Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þeir héldu vöku sinni og björguðust

Þeir héldu vöku sinni og björguðust

Þeir héldu vöku sinni og björguðust

JESÚS KRISTUR varaði við að þjóðskipulag Gyðinga myndi líða undir lok en musterið í Jerúsalem var miðdepill þess. Hann tímasetti ekki hvenær þetta yrði en lýsti atburðum sem yrðu undanfari þess. Hann hvatti lærisveina sína til að halda vöku sinni og forða sér af hættusvæðinu.

Jesús sagði: „Þegar þér sjáið herfylkingar umkringja Jerúsalem, þá vitið, að eyðing hennar er í nánd.“ Hann sagði einnig: „Þegar þér sjáið viðurstyggð eyðingarinnar . . . standa á helgum stað . . . þá flýi þeir, sem í Júdeu eru, til fjalla.“ Hann varaði lærisveinana við því að snúa aftur til að sækja eigur sínar. Þeir yrðu að flýja til að forða lífi sínu. — Lúkas 21:20, 21; Matteus 24:15, 16.

Cestíus Gallus settist um Jerúsalem með hersveitum sínum árið 66 til að bæla niður langstæða uppreisn Gyðinga. Hann komst alla leið inn í borgina og hneppti musterið í herkví. Alger ringulreið var í borginni. Þeim sem héldu vöku sinni var ljóst að mikil ógæfa var í aðsigi. En hvernig gátu þeir flúið? Öllum að óvörum dró Cestíus Gallus her sinn til baka. Uppreisnarmenn Gyðinga eltu. Nú var tækifærið til að flýja Jerúsalem og Júdeu!

Árið eftir komu hersveitir Rómverja aftur undir stjórn feðganna Vespasíanusar og Títusar. Landið logaði í átökum. Snemma árs 70 reistu Rómverjar girðingu úr oddhvössum staurum umhverfis Jerúsalem. Nú var engrar undankomu auðið. (Lúkas 19:43, 44) Klofningshópar innan borgar bárust á banaspjótum. Þeir sem eftir voru féllu annaðhvort fyrir Rómverjum eða voru teknir til fanga. Borgin og musterið voru jöfnuð við jörðu. Gyðingasagnfræðingurinn Jósefus, sem var uppi á fyrstu öld, segir að rösklega ein milljón Gyðinga hafi þjáðst og týnt lífi. Musterið hefur aldrei verið endurbyggt.

Ef kristnir menn hefðu verið í Jerúsalem árið 70 hefðu þeir annaðhvort verið drepnir eða hnepptir í þrælkun eins og allir aðrir. Fornir sagnaritarar geta þess hins vegar að kristnir menn hafi hlýtt viðvörun Guðs, flúið frá Jerúsalem og allri Júdeu og forðað sér til fjallanna austan við Jórdan. Sumir settust að í Pellu í Pereuhéraði. Þeir höfðu yfirgefið Júdeu og ekki snúið aftur. Þeir forðuðu lífi sínu með því að hlýða viðvörun Jesú.

Tekurðu mark á viðvörunum frá áreiðanlegum aðilum?

Margir hætta að taka viðvaranir alvarlega eftir að hafa heyrt nokkrar sem áttu ekki við rök að styðjast. Það getur engu að síður orðið manni til lífs að taka mark á viðvörunum.

Árið 1975 var varað við yfirvofandi jarðskjálfta í Kína. Yfirvöld fyrirskipuðu brottflutning íbúa af svæðinu. Almenningur brást vel við og þúsundum mannslífa var bjargað.

Í aprílmánuði 1991 urðu íbúar þorps í hlíðum Pinatubofjalls á Filippseyjum varir við gosgufur og ösku í fjallinu og létu vita. Eldfjalla- og jarðskjálftastöð Filippseyja fylgdist náið með fjallinu um tveggja mánaða skeið og gaf þá út viðvörun um yfirvofandi hættu. Tugþúsundir manna voru fluttar af svæðinu í skyndingu. Snemma dags 15. júní varð öflugt sprengigos í fjallinu. Meira en átta rúmkílómetrar af ösku þeyttust upp í loftið og lögðust síðan yfir sveitina. Þúsundir manna komust undan af því að þær tóku mark á viðvöruninni.

Í Biblíunni er varað við að núverandi heimur sé í þann mund að líða undir lok. Við lifum síðustu daga hans. Heldurðu vöku þinni? Hefurðu gert ráðstafanir til að forðast hættusvæðið? Og hveturðu aðra til að forða sér með hraði?

[Mynd á bls. 20]

Margir björguðust þegar sprengigos varð í Pinatubofjalli. Þeir tóku mark á viðvörun.

[Mynd á bls. 21]

Kristnir menn hlýddu viðvörun Jesú og komust lífs af þegar Jerúsalem var eydd árið 70.