Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Sannir guðsdýrkendur á endalokatímanum

Sannir guðsdýrkendur á endalokatímanum

Sautjándi kafli

Sannir guðsdýrkendur á endalokatímanum

1. Hvaða óvenjulegri reynslu átti lítill, varnarlaus hópur að verða fyrir á okkar dögum, samkvæmt 7. kafla Daníelsbókar?

 FÁMENNUR, varnarlaus hópur manna verður fyrir fólskulegri árás öflugs heimsveldis. Þeir komast af heilir á húfi og endurnýjast — ekki í eigin krafti heldur af því að Jehóva Guð metur þá mikils. Sjöundi kafli Daníelsbókar boðaði þessa atburði sem áttu sér stað snemma á 20. öldinni. En hverjir voru þetta? Sami kafli Daníelsbókar kallar þá „hina heilögu Hins hæsta,“ Jehóva Guðs. Þar kemur einnig fram að þetta fólk verður að lokum meðstjórnendur í Messíasarríkinu. — Daníel 7:13, 14, 18, 21, 22, 25-27.

2. (a) Hvernig hugsar Jehóva til smurðra þjóna sinna? (b) Hvað er viturlegt að gera nú á tímum?

2 Eins og fram kemur í 11. kafla Daníelsbókar líður konungur norðursins endanlega undir lok eftir að hafa ógnað hinu örugga andlega landi þessa trúfasta fólks. (Daníel 11:45; samanber Esekíel 38:18-23.) Jehóva lætur sér ákaflega annt um trúfasta, smurða þjóna sína. Sálmur 105:14, 15 segir: „[Jehóva] hegndi konungum þeirra vegna. ‚Snertið eigi við mínum smurðu og gjörið eigi spámönnum mínum mein.‘“ Á þeim ólgutímum, sem við lifum, er áreiðanlega viturlegt fyrir hinn ‚mikla múg‘ að eiga sem nánast samband við hina heilögu. (Opinberunarbókin 7:9; Sakaría 8:23) Jesús Kristur hvatti sauðumlíkt fólk einmitt til að gera það — að tengjast smurðum, andlegum bræðrum sínum með því að styðja þá í starfi. — Matteus 25:31-46; Galatabréfið 3:29.

3. (a) Af hverju er ekki auðvelt að finna smurða fylgjendur Jesú og halda sig nærri þeim? (b) Hvernig hjálpar 12. kafli Daníelsbókar okkur að þessu leyti?

3 En Satan, óvinur Guðs, hefur barist með oddi og egg gegn hinum smurðu. Hann hefur eflt fölsk trúarbrögð og nánast fyllt heiminn af gervikristnum mönnum. Margir hafa látið blekkjast. Sumir örvænta hreinlega um að sér takist nokkurn tíma að finna fulltrúa hinnar sönnu trúar. (Matteus 7:15, 21-23; Opinberunarbókin 12:9, 17) Jafnvel hjá þeim sem finna ‚litlu hjörðina‘ og starfa með henni er það barátta að viðhalda trúnni, því að þessi heimur reynir án afláts að grafa undan henni. (Lúkas 12:32) Hvað um þig? Hefur þú fundið „hina heilögu Hins hæsta“ og starfar þú með þeim? Er þér kunnugt um hinar áreiðanlegu sannanir fyrir því að þú hafir í raun og veru fundið útvalda þjóna Guðs? Slíkar sannanir geta styrkt trú þína og gert þér kleift að hjálpa öðrum að sjá í gegnum trúarglundroðann í heimi nútímans. Tólfti kafli Daníelsbókar inniheldur hafsjó slíkra upplýsinga sem geta bjargað fólki.

HINN MIKLI VERNDARENGILL LÆTUR TIL SÍN TAKA

4. (a) Hverju tvennu spáir Daníel 12:1 um Míkael? (b) Hvað er oft átt við í Daníelsbók með sögninni sem þýdd er ‚að vernda‘?

4 Daníel 12:1 segir: „Á þeim tíma mun Míkael, hinn mikli verndarengill, sá er verndar landa þína, fram ganga.“ Versið segir tvennt um Míkael: Annars vegar að hann ‚verndi,‘ en það gefur til kynna ástand sem varir um einhvern tíma, og hins vegar að hann ‚muni ganga fram‘ sem bendir til atburðar á umræddu tímabili. Í fyrsta lagi langar okkur til að vita á hvaða tímabili það er sem Míkael „verndar landa [Daníels].“ Við munum að Míkael er nafn Jesú í hlutverki hans sem himneskur stjórnandi. Þegar sagt er að hann ‚verndi‘ minnir það á hvernig hebreska orðið er notað annars staðar í Daníelsbók. Oft er það notað um gerðir konungs, svo sem valdatöku. — Daníel 11:2-4, 7, 20, 21.

5, 6. (a) Á hvaða tímabili verndar Míkael þjóna Guðs? (b) Hvenær og hvernig ‚gengur Míkael fram‘ og með hvaða afleiðingum?

5 Ljóst er að engillinn var að tala hér um tímabil sem tilgreint er annars staðar í spádómum Biblíunnar. Jesús kallaði það „nærveru“ sína (parósía á grísku) er hann myndi ríkja sem konungur á himnum. (Matteus 24:37-39, New World Translation) Þetta tímabil er einnig kallað ‚síðustu dagar‘ og „er að endalokunum líður.“ (2. Tímóteusarbréf 3:1; Daníel 12:4, 9) Síðan þessi endalokatími hófst árið 1914 hefur Míkael ríkt sem konungur á himnum. — Samanber Jesaja 11:10; Opinberunarbókina 12:7-9.

6 En hvenær mun Míkael eða Jesús „fram ganga“? Það gerist þegar hann lætur til sín taka í sérstakri aðgerð í framtíðinni. Opinberunarbókin 19:11-16 lýsir Jesú spádómlega sem voldugum messíasarkonungi er ríður í broddi englafylkingar og eyðir óvinum Guðs. Daníel 12:1 heldur áfram: „Og það skal verða svo mikil hörmungatíð, að slík mun aldrei verið hafa, frá því er menn urðu fyrst til og allt til þess tíma.“ Það er hlutverk Krists að fullnægja dómi Jehóva og gereyða hinu illa heimskerfi í heild sinni í ‚þrengingunni miklu‘ sem boðuð er. — Matteus 24:21; Jeremía 25:33; 2. Þessaloníkubréf 1:6-8; Opinberunarbókin 7:14; 16:14, 16.

7. (a) Hvaða von eiga allir trúfastir menn á hinni komandi „hörmungatíð“? (b) Hvað er bók Jehóva og af hverju er lífsnauðsynlegt að eiga nafn sitt í henni?

7 Hvernig mun sanntrúuðu fólki farnast á þessum myrka tíma? Daníel var sagt: „Á þeim tíma mun þjóð þín frelsuð verða, allir þeir sem skráðir finnast í bókinni.“ (Samanber Lúkas 21:34-36.) Þessi bók táknar að Jehóva Guð man eftir þeim sem gera vilja hans. (Malakí 3:16; Hebreabréfið 6:10) Þeir sem eiga nöfn sín rituð í þessari bók lífsins eru óhultir ólíkt öllum öðrum jarðarbúum því að þeir njóta verndar Guðs. Verði þeir fyrir einhverju tjóni er hægt að bæta það og það verður bætt. Jafnvel þótt þeir deyi áður en ‚hörmungatíðin‘ rennur upp eru þeir geymdir í takmarkalausu minni Jehóva. Hann man eftir þeim og reisir þá upp frá dauðum í þúsundáraríki Jesú Krists. — Postulasagan 24:15; Opinberunarbókin 20:4-6.

HINIR HEILÖGU ‚VAKNA UPP‘

8. Hvaða ánægjulegar horfur koma fram í Daníel 12:2?

8 Upprisuvonin er mjög hughreystandi. Daníel 12:2 minnist á hana og segir: „Margir þeirra, sem sofa í dufti jarðarinnar, munu upp vakna, sumir til eilífs lífs, sumir til smánar, til eilífrar andstyggðar.“ (Samanber Jesaja 26:19.) Þessi orð minna okkur kannski á hið hjartnæma fyrirheit Jesú um almenna upprisu. (Jóhannes 5:28, 29) Hvílík von! Hugsaðu um ástkæra vini og ættingja sem eru dánir en fá tækifæri til að lifa aftur í framtíðinni. En þetta loforð Daníelsbókar snýr aðallega að annars konar upprisu sem hefur þegar farið fram. Hvernig má það vera?

9. (a) Hvers vegna er rökrétt að Daníel 12:2 rætist á hinum síðustu dögum? (b) Hvers konar upprisu talar spádómurinn um og hvernig vitum við það?

9 Líttu á samhengið. Eins og við höfum séð fjallar fyrsta vers 12. kaflans ekki aðeins um endalok þessa heimskerfis heldur einnig hina síðustu daga í heild. Reyndar rætist meginhluti kaflans ekki í hinni væntanlegu paradís á jörð heldur á endalokatímanum. Hefur átt sér stað upprisa á þessu tímabili? Páll postuli talaði um að upprisa ‚þeirra sem tilheyrðu Kristi‘ ætti sér stað meðan „nærvera“ hans stendur. En þeir sem eru reistir upp til lífs á himnum rísa upp „óforgengilegir.“ (1. Korintubréf 15:23, 52, New World Translation) Enginn þeirra er reistur upp ‚til smánar og til eilífrar andstyggðar‘ eins og Daníel 12:2 talar um. Er um annars konar upprisu að ræða? Biblían notar stundum hugtakið upprisa í andlegri merkingu. Til dæmis eru spádómar bæði í Esekíelsbók og Opinberunarbókinni sem lýsa andlegri endurlífgun eða upprisu. — Esekíel 37:1-14; Opinberunarbókin 11:3, 7, 11.

10. (a) Í hvaða skilningi voru hinar smurðu leifar reistar upp á endalokatímanum? (b) Hvernig vöknuðu sumir hinna smurðu upp ‚til smánar og til eilífrar andstyggðar‘?

10 Hafa smurðir þjónar Guðs hlotið slíka andlega endurlífgun á endalokatímanum? Já, það er söguleg staðreynd að litlar leifar trúfastra kristinna manna urðu fyrir óvenjulegri árás árið 1918 með þeim afleiðingum að skipulagt boðunarstarf þeirra meðal almennings nálega stöðvaðist. En svo gerðist hið óvænta árið 1919 og þeir lifnuðu aftur í andlegum skilningi. Þessar staðreyndir samræmast upprisulýsingunni í Daníel 12:2. Sumir ‚vöknuðu upp‘ andlega á þeim tíma og síðar, en því miður héldu sumir sér ekki andlega lifandi. Þeir sem kusu að hafna messíasarkonunginum og hættu að þjóna Guði eftir að þeir höfðu verið vaktir kölluðu yfir sig þá ‚smán og eilífu andstyggð‘ sem lýst er í Daníel 12:2. (Hebreabréfið 6:4-6) En trúfastir smurðir þjónar Guðs nota sér andlega endurlífgun sína vel og styðja messíasarkonunginn dyggilega. Að lokum verður trúfestin þeim til „eilífs lífs“ eins og spádómurinn segir. Andleg atorka þeirra, þrátt fyrir andstöðu, hjálpar okkur að bera kennsl á þá.

ÞEIR ‚SKÍNA EINS OG STJÖRNURNAR‘

11. Hverjir eru „hinir vitru“ nú á dögum og í hvaða skilningi skína þeir eins og stjörnur?

11 Næstu tvö vers 12. kafla Daníelsbókar auðvelda okkur enn frekar að bera kennsl á „hina heilögu Hins hæsta.“ Engillinn segir Daníel í 3. versi: „Hinir vitru munu skína eins og ljómi himinhvelfingarinnar og þeir, sem leitt hafa marga til réttlætis, eins og stjörnurnar um aldur og ævi.“ Hverjir eru „hinir vitru“ nú á dögum? Enn og aftur benda sönnunargögnin á „hina heilögu Hins hæsta.“ Hverjir aðrir en trúfastar leifar hinna smurðu hafa búið yfir þeirri visku að geta skilið að Míkael, hinn mikli verndarengill, tók við konungdómi árið 1914? Með því að prédika slík sannindi — og með kristilegri breytni sinni — hafa þeir skinið „eins og ljós“ í andlega myrkum heimi. (Filippíbréfið 2:15; Jóhannes 8:12) Jesús spáði um þá: „Þá munu réttlátir skína sem sól í ríki föður þeirra.“ — Matteus 13:43.

12. (a) Hvernig hafa hinir smurðu átt þátt í að ‚leiða marga til réttlætis‘ á endalokatímanum? (b) Hvernig munu hinir smurðu leiða marga til réttlætis og ‚skína eins og stjörnur‘ í þúsundáraríki Krists?

12 Daníel 12:3 tilgreinir jafnvel af hvaða starfi þessir smurðu kristnu menn yrðu uppteknir á endalokatímanum. Þeir áttu að ‚leiða marga til réttlætis.‘ Hinar smurðu leifar tóku til við að safna saman þeim sem eftir voru af 144.000 samerfingjum Krists. (Rómverjabréfið 8:16, 17; Opinberunarbókin 7:3, 4) Þegar því var lokið — greinilega um miðjan fjórða áratug aldarinnar — tóku þær að safna saman ‚miklum múgi‘ ‚annarra sauða.‘ (Opinberunarbókin 7:9; Jóhannes 10:16) Þessi hópur iðkar líka trú á lausnarfórn Jesú Krists og stendur þar af leiðandi hreinn frammi fyrir Jehóva. Hinir ‚aðrir sauðir‘ teljast nú í milljónum og hafa þá von að lifa af yfirvofandi eyðingu þessa illa heims. Ásamt 144.000 meðkonungum sínum og meðprestum lætur Jesús hlýðna jarðarbúa hafa fullt gagn af lausnarfórninni í þúsundáraríkinu. Þannig hjálpa þeir öllum, sem iðka trú, að losna við síðasta snefil erfðasyndarinnar frá Adam. (2. Pétursbréf 3:13; Opinberunarbókin 7:13, 14; 20:5, 6) Hinir smurðu eru þá í fyllsta skilningi að ‚leiða marga til réttlætis‘ og ‚skína eins og stjörnurnar‘ á himni. Er mikils virði fyrir þig að hafa þá von að lifa á jörðinni undir himneskri dýrðarstjórn Krists og meðstjórnenda hans? Það eru ómetanleg sérréttindi að eiga þátt í prédikun fagnaðarerindisins um ríki Guðs ásamt ‚hinum heilögu.‘ — Matteus 24:14.

ÞEIR „RANNSAKA HANA“

13. Í hvaða skilningi voru orð Daníelsbókar innsigluð og þeim haldið leyndum?

13 Engillinn lýkur nú með hlýlegum orðum yfirlýsingu sinni sem hófst í Daníel 10:20: „En þú, Daníel, halt þú þessum orðum leyndum og innsigla bókina, þar til er að endalokunum líður. Margir munu rannsaka hana, og þekkingin mun vaxa.“ (Daníel 12:4) Mörgu af því, sem Daníel var innblásið að skrifa, var haldið leyndu og innsiglað gagnvart skilningi manna. Hann skrifaði jafnvel síðar: „Ég heyrði þetta, en skildi það ekki.“ (Daníel 12:8) Í þeim skilningi var Daníelsbók innsigluð um aldaraðir. En hver er staðan núna?

14. (a) Hvað hefur verið ‚rannsakað‘ á ‚endalokatímanum‘ og hverjir hafa gert það? (b) Hvað bendir til þess að Jehóva hafi blessað þessa ‚rannsókn‘?

14 Það eru sérréttindi okkar að vera uppi „er að endalokunum líður“ sem spáð er um í Daníelsbók. Eins og sagt er fyrir hafa margir trúfastir þjónar Guðs ‚rannsakað‘ orð hans og sönn þekking vaxið ríkulega með blessun hans. Trúföstum smurðum vottum Jehóva hefur verið veitt viska til að skilja að Mannssonurinn varð konungur árið 1914, að bera kennsl á dýrin í spádómi Daníelsbókar og að vara við „viðurstyggð eyðingarinnar“ — og þetta eru aðeins örfá dæmi. (Daníel 11:31) Þessi ríkulega þekking er því enn eitt auðkenni ‚hinna heilögu Hins hæsta.‘ En Daníel fékk fleiri sannanir í hendur.

ÞEIR ERU ‚BROTNIR Á BAK AFTUR‘

15. Hvaða spurningu varpar engillinn nú fram og hverja minnir hún kannski á?

15 Við munum að Daníel var staddur á bakka „hins mikla Tígrisfljóts“ þegar hann tók við boðskap engilsins. (Daníel 10:4) Nú sér hann þrjá engla þar og segir: „Ég, Daníel, sá og sjá, tveir aðrir englar stóðu þar, á sínum fljótsbakkanum hvor. Annar þeirra sagði við manninn í línklæðunum, sem var uppi yfir fljótsvötnunum: ‚Hversu langt mun til endisins á þessum undursamlegu hlutum?‘“ (Daníel 12:5, 6) Spurning engilsins minnir okkur kannski aftur á „hina heilögu Hins hæsta.“ Í upphafi ‚endalokatímans‘ árið 1914 brann þeim á vörum hve lengi þess væri að bíða að fyrirheit Guðs uppfylltust. Ljóst er af svarinu við þessari spurningu að spádómurinn fjallar um þá.

16. Hvaða spádóm ber engillinn fram og hvernig leggur hann áherslu á að hann rætist örugglega?

16 Frásögn Daníels heldur áfram: „Þá heyrði ég að línklæddi maðurinn, sem stóð yfir fljótinu, sór við hinn Eilífa, fórnaði hægri og vinstri hendi til himins og sagði: ‚Ein tíð, tvær tíðir og hálf tíð; þegar máttur hinnar heilögu þjóðar er brotinn á bak aftur mun allt þetta ganga eftir.‘“ (Daníel 12:7, Biblíurit, ný þýðing 1997) Þetta er alvarlegt mál. Engillinn fórnar báðum höndum um leið og hann sver eið, kannski til þess að hinir englarnir, hvor á sínum fljótsbakkanum, sjái það. Þar með leggur hann áherslu á að uppfylling þessa spádóms sé algerlega örugg. En hvenær eru þessar tíðir sem hann talar um? Svarið er ekki jafntorráðið og ætla mætti.

17. (a) Hvað er hliðstætt með spádómunum í Daníel 7:25, Daníel 12:7 og Opinberunarbókinni 11:3, 7, 9? (b) Hve langar eru tíðirnar þrjár og hálf?

17 Þessi spádómur er ótrúlega líkur tveim öðrum spádómum. Annar þeirra er í Daníel 7:25 og fjallað er um hann í 9. kafla þessarar bókar, en hinn er í Opinberunarbókinni 11:3, 7, 9. Taktu eftir nokkrum hliðstæðum. Báðir spádómarnir eiga að rætast á endalokatímanum. Báðir fjalla um heilaga þjóna Guðs og sýna að þeir eru ofsóttir og jafnvel ófærir um að prédika meðal almennings um tíma. Báðir sýna að þjónar Guðs lifna við, taka aftur upp fyrra starf og gera áform ofsóknara sinna að engu. Og báðir nefna tímalengdina sem þrautir hinna heilögu áttu að standa. Báðir spádómarnir í Daníelsbók (7:25 og 12:7) tala um ‚eina tíð, tvær tíðir og hálfa tíð,‘ það er að segja þrjár og hálfa tíð. Opinberunarbókin talar um sama tímabil sem 42 mánuði eða 1260 daga. (Opinberunarbókin 11:2, 3) Það staðfestir að tíðirnar þrjár og hálf í Daníelsbók eru þrjú og hálft ár, hvert um sig 360 daga langt. En hvenær hófust þessir 1260 dagar?

18. (a) Hvað átti að marka endi daganna 1260 samkvæmt Daníel 12:7? (b) Hvenær var ‚máttur hinnar heilögu þjóðar brotinn á bak aftur‘ og hvernig gerðist það? (c) Hvenær hófust dagarnir 1260 og hvernig spáðu hinir smurðu ‚sekkjum klæddir‘ á þeim tíma?

18 Spádómurinn tekur skýrt fram hvenær dögunum 1260 lauk, það er að segja þegar ‚máttur hinnar heilögu þjóðar er brotinn á bak aftur.‘ Um mitt ár 1918 voru forystumenn Biblíu- og smáritafélagsins Varðturninn, þeirra á meðal forseti þess, J. F. Rutherford, dæmdir til langrar fangavistar fyrir rangar sakir. Hinir heilögu sáu verk sitt svo sannarlega ‚brotið á bak aftur‘ og mátt sinn fjötraðan. Ef talin eru þrjú og hálft ár aftur í tímann frá miðju ári 1918 komum við að árslokum 1914. Um þær mundir var hin litla sveit hinna smurðu að búa sig undir ofsóknarölduna. Fyrri heimsstyrjöldin var hafin og starf þeirra mætti vaxandi andstöðu. Árstexti þeirra árið 1915 var meira að segja byggður á spurningu Krists til fylgjenda sinna: „Getið þið drukkið þann kaleik, sem ég á að drekka?“ (Matteus 20:22) Eins og spáð var í Opinberunarbókinni 11:3 var hið 1260 daga tímabil dapurlegur tími fyrir hina smurðu. Það var eins og þeir væru að spá sekkjum klæddir. Ofsóknirnar jukust. Sumir voru hnepptir í fangelsi, sumir urðu fyrir skrílsárásum og sumir voru pyndaðir. Dauði fyrsta forseta Félagsins, C. T. Russells, árið 1916 var áfall fyrir marga. En hvað átti að gerast eftir að þetta myrka tímabil tæki enda og gengið yrði af hinum heilögu dauðum sem prédikunarskipulagi?

19. Hvernig fullvissar spádómurinn í Opinberunarbókinni 11. kafla okkur um að ekki yrði þaggað lengi niður í hinum smurðu?

19 Í hinum hliðstæða spádómi Opinberunarbókarinnar 11:3, 9, 11 kemur fram að ‚vottarnir tveir‘ myndu liggja dauðir aðeins um skamman tíma eftir að þeir væru drepnir — þrjá og hálfan dag — og yrðu þá lífgaðir við. Spádómurinn í 12. kafla Daníelsbókar sýnir einnig að hinir heilögu áttu ekki að vera þögulir til langframa heldur áttu þeir verk fyrir höndum.

ÞEIR VERÐA „KLÁRIR, HREINIR OG SKÍRIR“

20. Hvaða blessun myndu hinir smurðu hljóta samkvæmt Daníel 12:10 eftir hina erfiðu reynslu sína?

20 Eins og áður hefur komið fram skildi Daníel ekki það sem hann skrifaði. Hann hlýtur þó að hafa velt fyrir sér hvort ofsóknararnir myndu virkilega gera út af við hina heilögu, því að hann spurði: „Hver mun endir á þessu verða?“ Engillinn svaraði: „Far þú, Daníel, því að orðunum er leyndum haldið og þau innsigluð, þar til er endirinn kemur. Margir munu verða klárir, hreinir og skírir, en hinir óguðlegu munu breyta óguðlega, og engir óguðlegir munu skilja það, en hinir vitru munu skilja það.“ (Daníel 12:8-10) Hinir heilögu áttu sér örugga von. Þeim yrði ekki tortímt heldur yrðu þeir hreinsaðir svo að þeir stæðu hreinir frammi fyrir Jehóva Guði. (Malakí 3:1-3) Skilningur þeirra á andlegum málum yrði til þess að þeir gætu haldið sér hreinum í augum Guðs. Hinir óguðlegu myndu hins vegar hafna skilningi á því sem andlegt er. En hvenær átti þetta að gerast?

21. (a) Hvaða aðstæður áttu að liggja fyrir þegar tímabilið hæfist sem spáð er um í Daníel 12:11? (b) Hver var „hin daglega fórn“ og hvenær var hún afnumin? (Sjá rammagrein á bls. 298.)

21 Daníel var sagt: „Frá þeim tíma, er hin daglega fórn verður afnumin og viðurstyggð eyðingarinnar upp reist, munu vera eitt þúsund tvö hundruð og níutíu dagar.“ Þetta tímabil hæfist því þegar ákveðin skilyrði hefðu skapast. Fyrst átti að afnema ‚hina daglegu fórn.‘ * (Daníel 12:11) Engillinn átti ekki við dýrafórnir í jarðnesku musteri. Musterið, sem einu sinni stóð í Jerúsalem, var ekki annað en „eftirmynd hins sanna helgidóms“ — hins mikla andlega musteris Jehóva sem tók til starfa þegar Kristur varð æðstiprestur þess árið 29. Þetta andlega musteri táknar hið hreina tilbeiðslufyrirkomulag Guðs, og þar er engin þörf á stöðugum eða daglegum syndafórnum af því að ‚Kristi var fórnfært í eitt skipti til þess að bera syndir margra.‘ (Hebreabréfið 9:24-28) Samt sem áður færa allir sannkristnir menn fórnir í þessu musteri. Páll postuli skrifaði: „Fyrir [Krist] skulum vér því án afláts bera fram lofgjörðarfórn fyrir Guð, ávöxt vara, er játa nafn hans.“ (Hebreabréfið 13:15) Fyrri skilyrðin sem spádómurinn lýsir — afnám ‚hinnar daglegu fórnar‘ — sköpuðust um mitt ár 1918 þegar prédikunarstarfið nálega stöðvaðist.

22. (a) Hver er „viðurstyggð eyðingarinnar“ og hvenær var hún reist upp? (b) Hvenær hófst tímabilið sem spáð er um í Daníel 12:11 og hvenær lauk því?

22 En hvað um síðari skilyrðin — þau að „viðurstyggð eyðingarinnar“ yrði „upp reist“? Eins og fram kom í umfjöllun okkar um Daníel 11:31 var þessi viðurstyggð fyrst Þjóðabandalagið og kom svo síðar fram í mynd Sameinuðu þjóðanna. Bæði samtökin eru viðurstyggileg á þann hátt að þeim hefur verið haldið á loft sem einu voninni um frið á jörð. Í hjörtum margra koma þessi samtök beinlínis í stað Guðsríkis. Hugmyndin að Þjóðabandalaginu var borin fram opinberlega í janúar árið 1919. Þá höfðu skapast bæði skilyrðin sem Daníel 12:11 lýsir. Dagarnir 1290 hófust því snemma árs 1919 og stóðu fram til haustsins 1922.

23. Hvernig miðaði hinum heilögu í þá átt að standa hreinir frammi fyrir Guði á 1290 daga tímabilinu sem spáð er um í Daníel 12. kafla?

23 Miðaði hinum heilögu í þá átt að verða hreinir og skírir í augum Guðs á þessu tímabili? Vissulega. Í mars árið 1919 var forseta Varðturnsfélagsins og nánustu samstarfsmönnum hans sleppt úr fangelsi. Þeir voru síðar hreinsaðir af hinum ranga áburði gegn sér. Þeir gerðu sér ljóst að starfi þeirra væri hvergi nærri lokið og hófust strax handa við að skipuleggja mót í september árið 1919. Sama ár hóf göngu sína tímaritið The Golden Age (Gullöldin, nú nefnt Vaknið!). Þetta tímarit hefur alltaf stutt Varðturninn með því að afhjúpa óttalaust spillingu þessa heims og hjálpa fólki Guðs að halda sér hreinu. Undir lok daganna 1290 voru hinir heilögu vel á veg komnir að endurheimta hreina stöðu sína. Í september árið 1922, rétt í þann mund er þetta tímabil tók enda, héldu þeir mót í Cedar Point í Ohio í Bandaríkjunum sem reyndist ómetanleg lyftistöng fyrir prédikunarstarfið. En það var enn þörf á framförum sem biðu næsta tímabils.

HAMINGJA HINNA HEILÖGU

24, 25. (a) Hvaða tímabil er spáð um í Daníel 12:12, og hvenær má ætla að það hafi hafist og því lokið? (b) Hvernig var andlegt ástand hinna smurðu leifa við upphaf daganna 1335?

24 Engill Jehóva lýkur spádómi sínum um hina heilögu með orðunum: „Sæll er sá, sem þolugur þreyr og nær eitt þúsund þrjú hundruð þrjátíu og fimm dögum.“ (Daníel 12:12) Engillinn gefur engar vísbendingar um það hvenær þetta tímabil hefst eða hvenær því lýkur. Af sögunni má ætla að það hafi hreinlega komið í kjölfar tímabilsins á undan. Ef svo er hefur það staðið frá haustinu 1922 til síðla vors árið 1926. Voru hinir heilögu sælir eða hamingjusamir í lok þessa tímabils? Já, það voru þeir í mikilvægum, andlegum skilningi.

25 Jafnvel eftir mótið 1922 (sjá mynd á bls. 302) horfðu sumir hinna heilögu þjóna Guðs með söknuði til fortíðarinnar. Aðalnámsefnið á samkomum þeirra var enn þá Biblían og bindin Studies in the Scriptures (Rannsóknir á Ritningunni) eftir C. T. Russell. Sú skoðun átti miklu fylgi að fagna að paradís yrði endurreist á jörð árið 1925 og upprisan hæfist þá. Margir þjónuðu því með ákveðna tímasetningu í huga. Sumir neituðu með hroka að taka þátt í prédikunarstarfi meðal almennings. Þetta var ekki ánægjulegt ástand.

26. Hvernig breyttist andlegt ástand hinna smurðu er leið á dagana 1335?

26 En það breyttist er leið á dagana 1335. Aukin áhersla var lögð á prédikunarstarfið og gerðar voru ráðstafanir til að allir gætu tekið þátt í boðunarstarfinu að staðaldri. Haldnar voru vikulegar námssamkomur þar sem Varðturninn var notaður. Söguleg grein, „Fæðing þjóðarinnar,“ birtist í blaðinu 1. mars árið 1925. Þar fékk fólk Guðs góðan skilning á því sem gerðist á árunum 1914-19. Eftir að árið 1925 var liðið hættu hinir heilögu að þjóna Guði með yfirvofandi og tiltekinn eindaga í huga. Það sem mestu máli skipti var helgun nafns Jehóva. Þessi mikilvægi sannleikur kom betur fram en nokkru sinni fyrr í greininni „Hver mun heiðra Jehóva?“ í Varðturninum 1. janúar 1926. Bókin Frelsun (Deliverance) var gefin úr á mótinu í maí 1926, en hún tilheyrði nýrri bókaröð sem taka átti við af Studies in the Scriptures. (Sjá bls. 302.) Hinir heilögu horfðu ekki lengur til baka heldur horfðu þeir öruggir fram á veginn og til starfsins sem framundan var. Eins og spáð var voru hinir heilögu hamingjusamir í lok daganna 1335.

27. Hvernig hjálpar yfirlit yfir 12. kafla Daníelsbókar okkur að bera óyggjandi kennsl á smurða þjóna Jehóva?

27 Að sjálfsögðu héldu ekki allir út þessa róstutíma. Það er eflaust ástæðan fyrir því að engillinn hafði lagt áherslu á nauðsyn þess að ‚þreyja þolugur.‘ Þeir sem gerðu það og héldu eftirvæntingunni vakandi uppskáru ríkulega blessun. Það er ljóst af stuttu yfirliti yfir 12. kafla Daníelsbókar. Eins og spáð var voru hinir smurðu endurlífgaðir eða reistir upp frá dauðum í andlegum skilningi. Þeim var veitt framúrskarandi innsýn í orð Guðs og gert kleift að „rannsaka“ það undir leiðsögn heilags anda og ljúka upp aldagömlum leyndardómum. Jehóva hreinsaði þá og lét þá skína andlega eins og skærar stjörnur. Þar af leiðandi leiddu þeir marga til réttlætis frammi fyrir Jehóva Guði.

28, 29. Hverju ættum við að vera staðráðin í þegar endalokatímanum er að ljúka?

28 Þegar á það er litið hvernig spádómarnir benda greinilega á „hina heilögu Hins hæsta“ er tæplega nokkur afsökun fyrir því að viðurkenna þá ekki eða starfa ekki með þeim. Ríkuleg blessun bíður múgsins mikla sem leggur lið þessum fámenna hópi smurðra kristinna manna í þjónustu Jehóva. Við verðum öll að bíða þess með eftirvæntingu að fyrirheit Guðs rætist. (Habakkuk 2:3) Míkael, hinn mikli verndarengill, hefur verndað fólk Guðs um áratuga skeið. Bráðlega lætur hann til skarar skríða og fullnægir dómi Guðs yfir þessu heimskerfi. Hvar stöndum við þegar það gerist?

29 Svarið við þessari spurningu veltur á því hvort við veljum að vera ráðvönd núna. Við skulum styrkja þann ásetning okkar að gera það er dregur að lokum endalokatímans með því að skoða síðasta vers Daníelsbókar. Það gerum við í næsta kafla bókarinnar, og þá sjáum við hvernig Daníel stóð frammi fyrir Guði sínum og hvernig hann mun standa frammi fyrir honum í framtíðinni.

[Neðanmáls]

^ gr. 21 Gríska Sjötíumannaþýðingin þýðir það einfaldlega „fórnin.“

HVAÐ LÆRÐIR ÞÚ?

Á hvaða tímabili ‚verndar‘ Míkael þjóna Guðs og hvenær og hvernig ‚gengur hann fram‘?

Hvers konar upprisu er talað um í Daníel 12:2?

Hvenær hófust eftirfarandi tímabil og hvenær lauk þeim?

Tíðirnar þrjár og hálf í Daníel 12:7.

Dagarnir 1290 í Daníel 12:11.

Dagarnir 1335 í Daníel 12:12.

Hvernig hjálpar 12. kafli Daníelsbókar okkur að bera kennsl á sanna tilbiðjendur Jehóva?

[Spurningar]

[Rammi á blaðsíðu 298]

HIN DAGLEGA FÓRN AFNUMIN

„Hin daglega fórn“ er nefnd fimm sinnum í Daníelsbók. Þar er átt við lofgerðarfórn — „ávöxt vara“ — sem þjónar Jehóva Guðs færa honum að staðaldri. (Hebreabréfið 13:15) Minnst er á afnám hennar í Daníel 8:11, 11:31 og 12:11.

Fólk Jehóva var ofsótt grimmilega í báðum heimsstyrjöldunum, bæði á áhrifasvæði ‚konungsins norður frá‘ og ‚konungsins suður frá.‘ (Daníel 11:14, 15) „Hin daglega fórn“ var afnumin undir lok fyrri heimsstyrjaldarinnar þegar prédikunarstarfið var nánast stöðvað um mitt ár 1918. (Daníel 12:7) Í síðari heimsstyrjöldinni var ‚hin daglega fórn‘ einnig ‚afnumin‘ í 2300 daga af ensk-ameríska heimsveldinu. (Daníel 8:11-14; sjá 10. kafla þessarar bókar.) Hún var líka afnumin um tíma af ‚herflokkum‘ nasista án þess að Ritningin tilgreini tímalengdina. — Daníel 11:31; sjá 15. kafla þessarar bókar.

[Tafla/myndir á blaðsíðu 301]

HIN SPÁDÓMLEGU TÍMABIL DANÍELSBÓKAR

Sjö tíðir (2520 ár): Október 607 f.o.t. til

Daníel 4:16, 25 október 1914 e.o.t.

(Messíasarríkið stofnsett.

Sjá 6. kafla þessarar bókar.)

Þrjár og hálf tíð Desember 1914 til júní 1918

(1260 dagar): (Smurðir kristnir menn áreittir.

Daníel 7:25; 12:7 Sjá 9. kafla þessarar bókar.)

2300 kvöld og 1. eða 15. júní 1938 til

morgnar: 8. eða 22. október 1944

Daníel 8:14 (‚Múgurinn mikli‘ kemur fram og

stækkar. Sjá 10. kafla þessarar bókar.)

70 vikur (490 ár): 455 f.o.t. til 36 e.o.t.

Daníel 9:24-27 (Koma Messíasar og jarðnesk

þjónusta hans. Sjá 11. kafla

þessarar bókar.)

1290 dagar: Janúar 1919 til

Daníel 12:11 september 1922

(Smurðir kristnir menn vakna upp

og taka andlegum framförum.)

1335 dagar: September 1922 til maí 1926

Daníel 12:12 (Smurðir kristnir menn

öðlast hamingju.)

[Myndir á blaðsíðu 287]

Þjónar Jehóva sem voru ranglega dæmdir til fangavistar í alríkishegningarhúsinu í Atlanta í Georgíu í Bandaríkjunum. Frá vinstri til hægri: (sitjandi) A. H. Macmillan, J. F. Rutherford, W. E. Van Amburgh; (standandi) G. H. Fisher, R. J. Martin, G. DeCecca, F. H. Robison og C. J. Woodworth.

[Myndir á blaðsíðu 299]

Söguleg mót voru haldin í Cedar Point í Ohio í Bandaríkjunum árið 1919 (að ofan) og árið 1922 (að neðan).

[Heilsíðumynd á blaðsíðu 302]