Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Að þér fallið ekki í freistni“

„Að þér fallið ekki í freistni“

„Að þér fallið ekki í freistni“

„Vakið og biðjið, að þér fallið ekki í freistni.“ — MATTEUS 26:41.

 ÁLAGIÐ var gríðarlegt — ólíkt öllu öðru sem hann hafði kynnst. Jarðlíf Jesú Krists, sonar Guðs, var næstum á enda. Hann vissi að innan skamms yrði hann handtekinn, dæmdur til dauða og negldur á aftökustaur. Hann vissi að allar ákvarðanir hans og gerðir myndu annaðhvort upphefja nafn föður hans eða varpa skugga á það. Hann vissi að lífshorfur mannkyns voru í húfi. Hvað gerði hann undir þessu mikla álagi?

2 Hann fór með lærisveinunum í Getsemanegarðinn sem var einn af uppáhaldsstöðunum hans. Þar vék hann spölkorn frá þeim og leitaði til föður síns á himnum í innilegri bæn. Hann úthellti hjarta sínu og leitaði styrks hjá honum, ekki aðeins einu sinni heldur þrisvar. Þótt Jesús væri fullkominn fannst honum hann ekki ráða við álagið einn síns liðs. — Matteus 26:36-44.

3 Við þurfum líka að þola talsvert álag. Fyrr í þessu riti var sýnt fram á að við lifum á síðustu dögum þessa illa heims. Álagið og freistingarnar frá heimi Satans fara vaxandi. Við segjumst þjóna hinum sanna Guði þannig að allar ákvarðanir okkar og gerðir annaðhvort upphefja nafn hans eða varpa skugga á það og hafa djúpstæð áhrif á það hvort við getum átt von um að lifa í nýjum heimi hans. Við elskum Jehóva. Okkur langar til að vera ,staðföst allt til enda‘ — hvort heldur það er endir okkar eigin lífs eða endir heimskerfisins. (Matteus 24:13) En hvernig getum við verið kappsfull og haldið vöku okkar?

4 Jesús vissi að lærisveinar sínir — bæði þá og nú — myndu verða fyrir miklu álagi og brýndi fyrir þeim að vaka og biðja til að þeir ,féllu ekki í freistni‘. (Matteus 26:41) Hvað merkja þessi orð fyrir okkur sem nú lifum? Hvaða freistingar verða á vegi þínum? Og hvernig geturðu ,vakað‘?

Hvaða freistingar?

5 Við þurfum að standast freistingar daglega svo að við föllum ekki í „snöru djöfulsins“. (2. Tímóteusarbréf 2:26) Biblían varar við því að Satan beini spjótum sínum sérstaklega að tilbiðjendum Jehóva. (1. Pétursbréf 5:8; Opinberunarbókin 12:12, 17) Hvað vakir fyrir honum? Hann er ekki endilega að sækjast eftir lífi okkar. Það væri enginn sigur fyrir Satan ef við dæjum trúföst Jehóva Guði enda veit hann að Jehóva mun afturkalla dauðann í fyllingu tímans með því að reisa fólk upp frá dauðum. — Lúkas 20:37, 38.

6 Satan vill eyðileggja ráðvendni okkar gagnvart Guði sem er miklu dýrmætari en það líf sem við lifum núna. Hann leggur ofurkapp á að sanna að hann geti fengið okkur til að snúa baki við Jehóva. Þess vegna væri það sigur fyrir Satan ef honum tækist að fá okkur til að vera Guði ótrú — fá okkur til að hætta að prédika fagnaðarerindið eða fylgja kristnum lífsreglum. (Efesusbréfið 6:11-13) Þess vegna leggur „freistarinn“ ýmsar freistingar í götu okkur. — Matteus 4:3.

7 „Vélabrögð“ Satans eru margs konar. (Efesusbréfið 6:11) Hann getur átt til að freista okkar með efnishyggju, ótta, efasemdum eða skemmtanafíkn. Einhver áhrifaríkasta aðferð hans er þó sú að draga úr okkur kjark og lama hugarþrek okkar. Hann er slóttugur tækifærissinni sem veit að vonleysiskennd getur dregið svo úr okkur kraft að við föllum í freistni. (Orðskviðirnir 24:10) Hann reynir sérstaklega að fá okkur til að gefast upp ef við verðum tilfinningalega „lémagna“. — Sálmur 38:9.

8 Eftir því sem líður á hina síðustu daga virðist æ fleira geta gert okkur kjarklítil og niðurdregin. Við erum ekki ónæm fyrir slíkum áhrifum. (Sjá rammann „Hvað getur gert okkur niðurdregin og kjarklítil?“) Við erum lítils megnug ef við erum niðurdregin af einhverjum ástæðum. Ef við erum uppgefin á líkama og sál er enginn hægðarleikur fyrir okkur að ,nota hverja stund‘ til að sinna andlegu skyldunum — lesa í Biblíunni og hugleiða efni hennar, sækja samkomur og boða fagnaðarerindið. (Efesusbréfið 5:15, 16) Mundu að freistarinn vill að þú gefist upp. En nú er ekki rétti tíminn til að hægja á sér eða sofna á verðinum! (Lúkas 21:34-36) Hvernig geturðu staðist freistingarnar og haldið vöku þinni? Lítum á fernt sem getur hjálpað.

„Biðjið“

9 Reiddu þig á Jehóva og leitaðu til hans í bæn. Hvað gerði Jesús í Getsemanegarðinum þegar tilfinningaálagið var sem mest? Hann leitaði hjálpar hjá Jehóva og bað svo innilega til hans að „sveiti hans varð eins og blóðdropar, er féllu á jörðina“. (Lúkas 22:44) Nú þekkti Jesús Satan mætavel. Af himnum ofan hafði hann horft upp á allar þær freistingar sem Satan beitir til að reyna að klófesta þjóna Guðs. Samt taldi hann ekki hlaupið að því fyrir sig að standast allt sem freistarinn kynni að leggja í götu hans. Fyrst fullkomnum syni Guðs fannst hann þurfa að biðja um hjálp og styrk frá Guði þá þurfum við þess ekki síður. — 1. Pétursbréf 2:21.

10 Munum jafnframt að strax eftir að Jesús hvatti lærisveinana til að ,vaka og biðja‘ sagði hann að ,andinn væri reiðubúinn en holdið veikt‘. (Matteus 26:41) Hvaða hold átti hann við? Hann var auðvitað ekki að tala um sitt eigið hold því að það var hvorki veikt né ófullkomið. (1. Pétursbréf 2:22) Öðru máli gegndi um lærisveinana. Þeir höfðu fengið ófullkomleika og syndugar tilhneigingar í arf og þurftu hjálp til að standast freistingar. (Rómverjabréfið 7:21-24) Þess vegna hvatti hann þá, og alla sannkristna menn eftir þeirra dag, til að biðja Guð um hjálp til að standast freistingar. (Matteus 6:13) Jehóva svarar slíkum bænum á að minnsta kosti tvo vegu. — Sálmur 65:3.

11 Í fyrsta lagi hjálpar hann okkur að koma auga á freistingarnar. Freistingar Satans eru eins og snörur lagðar á víð og dreif um dimma götu. Við getum gengið í þær ef við sjáum þær ekki. Með Biblíunni og biblíutengdum ritum varpar Jehóva ljósi á snörur Satans þannig að við getum forðast þær og föllum ekki í freistni. Árum saman hefur verið varað við hættum eins og ótta við menn, kynferðislegu siðleysi, efnishyggju og öðrum freistingum Satans. (Orðskviðirnir 29:25; 1. Korintubréf 10:8-11; 1. Tímóteusarbréf 6:9, 10) Þetta hefur verið gert bæði í prentuðu máli og á mótum. Ertu ekki þakklátur að Jehóva skuli vara okkur við vélráðum Satans? (2. Korintubréf 2:11) Allar þessar viðvaranir eru svar við bænum þínum um hjálp til að falla ekki í freistni.

12 Í öðru lagi svarar Jehóva bænum okkar með því að styrkja okkur svo að við stöndumst freistingar. Orð hans segir: „Guð . . . lætur ekki freista yðar um megn fram, heldur mun hann, þegar hann reynir yður, einnig sjá um, að þér fáið staðist.“ (1. Korintubréf 10:13) Guð leyfir aldrei að okkar sé freistað að því marki að við höfum ekki andlegan þrótt til að standast — svo framarlega sem við reiðum okkur stöðugt á hann. Hann sér til þess að við stöndumst freistingar með því að gefa þeim „heilagan anda, sem biðja hann“. (Lúkas 11:13) Andinn getur hjálpað okkur að muna eftir meginreglum í Biblíunni sem geta styrkt okkur þannig að við gerum rétt, og hann getur hjálpað okkur að taka viturlegar ákvarðanir. (Jóhannes 14:26; Jakobsbréfið 1:5, 6) Hann getur hjálpað okkur að sýna þá eiginleika sem þarf til að sigrast á röngum tilhneigingum. (Galatabréfið 5:22, 23) Andi Guðs getur jafnvel hvatt trúsystkini okkar til að styrkja okkur. (Postulasagan 14:21, 22) Erum við ekki þakklát að Jehóva skuli svara okkur á ástríkan hátt þegar við biðjum hann um hjálp?

Vertu raunsær í væntingum

13 Við þurfum að vera raunsæ í væntingum til að halda vöku okkar. Álag lífsins getur verið lýjandi. En við verðum að hafa hugfast að Guð hefur ekki lofað að lífið í þessu gamla heimskerfi verði vandræðalaust. Þjónar Guðs á biblíutímanum máttu líka þola ýmiss konar andstreymi, svo sem ofsóknir, fátækt, þunglyndi og veikindi. — Postulasagan 8:1; 2. Korintubréf 8:1, 2; 1. Þessaloníkubréf 5:14; 1. Tímóteusarbréf 5:23.

14 Við fáum líka okkar skerf af erfiðleikum. Þetta geta verið ofsóknir, peningaáhyggjur, þunglyndi, veikindi eða annars konar mótlæti. Hefði Satan ekki ástæðu til að smána Jehóva ef Jehóva ynni kraftaverk til að hlífa okkur við öllu andstreymi? (Orðskviðirnir 27:11) Jehóva leyfir að þjónar sínir verði fyrir freistingum og mótlæti, og stundum leyfir hann jafnvel að þeir deyi um aldur fram af völdum andstæðinga sinna. — Jóhannes 16:2.

15 Hverju hefur Jehóva þá lofað? Eins og áður hefur komið fram hefur hann lofað að hjálpa okkur að standast allar freistingar, sem verða á vegi okkar, að því tilskildu að við treystum honum fullkomlega. (Orðskviðirnir 3:5, 6) Hann notar orð sitt, anda og skipulag til að vernda okkur andlega og hjálpa okkur að varðveita sambandið við sig. Ef við eigum heilbrigt samband við hann sigrum við þótt við deyjum. Ekkert, ekki einu sinni dauðinn, getur komið í veg fyrir að Guð umbuni dyggum þjónum sínum. (Hebreabréfið 11:6) Og í nýja heiminum, sem er rétt fram undan, uppfyllir Jehóva öll önnur fyrirheit sín um að blessa þá sem elska hann. — Sálmur 145:16.

Mundu um hvað deilan snýst

16 Til að vera þolgóð allt til enda verðum við að muna hvaða deilumál það eru sem valda því að hann leyfir illskuna. Ef okkar eigin vandamál virðast stundum yfirþyrmandi og okkur finnst það freistandi tilhugsun að gefast upp, þá skulum við minna okkur á að Satan véfengdi að Jehóva væri réttmætur Drottinn alheims. Blekkingameistarinn hefur enn fremur véfengt hollustu og ráðvendni allra dýrkenda hans. (Jobsbók 1:8-11; 2:3, 4) Þessi deilumál eru mikilvægari en við og hið sama er að segja um aðferðir Jehóva til að leysa þau. Hvernig þá?

17 Að Guð skuli hafa leyft þrengingar um tíma hefur haft í för með sér að aðrir hafa fengið tækifæri til að taka við sannleikanum. Mundu að Jesús þjáðist til að við gætum lifað. (Jóhannes 3:16) Erum við ekki þakklát fyrir það? En erum við fús til að þola erfiðleika enn um sinn til að fleiri hljóti líf? Til að vera staðföst allt til enda þurfum við að viðurkenna að Jehóva er miklu vitrari en við. (Jesaja 55:9) Hann velur besta tímann til að útkljá deilumálið endanlega og okkur til mestra heilla um eilífð. Annað er óhugsandi því að hjá Guði er ekkert ranglæti. — Rómverjabréfið 9:14-24.

„Nálægið yður Guði“

18 Við þurfum að halda okkur nærri Jehóva til að halda vöku okkar. Gleymum ekki að Satan reynir allt hvað hann getur til að spilla góðu sambandi okkar við Jehóva. Hann reynir að telja okkur trú um að endirinn komi aldrei og að það þjóni engum tilgangi að prédika fagnaðarerindið eða lifa eftir lífsreglum Biblíunnar. En hann er „lygari og lyginnar faðir“. (Jóhannes 8:44) Við verðum að vera staðráðin í að ,standa gegn djöflinum‘. Við ættum aldrei að líta á sambandið við Jehóva sem léttvægt mál. Biblían hvetur með hlýlegum orðum: „Nálægið yður Guði, og þá mun hann nálgast yður.“ (Jakobsbréfið 4:7, 8) Hvernig geturðu nálægt þig Jehóva?

19 Það er mikilvægt að biðja og hugleiða. Úthelltu hjarta þínu fyrir Jehóva þegar þér finnst þú vera að bugast undan álagi lífsins. Því markvissari sem þú ert í bænum þínum, þeim mun skýrar sérðu hvernig hann svarar þeim. Það er ekki víst að svarið sé eins og þú ímyndaðir þér en ef þú þráir að heiðra hann og vera ráðvandur hjálpar hann þér eftir þörfum þannig að þú getir haldið út. (1. Jóhannesarbréf 5:14) Þú nálægist hann þegar þú finnur fyrir handleiðslu hans. Það er líka nauðsynlegt fyrir þig að lesa í Biblíunni um eiginleika Jehóva og starfshætti og hugleiða það sem þú lest. Þannig kynnist þú honum betur og það hrífur hjarta þitt og styrkir kærleika þinn til hans. (Sálmur 19:15) Og þessi kærleikur hjálpar þér meira en nokkuð annað til að standast freistingar og halda vöku þinni. — 1. Jóhannesarbréf 5:3.

20 Við þurfum einnig að halda nánum tengslum við trúsystkini okkar til að vera nálæg Jehóva. Um það er fjallað í síðasta hluta þessa rits.

NÁMSSPURNINGAR

• Hvað gerði Jesús þegar álagið var sem mest rétt áður en hann dó, og hvað hvatti hann lærisveinana til að gera (gr. 1-4)?

• Hvers vegna beinir Satan spjótum sínum sérstaklega að tilbiðjendum Jehóva og hvernig freistar hann okkar (gr. 5-8)?

• Hvers vegna þurfum við að gera eftirfarandi til að standast freistingar? Biðja stöðuglega (gr. 9-12), vera raunsæ í væntingum (gr. 13-15), muna um hvað deilan snýst (gr. 16-17) og ,nálægja okkur Guði‘ (gr. 18-20).

[Rammi á bls. 25]

Hvað getur gert okkur niðurdregin og kjarklítil?

Aldur og heilsa. Við getum orðið niðurdregin þegar langvinn veikindi eða aldur hamla okkur að gera allt sem við vildum í þjónustu Guðs. — Hebreabréfið 6:10.

Vonbrigði. Við getum orðið niðurdregin ef okkur finnst boðunarstarf okkar bera lítinn árangur. — Orðskviðirnir 13:12.

Að finnast maður einskis nýtur. Slæm meðferð og illt atlæti um langt skeið getur sannfært mann um að engum, ekki einu sinni Jehóva, þyki vænt um mann. — 1. Jóhannesarbréf 3:19, 20.

Særðar tilfinningar. Alvarleg móðgun eða sárindi gagnvart trúbróður getur haft svo djúpstæð áhrif að maður freistist til að hætta að sækja safnaðarsamkomur eða taka þátt í boðunarstarfinu. — Lúkas 17:1.

Ofsóknir. Fólk sem er annarrar trúar getur snúist gegn þér, ofsótt þig eða gert gys að þér. — 2. Tímóteusarbréf 3:12; 2. Pétursbréf 3:3, 4.

[Mynd á bls. 26]

Jesús hvatti okkur til að biðja stöðuglega svo að við féllum ekki í freistni.