Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Þeir vissu ekki“

„Þeir vissu ekki“

„Þeir vissu ekki“

ÞAÐ er ávísun á ógæfu að taka ekki mark á viðvörunum.

Íbúar borgarinnar Darwin í Ástralíu voru í óða önn að undirbúa hátíðarhöld árið 1974 þegar sírenur tóku að gjalla til merkis um að fellibylur væri yfirvofandi. En fellibylur hafði ekki valdið tjóni í borginni síðastliðin 30 ár. Hvers vegna núna? Fæstir borgarbúar tóku hættuna alvarlega uns ofsaveður skall á og tók að tæta þök og veggi af húsunum þar sem þeir leituðu skjóls. Borgin var í rústum þegar birti af degi morguninn eftir.

Eldfjall tók að gjósa í Kólombíu í nóvember 1985. Eldgosið bræddi snjó og ís í hlíðum fjallsins og hleypti af stað aurskriðu sem gróf bæinn Armero og rösklega 20.000 íbúa með. Var ekki varað við hættunni? Jarðskjálftar höfðu verið á svæðinu mánuðum saman. En flestir íbúar Armero létu sér fátt um finnast enda vanir því að búa við rætur eldfjalls. Yfirvöld voru vöruð við yfirvofandi hættu en gerðu fátt til að vara almenning við. Lesnar voru tilkynningar í útvarpi til að róa almenning. Hátalarakerfi kirkjunnar var notað til að hvetja fólk til að halda ró sinni. Sama kvöld urðu tvær miklar sprengingar í fjallinu. Hefðir þú yfirgefið eigur þínar og flúið? Fáir gerðu nokkra tilraun til þess fyrr en það var um seinan.

Jarðfræðingar spá oft með töluverðri nákvæmni hvar búast megi við jarðskjálftum. Hins vegar geta þeir sjaldan spáð nákvæmlega hvenær þeir verði. Árið 1999 fórust um 20.000 manns af völdum jarðskjálfta víðs vegar um heim. Margir, sem fórust, héldu að ógæfan myndi aldrei henda þá sjálfa.

Hvernig bregst þú við viðvörunum frá Guði sjálfum?

Endur fyrir löngu lýsti Biblían atburðum síðustu daga og í tengslum við þessa lýsingu hvetur hún okkur til að hugsa um ,daga Nóa‘. Hún segir að „dagana fyrir flóðið“ hafi fólk verið upptekið af hinu daglega lífi þó að flestir hafi vafalítið haft nokkrar áhyggjur af ofbeldinu sem var afar útbreitt. Hins vegar gáfu menn engan gaum að viðvörun Guðs, sem Nói flutti, „fyrr en flóðið kom og hreif þá alla burt“. (Matteus 24:37-39) Hefðir þú tekið mark á viðvörun hans? Tekur þú mark á viðvörun hans núna?

Segjum að þú hefðir búið í Sódómu við Dauðahaf á dögum Lots, frænda Abrahams. Sveitin þar um kring var paradís líkust og mikil velmegun í borginni. Íbúarnir lifðu áhyggjulausu lífi. Þeir „átu og drukku, keyptu og seldu, gróðursettu og byggðu“. En samfélag þeirra var ákaflega siðlaust. Hefðir þú sinnt viðvörun Lots þegar hann fordæmdi grófa hegðun íbúanna? Hefðir þú hlustað þegar hann sagði frá því að Guð ætlaði að eyða Sódómuborg? Eða hefðir þú ef til vill hugsað sem svo að Lot væri að gera að gamni sínu, líkt og væntanlegir tengdasynir hans gerðu? Hefðir þú kannski flúið borgina en snúið við eins og eiginkona hans? Fjöldinn tók ekki mark á viðvörun Lots en „daginn, sem Lot fór úr Sódómu, rigndi eldi og brennisteini af himni og tortímdi öllum“. — Lúkas 17:28, 29.

Fæstir gefa gaum að þeirri viðvörun sem gefin er nú á dögum. Við skulum hins vegar láta þau dæmi, sem sagt er frá í orði Guðs, okkur að kenningu verða. Látum þau hvetja okkur til að HALDA VÖKU OKKAR!

[Rammi/mynd á bls. 22]

Varð einhvern tíma heimsflóð?

Margir gagnrýnismenn segja það aldrei hafa gerst en Biblían fullyrðir að svo hafi verið.

Jesús Kristur talaði um flóðið og hann var sjónarvottur að því af himnum ofan.

[Rammi/mynd á bls. 23]

Var Sódómu og Gómorru eytt?

Fornleifafræðin sýnir fram á það.

Mannkynssagan getur um það.

Jesús Kristur staðfesti það og þess er getið í 14 af bókum Biblíunnar.