Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jehóva lofar Daníel stórkostlegum launum

Jehóva lofar Daníel stórkostlegum launum

Átjándi kafli

Jehóva lofar Daníel stórkostlegum launum

1, 2. (a) Hvaða mikilvægan eiginleika þarf hlaupari að hafa til að ná í mark? (b) Hvernig líkti Páll postuli trúfastri ævi í þjónustu Jehóva við skeið eða hlaup?

 HLAUPARI er alveg að koma í mark. Hann er næstum örmagna en markið er svo nærri að hann beitir öllum kröftum í þessum örfáu skrefum sem hann á eftir. Allir vöðvar eru spenntir til hins ítrasta þegar hann hleypur loksins yfir línuna. Honum er augljóslega létt og sigurgleðin leynir sér ekki. Þolgæðið borgaði sig.

2 Við erum komin að lokum 12. kaflans í Daníelsbók og spámaðurinn elskaði er að nálgast markið í „hlaupinu,“ ævi sinni í þjónustu Jehóva. Páll postuli nefnir ýmis góð trúarfordæmi meðal þjóna Jehóva fyrir tíma kristninnar og segir svo: „Fyrst vér erum umkringdir slíkum fjölda votta, léttum þá af oss allri byrði og viðloðandi synd og þreytum þolgóðir skeið það, sem vér eigum framundan. Beinum sjónum vorum til Jesú, höfundar og fullkomnara trúarinnar. Vegna gleði þeirrar, er beið hans, leið hann þolinmóðlega á krossi, mat smán einskis og hefur nú setst til hægri handar hásæti Guðs.“ — Hebreabréfið 12:1, 2.

3. (a) Af hvaða hvötum ‚þreytti Daníel þolgóður skeiðið‘? (b) Hvað þrennt sagði engill Jehóva Daníel?

3 Daníel var einn af þessum „fjölda votta.“ Hann þurfti vissulega að ‚þreyta þolgóður skeiðið,‘ og hvötin, sem að baki bjó, var djúpur kærleikur til Guðs. Jehóva hafði opinberað Daníel margt um framtíð stjórna heims en nú sendi hann honum þessa persónulegu hvatningu: „En þú, gakk áfram til endalokanna, og þú munt hvílast og upp rísa til að taka þitt hlutskipti við endi daganna.“ (Daníel 12:13) Með þessum orðum var engill Jehóva að segja Daníel þrennt: (1) að Daníel ætti að ‚ganga áfram til endalokanna,‘ (2) að hann myndi „hvílast“ og (3) að hann myndi „upp rísa“ í framtíðinni. Hvernig geta þessi orð hvatt kristna menn nú á tímum til að halda þolgóðir áfram í átt að markinu í lífshlaupi sínu?

„GAKK ÁFRAM TIL ENDALOKANNA“

4. Hvað átti engill Jehóva við þegar hann sagði: „Gakk áfram til endalokanna,“ og af hverju kann það að hafa verið viss þraut fyrir Daníel?

4 Hvað átti engillinn við þegar hann sagði Daníel: „En þú, gakk áfram til endalokanna“? Hvaða endalok er átt við? Daníel var næstum tíræður og hér er greinilega átt við ævilok hans sem trúlega voru mjög nærri. * Engillinn var að hvetja hann til að vera trúfastur allt til dauða, þótt það yrði kannski ekki auðvelt. Daníel hafði lifað fall Babýlonar og séð hina útlægu Gyðinga snúa heim til Júda og Jerúsalem. Það hlýtur að hafa veitt hinum aldna spámanni mikla gleði. Ekkert bendir þó til að hann hafi lagt upp í þá langferð. Ef til vill var hann orðinn of gamall og veikburða til þess. Kannski vildi Jehóva líka að hann dveldi áfram í Babýlon. En hvað sem því líður er ekki óeðlilegt að velta fyrir sér hvort Daníel hafi ekki þráð að fara heim til Júda með löndum sínum.

5. Hvað bendir til að Daníel hafi verið þolgóður allt til enda?

5 Orð engilsins: „Gakk áfram til endalokanna,“ hafa vafalaust styrkt Daníel mikið. Kannski koma orð Jesú Krists upp í hugann en hann sagði sex öldum síðar: „Sá sem staðfastur er allt til enda, mun hólpinn verða.“ (Matteus 24:13) Daníel var áreiðanlega staðfastur. Hann var þolgóður til æviloka og hljóp lífshlaupið trúfastur allt til enda. Vera má að það sé ein ástæðan fyrir því að talað er lofsamlega um hann síðar í orði Guðs. (Hebreabréfið 11:32, 33) Hvað gerði Daníel kleift að vera þolgóður allt til enda? Ævisaga hans veitir okkur innsýn í það.

ÞOLGÓÐUR NEMANDI ORÐS GUÐS

6. Hvernig vitum við að Daníel var iðinn nemandi orðs Guðs?

6 Þolgæði Daníels byggðist meðal annars á því að hann rannsakaði og hugleiddi hin hrífandi fyrirheit Guðs að staðaldri. Við vitum að hann var einlægur nemandi orðs Guðs, ella hefði hann ekki vitað af því fyrirheiti Jehóva við Jeremía að útlegðin yrði 70 ára löng. Daníel skrifaði: „Hugði ég . . . í ritningunum að áratölu þeirri.“ (Daníel 9:2; Jeremía 25:11, 12) Eflaust hefur hann leitað uppi þær ritningar sem til voru. Hann hefur átt margar ánægjustundir við að lesa og hugleiða bækur Móse, Davíðs, Salómons, Jesaja, Jeremía og Esekíels — og aðrar bækur sem hann hefur haft aðgang að.

7. Hvernig erum við í betri aðstöðu að rannsaka orð Guðs en Daníel?

7 Þolgæði okkar er undir því komið að við sökkvum okkur niður í nám í orði Guðs. (Rómverjabréfið 15:4-6; 1. Tímóteusarbréf 4:15) Og við höfum Biblíuna alla sem greinir meðal annars frá því hvernig sumir af spádómum Daníels rættust öldum síðar. Auk þess búum við að þeirri blessun að vera uppi „er að endalokunum líður“ sem spáð er um í Daníel 12:4. Hinir smurðu hafa hlotið andlegt innsæi á okkar dögum og þeir skína eins og leiðarljós sannleikans í myrkum heimi. Margir af hinum djúpstæðu spádómum Daníelsbókar hafa þar af leiðandi mjög mikla þýðingu fyrir okkur, spádómar sem voru Daníel sjálfum ráðgáta. Við skulum því halda áfram daglegu biblíunámi og aldrei ganga að öllu þessu sem gefnum hlut. Það getur hjálpað okkur að halda út.

DANÍEL VAR ÞOLGÓÐUR Í BÆNINNI

8. Hvernig fordæmi gaf Daníel í sambandi við bænina?

8 Bænin hjálpaði Daníel að halda út allt til enda. Daglega leitaði hann til Jehóva Guðs og talaði opinskátt við hann. Hjarta hans var fullt trúar og trausts. Hann vissi að Jehóva „heyrir bænir.“ (Sálmur 65:3; samanber Hebreabréfið 11:6.) Þegar Daníel var hryggur í hjarta vegna uppreisnargirni Ísraels úthellti hann tilfinningum sínum fyrir Jehóva. (Daníel 9:4-19) Hann hætti ekki einu sinni að biðja til Jehóva Guðs þegar Daríus gaf út þá tilskipun að ekki mætti biðja til neins nema sín í 30 daga. (Daníel 6:11) Snertir það ekki hjartað að sjá fyrir sér hinn trúfasta, aldurhnigna mann sem lætur ekki tilhugsunina um ljónagryfjuna aftra sér að nota hið dýrmæta bænasamband? Það leikur enginn vafi á að Daníel gekk trúfastur áfram til endaloka sinna og bað innilega til Jehóva dag hvern.

9. Af hverju megum við aldrei líta á bænina sem sjálfsagðan hlut?

9 Bæn er einföld athöfn. Við getum beðið nánast hvar sem er og hvenær sem er, upphátt eða í hljóði. En aldrei skulum við láta eins og þessi dýrmætu sérréttindi séu lítils virði. Biblían tengir bæn við þolgæði, þrautseigju og andlega árvekni. (Lúkas 18:1; Rómverjabréfið 12:12; Efesusbréfið 6:18; Kólossubréfið 4:2) Er ekki ótrúlegt að við skulum eiga ótakmarkaðan aðgang að æðstu tignarpersónu alheimsins? Og hann hlustar! Manstu þegar Daníel baðst fyrir og Jehóva sendi engil til hans? Daníel var enn að biðjast fyrir þegar engillinn kom! (Daníel 9:20, 21) Jehóva hefur ekki breyst þótt hann svari kannski ekki bænum manna nú á tímum með því að senda engla til þeirra. (Malakí 3:6) Hann hlustar á bænir okkar alveg eins og hann heyrði bænir Daníels. Og þegar við biðjumst fyrir myndum við tengsl við Jehóva sem hjálpa okkur að vera þolgóð allt til enda eins og Daníel.

ÞOLGÓÐIR KENNARAR ORÐS GUÐS

10. Hvers vegna var það mikilvægt fyrir Daníel að kenna orð Guðs?

10 Daníel þurfti að ‚ganga áfram til endalokanna‘ í öðrum skilningi. Hann þurfti að vera þolgóður kennari sannleikans. Hann gleymdi aldrei að hann tilheyrði útvalinni þjóð sem Ritningin hafði sagt um: „Þér eruð mínir vottar, segir [Jehóva], og minn þjónn, sem ég hefi útvalið.“ (Jesaja 43:10) Daníel gerði allt sem hann gat til að gegna þessu hlutverki. Líklegt er að hann hafi meðal annars haft það starf að kenna löndum sínum í útlegðinni í Babýlon. Við vitum fátt um samskipti hans við aðra Gyðinga, að undanskildum þeim Hananja, Mísael og Asarja sem kallaðir eru „félagar hans.“ (Daníel 1:7; 2:13, 17, 18) Náin vinátta þeirra hefur örugglega átt drjúgan þátt í þolgæði þeirra allra. (Orðskviðirnir 17:17) Daníel hefur haft margt að kenna vinum sínum, enda veitti Jehóva honum sérstakan skilning. (Daníel 1:17) En hann þurfti líka að sinna annarri kennslu.

11. (a) Að hvaða leyti var starf Daníels einstakt? (b) Hvernig leysti Daníel þetta óvenjulega verkefni af hendi?

11 Daníel bar meira vitni fyrir heiðnum tignarmönnum en nokkur annar spámaður. Oft þurfti hann að flytja þessum valdhöfum óvinsælan boðskap, en aldrei kom hann þó fram við þá eins og hann hefði viðbjóð á þeim eða þeir væru á einhvern hátt óæðri en hann. Hann talaði við þá af virðingu og kunnáttu. Sumir vildu koma honum fyrir kattarnef, þeirra á meðal hinir öfundsjúku jarlar sem gerðu samsæri gegn honum. En aðrir tignarmenn virtu hann mikils. Daníel komst til mikilla mannvirðinga sökum þess að Jehóva gerði hann færan um að ljúka upp leyndardómum sem voru konungum og vitringum ráðgáta. (Daníel 2:47, 48; 5:29) Auðvitað gat hann ekki verið jafnathafnasamur á elliárunum og hann var á yngri árum, en hann hélt áfram að þjóna trúfastur allt til dauðadags sem vottur síns ástkæra Guðs, hvernig sem hann gat.

12. (a) Hvaða kennslu sinna kristnir menn nú á dögum? (b) Hvernig getum við fylgt ráðleggingu Páls um að ‚umgangast viturlega þá sem fyrir utan eru‘?

12 Í kristna söfnuðinum nú á tímum eigum við okkur trúfasta félaga sem hjálpa okkur að halda út alveg eins og Daníel og félagar hans þrír hjálpuðu hver öðrum. Við kennum líka hver öðrum og ‚uppörvumst saman.‘ (Rómverjabréfið 1:11, 12) Eins og Daníel höfum við það verkefni að bera vitni fyrir vantrúuðum. (Matteus 24:14; 28:19, 20) Við þurfum því að brýna okkur svo að við ‚förum rétt með orð sannleikans‘ þegar við tölum við fólk um Jehóva. (2. Tímóteusarbréf 2:15) Og það er gagnlegt fyrir okkur að fara eftir ráðum Páls postula: „Umgangist viturlega þá, sem fyrir utan eru.“ (Kólossubréfið 4:5) Þessi viturlega umgengni birtist meðal annars í því að vera öfgalaus í afstöðu okkar til þeirra sem eru annarrar trúar. Við hvorki lítum niður á þá né teljum okkur yfir þá hafna, heldur gerum við okkur far um að laða þá að sannleikanum og beitum orði Guðs háttvíslega en fagmannlega til að ná til hjarta þeirra. (1. Pétursbréf 3:15, 16) Við höfum mikla ánægju af því að ná til einhvers, og þessi ánægja hjálpar okkur að halda út allt til enda eins og Daníel gerði.

„ÞÚ MUNT HVÍLAST“

13, 14. Af hverju stóð Babýloníumönnum ógn af dauðanum en hvernig hugsaði Daníel?

13 Þessu næst sagði engillinn við Daníel: „Þú munt hvílast.“ (Daníel 12:13) Hvað felst í þessum orðum? Daníel vissi að dauðinn beið hans. Dauðinn hefur verið óumflýjanleg endalok allra manna allt frá Adam til okkar daga. Biblían kallar dauðann réttilega ‚óvin.‘ (1. Korintubréf 15:26) En Daníel hugsaði allt öðruvísi um dauðann heldur en Babýloníumennirnir umhverfis hann. Guðsdýrkun þeirra var flókin, falsguðirnir um 4000 og í huga þeirra voru alls konar ógnir samfara dauðanum. Þeir trúðu að fólk, sem hefði verið óhamingjusamt í lifanda lífi eða dáið voveiflega, breyttist eftir dauðann í hefnigjarna anda sem ásæktu hina lifandi. Babýloníumenn trúðu einnig á ógnvekjandi undirheima þar sem bjuggu ógurleg skrímsli í líki manna og dýra.

14 Í huga Daníels var dauðinn ekkert slíkt. Öldum fyrir daga hans hafði Salómon konungur sagt vegna innblásturs frá Guði: „Hinir dauðu vita ekki neitt.“ (Prédikarinn 9:5) Og sálmaritarinn hafði sungið um þá sem deyja: „Andi þeirra líður burt, þeir verða aftur að jörðu, á þeim degi verða áform þeirra að engu.“ (Sálmur 146:4) Daníel vissi því að orð engilsins við sig voru sönn. Dauðinn var hvíld. Eftir dauðann voru engar hugsanir, engin bitur eftirsjá, engin kvöl — og vissulega engin skrímsli. Jesús Kristur lýsti dauðanum svipað þegar Lasarus dó. Hann sagði: „Lasarus, vinur vor, er sofnaður.“ — Jóhannes 11:11.

15. Hvernig má segja að dauðadagur sé betri en fæðingardagur?

15 Það var önnur ástæða fyrir því að Daníel stóð engin ógn af dauðanum. Orð Guðs segir: „Betra er gott mannorð en góð ilmsmyrsl og dauðadagur betri en fæðingardagur.“ (Prédikarinn 7:1) Hvernig gat dauðadagur, sem var auðvitað sorgardagur, verið betri en gleðilegur fæðingardagur? Það er ‚mannorðið‘ sem ræður. „Góð ilmsmyrsl“ gátu verið óhemjudýr. María, systir Lasarusar, smurði fætur Jesú einu sinni með ilmsmyrslum sem kostuðu næstum árslaun! (Jóhannes 12:1-7) Hvernig gat mannorð verið svona verðmætt? Við fæðingu á maðurinn sér ekkert mannorð, hann hefur ekki getið sér orð fyrir nein góð verk, og það eru engar kærar minningar um persónuleika hans og eiginleika. En við ævilokin liggur allt þetta fyrir. Og sé mannorð hans gott í augum Guðs, þá er það miklu dýrmætara en efnislegar eigur geta nokkurn tíma verið.

16. (a) Hvernig leitaðist Daníel við að ávinna sér gott mannorð hjá Guði? (b) Af hverju gat Daníel lagst til hvíldar í þeirri vissu að sér hefði tekist að ávinna sér gott mannorð hjá Jehóva?

16 Alla ævi gerði Daníel sitt ítrasta til að ávinna sér gott mannorð hjá Jehóva Guði og Jehóva sást ekki yfir neitt af því. Hann fylgdist með Daníel og rannsakaði hjarta hans. Það hafði hann líka gert við Davíð konung sem söng: „[Jehóva], þú rannsakar og þekkir mig. Hvort sem ég sit eða stend, þá veist þú það, þú skynjar hugrenningar mínar álengdar.“ (Sálmur 139:1, 2) Daníel var auðvitað ekki fullkominn. Hann var afkomandi syndarans Adams og tilheyrði syndugri þjóð. (Rómverjabréfið 3:23) En hann iðraðist synda sinna og reyndi sitt besta til að ganga ráðvandur með Guði. Hinn trúfasti spámaður gat því treyst að Jehóva fyrirgæfi syndir hans og erfði þær ekki við hann. (Sálmur 103:10-14; Jesaja 1:18) Jehóva kýs að muna eftir góðum verkum trúfastra þjóna sinna. (Hebreabréfið 6:10) Þess vegna talaði engill Jehóva tvívegis um Daníel sem ‚ástmög Guðs.‘ (Daníel 10:11, 19) Guði þótti sem sagt afar vænt um hann. Daníel gat lagst til hvíldar í þeirri vissu að hann hefði áunnið sér gott mannorð hjá Jehóva.

17. Af hverju er áríðandi fyrir okkur að ávinna okkur gott mannorð hjá Jehóva?

17 Við getum öll spurt okkur hvort við höfum áunnið okkur gott mannorð hjá Jehóva. Við lifum á ólgutímum. Það er ekki bölsýni heldur hreinlega raunsæi að horfast í augu við þá staðreynd að við getum orðið dauðanum að bráð hvenær sem er. (Prédikarinn 9:11) Það er því mikilvægt að við séum, hvert og eitt, staðráðin í að ávinna okkur gott mannorð hjá Guði þegar í stað. Ef við gerum það þurfum við ekki að óttast dauðann. Hann er bara hvíld eins og svefninn. Og menn vakna af dauðanum síðar líkt og af svefni.

‚ÞÚ MUNT UPP RÍSA‘

18, 19. (a) Hvað átti engillinn við þegar hann boðaði Daníel að hann myndi „upp rísa“ í framtíðinni? (b) Af hverju hlýtur Daníel að hafa þekkt upprisuvonina?

18 Daníelsbók lýkur með einhverju fegursta fyrirheiti sem Guð hefur gefið manni. Engill hans sagði Daníel: „Þú munt . . . upp rísa til að taka þitt hlutskipti við endi daganna.“ Hvað átti engillinn við? Þar eð ‚hvíldin,‘ sem hann nefndi rétt á undan, var dauðinn getur það loforð að Daníel skyldi „upp rísa“ aðeins merkt eitt — upprisu frá dauðum. * Sumir fræðimenn segja reyndar að fyrsta afdráttarlausa yfirlýsing Hebresku ritninganna um upprisu sé í 12. kafla Daníelsbókar. (Daníel 12:2) En það er misskilningur því að Daníel þekkti vel til upprisuvonarinnar.

19 Daníel þekkti eflaust þessi orð sem Jesaja hafði skráð nokkrum öldum áður: „Menn þínir, sem dánir eru, skulu lifna, lík þeirra rísa upp. Vaknið og hefjið fagnaðarsöng, þér sem búið í duftinu, því að . . . jörðin skal fæða þá, sem dauðir eru.“ (Jesaja 26:19) Löngu áður hafði Jehóva gefið þeim Elía og Elísa kraft til að reisa upp dána. (1. Konungabók 17:17-24; 2. Konungabók 4:32-37) Og enn áður hafði Hanna, móðir spámannsins Samúels, viðurkennt að Jehóva er fær um að reisa fólk upp frá Helju eða gröfinni. (1. Samúelsbók 2:6) Löngu fyrir þann tíma hafði hinn trúfasti Job látið sína eigin von í ljós með þessum orðum: „Þegar maðurinn deyr, lifnar hann þá aftur? þá skyldi ég þreyja alla daga herþjónustu minnar, þar til er lausnartíð mín kæmi. Þú mundir kalla, og ég — ég mundi svara þér, þú mundir þrá verk handa þinna.“ — Jobsbók 14:14, 15.

20, 21. (a) Hvaða upprisu fær Daníel örugglega hlutdeild í? (b) Hvernig er líklegt að upprisan í paradís eigi sér stað?

20 Líkt og Job hafði Daníel ástæðu til að treysta að Jehóva myndi þrá að lífga hann aftur einhvern tíma í framtíðinni. Engu að síður hlýtur það að hafa verið ákaflega hughreystandi að heyra volduga andaveru staðfesta þessa von. Já, Daníel mun rísa upp í „upprisu réttlátra“ sem á sér stað í þúsundáraríki Krists. (Lúkas 14:14) Hvernig verður það fyrir Daníel? Orð Guðs segir okkur margt um það.

21 Jehóva er „ekki Guð truflunarinnar, heldur friðarins.“ (1. Korintubréf 14:33) Það er því ljóst að upprisan í paradís fer fram með skipulegum hætti. Kannski verður einhver tími liðinn frá stríðinu við Harmagedón. (Opinberunarbókin 16:14, 16) Allar menjar hins gamla heimskerfis hafa verið afmáðar og eflaust búið í haginn fyrir endurkomu hinna dánu. Um það í hvaða röð dánir snúi aftur er að finna fordæmi í Biblíunni: „Sérhver í sinni röð.“ (1. Korintubréf 15:23) Ætla má að réttlátir verði reistir upp fyrstir í ‚upprisu réttlátra og ranglátra.‘ (Postulasagan 24:15) Þá geta trúfastir menn fortíðar, líkt og Daníel, aðstoðað við stjórn mála á jörðinni, þar á meðal við fræðslu þeirra milljarðra ‚ranglátu‘ manna sem lífgaðir verða. — Sálmur 45:17.

22. Nefndu dæmi um það sem Daníel mun eflaust spyrja um.

22 Daníel vill örugglega spyrja ýmissa spurninga áður en hann er tilbúinn til að axla slíka ábyrgð. Þegar öllu er á botninn hvolft sagði hann um suma þeirra torræðu spádóma sem honum var trúað fyrir: „Ég heyrði þetta, en skildi það ekki.“ (Daníel 12:8) Hann verður stórhrifinn að fá loksins að skilja þessa leyndardóma Guðs. Eflaust fýsir hann að vita allt um Messías. Daníel fræðist hugfanginn um göngu heimsveldanna allt frá sinni tíð fram til okkar daga, um ‚hina heilögu Hins hæsta‘ — sem gáfust ekki upp þrátt fyrir ofsóknir á endalokatímanum — og um endanlega eyðingu allra ríkja mannanna fyrir atbeina Messíasarríkis Guðs. — Daníel 2:44; 7:22; 12:4.

HLUTSKIPTI DANÍELS — OG ÞITT — Í PARADÍS

23, 24. (a) Hvernig verður sá heimur, sem Daníel rís upp í, ólíkur þeim sem hann þekkti? (b) Er Daníel ætlaður staður í paradís og hvernig vitum við það?

23 Daníel spyrst eflaust fyrir um heiminn sem hann er risinn upp í — sem er svo ólíkur heiminum eins og hann þekkti hann. Allar menjar þeirra styrjalda og kúgunar, sem spilltu heiminum í hans tíð, verða horfnar. Þar verður engin sorg, engir sjúkdómar og enginn dauði. (Jesaja 25:8; 33:24) Þar verða hins vegar gnóttir matar, nægilegt húsnæði og ánægjuleg störf handa öllum. (Sálmur 72:16; Jesaja 65:21, 22) Mannkynið verður ein sameinuð, hamingjusöm fjölskylda.

24 Daníel er örugglega ætlaður staður í þessum nýja heimi. „Þú munt . . . upp rísa til að taka þitt hlutskipti,“ sagði engillinn honum. Hebreska orðið, sem þýtt er „hlutskipti,“ er einnig notað um landspildu. * Daníel kann að hafa þekkt spádóm Esekíels um skiptingu hins endurreista Ísraelslands. (Esekíel 47:13–48:35) Hvað gefur spádómur Esekíels til kynna um paradísaruppfyllingu sína? Að öllum þjónum Guðs sé ætlaður staður í paradís og að landinu verði meira að segja skipt skipulega og réttlátlega. Hlutskipti Daníels í paradís verður auðvitað meira en landspilda. Hann mun gegna ákveðnu hlutverki í tilgangi Guðs þar og launin, sem honum eru heitin, eru gulltryggð.

25. (a) Hvað höfðar sérstaklega til þín í sambandi við paradís? (b) Af hverju má segja að menn eigi heima í paradís?

25 En hvert verður hlutskipti þitt? Þessi sömu fyrirheit geta náð til þín. Jehóva vill að hlýðnir menn ‚rísi upp‘ og taki hlutskipti sitt í paradís. Hugsaðu þér hversu spennandi það verður að hitta Daníel í eigin persónu ásamt öðrum trúföstum körlum og konum frá biblíutímanum. Og ótalmargir aðrir rísa upp frá dauðum sem þarf að kenna svo að þeir geti kynnst Jehóva Guði og elskað hann. Sjáðu sjálfan þig í huganum annast jörðina og eiga þátt í að breyta henni í paradís þar sem fjölbreytnin er óendanleg og fegurðin ódauðleg. Hugsaðu þér að fá kennslu frá Jehóva og læra að lifa eins og hann ætlaði mannkyninu að lifa. (Jesaja 11:9; Jóhannes 6:45) Já, þér er ætlaður staður í paradís. Þó svo að sumum þyki kannski undarlegt að hugsa um paradís er rétt að hafa í huga að Jehóva ætlaði manninum frá upphafi að búa á slíkum stað. (1. Mósebók 2:7-9) Í þeim skilningi er paradís kjörlendi þeirra milljarða manna sem byggja jörðina. Þeir eiga heima þar. Að komast í paradís verður eins og að koma heim.

26. Hvernig viðurkennir Jehóva að það sé ekki auðvelt fyrir okkur að bíða eftir endalokum þessa heimskerfis?

26 Er ekki hjarta okkar barmafullt af þakklæti þegar við hugsum um allt þetta? Þráir þú ekki að vera í paradís? Þá er ekkert undarlegt að vottar Jehóva skuli brenna í skinninu að vita hvenær þetta heimskerfi líður undir lok. Biðin er ekki auðveld. Jehóva veit það því að hann hvetur okkur til að ‚vænta‘ endalokanna ‚þótt þau dragist.‘ Hann á við það að okkur getur fundist endalokin dragast því að í sama versi erum við fullvissuð um að þau muni „ekki undan líða,“ það er að segja ekki seinka. (Habakkuk 2:3; samanber Orðskviðina 13:12.) Endirinn kemur nákvæmlega á tilsettum tíma.

27. Hvað þarftu að gera til að standa að eilífu frammi fyrir Guði?

27 Hvað átt þú að gera þegar endirinn nálgast? Vertu trúfastur og þolgóður eins og Daníel, spámaður Jehóva. Vertu iðinn biblíunemandi. Vertu bænrækinn. Eigðu gott samband við trúbræður þína. Vertu kostgæfinn að kenna öðrum sannleikann. Endir þessa illa heimskerfis nálgast með degi hverjum. Vertu því staðráðinn í að vera hollur þjónn hins hæsta og dyggur málsvari orðs hans. Gefðu fyrir alla muni gaum að spádómi Daníelsbókar. Og megi alvaldur Drottinn Jehóva veita þér þau sérréttindi að standa fagnandi frammi fyrir sér um alla eilífð!

[Neðanmáls]

^ gr. 4 Daníel var fluttur í útlegð til Babýlonar árið 617 f.o.t., trúlega á táningsaldri. Hann sá þessa sýn á þriðja stjórnarári Kýrusar, árið 536 f.o.t. — Daníel 10:1.

^ gr. 18 Samkvæmt orðabókinni The Brown-Driver-Briggs Hebrew and English Lexicon vísar hebreska orðið, sem hér er þýtt „rísa,“ til „endurlífgunar eftir dauðann.“

^ gr. 24 Hebreska orðið er skylt orði sem merkir „steinvala“ en þær voru notaðar til að varpa hlutkesti. Landi var stundum skipt með hlutkesti. (4. Mósebók 26:55, 56) Bókin A Handbook on the Book of Daniel segir að orðið merki „það sem tekið er frá (af Guði) handa manni.“

HVAÐ LÆRÐIR ÞÚ?

Hvað hjálpaði Daníel að vera þolgóður allt til enda?

Af hverju stóð Daníel ekki ógn af dauðanum?

Hvernig rætist loforð engilsins um að Daníel ‚rísi upp og taki hlutskipti sitt‘?

Hvaða gagn hefur þú haft af því að gefa gaum að spádómi Daníelsbókar?

[Spurningar]

[Heilsíðumynd á blaðsíðu 307]

[Mynd á blaðsíðu 318]

Gefur þú gaum að spádómsorði Guðs eins og Daníel?