 13:1, 2; 17:15; Jesaja 57:20.
6. Hvað tákna dýrin fjögur?
6 „Þessi stóru dýr, fjögur að tölu, merkja það, að fjórir konungar munu hefjast á jörðinni,“ segir engill Guðs. (Daníel 7:17) Engillinn bendir greinilega á að dýrin fjögur, sem Daníel sá, séu „fjórir konungar.“ Dýrin tákna sem sagt heimsveldi. En hvaða heimsveldi?
7. (a) Hvað segja sumir biblíuskýrendur um dýrin fjögur í draumsýn Daníels og um líkneskið mikla sem Nebúkadnesar dreymdi? (b) Hvað tákna hinir fjórir málmar líkneskisins?
7 Almennt setja biblíuskýrendur dýrin fjögur í draumsýn Daníels í samhengi við líkneskið mikla í draumi Nebúkadnesars. Til dæmis segir skýringarritið The Expositor’s Bible Commentary: „Sjöundi kafli [Daníelsbókar] er hliðstæður 2. kafla.“ Annað skýringarrit, The Wycliffe Bible Commentary, segir: „Menn eru almennt sammála um að röð hinna fjögurra heiðingjavelda . . . sé sú sama hér [í 7. kafla Daníelsbókar] og um er fjallað í 2. kafla [Daníelsbókar].“ Heimsveldin fjögur, sem hinir fjórir málmar líkneskisins í draumi Nebúkadnesars tákna, voru Babýlon (gullhöfuðið), Medía-Persía (silfurbrjóstið og armleggirnir), Grikkland (eirkviðurinn og lendarnar) og Rómaveldi (járnfótleggirnir). * (Daníel 2:32, 33) Skoðum hvernig þessi ríki samsvara hinum stóru dýrum sem Daníel sá.
GRIMMT SEM LJÓN, SKJÓTT SEM ÖRN
8. (a) Hvernig lýsir Daníel fyrsta dýrinu? (b) Hvaða heimsveldi táknar fyrsta dýrið og hvernig hegðaði það sér eins og ljón?
8 Þetta voru ægileg dýr sem Daníel sá. Hann lýsir einu svo: „Fyrsta dýrið líktist ljóni og hafði arnarvængi. Ég horfði á það, þar til er vængir þess voru reyttir af því, og því var lyft upp frá jörðinni og reist á fæturna eins og maður, og því var fengið mannshjarta.“ (Daníel 7:4) Þetta dýr táknar sama veldi og gullhöfuð líkneskisins mikla, það er að segja babýlonska heimsveldið. (607-539 f.o.t.) Babýlon var eins og rándýr, eins og grimmt „ljón“ sem gleypti í sig þjóðir, þeirra á meðal þjóð Guðs. (Jeremía 4:5-7; 50:17) Svo hratt fór ‚ljónið‘ yfir í landvinningum sínum að það var eins og það hefði arnarvængi. — Harmljóðin 4:19; Habakkuk 1:6-8.
9. Hvað var gert við dýrið, sem líktist ljóninu, og með hvaða áhrifum?
9 En um síðir voru vængirnir „reyttir af“ þessu óvenjulega ljóni. Undir lok stjórnartíðar Belsasars missti Babýlon landvinningahraðann og yfirburði ljónsins yfir þjóðunum. Hún fór ekki hraðar yfir en maður á tveimur jafnfljótum. Hún fékk „mannshjarta“ og glataði styrk sínum. Nú var Babýlon horfið „ljónshjartað“ svo að hún gat ekki lengur hegðað sér eins og konungur „meðal skógardýra.“ (Samanber 2. Samúelsbók 17:10; Míka 5:7.) Annað stórt dýr yfirbugaði hana.
GRÁÐUGT SEM BJARNDÝR
10. Hvaða konungaröð táknaði ‚bjarndýrið‘?
10 „Og sjá, þá kom annað dýr, hið annað í röðinni,“ segir Daníel. „Það var líkt bjarndýri. Það var risið upp á aðra hliðina og hafði þrjú rif í munni sér milli tannanna. Til þess var mælt: ‚Statt upp og et mikið kjöt.‘“ (Daníel 7:5) ‚Bjarndýrið‘ táknaði sama konung og silfurbrjóst og armleggir líkneskisins mikla — það er að segja konungaröð Medíu og Persíu (539-331 f.o.t.) frá og með Daríusi frá Medíu og Kýrusi mikla allt til Daríusar 3.
11. Hvað táknaði það að bjarndýrið var risið upp á aðra hliðina og hafði þrjú rif í kjaftinum?
11 Bjarndýrið táknræna „var risið upp á aðra hliðina,“ kannski til að búa sig undir að ráðast á þjóðir, sigra þær og viðhalda heimsyfirráðum. Eins má vera að þessi staða dýrsins eigi að sýna að konungaröð Persa yrði Daríusi, eina Medíukonunginum, yfirsterkari. Rifin þrjú milli tanna bjarnarins geta táknað áttirnar þrjár þangað sem það sótti til sigurs. Medísk-persneska ‚bjarndýrið‘ sótti til norðurs og vann Babýlon árið 539 f.o.t. Síðan sótti það til vesturs gegnum Litlu-Asíu og inn í Þrakíu. Loks sótti ‚bjarndýrið‘ til suðurs og vann Egyptaland. En talan þrír táknar líka stundum styrkleika svo að rifin þrjú geta einnig táknað landvinningagræðgi hins táknræna bjarnar.
12. Hvað hlaust af þegar bjarndýrið táknræna hlýddi skipuninni: „Statt upp og et mikið kjöt“?
12 ‚Bjarndýrið‘ réðst á þjóðir þegar því var sagt að ‚standa upp og eta mikið kjöt.‘ Með því að rífa í sig Babýlon samkvæmt vilja Guðs var Medía-Persía í aðstöðu til að veita þjóð hans verðmæta þjónustu sem hún og gerði. (Sjá „Umburðarlyndur einvaldur“ á bls. 149.) Kýrus mikli, Daríus 1. (Daríus mikli) og Artaxerxes 1. leystu Gyðingana úr ánauð Babýlonar og hjálpuðu þeim að endurbyggja musteri Jehóva og gera við múra Jerúsalem. Um síðir réði Medía-Persía yfir 127 skattlöndum og Ahasverus (Xerxes 1.), eiginmaður Esterar drottningar, „ríkti frá Indlandi til Blálands“ eða Eþíópíu. (Esterarbók 1:1) En þriðja dýrið var í þann mund að rísa upp.
SNÖGGT SEM VÆNGJAÐ PARDUSDÝR
13. (a) Hvað táknaði þriðja dýrið? (b) Hvað má segja um hraða þriðja dýrsins og landið sem það réði?
13 Þriðja dýrið var „líkt pardusdýri, og hafði það fjóra fuglsvængi á síðunum. Þetta dýr hafði fjögur höfuð, og því var vald gefið.“ (Daníel 7:6) Hið fjórvængja og fjórhöfða pardusdýr táknaði hið sama og eirkviður og lendar líkneskisins í draumi Nebúkadnesars — makedónsku eða grísku konungaröðina sem hófst með Alexander mikla. Með fimi og hraða pardusdýrsins geystist Alexander yfir Litlu-Asíu, suður til Egyptalands og í austur allt að vesturlandamærum Indlands. (Samanber Habakkuk 1:8.) Ríki hans var víðlendara en ‚bjarndýrsins‘ því að það náði yfir Makedóníu, Grikkland og persneska heimsveldið. — Sjá „Ungur konungur sigrar heiminn“ á bls. 153.
14. Hvernig varð ‚pardusdýrið‘ fjórhöfða?
14 ‚Pardusdýrið‘ varð fjórhöfða eftir dauða Alexanders árið 323 f.o.t. Fjórir hershöfðingjar hans tóku hver við sínum hluta heimsveldisins. Selevkos náði Mesópótamíu og Sýrlandi. Ptólemeos réði Egyptalandi og Palestínu. Lýsimakos fékk Litlu-Asíu og Þrakíu og Kassander lagði undir sig Makedóníu og Grikkland. (Sjá „Víðáttumikið ríki skiptist“ á bls. 162.) Þá reis upp nýr ógnvaldur.
ÓGURLEGT DÝR OG ÓLÍKT HINUM
15. (a) Lýstu fjórða dýrinu. (b) Hvað táknaði fjórða dýrið og hvernig át það og muldi sundur allt sem fyrir því varð?
15 Daníel lýsir fjórða dýrinu svo að það hafi verið „hræðilegt, ógurlegt og yfirtaks öflugt. Það hafði stórar járntennur, át og muldi sundur, og það, sem eftir varð, tróð það sundur með fótunum. Það var ólíkt öllum fyrri dýrunum og hafði tíu horn.“ (Daníel 7:7) Í upphafi var stjórnmála- og herveldið Róm í hlutverki þessa ógurlega dýrs. Það lagði smám saman undir sig hin fjögur hellenísku ríki gríska heimsveldisins og var orðið næsta heimsveldi biblíuspádómanna árið 30 f.o.t. Með hervaldi sínu lagði það undir sig allt sem fyrir varð og náði að lokum yfir stóran hluta Evrópu allt til Bretlandseyja, réði öllum löndum við Miðjarðarhaf og teygði sig austur fyrir Babýlon allt að Persaflóa.
16. Hvað upplýsti engillinn um fjórða dýrið?
16 Daníel vildi fá áreiðanlega vitneskju um hvað þetta ‚yfirtaksöfluga‘ dýr merkti og hlustaði með athygli er engillinn útskýrði: „Hornin tíu merkja það, að af þessu ríki munu upp koma tíu konungar, og annar konungur mun upp rísa eftir þá, og hann mun verða ólíkur hinum fyrri, og þremur konungum mun hann steypa.“ (Daníel 7:19, 20, 24) Hver voru „hornin tíu“ eða þessir „tíu konungar“?
17. Hvað tákna ‚tíu horn‘ fjórða dýrsins?
17 Herstyrkur Rómaveldis dvínaði samhliða vaxandi auðlegð og úrkynjun Rómverja og lostalífi valdastéttarinnar, og þessi hnignun varð auðsæ með tímanum. Loks klofnaði hið volduga heimsveldi í mörg smærri ríki. Biblían notar oft töluna tíu til að tákna heild, svo að ‚tíu horn‘ fjórða dýrsins tákna öll þau ríki sem til urðu við upplausn Rómaveldis. — Samanber 5. Mósebók 4:13; Lúkas 15:8; 19:13, 16, 17.
18. Hvernig hélt Róm áfram að drottna yfir Evrópu um aldir eftir að síðasta keisaranum var steypt af stóli?
18 En rómverska heimsveldið leið ekki undir lok árið 476 þegar síðasta keisaranum í Róm var steypt af stóli. Um aldaraðir réð páfastóllinn í Róm lögum og lofum í evrópskum stjórnmálum og drottnaði yfir trúarlífi fólks. Hann nýtti sér lénsskipulagið þar sem flestir íbúar Evrópu voru settir undir lénsherra og síðan konung. Og allir konungar viðurkenndu yfirráð páfa. Þannig ráðskaðist Heilaga rómverska keisaradæmið með heimsmálin á því langa tímabili sem kallast hinar myrku miðaldir, og páfastóllinn í Róm lék þar aðalhlutverk.
19. Hvernig var Róm í samanburði við fyrri heimsveldi, að sögn sagnfræðings?
19 Því verður ekki neitað að fjórða dýrið var ‚ólíkt öllum hinum konungsríkjunum.‘ (Daníel 7:7, 19, 23) Sagnfræðingurinn H. G. Wells segir um það: „Þetta nýja rómverska veldi . . . var að mörgu leyti ólíkt öllum þeim miklu heimsveldum sem höfðu ríkt yfir hinum siðmenntaða heimi fram til þessa. . . . Það innlimaði nálega alla grískumælandi menn í heimi, og hamítar og semítar voru ekki eins áberandi meðal þegnanna og hjá öðrum fyrri heimsveldum . . . Það var nýlunda í sögunni . . . Rómaveldi var vöxtur, óundirbúinn og nýstárlegur vöxtur; Rómverjar voru nánast óafvitandi þátttakendur í víðtækri stjórnarfarstilraun.“ En fjórða dýrið átti eftir að vaxa enn meir.
LÍTIÐ HORN NÆR YFIRBURÐUM
20. Hvað sagði engillinn um vöxt lítils horns á höfði fjórða dýrsins?
20 „Ég athugaði hornin og sá þá, hvar annað lítið horn spratt upp milli þeirra, og þrjú af fyrri hornunum voru slitin upp fyrir það,“ segir Daníel. (Daníel 7:8) Engillinn sagði Daníel eftirfarandi um þennan útvöxt: „Annar konungur mun upp rísa eftir þá [konungana tíu], og hann mun verða ólíkur hinum fyrri, og þremur konungum mun hann steypa.“ (Daníel 7:24) Hver var þessi konungur, hvenær reis hann upp og hvaða þrem konungum steypti hann?
21. Hvernig varð Bretland lítið táknrænt horn á höfði fjórða dýrsins?
21 Líttu á eftirfarandi framvindu: Árið 55 f.o.t. réðst rómverski hershöfðinginn Júlíus Sesar inn í Britanníu en tókst ekki að koma þar á fót varanlegri nýlendu. Árið 43 e.o.t. hóf Kládíus keisari varanlegri landvinninga á sunnanverðu Bretlandi. Árið 122 e.o.t. tók Hadríanus keisari að reisa múr frá ánni Tyne til Solwayfjarðar og afmarkaði þannig norðurlandamæri Rómaveldis. Snemma á fimmtu öld hurfu rómverskar hersveitir frá eynni. Sagnfræðingur segir: „Á sextándu öld var England annars flokks veldi. Auður þess var lítilfjörlegur í samanburði við Holland. Það var langtum mannfærra en Frakkland. Her Englendinga (þar á meðal sjóherinn) var veikari en her Spánverja.“ Bretland var greinilega smáríki á þeim tíma, lítið táknrænt horn á höfði fjórða dýrsins. En það átti eftir að breytast.
22. (a) Hvaða þrjú horn fjórða dýrsins sigraði ‚litla‘ hornið? (b) Hvað varð Bretland síðan?
22 Árið 1588 sendi Filippus 2. Spánarkonungur flotann ósigrandi til árásar á Bretland. Í flotanum voru 130 skip og rösklega 24.000 menn. Flotinn sigldi norður Ermasund en galt afhroð fyrir breska flotanum, mótvindi og hvössum stormum Atlantshafsins. Sagnfræðingur bendir á að með þessum atburði hafi „England náð öruggum yfirburðum yfir Spán á höfunum.“ Á 17. öld byggðu Hollendingar upp heimsins stærsta kaupskipaflota. En Bretland náði yfirhöndinni með því að auka við nýlendur sínar. Á 18. öld börðust Bretar og Frakkar í Norður-Ameríku og á Indlandi og gerðu loks með sér Parísarsáttmálann árið 1763. Með þessum sáttmála var „hin nýja staða Bretlands sem valdamesta ríki Evrópu utan Evrópu viðurkennd,“ að sögn rithöfundarins Williams B. Willcox. Árið 1815 gersigruðu Bretar Napóleon Frakklandskeisara og staðfestu þar með yfirburði sína. ‚Konungarnir þrír,‘ sem Bretar ‚steyptu,‘ voru sem sagt Spánn, Holland og Frakkland. (Daníel 7:24) Bretland var nú orðið mesta nýlendu- og viðskiptaveldi heims. ‚Litla‘ hornið óx og varð að heimsveldi.
23. Hvernig svelgdi táknræna litla hornið upp „öll lönd“?
23 Engillinn sagði Daníel að fjórða dýrið eða konungsríkið myndi „upp svelgja öll lönd.“ (Daníel 7:23) Þetta gerði rómverska skattlandið sem einu sinni hét Britannía. Það óx og varð að breska heimsveldinu og ‚upp svelgdi öll lönd.‘ Um tíma réði þetta heimsveldi yfir fjórðungi lands í heiminum og fjórðungi jarðarbúa.
24. Hvernig var breska heimsveldið ólíkt fyrri heimsveldum, að sögn sagnfræðings?
24 Líkt og Rómaveldi var ólíkt fyrri heimsveldum átti konungurinn, sem ‚litla‘ hornið táknaði, að vera „ólíkur hinum fyrri.“ (Daníel 7:24) Sagnfræðingurinn H. G. Wells segir um breska heimsveldið: „Ekkert þessu líkt hafði áður verið til. Þungamiðja kerfisins var ‚þingbundin konungsstjórn‘ hinna sameinuðu bresku konungsríkja . . . Ekkert eitt ráðuneyti og enginn einn mannshugur hafði upphugsað breska heimsveldið sem heild. Það var sambland vaxtar og viðbóta af gerólíkum toga en öll þau ríki sem áður höfðu verið kölluð heimsveldi.“
25. (a) Hvað er táknræna litla hornið núna? (b) Í hvaða skilningi hefur ‚litla‘ hornið „augu, eins og mannsaugu,“ og ‚munn sem talar gífuryrði‘?
25 ‚Litla‘ hornið var meira en breska heimsveldið. Árið 1783 viðurkenndi Bretland sjálfstæði hinna 13 nýlendna sinna í Norður-Ameríku. Bandaríki Norður-Ameríku urðu með tíð og tíma bandalagsríki Bretlands og valdamesta ríki heims eftir síðari heimsstyrjöldina. Það er enn í sterkum tengslum við Bretland. Þetta ensk-ameríska tvíveldi er ‚hornið sem hefur augu.‘ Það er kænt og fylgist vel með öllu. Það ‚talar gífuryrði‘ og stjórnar stefnumálum heims að verulegu leyti. Það er eins og talsmaður heims eða ‚falsspámaður.‘ — Daníel 7:8, 11, 20; Opinberunarbókin 16:13; 19:20.
LITLA HORNIÐ SNÝST GEGN GUÐI OG HINUM HEILÖGU
26. Hverju spáði engillinn um orð og verk hornsins táknræna gagnvart Jehóva og þjónum hans?
26 Daníel heldur áfram að lýsa sýninni: „Ég horfði á, hvernig horn þetta háði stríð við hina heilögu og hafði sigur yfir þeim.“ (Daníel 7:21) Engill Guðs hafði spáð um þetta „horn,“ þennan konung: „Hann mun orð mæla gegn Hinum hæsta, kúga hina heilögu Hins hæsta og hafa í hyggju að umbreyta helgitíðum og lögum, og þeir munu honum í hendur seldir verða um eina tíð, tvær tíðir og hálfa tíð.“ (Daníel 7:25) Hvenær og hvernig rættist þessi hluti spádómsins?
27. (a) Hverjir eru ‚hinir heilögu‘ sem ‚litla‘ hornið ofsækir? (b) Hvernig ætlaði hið táknræna horn að „umbreyta helgitíðum og lögum“?
27 ‚Litla‘ hornið, ensk-ameríska heimsveldið, ofsótti „hina heilögu“ sem eru andasmurðir fylgjendur Jesú á jörðinni. (Rómverjabréfið 1:7; 1. Pétursbréf 2:9) Leifar hinna smurðu höfðu varað opinberlega við því um margra ára skeið áður en fyrri heimsstyrjöldin braust út að „tímar heiðingjanna“ myndu taka enda árið 1914. (Lúkas 21:24) Þegar stríð braust út það ár var ljóst að ‚litla‘ hornið hafði haft þessa viðvörun að engu því að það áreitti „hina heilögu“ og smurðu linnulaust. Ensk-ameríska heimsveldið reis jafnvel öndvert gegn viðleitni þeirra til að framfylgja þeirri kröfu (eða „lögum“) Jehóva, að vottar hans skyldu prédika fagnaðarerindið um Guðsríki út um allan heim. (Matteus 24:14) Þannig reyndi ‚litla‘ hornið að „umbreyta helgitíðum og lögum.“
28. Hve langar eru ‚ein tíð, tvær tíðir og hálf tíð‘?
28 Engill Jehóva nefndi spádómlegt tímabil, „eina tíð, tvær tíðir og hálfa tíð,“ það er að segja þrjár og hálfa tíð. Hinar „sjö tíðir,“ þá er Nebúkadnesar var geðveikur, voru sjö ár svo að tíðirnar þrjár og hálf hljóta að vera þrjú og hálft ár. * (Daníel 4:16, 25) Biblíuþýðingin An American Translation segir: „Þeir skulu framseldir honum í ár, tvö ár og hálft ár.“ Þýðing James Moffatts segir: „Í þrjú ár og hálft ár.“ Sama tímabil er nefnt í Opinberunarbókinni þar sem sagt er að vottar Guðs prédiki sekkjum klæddir í 42 mánuði eða 1260 daga og séu svo drepnir. Hvenær hófst þetta tímabil og hvenær lauk því? 11:2-7
29. Hvenær og hvernig hófust hin spádómlegu þrjú og hálft ár?
29 Fyrri heimsstyrjöldin var reynslutími fyrir smurða kristna menn. Þeir bjuggust við ofsóknum undir árslok 1914. Fyrir árið 1915 hafði spurning Jesú til lærisveinanna verið valin sem árstexti: „Getið þið drukkið þann kaleik, sem ég á að drekka?“ Hann var byggður á Matteusi 20:22. Hin fámenna vottasveit prédikaði því ‚sekkjum klædd‘ frá desember 1914.
30. Hvernig réðst ensk-ameríska heimsveldið gegn smurðum kristnum mönnum í fyrri heimsstyrjöldinni?
30 Andstaðan gegn hinum smurðu jókst að sama skapi og stríðsæsingurinn magnaðist. Sumir voru hnepptir í fangelsi. Einstakir vottar, svo sem Frank Platt á Englandi og Robert Clegg í Kanada, sættu pyndingum grimmra yfirvalda. Hinn 12. febrúar árið 1918 bannaði breska sjálfsstjórnarsvæðið Kanada hið nýútkomna sjöunda bindi bókaraðarinnar Studies in the Scriptures (Rannsóknir á Ritningunni) en það hét The Finished Mystery (Hinn fullnaði leyndardómur), svo og smárit sem nefndust The Bible Students Monthly (Mánaðarrit Biblíunemenda). Mánuðinn eftir tilkynnti bandaríska dómsmálaráðuneytið að dreifing sjöunda bindisins væri bönnuð. Húsleit og handtökur fylgdu í kjölfarið og bækur voru gerðar upptækar.
31. Hvenær og hvernig lauk ‚einu tíðinni, tveim tíðunum og hálfu tíðinni‘?
31 Árásirnar á hendur smurðum þjónum Guðs náðu hámarki 21. júní árið 1918 þegar forseti Biblíu- og smáritafélagsins Varðturninn, J. F. Rutherford, og helstu forvígismenn þess voru dæmdir til langrar fangavistar fyrir rangar sakir. ‚Litla‘ hornið ætlaði sér að „umbreyta helgitíðum og lögum“ og hafði í reynd gengið af öllu skipulögðu prédikunarstarfi dauðu. (Opinberunarbókin 11:7) Hinni boðuðu ‚einni tíð, tveim tíðum og hálfri tíð‘ lauk því í júní árið 1918.
32. Hvernig getum við sagt að ‚litla‘ hornið hafi ekki útrýmt ‚hinum heilögu‘?
32 En ‚litla‘ hornið útrýmdi ekki ‚hinum heilögu‘ með árásum sínum. Eins og spáð var í Opinberunarbókinni lifnuðu smurðir kristnir menn og tóku aftur til starfa eftir skammvinnt athafnaleysi. (Opinberunarbókin 11:11-13) Hinn 26. mars árið 1919 var forseta Biblíu- og smáritafélagsins Varðturninn og samstarfsmönnum hans sleppt úr fangelsi, og þeir voru síðar hreinsaðir af þeim sökum sem þeir höfðu verið bornir. Hinar smurðu leifar tóku þegar í stað til óspilltra málanna að skipuleggja starf sitt að nýju. En hvað beið ‚litla‘ hornsins?
HINN ALDRAÐI HELDUR DÓM
33. (a) Hver er hinn aldraði? (b) Hvaða ‚bókum var flett upp‘ við dómstólinn á himnum?
33 Eftir að Daníel hefur lýst dýrunum fjórum beinir hann athyglinni frá fjórða dýrinu til himna. Hann sér hinn aldraða setjast í skínandi hásæti sitt til að halda dóm. Hinn aldraði er enginn annar en Jehóva Guð. (Sálmur 90:2) Hinir himnesku dómarar setjast og Daníel sér ‚bókum flett upp.‘ (Daníel 7:9, 10) Þar eð Jehóva hefur verið til um óendanlega fortíð þekkir hann alla mannkynssöguna eins og væri hún skrifuð í bók. Hann hefur fylgst með öllum þessum fjóru táknrænu dýrum og getur fellt yfir þeim dóm byggðan á því sem hann hefur séð.
34, 35. Hvað verður um ‚litla‘ hornið og önnur dýrsleg veldi?
34 Daníel heldur áfram: „Ég horfði og horfði vegna hinna háværu stóryrða, sem hornið talaði, þar til er dýrið var drepið, líkami þess eyðilagður og honum kastað í eld til að brennast. Vald hinna dýranna var og frá þeim tekið og þeim afmarkað lífskeið til ákveðins tíma og stundar.“ (Daníel 7:11, 12) Engillinn segir Daníel: „Dómurinn mun settur verða og hann sviptur völdum til þess að afmá þau með öllu og að engu gjöra.“ — Daníel 7:26.
35 Hornið, sem lastmælti Guði og áreitti „hina heilögu,“ hlýtur sömu örlög og Rómaveldi sem ofsótti frumkristna menn. Það er úrskurður dómarans mikla, Jehóva Guðs. Það fær ekki að halda völdum. Sama gildir um hin síðri horn eða ‚konunga‘ sem spruttu af Rómaveldi. En hvað um þær stjórnir sem komnar eru af hinum fyrri ríkjum? Eins og spáð var er „þeim afmarkað lífskeið til ákveðins tíma og stundar.“ Lönd þeirra eru byggð enn þann dag í dag. Írak ræður til dæmis yfir því svæði þar sem Babýlon fortíðar stóð. Persía (Íran) og Grikkland eru enn þá til. Leifar þessara heimsvelda tilheyra Sameinuðu þjóðunum. Þessi ríki farast líka um leið og síðasta heimsveldinu verður tortímt. Allar mannastjórnir verða afmáðar í ‚stríðinu á hinum mikla degi Guðs hins alvalda.‘ (Opinberunarbókin 16:14, 16) En hver mun þá stjórna heiminum?
VARANLEG STJÓRN RÉTT FRAMUNDAN
36, 37. (a) Hver er ‚sá sem mannssyni líkist,‘ og hvenær og hvers vegna birtist hann í hinum himneska dómssal? (b) Hvað var stofnsett árið 1914?
36 „Ég horfði í nætursýnunum,“ segir Daníel, „og sjá, einhver kom í skýjum himins, sem mannssyni líktist. Hann kom þangað, er hinn aldraði var fyrir, og var leiddur fyrir hann.“ (Daníel 7:13) Jesús Kristur kallaði sig „Mannssoninn“ þegar hann var á jörðinni til að lýsa skyldleika sínum við mannkynið. (Matteus 16:13; 25:31) Hann sagði æðstaráðinu sem var hæstiréttur Gyðinga: „Þér [munuð] sjá Mannssoninn sitja til hægri handar máttarins og koma á skýjum himins.“ (Matteus 26:64) Það var sem sagt hinn upprisni og dýrlegi Jesús Kristur sem kom ósýnilegur mannaaugum fram fyrir Jehóva Guð í sýn Daníels. Hvenær gerðist það?
37 Guð hefur gert sáttmála við Jesú Krist um ríki, líkt og hann gerði við Davíð konung. (2. Samúelsbók 7:11-16; Lúkas 22:28-30) Jesús Kristur er erfingi að hásæti Davíðs og gat með réttu tekið við konungdómi í Guðsríki þegar ‚tímum heiðingjanna‘ lauk árið 1914. Spádómsorð Daníels heldur áfram: „Honum var gefið vald, heiður og ríki, svo að honum skyldu þjóna allir lýðir, þjóðir og tungur. Hans vald er eilíft vald, sem ekki skal undir lok líða, og ríki hans skal aldrei á grunn ganga.“ (Daníel 7:14) Messíasarríkið var því stofnsett á himnum árið 1914. En fleirum var fengið stjórnvald í hendur.
38, 39. Hver hlýtur eilíf yfirráð yfir heiminum?
38 „Hinir heilögu Hins hæsta munu eignast ríkið,“ sagði engillinn. (Daníel 7:18, 22, 27) Jesús Kristur er öðrum fremur hinn heilagi. (Postulasagan 3:14; 4:27, 30) Aðrir ‚heilagir‘ stjórnarliðar eru 144.000 trúfastir, andasmurðir kristnir menn sem eru samerfingjar Krists að ríkinu. (Rómverjabréfið 1:7; 8:17; 2. Þessaloníkubréf 1:5; 1. Pétursbréf 2:9) Þeir eru reistir upp frá dauðum sem ódauðlegir andar til að ríkja með honum á himnesku Síonfjalli. (Opinberunarbókin 2:10; 14:1; 20:6) Kristur Jesús og hinir smurðu upprisnir ríkja þá yfir mannheimi.
39 Engill Guðs sagði um stjórn Mannssonarins og annarra ‚heilagra‘ upprisinna: „Ríki, vald og máttur allra konungsríkja, sem undir himninum eru, mun gefið verða heilögum lýð Hins hæsta. Ríki hans mun verða eilíft ríki, og öll veldi munu þjóna því og hlýða.“ (Daníel 7:27) Hlýðið mannkyn á mikla blessun í vændum undir stjórn þessa ríkis.
40. Hvaða gagn getum við haft af því að gefa gaum að draumi og sýnum Daníels?
40 Daníel var grunlaus um stórfenglega uppfyllingu þeirra sýna sem Guð veitti honum. Hann sagði: „Hér er það mál á enda. En mig, Daníel, skelfdu hugsanir mínar mjög, svo að ég gjörðist litverpur, og ég geymdi þetta í hjarta mínu.“ (Daníel 7:28) Við lifum hins vegar á þeim tíma þegar hægt er að skilja uppfyllingu þess sem Daníel sá. Með því að gefa gaum að spádómsbók hans styrkjum við trú okkar og þá sannfæringu að Messíasarríki Jehóva muni stjórna heiminum.
[Neðanmáls]
^ gr. 4 Til skýrleika og til að forðast endurtekningar verða skýringaversin í Daníel 7:15-28 skoðuð um leið og farið er yfir sýnirnar í Daníel 7:1-14, vers fyrir vers.
^ gr. 7 Sjá 4. kafla þessarar bókar.
^ gr. 28 Sjá 6. kafla þessarar bókar.
HVAÐ LÆRÐIR ÞÚ?
• Hvað tákna ‚stóru dýrin fjögur sem komu upp úr hafinu‘?
• Hvert er ‚litla‘ hornið?
• Hvernig réðst táknræna litla hornið á „hina heilögu“ í fyrri heimsstyrjöldinni?
• Hvað verður um táknræna litla hornið og öll hin dýrslegu veldin?
• Hvaða gagn hefurðu haft af því að gefa gaum að draumi Daníels og sýnunum af ‚stóru dýrunum fjórum‘?
[Spurningar]
[Rammagrein/myndir á blaðsíðu 149-152]
UMBURÐARLYNDUR EINVALDUR
GRÍSKUR rithöfundur á fimmtu öld f.o.t. talar um hann sem umburðarlyndan fyrirmyndareinvald. Biblían kallar hann Guðs „smurða“ og „örninn“ sem kemur „úr austurátt.“ (Jesaja 45:1; 46:11) Þessi einvaldur er Kýrus mikli frá Persíu.
Frægðarganga Kýrusar hófst um árið 560/559 f.o.t. er hann tók ríki eftir Kambýses 1. föður sinn í Anshan sem var borg eða hérað í Persíu fornaldar. Anshan var þá lénsdæmi Astýagesar konungs í Medíu. Kýrus gerði uppreisn gegn yfirráðum Meda og vann skjótan sigur af því að her Astýagesar hljópst undan merkjum. Kýrus ávann sér síðan hollustu Meda. Þaðan í frá börðust Medar og Persar saman undir forystu hans. Þannig varð til tvíveldið Medía-Persía sem náði loks allt frá Eyjahafi til Indusfljóts. — Sjá kort.
Eitt fyrsta verk Kýrusar var að beita sameinuðum her Meda og Persa til að ná stjórn á ákveðnu ófriðarsvæði — vesturhluta
Medíu þar sem Krösus Lýdíukonungur hafði stækkað ríki sitt með því að sölsa undir sig medískt land. Kýrus sótti fram að austurlandamærum Lýdíuríkis í Litlu-Asíu, sigraði Krösus og tók höfuðborgina Sardes. Síðan vann hann jónísku borgirnar og lagði alla Litlu-Asíu undir medísk-persneska heimsveldið. Hann var nú orðinn helsti keppinautur Babýlonar og konungs hennar, Nabónídusar.Kýrus bjó sig nú undir átök við hina voldugu Babýlon og tók þaðan í frá þátt í að uppfylla biblíuspádóma. Fyrir munn spámannsins Jesaja hafði Jehóva nafngreint Kýrus næstum tveim öldum áður sem valdhafann er sigra myndi Babýlon og frelsa Gyðinga úr ánauð. Það er í krafti þessarar útnefningar sem Ritningin kallar Kýrus ‚smurðan‘ þjón Jehóva. — Jesaja 44:26-28.
Babýlon var ekki beinlínis árennileg þegar Kýrus bjóst til að ráðast á hana árið 539 f.o.t. Hún virtist óvinnandi, umgyrt háum múrum og djúpu og breiðu síki sem Efrat myndaði. Þar sem Efrat rann gegnum borgina stóð fjallhár múr meðfram árbakkanum með gríðarmiklum eirhliðum. Hvernig gat Kýrus unnið hana?
Jehóva hafði boðað með meira en aldar fyrirvara að ‚sverð kæmi yfir vötn hennar‘ og að þau skyldu ‚þorna.‘ (Jeremía 50:38) Í samræmi við spádóminn veitti Kýrus Efrat úr farvegi hennar nokkrum kílómetrum norðan við Babýlon. Síðan óð herinn niður eftir ánni, kleif fláann upp að múrnum og komst hæglega inn í borgina af því að eirhliðin höfðu verið skilin eftir opin. Valdhafinn, sem kom „úr austurátt,“ vann Babýlon á einni nóttu eins og ‚örn‘ steypir sér yfir bráð sína!
Fyrir Gyðingana í Babýlon þýddi sigur Kýrusar langþráða lausn úr ánauð og endi 70 áranna sem heimaland þeirra lá í eyði. Gleðin hlýtur að hafa gagntekið þá þegar Kýrus gaf út þá tilskipun að þeir mættu snúa heim til Jerúsalem og endurreisa musterið. Kýrus afhenti þeim einnig hin dýrmætu musterisker sem Nebúkadnesar hafði flutt til Babýlonar, veitti konunglegt leyfi fyrir innflutningi á timbri frá Líbanon og heimilaði að byggingarkostnaður yrði greiddur úr sjóðum konungshallarinnar. — Esrabók 1:1-11; 6:3-5.
Kýrus var að jafnaði mannúðlegur og umburðarlyndur gagnvart þeim sem hann sigraði. Vera má að það hafi meðal annars verið trú hans að þakka. Líklega hefur Kýrus aðhyllst kenningar persneska spámannsins Zaraþústra og tilbeðið Ahura Masda — guð sem var álitinn skapari alls hins góða. Farhang Mehr segir í bók sinni, The Zoroastrian Tradition:
„Zaraþústra lýsti Guði sem siðferðilegri fullkomnun. Hann sagði fólki að Ahura Masda væri ekki hefnigjarn heldur réttvís, og þess vegna ætti ekki að óttast hann heldur elska.“ Trú Kýrusar á siðgóðan og réttvísan guð kann að hafa haft áhrif á siðfræði hans og hvatt hann til að vera göfuglyndur og sanngjarn.En veðurfarið í Babýlon var konungi lítt að skapi. Hann þoldi ekki steikjandi sumarhitann. Þess vegna var Babýlon sjaldan meira en vetrarhöfuðborg hans þótt hún hafi áfram talist konungssetur heimsveldisins og verið trúar- og menningarmiðstöð. Skömmu eftir að hann vann Babýlon sneri hann heim til sumarhöfuðborgar sinnar, Ekbatana, sem stóð við rætur Elvendfjalls í hér um bil 1900 metra hæð yfir sjávarmáli. Honum geðjaðist betur að köldum vetrum og þægilegu sumarveðri Ekbatana. Einnig reisti hann sér glæsihöll í fyrrverandi höfuðborg sinni, Pasargad (nálægt Persepólis), sem var um 650 kílómetra suðaustur af Ekbatana. Þar átti hann sér hvíldarstað.
Kýrus er hafður í minnum sem hugrakkur sigurvegari og umburðarlyndur einvaldur. Hann ríkti í 30 ár uns hann lést í herför árið 530 f.o.t. Sonur hans, Kambýses 2., tók við stjórn Persíu af honum.
HVAÐ LÆRÐIR ÞÚ?
• Hvernig reyndist Kýrus Persakonungur vera ‚smurður‘ þjónn Jehóva?
• Hvaða verðmæta þjónustu veitti Kýrus fólki Jehóva?
• Hvernig fór Kýrus með þá sem hann sigraði?
[Kort]
(Sjá uppraðaðann texta í bókinni)
HEIMSVELDIÐ MEDÍA-PERSÍA
MAKEDÓNÍA
Memfis
EGYPTALAND
EÞÍÓPÍA
Jerúsalem
Babýlon
Ekbatana
Súsa
Persepólis
INDLAND
[Mynd]
Gröf Kýrusar í Pasargad.
[Mynd]
Lágmynd af Kýrusi í Pasargad.
[Rammagrein/myndir á blaðsíðu 153-161]
UNGUR KONUNGUR SIGRAR HEIMINN
LJÓSHÆRÐUR hershöfðingi á þrítugsaldri stóð á strönd Miðjarðarhafs fyrir um það bil 2300 árum og horfði bálreiður í átt til eyborgar tæpan kílómetra frá landi. Honum hafði verið neitað um inngöngu í borgina og var staðráðinn í að vinna hana. Hernaðaráætlun hans var á þá lund að byggja grjótgarð út í eyna og stefna svo her sínum gegn borginni. Gerð grjótgarðsins var þegar hafin.
En þá bárust hershöfðingjanum unga boð frá hinum mikla konungi Persaveldis. Persneska valdhafanum var mikið í mun að semja frið og gerði hershöfðingjanum afar óvenjulegt tilboð: 10.000 talentur gulls (meira en 140 milljarða íslenskra króna á núvirði), eina af dætrum sínum fyrir konu og yfirráð yfir öllum vesturhluta Persaveldis. Allt var þetta boðið í skiptum fyrir fjölskyldu konungs sem hershöfðinginn hafði tekið til fanga.
Hershöfðinginn, sem þurfti að ákveða hvort hann ætti að taka þessu boði eða hafna, var Alexander 3. af Makedóníu. Átti hann að taka boðinu? „Þetta var örlagarík stund í sögu fornaldar,“ segir sagnfræðingurinn Ulrich Wilcken. „Afleiðinganna af ákvörðun hans gætti allar miðaldirnar og þeirra gætir enn í dag, jafnt í austri sem vestri.“ Áður en við ræðum nánar um ákvörðun
Alexanders skulum við kynna okkur undanfara þessarar örlagaríku stundar.SIGURVEGARI Í MÓTUN
Alexander fæddist í Pella í Makedóníu árið 356 f.o.t., sonur Filipposar 2. konungs og Ólympíasar konu hans. Hún kenndi Alexander að konungar Makedóníu væru komnir af Herkúlesi, syni gríska guðsins Seifs. Að sögn Ólympíasar var Akkilles, hetja í Ilíonskviðu Hómers, einn af forfeðrum Alexanders. Þannig mótuðu foreldrarnir sveininn Alexander til sigurvinninga og konungstignar og sýndi hann lítinn áhuga á öðru. Aðspurður hvort hann myndi
taka þátt í kapphlaupi á Ólympíuleikunum kvaðst hann mundu gera það ef hann mætti keppa við konunga. Hann lagði metnað sinn í að afreka meira en faðir hans og verða frægur af.Þrettán ára gamall hóf Alexander nám hjá gríska heimspekingnum Aristótelesi sem vakti áhuga hans á heimspeki, læknisfræði og vísindum. Umdeilt er hvaða áhrif heimspekikenningar Aristótelesar höfðu á hugsanagang Alexanders. „Telja má víst að þeir hafi ekki verið sammála um margt,“ segir 20. aldar heimspekingurinn Bertrand Russell. „Stjórnmálaviðhorf Aristótelesar byggðust á gríska borgríkinu sem var að líða undir lok.“ Varla hefur hinum metnaðargjarna prinsi hugnast að ráða smáu borgríki því að hann þráði að byggja upp víðlent og miðstýrt heimsveldi. Og Alexander hlýtur að hafa verið vantrúaður á þá lífsreglu Aristótelesar að fara með annarra þjóða menn sem þræla, því að hann sá fyrir sér heimsveldi byggt á blómlegri samvinnu sigurvegara og hinna sigruðu.
Lítill vafi leikur þó á að Aristóteles efldi áhuga Alexanders á lestri og lærdómi. Alexander var mikill lestrarhestur alla ævi og hafði sérstakar mætur á verkum Hómers. Sagt er að hann hafi lært Ilíonskviðu utan að — allar 15.693 ljóðlínurnar.
Fræðsla Aristótelesar tók snöggan endi árið 340 f.o.t. þegar hinn 16 ára prins sneri aftur til Pellu til að stjórna Makedóníu í fjarveru föður síns. Og krónprinsinn beið ekki boðanna að vinna sér frægð fyrir hernaðardáðir. Filipposi til ómældrar ánægju barði hann hinn uppreisnargjarna Maedí-ættflokk í Þrakíu til hlýðni. Hann tók aðalborg þeirra í leifturárás og nefndi hana Alexandrópólis eftir sjálfum sér.
ÁFRAMHALDANDI SIGURVINNINGAR
Filippos var ráðinn af dögum árið 336 f.o.t. og erfði Alexander þá hásæti Makedóníu tvítugur að aldri. Hann hélt yfir Hellusund (nú Dardanellasund) til Asíu vorið 334 f.o.t. og hóf sigurför sína með fámennum en dugmiklum her. Í hernum voru 30.000 fótgönguliðar og 5000 riddarar, auk verkfræðinga, landmælingamanna, arkitekta, vísindamanna og sagnaritara.
Alexander vann fyrsta bardaga sinn við Persa við ána Graníkos á norðvesturhorni Litlu-Asíu (nú í Tyrklandi). Um veturinn lagði hann undir sig vesturhluta Litlu-Asíu. Haustið eftir háði hann aðra úrslitaorustu við Persa við Issos í suðaustanverðri Litlu-Asíu. Hinn mikli Persakonungur, Daríus 3., kom til bardaga við hann með um hálfrar milljónar manna her. Svo sigurviss var Daríus að hann kom með móður sína, eiginkonu og aðra ættingja til að verða vitni að stórbrotnum sigri sínum. En ofsi Makedóníumanna og leiftursnögg árás þeirra kom Persum í opna skjöldu. Her Alexanders gersigraði persneska herinn, Daríus flýði og skildi ættmenn sína eftir upp á náð Alexanders.
Í stað þess að reka flóttann hélt Alexander fylktu liði suður með Miðjarðarhafsströnd og lagði undir sig stöðvar hins öfluga persneska flota. En eyborgin Týrus varðist innrás. Alexander var staðráðinn í að vinna hana og hófst þá sjö mánaða umsátur. Það var meðan á umsátrinu stóð sem Daríus gerði honum áðurnefnt friðartilboð. Svo freistandi var tilboðið að Parmeníon, virtur ráðgjafi Alexanders, á að hafa sagt: ‚Væri ég Alexander myndi ég taka boðinu.‘ En hershöfðinginn ungi svaraði um hæl: ‚Það myndi ég líka gera, væri ég Parmeníon.‘ Hann hafnaði öllum samningum, hélt umsátrinu áfram og eyddi hina stoltu drottningu hafsins í júlí árið 332 f.o.t.
Alexander hlífði Jerúsalem, sem gafst upp fyrir honum, og hélt í suðurátt og vann Gasa. Egyptar tóku honum fagnandi sem frelsara, enda þreyttir á yfirráðum Persa. Í Memfis færði hann nautinu Apis fórn og ávann sér hylli egypskra presta. Hann grundvallaði borgina Alexandríu er keppti síðar við Aþenu sem lærdómsmiðstöð og ber enn þann dag í dag nafn hans.
Þessu næst hélt Alexander til norðausturs um Palestínu í átt að Tígris. Árið 331 f.o.t. háði hann þriðju stórorustuna við Persa í Gágamelu, skammt frá molnandi rústum Níníve. Með 47.000 manna her bar hann ofurliði endurskipulagðan her Persa sem var að minnsta kosti 250.000 manns! Daríus lagði á flótta og var síðar myrtur af eigin mönnum.
Í sigurvímu hélt Alexander til suðurs og tók Babýlon, vetrarhöfuðborg Persa. Hann lagði enn fremur undir sig höfuðborgirnar Súsu og Persepólis, lét greipar sópa um gríðarlegar féhirslur Persa og brenndi hina miklu höll Xerxesar. Að lokum féll höfuðborgin Ekbatana fyrir her hans. Hinn hraðfara sigurvegari lagði því næst undir sig það sem eftir var af Persaveldi og fór allt austur til Indusar þar sem nú er Pakistan.
Er Alexander hélt yfir um Indus, við landamæri Taxíluhéraðs í Persíu, mætti hann óárennilegum keppinaut, indverska konunginum Pórosi. Þar háði Alexander sína fjórðu og síðustu stórorustu í júní árið 326 f.o.t. Hermenn Pórosar voru 35.000 og höfðu þeir 200 fíla sem hestar Makedóníumanna fældust. Bardaginn var grimmilegur og blóðugur en her Alexanders vann. Póros gafst upp og gerðist bandamaður Alexanders.
Meira en átta ár voru liðin síðan her Makedóníumanna hélt yfir til Asíu og hermennirnir voru lúnir og haldnir heimþrá. Hinn grimmilegi bardagi við Póros hafði dregið úr þeim kjark og vildu þeir nú snúa heim. Þótt Alexander væri tregur til í fyrstu féllst hann að lokum á ósk þeirra. Grikkland var orðið heimsveldi. Grískar nýlendur höfðu verið stofnaðar í hinum sigruðu löndum og grísk menning og tunga breiddist út um ríkið.
MAÐURINN Á BAK VIÐ SKJÖLDINN
Persóna Alexanders var aflið sem hélt makedónska hernum saman öll þau ár sem sigurvinningarnir stóðu yfir. Eftir bardaga var hann vanur að heimsækja særða, kanna sár þeirra, lofa hermenn fyrir frækilegar dáðir þeirra og heiðra þá með peningagjöfum í samræmi við afrek þeirra. Fallna hermenn lét hann greftra með mikilli viðhöfn. Foreldrar
og börn fallinna voru undanþegin öllum sköttum og skyldum. Að bardögum loknum hélt hann kappleiki og aðra leiki mönnum sínum til dægrastyttingar. Einu sinni veitti hann jafnvel nýlega kvæntum mönnum heimfararleyfi svo að þeir gætu eytt vetrinum með eiginkonum sínum í Makedóníu. Þannig ávann hann sér ást og aðdáun manna sinna.Gríski ævisöguritarinn Plútarkos segir um hjónaband hans og Roxönu prinsessu frá Baktríu: „Það var vissulega sönn ást en virtist samtímis þjóna markmiðum hans. Það gladdi hina sigruðu þjóð að sjá hann velja sér konu af hópi landsmanna, og það kveikti sterka ást á honum að hann, hófsamastur manna, skyldi stilla sig í þeirri einu ástríðu, sem greip hann, uns hann gat fengið hennar með lögmætum og heiðvirðum hætti.“
Alexander virti einnig hjónabönd annarra. Þótt kona Daríusar konungs væri fangi hans sá hann svo um að komið væri sómasamlega fram við hana. Er hann frétti að tveir makedónskir hermenn hefðu svívirt eiginkonur einhverra ókunnugra manna fyrirskipaði hann að þeir skyldu teknir af lífi ef þeir reyndust sekir.
Alexander var mjög trúaður líkt og Ólympías móðir hans. Hann færði fórnir bæði fyrir og eftir bardaga og leitaði ráða hjá spásagnamönnum sínum um merkingu vissra fyrirboða. Hann leitaði ráða véfréttarinnar í Ammon í Líbíu. Og í Babýlon framfylgdi hann fyrirmælum Kaldea um fórnir, einkum til babýlonska guðsins Bels (Mardúks).
Alexander var hófsamur á mat en gerðist óhófsmaður í drykkju er á leið. Hann var að jafnaði langmáll yfir hverjum vínbikar og stærði sig af afrekum sínum. Eitthvert ljótasta verk hans var að myrða Kleitos vin sinn í ölæðiskasti. Svo hart ásakaði hann sig fyrir verknaðinn að hann lá í rúminu í þrjá daga og þáði hvorki mat né drykk. Að lokum tókst vinum hans að telja hann á að matast.
Er tímar liðu braust frægðarlöngun Alexanders fram í öðrum óæskilegum einkennum. Hann fór að leggja trúnað á ósannar ásakanir og refsa mönnum af mikilli hörku. Til dæmis var honum talin trú um að Fílótas væri flæktur í samsæri um að drepa hann og lét þá taka hann af lífi ásamt Parmeníon föður hans, ráðgjafanum sem hann hafði áður borið svo mikið traust til.
ÓSIGUR ALEXANDERS
Skömmu eftir að Alexander sneri aftur til Babýlonar fékk hann malaríu sem dró hann til dauða. Hinn 13. júní árið 323 f.o.t. féll hann fyrir öflugasta óvininum, dauðanum, aðeins 32 ára og 8 mánaða gamall.
Svo fór sem indverskir spekingar höfðu mælt: „Alexander konungur, hver maður á ekki meira land en hann stendur á, og þú ert maður eins og allir aðrir menn, þótt fullur sért af orku og eirir engu. Þú flakkar um alla jörð fjarri heimkynnum þínum, sjálfum þér til angurs og öðrum til hrellingar. En áður en langt um líður muntu deyja, og þá muntu eiga jafnmikið land og þarf til greftrunar þinnar.“
HVAÐ LÆRÐIR ÞÚ?
• Lýstu uppruna Alexanders mikla.
• Í hvaða herför lagði Alexander skömmu eftir að hann erfði hásæti Makedóníu?
• Lýstu helstu sigurvinningum Alexanders.
• Lýstu persónu Alexanders.
[Kort]
(Sjá uppraðaðann texta í bókinni)
LANDVINNINGAR ALEXANDERS
MAKEDÓNÍA
EGYPTALAND
Babýlon
Indus
[Mynd]
Alexander
[Mynd]
[Heilsíðumynd á blaðsíðu 156]
[Mynd]
Minnispeningur sem talinn er bera mynd Alexanders mikla.
[Rammagrein/myndir á blaðsíðu 162, 163]
VÍÐÁTTUMIKIÐ RÍKI SKIPTIST
BIBLÍAN sagði fyrir að ríki Alexanders mikla myndi skiptast „en þó ekki til eftirkomenda hans.“ (Daníel 11:3, 4) Innan 14 ára frá skyndilegu fráfalli hans árið 323 f.o.t. voru Alexander 4., skilgetinn sonur hans, og Herakles, óskilgetinn sonur hans, myrtir.
Árið 301 f.o.t. voru fjórir hershöfðingjar Alexanders teknir við hinu víðáttumikla ríki sem foringi þeirra hafði lagt undir sig. Kassander hershöfðingi réði Makedóníu og Grikklandi. Lýsimakos fékk Litlu-Asíu og Þrakíu. Selevkos 1. Níkator fékk Mesópótamíu og Sýrland. Og Ptólemeos Lagos eða Ptólemeos 1. stjórnaði Egyptalandi og Palestínu. Hið mikla ríki Alexanders skiptist í fjögur hellenísk eða grísk ríki.
Stjórn Kassanders reyndist skammlífust. Fáeinum árum eftir að hann tók við völdum dó karlleggur hans út og árið 285 f.o.t. tók Lýsimakos við völdum í Evrópuhluta gríska heimsveldisins. Fjórum árum síðar féll Lýsimakos í bardaga við Selevkos 1. Níkator sem náði með því yfirráðum yfir stærstum hluta Asíuhéraðanna. Selevkos varð fyrstur konunga af ætt Selevkída í Sýrlandi. Hann grundvallaði Antíokkíu í Sýrlandi og gerði hana að nýrri höfuðborg sinni. Selevkos var ráðinn af dögum árið 281 f.o.t. en konungsættin, sem af honum kom, var við völd fram til ársins 64 f.o.t. þegar rómverski hershöfðinginn Pompejus gerði Sýrland að skattlandi Rómar.
Ríki Ptólemeosar stóð lengst ríkjanna fjögurra sem til urðu af heimsveldi Alexanders. Ptólemeos 1. tók sér konungstitil árið 305 f.o.t. og varð fyrsti konungur eða faraó Egyptalands af makedónskum ættum. Hann gerði Alexandríu að höfuðborg og hófst þegar í stað handa við uppbyggingu hennar. Einhver mesta byggingaframkvæmdin var hið fræga bókasafn Alexandríu. Til að hafa umsjón með þessu mikla verki flutti Ptólemeos frá Grikklandi kunnan Aþening og fræðimann, Demetríos frá Faleron. Sagt er að á fyrstu öld okkar tímatals hafi verið í safninu ein milljón bókrollna. Konungsætt Ptólemea réði Egyptalandi uns það féll í hendur Rómverjum árið 30 f.o.t. Rómaveldi tók þá við af Grikklandi sem ráðandi heimsveldi.
HVAÐ LÆRÐIR ÞÚ?
• Hvernig skiptist hið víðáttumikla heimsveldi Alexanders?
• Hve lengi var ætt Selevkída við völd í Sýrlandi?
• Hvenær leið ríki Ptólemea í Egyptalandi undir lok?
[Kort]
(Sjá uppraðaðann texta í bókinni)
HEIMSVELDI ALEXANDERS SKIPTIST
Kassander
Lýsimakos
Ptólemeos 1.
Selevkos 1.
[Myndir]
Ptólemeos 1.
Selevkos 1.
[Skýringarmynd/mynd á blaðsíðu 139]
(Sjá uppraðaðann texta í bókinni)
HEIMSVELDIN Í SPÁDÓMI DANÍELS
Líkneskið mikla (Daníel 2:31-45)
Dýrin fjögur sem komu upp úr hafinu (Daníel 7:3-8, 17, 25)
BABÝLONÍA frá 607 f.o.t.
MEDÍA-PERSÍA frá 539 f.o.t.
GRIKKLAND frá 331 f.o.t.
RÓM frá 30 f.o.t.
ENSK-AMERÍSKA HEIMSVELDIÐ frá 1763 e.o.t.
STJÓRNMÁLALEGA SUNDRAÐUR HEIMUR á endalokatímanum
[Heilsíðumynd á blaðsíðu 128]
[Heilsíðumynd á blaðsíðu 147]