Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Risalíkneski rís og fellur

Risalíkneski rís og fellur

Fjórði kafli

Risalíkneski rís og fellur

1. Af hverju ættum við að hafa áhuga á stöðu sem upp kom áratug eftir að Nebúkadnesar konungur tók Daníel og fleiri herfangi?

 ÁRATUGUR er liðinn síðan Nebúkadnesar konungur flutti Daníel og aðra „höfðingja“ Júda í ánauð til Babýlonar. (2. Konungabók 24:15) Hinn ungi Daníel þjónar við hirð konungs þegar lífshættulegt ástand skapast. Hvers vegna varðar okkur um það? Vegna þess að íhlutun Jehóva Guðs bjargar lífi Daníels og annarra og gefur okkur jafnframt innsýn í göngu þeirra heimsvelda, sem biblíuspádómarnir fjalla um, allt fram á okkar daga.

EINVALDUR Í VANDA

2. Hvenær dreymdi Nebúkadnesar fyrri spádómlega drauminn?

2 „Á öðru ríkisári Nebúkadnesars dreymdi Nebúkadnesar draum, og varð honum órótt í skapi og mátti eigi sofa,“ skrifar Daníel. (Daníel 2:1) Nebúkadnesar var konungur babýlonska heimsveldisins. Segja má að hann hafi orðið heimsstjórnandi árið 607 f.o.t. þegar Jehóva Guð leyfði honum að eyða Jerúsalemborg og musteri hennar. Á öðru árinu, sem Nebúkadnesar var heimsstjórnandi (606/605 f.o.t.), lét Guð hann dreyma draum sem skelfdi hann.

3. Hverjir megnuðu ekki að ráða draum konungs og hvernig brást hann við?

3 Nebúkadnesar er svo órótt vegna draumsins að hann verður andvaka. Sem eðlilegt er vill hann vita hvað draumurinn merkir. En hinn voldugi konungur hefur gleymt draumnum! Hann kallar því til sín spásagnamenn, særingamenn og galdramenn Babýlonar og krefst þess að þeir segi sér drauminn og ráði hann. Það reynist þeim ofraun og Nebúkadnesar reiðist svo að hann fyrirskipar að ‚taka skuli af lífi alla vitringa í Babýlon.‘ Samkvæmt þessari tilskipun skyldi Daníel spámaður einnig leiddur til aftöku. Af hverju? Af því að hann og hinir þrír hebresku félagar hans — þeir Hananja, Mísael og Asarja — eru taldir til vitringa Babýlonar. — Daníel 2:2-14.

DANÍEL KEMUR TIL BJARGAR

4. (a) Hvernig komst Daníel að efni draumsins og þýðingu hans? (b) Hvernig þakkaði Daníel Jehóva Guði?

4 Eftir að Daníel kemst á snoðir um ástæðuna fyrir þessari hörðu tilskipun Nebúkadnesars ‚gengur hann upp til konungs og biður hann gefa sér frest, að hann megi kunngera konungi þýðinguna.‘ Konungur veitir honum frest. Daníel gengur heim að húsi sínu og ásamt vinum sínum þrem biður hann „Guð himinsins líknar um leyndardóm þennan.“ Þessa sömu nótt opinberar Jehóva Daníel leyndardóm draumsins í sýn. Fullur þakklætis segir Daníel: „Lofað veri nafn Guðs frá eilífð til eilífðar, því að hans er viskan og mátturinn. Hann breytir tímum og tíðum, hann rekur konunga frá völdum og hann setur konunga til valda, hann gefur spekingunum speki og hinum hyggnu hyggindi. Hann opinberar hina dýpstu og huldustu leyndardóma, hann veit, hvað í myrkrinu gjörist, og ljósið býr hjá honum.“ Daníel lofar Jehóva fyrir þennan skilning. — Daníel 2:15-23.

5. (a) Hvernig gaf Daníel Jehóva heiðurinn frammi fyrir konungi? (b) Af hverju er skýring Daníels áhugaverð fyrir okkur?

5 Daginn eftir gengur Daníel á fund Arjóks lífvarðarforingja sem hefur verið falið að lífláta vitringana í Babýlon. Þegar Arjók heyrir að Daníel geti ráðið drauminn leiðir hann hann í skyndi fyrir konung. Daníel eignar sjálfum sér ekki heiðurinn heldur segir konungi: „Sá Guð er á himnum, sem opinberar leynda hluti, og hann hefir kunngjört Nebúkadnesar konungi það, er verða mun á hinum síðustu dögum.“ Daníel er bæði reiðubúinn að opinbera framtíð babýlonska heimsveldisins og lýsa megindráttum veraldarsögunnar allt frá dögum Nebúkadnesars og fram yfir okkar tíma. — Daníel 2:24-30.

DRAUMURINN RIFJAÐUR UPP

6, 7. Hvernig var draumurinn sem Daníel rifjaði upp fyrir konungi?

6 Nebúkadnesar hlustar með athygli þegar Daníel tekur til máls: „Þú horfðir fram fyrir þig, konungur, og stóð þar líkneski mikið. Líkneski þetta var stórt og yfirtaks-ljómandi. Það stóð frammi fyrir þér og var ógurlegt ásýndum. Höfuð líkneskis þessa var af skíru gulli, brjóstið og armleggirnir af silfri, kviðurinn og lendarnar af eiri, leggirnir af járni, fæturnir sums kostar af járni, sums kostar af leir. Þú horfðir á það, þar til er steinn nokkur losnaði, án þess að nokkur mannshönd kæmi við hann. Hann lenti á fótum líkneskisins, sem voru af járni og leir, og molaði þá. Þá muldist sundur í sama bili járnið, leirinn, eirinn, silfrið og gullið, og varð eins og sáðir á sumarláfa, vindurinn feykti því burt, svo að þess sá engan stað. En steinninn, sem lenti á líkneskinu, varð að stóru fjalli og tók yfir alla jörðina.“ — Daníel 2:31-35.

7 Nebúkadnesar hlýtur að hafa verið himinlifandi að heyra Daníel segja sér drauminn! En bíðum við — vitringum Babýlonar yrði því aðeins þyrmt að Daníel réði líka drauminn. Daníel talar fyrir sjálfan sig og hina Hebreana þrjá er hann segir: „Þetta er draumurinn, og nú viljum vér segja konunginum þýðing hans.“ — Daníel 2:36.

RÍKI SEM BER AF ÖÐRUM

8. (a) Hver eða hvað var gullhöfuðið að sögn Daníels? (b) Hvenær varð gullhöfuðið til?

8 „Þú, konungur, yfirkonungur konunganna, sem Guð himnanna hefir gefið ríkið, valdið, máttinn og tignina, þú, sem hann hefir mennina á vald selt, hvar svo sem þeir búa, dýr merkurinnar og fugla himinsins, og sett þig drottnara yfir því öllu, — þú ert gullhöfuðið.“ (Daníel 2:37, 38) Þessi orð áttu við Nebúkadnesar eftir að Jehóva hafði notað hann til að eyða Jerúsalem árið 607 f.o.t., vegna þess að konungarnir, sem sátu í Jerúsalem, voru af ætt Davíðs, hins smurða konungs Jehóva. Jerúsalem var höfuðborg Júda, ríkisins sem táknaði drottinvald Jehóva Guðs yfir jörðinni. Þegar borgin var eydd árið 607 f.o.t. leið þetta táknræna ríki Guðs undir lok. (1. Kroníkubók 29:23; 2. Kroníkubók 36:17-21) Heimsveldin, sem þá tóku við og hinir ýmsu hlutar líkneskisins táknuðu, gátu nú farið með heimsyfirráð án íhlutunar af hálfu táknræns ríkis Guðs. Gull var dýrasti málmurinn í fornöld og Nebúkadnesar, gullhöfuð líkneskisins, naut þeirrar sérstöðu að hafa unnið þetta ríki með því að eyða Jerúsalem. — Sjá rammagreinina „Herkonungur byggir upp heimsveldi,“ á bls. 63.

9. Hvað táknaði gullhöfuðið?

9 Nebúkadnesar ríkti í 43 ár og var höfuð konungsættarinnar sem stjórnaði babýlonska heimsveldinu. Af ætt hans voru tengdasonurinn Nabónídus og elsti sonurinn Evíl Meródak. Þessi konungsætt var við völd í 43 ár til viðbótar, allt þar til Belsasar, sonur Nabónídusar, féll árið 539 f.o.t. (2. Konungabók 25:27; Daníel 5:30) Gullhöfuð líkneskisins í draumnum táknaði því ekki aðeins Nebúkadnesar heldur alla konungsætt Babýlonar meðan hún var við völd.

10. (a) Hvernig kom fram í draumi Nebúkadnesars að babýlonska heimsveldið myndi ekki standa til frambúðar? (b) Hverju spáði Jesaja um sigurvegara Babýlonar? (c) Í hvaða skilningi stóð Medía-Persía Babýlon að baki?

10 Daníel sagði Nebúkadnesar: „Eftir þig mun hefjast annað konungsríki, minni háttar en þitt er.“ (Daníel 2:39) Ríki þetta, táknað með brjósti og armleggjum úr silfri, tæki við af konungsætt Nebúkadnesars. Um 200 árum áður hafði Jesaja spáð um þetta ríki og meira að segja nafngreint hinn sigursæla konung þess — Kýrus. (Jesaja 13:1-17; 21:2-9; 44:24–45:7, 13) Þetta var medísk-persneska heimsveldið. Þótt sú mikla menning, sem þróaðist í Medíu-Persíu, hafi ekki verið síðri en menning Babýloníuveldis var þetta ríki táknað með silfri sem er verðminni málmur en gull. Medísk-persneska ríkið stóð Babýloníuveldi að baki að því leyti að það naut ekki þeirrar sérstöðu að hafa unnið hið táknræna ríki Guðs, Júda, og höfuðborgina Jerúsalem.

11. Hvenær leið konungsætt Nebúkadnesars undir lok?

11 Um 60 árum eftir að Daníel réð drauminn varð hann vitni að endalokum konungsættar Nebúkadnesars. Daníel var á staðnum nóttina 5./6. október árið 539 f.o.t. þegar her Meda og Persa vann Babýlon, borgina ósigrandi, og tók Belsasar konung af lífi. Með dauða Belsasars hvarf gullhöfuð líkneskisins — heimsveldið Babýlon — af sjónarsviðinu.

ÚTLÆG ÞJÓÐ FRELSUÐ

12. Hvernig var tilskipun Kýrusar árið 537 f.o.t. hinum útlægu Gyðingum til hagsbóta?

12 Medía-Persía tók við af Babýlon sem heimsveldi árið 539 f.o.t. Daríus frá Medíu var fyrsti konungur hinnar sigruðu Babýlonar, 62 ára að aldri. (Daníel 5:30; 6:1) Þeir Kýrus Persakonungur fóru sameiginlega með völd yfir medísk-persneska heimsveldinu um skamma hríð. Eftir að Daríus lést sat Kýrus einn að völdum í Persaveldi. Fyrir Gyðinga í Babýlon var Kýrus boðberi lausnar úr ánauð. Árið 537 f.o.t. gaf hann út tilskipun þess efnis að útlægir Gyðingar í Babýlon mættu snúa heim til ættlands síns og endurreisa Jerúsalem og musteri Jehóva. En hið táknræna ríki Guðs var ekki endurreist í Júda og Jerúsalem. — 2. Kroníkubók 36:22, 23; Esrabók 1:1-2:2a.

13. Hvað táknaði silfurbrjóst og armleggir líkneskisins í draumi Nebúkadnesars?

13 Silfurbrjóst og armleggir líkneskisins í draumnum táknaði persneska konunga frá og með Kýrusi mikla. Sú konungsætt réði ríkjum í rösklega 200 ár. Kýrus er talinn hafa látist í herför árið 530 f.o.t. Af einum 12 konungum Persaveldis eftir hann voru að minnsta kosti 2 hliðhollir útvalinni þjóð Jehóva. Annar þeirra var Daríus 1. (Persakonungur) og hinn var Artaxerxes 1.

14, 15. Hvernig lögðu Daríus mikli og Artaxerxes 1. Gyðingum lið?

14 Daríus 1. var þriðji konungurinn eftir Kýrus mikla. Hinir tveir á undan honum voru Kambýses 2. og Bardía bróðir hans (eða ef til vill spásagnaprestur og svikari að nafni Gaumata). Þegar Daríus 1., einnig kallaður Daríus mikli, tók við völdum árið 521 f.o.t. hafði verið sett lögbann við endurbyggingu musterisins í Jerúsalem. Daríus fann skjal með úrskurði Kýrusar í skjalasafninu í Ahmeta (Ekbatana) árið 520 f.o.t., aflétti banninu og veitti fé úr hinni konunglegu fjárhirslu til endurbyggingarinnar. — Esrabók 6:1-12.

15 Næsti valdhafi Persa, sem studdi endurreisnarstarf Gyðinga, var Artaxerxes 1. (Artahsasta) sem tók við völdum af föður sínum, Ahasverusi (Xerxesi 1.), árið 475 f.o.t. Artaxerxes hafði viðurnefnið Longimanus af því að hægri höndin var lengri en sú vinstri. Árið 455 f.o.t., á 20. stjórnarári sínu, skipaði hann Nehemía byrlara sinn landstjóra í Júda og fól honum að endurreisa múra Jerúsalemborgar. Með tilskipun hans hófust ‚áravikurnar sjötíu‘ sem greint er frá í 9. kafla Daníelsbókar og tímasetja komu og dauða Messíasar eða Krists, Jesú frá Nasaret. — Daníel 9:24-27; Nehemíabók 1:1; 2:1-18.

16. Hvenær og með hvaða konungi leið medísk-persneska heimsveldið undir lok?

16 Daríus 3. var síðastur sex konunga á eftir Artaxerxesi 1. í Persaveldi. Seta hans tók snöggan endi árið 331 f.o.t. þegar hann beið herfilegan ósigur fyrir Alexander mikla í Gágamela í grennd við Níníveborg fortíðar. Með þessum ósigri leið heimsveldið Medía-Persía undir lok, sem silfurhluti líkneskisins í draumi Nebúkadnesars táknaði. Ríkið, sem við tók, var fremra að sumu leyti en síðra að öðru leyti. Það er ljóst af ráðningu Daníels á draumi Nebúkadnesars.

VÍÐLENT RÍKI EN MINNI HÁTTAR

17-19. (a) Hvaða heimsveldi táknaði eirkviður og lendar líkneskisins og hversu víðlent var það? (b) Hver var Alexander 3.? (c) Hvernig varð gríska að alþjóðamáli og til hvers var hún vel fallin?

17 Daníel sagði Nebúkadnesar að kviður og lendar hins risastóra líkneskis táknuðu „hið þriðja ríki af eiri, sem drottna mun yfir allri veröldu.“ (Daníel 2:32, 39) Þetta þriðja ríki kæmi næst á eftir Babýloníu og Medíu-Persíu. Líkt og eir er lakara efni en silfur yrði þetta nýja heimsveldi lakara en Medía-Persía að því leyti að það myndi ekki hljóta nein sérréttindi á borð við þau að frelsa fólk Jehóva. En eirríkið myndi ‚drottna yfir allri veröldu‘ sem benti til að það yrði víðlendara en bæði Babýlonía og Medía-Persía. Hvað sýna sögulegar staðreyndir um þetta heimsveldi?

18 Hinn metnaðarfulli Alexander 3. lagðist í landvinninga skömmu eftir að hann erfði hásæti Makedóníu eftir föður sinn árið 336 f.o.t., þá tvítugur að aldri. Sökum velgengni sinnar í hernaði var hann kallaður Alexander mikli. Hann vann hvern sigurinn á fætur öðrum og sótti jafnt og þétt inn á yfirráðasvæði Persa. Hrun Persaveldis hófst þegar Alexander sigraði Daríus 3. í orustunni við Gágamela árið 331 f.o.t. og Grikkland varð næsta heimsveldi.

19 Eftir sigurinn við Gágamela hertók Alexander persnesku höfuðborgirnar Babýlon, Súsa, Persepólis og Ekbatana. Eftir að hafa lagt allt Persaveldi undir sig hélt hann áfram sigurför sinni inn í vesturhluta Indlands. Grískar nýlendur voru stofnaðar í hinum sigruðu löndum og þannig breiddist grísk tunga og menning út um allt ríkið. Gríska heimsveldið varð reyndar stærra en nokkurt heimsveldi fyrri tíma. Eins og Daníel hafði sagt drottnaði eirríkið „yfir allri veröldu.“ Það hafði meðal annars í för með sér að gríska (koine) varð alþjóðamál. Grískan bauð upp á mikla nákvæmni í orðavali og tjáningu og reyndist afar hentug sem ritmál kristnu Grísku ritninganna og til útbreiðslu fagnaðarerindisins um ríki Guðs.

20. Hvað varð um gríska heimsveldið eftir dauða Alexanders mikla?

20 Alexander mikli lifði aðeins átta ár sem heimsdrottnari. Hinn 13. júní árið 323 f.o.t. veiktist hann eftir veislu og dó skömmu síðar þótt ungur væri, aðeins 32 ára gamall. Síðar skiptist hið víðlenda veldi milli fjögurra hershöfðingja hans. Þannig urðu til fjögur ríki úr einu víðlendu, og Rómaveldi gleypti þau með tímanum. Eirríkið stóð aðeins til ársins 30 f.o.t. þegar hið síðasta þessara fjögurra ríkja — Egyptaland í höndum konungsættar Ptólemeosar — féll fyrir Róm.

RÍKI SEM SUNDURBRÝTUR OG MOLAR

21. Hvernig lýsir Daníel ‚fjórða ríkinu‘?

21 Daníel hélt áfram skýringum sínum á líkneskinu: „Þá mun hefjast fjórða ríkið [eftir Babýlon, Medíu-Persíu og Grikklandi], sterkt sem járn, — því að járnið sundurbrýtur og mölvar allt —, og eins og járnið molar sundur, eins mun það sundurbrjóta og mola öll hin ríkin.“ (Daníel 2:40) Þetta heimsveldi, sterkt eins og járn, gæti sundurbrotið það sem fyrir væri — öflugra en heimsveldin úr gulli, silfri og eiri sem á undan voru. Þannig var Rómaveldi.

22. Að hvaða leyti var Rómaveldi eins og járn?

22 Róm sundurbraut og molaði gríska heimsveldið og lagði undir sig leifarnar af Medíu-Persíu og babýlonska heimsveldinu. Rómaveldi virti einskis Guðsríkið sem Jesús Kristur boðaði og tók hann af lífi á kvalastaur árið 33. Róm freistaði þess að berja niður sanna kristni og ofsótti lærisveina Jesú. Og Rómverjar tortímdu Jerúsalem og musterinu árið 70.

23, 24. Hvað tákna fætur líkneskisins auk Rómaveldis?

23 Járnfætur líkneskisins í draumi Nebúkadnesars táknuðu ekki aðeins Rómaveldi heldur einnig pólitískan afkomanda þess. Líttu á orðin í Opinberunarbókinni 17:9, 10: „Það eru líka sjö konungar. Fimm eru fallnir, einn er nú uppi, annar er ókominn og er hann kemur á hann að vera stutt.“ Þegar Jóhannes postuli skrifaði þetta höfðu Rómverjar sent hann í útlegð til eyjarinnar Patmos. Hinir fimm föllnu konungar eða heimsveldi voru Egyptaland, Assýría, Babýlon, Medía-Persía og Grikkland. Sá sjötti — Rómaveldi — hélt enn um stjórntaumana. En hann átti líka að falla og sjöundi konungurinn átti að rísa af einu hinna herteknu svæða Rómaveldis. Hvaða heimsveldi var það?

24 Bretland var einu sinni norðvesturhluti Rómaveldis. En árið 1763 var það orðið að breska heimsveldinu sem drottnaði yfir höfunum sjö. Árið 1776 höfðu hinar 13 nýlendur þess í Ameríku lýst yfir sjálfstæði í þeim tilgangi að stofna Bandaríki Norður-Ameríku. En síðar urðu Bretland og Bandaríkin bandamenn í stríði og friði. Þannig varð til hið ensk-ameríska samband sem sjöunda heimsveldi biblíuspádómanna. Líkt og Rómaveldi var það „sterkt sem járn“ og beitti valdi sínu af járnhörku. Járnfætur líkneskisins í draumnum tákna því bæði Rómaveldi og ensk-ameríska tvíveldið.

BROTHÆTT BLANDA

25. Hvað sagði Daníel um fætur og tær líkneskisins?

25 Daníel hélt áfram og sagði Nebúkadnesar: „En þar er þú sást fæturna og tærnar, að sumt var af pottaraleir, sumt af járni, það merkir að ríkið mun verða skipt. Þó mun það nokkru í sér halda af hörku járnsins, þar sem þú sást járnið blandað saman við deigulmóinn. En þar er tærnar á fótunum voru sums kostar af járni og sums kostar af leir, þá mun það ríki að nokkru leyti verða öflugt og að nokkru leyti veikt. Og þar er þú sást járnið blandað saman við deigulmóinn, þá munu þeir með kvonföngum saman blandast [„þá munu þeir blandast niðjum mannkyns,“ New World Translation], og þó ekki samþýðast hvorir öðrum, eins og járnið samlagar sig ekki við leirinn.“ — Daníel 2:41-43.

26. Hvenær birtist sú stjórn sem fæturnir og tærnar tákna?

26 Heimsveldarunan, sem ólíkir hlutar líkneskisins í draumi Nebúkadnesars tákna, hófst með höfðinu og teygði sig niður í fætur. Rökrétt er að fæturnir og tærnar af ‚járni blönduðu saman við deigulmó‘ tákni síðustu stjórnir manna á tíma ‚endalokanna.‘ — Daníel 12:4.

27. (a) Hvaða ástandi lýsa fæturnir og tærnar úr leirblönduðu járni? (b) Hvað tákna tærnar tíu?

27 Breska heimsveldið ríkti yfir fjórðungi jarðarbúa við upphaf 20. aldar. Önnur Evrópuveldi réðu yfir milljónum að auki. En fyrri heimsstyrjöldin leiddi til myndunar þjóðafylkinga í stað heimsvelda. Þessi þróun jók skriðinn eftir síðari heimsstyrjöldina. Samfara vaxandi þjóðernishyggju fjölgaði þjóðum heims verulega. Hinar tíu tær líkneskisins tákna öll þessi samtímaríki og stjórnir, því að í Biblíunni táknar talan tíu jarðneskan algerleika. — Samanber 2. Mósebók 34:28; Matteus 25:1; Opinberunarbókin 2:10.

28, 29. (a) Hvað táknar leirinn að sögn Daníels? (b) Hvað má segja um leir- og járnblönduna?

28 Nú er komið fram á tíma ‚endalokanna‘ og við höfum náð fótum líkneskisins. Sumar af þeim stjórnum, sem járn- og leirfætur líkneskisins tákna, eru eins og járn, það er að segja valdfrekar eða harðneskjulegar. Sumar eru eins og leir. Hvernig þá? Daníel setti leirinn í samband við ‚niðja mannkyns.‘ (Daníel 2:43) Þótt leirinn, sem niðjar mannkyns eru gerðir úr, sé stökkur hafa járnharðar stjórnir neyðst til að taka æ meira tillit til almennings sem vill ráða nokkru um stjórnina yfir sér. (Jobsbók 10:9) En það er engin samheldni með valdfrekri stjórn og almenningi — ekkert frekar en járn og leir geta blandast. Heimurinn verður mjög sundraður stjórnmálalega þegar kemur að falli líkneskisins.

29 Er það klofningur fótanna og tánna sem verður líkneskinu öllu að falli? Hvað verður um það?

ÁHRIFAMIKIÐ HÁMARK

30. Lýstu hámarkinu í draumi Nebúkadnesars.

30 Lítum á hámark draumsins. Daníel segir konungi: „Þú horfðir á það, þar til er steinn nokkur losnaði, án þess að nokkur mannshönd kæmi við hann. Hann lenti á fótum líkneskisins, sem voru af járni og leir, og molaði þá. Þá muldist sundur í sama bili járnið, leirinn, eirinn, silfrið og gullið, og varð eins og sáðir á sumarláfa, vindurinn feykti því burt, svo að þess sá engan stað. En steinninn, sem lenti á líkneskinu, varð að stóru fjalli og tók yfir alla jörðina.“ — Daníel 2:34, 35.

31, 32. Hverju var spáð um síðasta hlutann af draumi Nebúkadnesars?

31 Spádómurinn heldur áfram til skýringar: „En á dögum þessara konunga mun Guð himnanna hefja ríki, sem aldrei skal á grunn ganga, og það ríki skal engri annarri þjóð í hendur fengið verða. Það mun knosa og að engu gjöra öll þessi ríki, en sjálft mun það standa að eilífu, þar sem þú sást að steinn nokkur losnaði úr fjallinu, án þess að nokkur mannshönd kæmi við hann, og mölvaði járnið, eirinn, leirinn, silfrið og gullið. Mikill Guð hefir kunngjört konunginum hvað hér eftir muni verða. Draumurinn er sannur og þýðing hans áreiðanleg.“ — Daníel 2:44, 45.

32 Nebúkadnesar er ljóst að draumurinn hefur verið rifjaður upp og ráðinn, og hann viðurkennir að enginn nema Guð Daníels sé „herra konunganna og opinberari leyndra hluta.“ Síðan hefur konungur Daníel og hina Hebreana þrjá til mikilla mannvirðinga. (Daníel 2:46-49) En hvaða gildi hefur ‚áreiðanleg þýðing‘ Daníels á okkar tímum?

‚FJALL SEM TEKUR YFIR ALLA JÖRÐINA‘

33. Úr hvaða „fjalli“ losnaði „steinninn,“ hvernig gerðist það og hvenær?

33 Þegar ‚tímum heiðingjanna‘ lauk í október árið 1914 stofnaði „Guð himnanna“ hið himneska ríki og setti smurðan son sinn, Jesú Krist, í hásæti sem ‚konung konunga og Drottin drottna.‘ * (Lúkas 21:24; Opinberunarbókin 12:1-5; 19:16) Það var því með guðlegum krafti, ekki mannahöndum, sem „steinninn“ eða Messíasarríkið var losað úr „fjallinu“ sem táknar drottinvald Jehóva yfir alheimi. Þessi himneska stjórn er í höndum Jesú Krists, og Guð hefur veitt honum ódauðleika. (Rómverjabréfið 6:9; 1. Tímóteusarbréf 6:15, 16) Þess vegna verður „ríki Drottins vors og hans Smurða,“ sem er birtingarmynd drottinvalds Jehóva yfir alheimi, aldrei fengið öðrum í hendur. Það stendur að eilífu. — Opinberunarbókin 11:15, Biblían 1912.

34. Hvernig fæddist ríki Guðs „á dögum þessara konunga“?

34 Guðsríki fæddist „á dögum þessara konunga.“ (Daníel 2:44) Þar er ekki aðeins átt við konungana, sem tærnar tíu tákna, heldur jafnframt þá sem járnið, eirinn, silfrið og gullið tákna. Enda þótt heimsveldi Babýloníumanna, Persa, Grikkja og Rómverja væru liðin undir lok voru enn eftir leifar af þeim árið 1914. Ósmanaríki Tyrkja réði þá yfir landsvæði Babýloníu, og stjórnir sátu við völd í Persíu (Íran), Grikklandi og í Róm á Ítalíu.

35. Hvenær skellur „steinninn“ á líkneskinu og hversu algerlega verður því tortímt?

35 Himneskt ríki Guðs mun bráðlega höggva sundur fætur hins táknræna líkneskis og sundurmola öll ríki sem það táknar. Þar með líða þau undir lok. Í ‚stríðinu á hinum mikla degi Guðs hins alvalda‘ lendir þessi „steinn“ á líkneskinu af þvílíku afli að það verður að dufti og stormur Guðs feykir því burt eins og hismi á þreskivelli. (Opinberunarbókin 16:14, 16) Síðan verður ríki Guðs að því stjórnarfjalli sem ræður yfir ‚allri jörðinni,‘ líkt og steinninn óx og varð að stóru fjalli sem þakti jörðina. — Daníel 2:35.

36. Hvers vegna getur Messíasarríkið kallast traust stjórn?

36 Þótt Messíasarríkið sé himneskt mun vald þess ná um allan hnöttinn til blessunar öllum hlýðnum mönnum. Þessi trausta stjórn ‚skal aldrei á grunn ganga‘ og ‚aldrei fengin í hendur annarri þjóð.‘ Ólíkt ríkjum dauðlegra manna „mun það standa að eilífu.“ (Daníel 2:44) Megir þú hljóta þau sérréttindi að verða þegn þess að eilífu.

[Neðanmáls]

^ gr. 33 Sjá 6. kafla þessarar bókar.

HVAÐ LÆRÐIR ÞÚ?

• Hvaða heimsveldi tákna hinir ýmsu hlutar líkneskisins mikla í draumi Nebúkadnesars?

• Hvaða heimsástandi lýsa fæturnir og tærnar tíu úr leirblandaða járninu?

• Hvenær og úr hvaða „fjalli“ losnaði „steinninn“?

• Hvenær lendir „steinninn“ á líkneskinu?

[Spurningar]

[Rammagrein/myndir á blaðsíðu 63-67]

HERKONUNGUR BYGGIR UPP HEIMSVELDI

KRÓNPRINS Babýlonar fer með her sinn gegn egypskum hersveitum Nekós faraós við Karkemis í Sýrlandi og gersigrar þær. Egyptar flýja suður á bóginn í átt til Egyptalands og Babýloníumenn reka flóttann. En þá berast boð heiman frá Babýlon sem neyða hinn sigurglaða prins til að láta af eftirförinni. Honum eru færð þau tíðindi að Nabópólassar faðir hans sé látinn. Nebúkadnesar felur hershöfðingjum sínum að flytja bandingjana og herfangið heim og hraðar sér sjálfur heimleiðis til að setjast í hásætið eftir föður sinn.

Nebúkadnesar tekur við völdum árið 624 f.o.t., og er hann annar konungur nýbabýlonska heimsveldisins. Á 43 ára stjórnarferli leggur hann undir sig þau svæði, sem áður heyrðu undir assýrska heimsveldið, og færir út landamæri ríkisins. Hann leggur undir sig Sýrland í norðri og Palestínu í vestri allt suður til landamæra Egyptalands. — Sjá kort.

Á fjórða stjórnarári sínu (620 f.o.t.) gerir Nebúkadnesar Júdaríkið lýðskylt sér. (2. Konungabók 24:1) Þrem árum síðar setjast Babýloníumenn um Jerúsalem eftir uppreisn í Júda. Nebúkadnesar flytur Jójakín, Daníel og fleiri nauðuga til Babýlonar, og tekur einnig með sér sum af áhöldum musteris Jehóva. Hann skipar Sedekía, föðurbróður Jójakíns, lénskonung sinn í Júda. — 2. Konungabók 24:2-17; Daníel 1:6, 7.

Einhvern tíma síðar gerir Sedekía líka uppreisn og gengur til bandalags við Egypta. Nebúkadnesar sest um Jerúsalem á ný, og árið 607 f.o.t. brýtur hann skarð í múrinn, brennir musterið og eyðir borgina. Hann drepur alla syni Sedekía og blindar hann síðan, fjötrar og flytur hann til Babýlonar. Nebúkadnesar tekur flesta landsmenn til fanga og flytur það sem eftir er af áhöldum musterisins til Babýlonar. „Þannig var Júda herleiddur úr landi sínu.“ — 2. Konungabók 24:18–25:21.

Nebúkadnesar settist einnig um Týrus og lagði hana undir sig. Umsátrið stóð í 13 ár. Meðan á því stóð urðu höfuð hermannanna „hárlaus“ undan hjálmunum og axlirnar „gnúnar“ af því að bera efnið sem notað var við gerð umsátursmannvirkjanna. (Esekíel 29:18) Loks gáfust Týrusbúar upp fyrir hersveitum Babýlonar.

Ljóst er að konungur Babýlonar var afburðasnjall herstjóri. Sumar heimildir, einkum af babýlonskum uppruna, lýsa honum einnig sem réttlátum konungi. Þótt Ritningin geti þess ekki sérstaklega að Nebúkadnesar hafi verið réttlátur segir spámaðurinn Jeremía að farið yrði vel með Sedekía þrátt fyrir uppreisn hans ‚ef hann gengi á vald höfðingjum Babelkonungs.‘ (Jeremía 38:17, 18) Og Nebúkadnesar sýndi Jeremía virðingu eftir að Jerúsalem var eytt. Konungur fyrirskipaði í sambandi við Jeremía: „Tak hann og annast hann og gjör honum ekkert illt, heldur gjör við hann svo sem hann mælist til við þig!“ — Jeremía 39:11, 12; 40:1-4.

Sem stjórnandi var Nebúkadnesar fljótur að koma auga á hæfileika og eiginleika Daníels og þriggja félaga hans, þeirra Sadraks, Mesaks og Abed-Negós sem hétu á hebresku Hananja, Mísael og Asarja. Konungur setti þá þess vegna í ábyrgðarstöður í ríki sínu. — Daníel 1:6, 7, 19-21; 2:49.

Trúrækni Nebúkadnesars beindist einkum að Mardúk, æðsta guði Babýlonar. Konungur þakkaði honum alla sigra sína. Hann reisti Mardúk og fleiri babýlonskum guðdómum musteri í Babýlon og fegraði önnur. Vera má að gulllíkneskið, sem hann lét reisa í Dúradal, hafi verið helgað Mardúk. Og hann virðist hafa treyst mjög á spásagnir er hann skipulagði hernaðaraðgerðir.

Nebúkadnesar lagði líka metnað sinn í endurreisn Babýlonar, mestu múrgirtu borgar þess tíma. Hann lauk við hina miklu, tvöföldu múra sem faðir hans hafði byrjað að reisa og höfuðborgin virtist óvinnandi. Konungur lét gera við gömlu höllina í hjarta borgarinnar og reisti sér sumarhöll um tveim kílómetrum norðar. Til að þóknast medískri drottningu sinni, sem saknaði hæðanna og skóganna í heimalandi sínu, er Nebúkadnesar sagður hafa gert handa henni hengigarðana sem kallaðir voru eitt af sjö undrum veraldar að fornu.

„Er þetta ekki sú hin mikla Babýlon, sem ég hefi reist að konungssetri með veldisstyrk mínum og tign minni til frægðar?“ sagði konungur hreykinn í bragði er hann var á gangi á hallarþakinu. „Áður en þessi orð voru liðin af vörum konungs“ missti hann vitið. Hann var ófær um að stjórna ríkinu í sjö ár og át gras eins og Daníel hafði spáð. Að þeim tíma liðnum tók hann aftur við völdum og ríkti til dauðadags árið 582 f.o.t. — Daníel 4:30-36.

HVAÐ LÆRÐIR ÞÚ?

Lýstu Nebúkadnesar sem

• herstjóra

• stjórnanda

• tilbiðjanda Mardúks

• byggingafrömuði

[Kort]

(Sjá uppraðaðann texta í bókinni)

HEIMSVELDIÐ BABÝLON

RAUÐAHAF

Jerúsalem

Efrat

Tígris

Níníve

Súsa

Babýlon

Úr

[Mynd]

Babýlon, mesta múrgirta borg sinnar samtíðar.

[Mynd]

Drekinn var tákn Mardúks.

[Mynd]

Hinir frægu hengigarðar Babýlonar.

[Skýringarmynd/mynd á blaðsíðu 56]

(Sjá uppraðaðann texta í bókinni)

HEIMSVELDIN Í SPÁDÓMI DANÍELS

Líkneskið mikla (Daníel 2:31-45)

BABÝLONÍA frá 607 f.o.t.

MEDÍA-PERSÍA frá 539 f.o.t.

GRIKKLAND frá 331 f.o.t.

RÓM frá 30 f.o.t.

ENSK-AMERÍSKA HEIMSVELDIÐ frá 1763 e.o.t.

STJÓRNMÁLALEGA SUNDRAÐUR HEIMUR á endalokatímanum

[Heilsíðumynd á blaðsíðu 47]

[Heilsíðumynd á blaðsíðu 58]