Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

,Stund dómsins‘ er runnin upp

,Stund dómsins‘ er runnin upp

,Stund dómsins‘ er runnin upp

OPINBERUNARBÓKIN, síðasta bók Biblíunnar, segir frá því að engill fljúgi um háhvolf himins og haldi á „eilífum fagnaðarboðskap, til að boða“. Hann segir hárri röddu: „Óttist Guð og gefið honum dýrð, því að komin er stund dóms hans.“ (Opinberunarbókin 14:6, 7) Með ,stund dómsins‘ er bæði átt við uppkvaðningu hans og framkvæmd. „Stund“ er fremur stuttur tími. Stund dómsins er hápunktur hinna síðustu daga sem standa yfir núna. — 2. Tímóteusarbréf 3:1.

Það eru góð tíðindi fyrir alla menn, sem unna réttlætinu, að ,stund dómsins‘ skuli vera runnin upp. Það er þá sem Guð leysir þjóna sína undan áþján þessa ofbeldisfulla og kærleikslausa heims sem nú er.

Við erum hvött til að óttast Guð og gefa honum dýrð núna, áður en dómsstundinni lýkur með því að núverandi heimi verður eytt. Gerirðu það? Það er ekki nóg að segjast trúa á Guð. (Matteus 7:21-23; Jakobsbréfið 2:19, 20) Við ættum líka að óttast hann en það merkir að bera djúpa lotningu fyrir honum. Guðsóttinn ætti að fá okkur til að forðast hið illa. (Orðskviðirnir 8:13) Hann ætti að hjálpa okkur að elska hið góða og hata hið illa. (Amos 5:14, 15) Ef við virðum Guð hlustum við vandlega á það sem hann segir. Þá erum við ekki svo upptekin af öðru að við lesum ekki reglulega í orði hans, Biblíunni. Þá treystum við honum alltaf og af öllu hjarta. (Sálmur 62:9; Orðskviðirnir 3:5, 6) Þeir sem virða hann viðurkenna hann sem skapara himins og jarðar, sem alheimsdrottin, og þeir lúta honum fúslega sem herra yfir lífi sínu. Ef við áttum okkur á því að við ættum að gefa meiri gaum að þessu skulum við gera það þegar í stað.

Dómstíminn, sem engillinn talaði um, er einnig kallaður „dagur Drottins“ Jehóva. Slíkur „dagur“ rann upp yfir Jerúsalem árið 607 f.o.t. vegna þess að borgarbúar sinntu ekki þeim viðvörunum sem Jehóva lét spámenn sína flytja. Og þeir stofnuðu sér í enn meiri lífshættu með því að fresta degi Jehóva í huga sér. Jehóva hafði aðvarað þá: „Hann er nálægur og hraðar sér mjög.“ (Sefanía 1:14) Annar „dagur Drottins“ rann svo upp yfir Babýlon árið 539 f.o.t. (Jesaja 13:1, 6) Babýloníumenn treystu á guði sína og víggirðingar og hunsuðu viðvaranir spámanna Jehóva. En hin mikla Babýlon féll á einni nóttu fyrir Medum og Persum.

Hvað blasir við? Annar og margfalt víðtækari „dagur Drottins“ er fram undan. (2. Pétursbréf 3:11-14) Guð hefur fellt dóm yfir Babýlon hinni miklu. Samkvæmt Opinberunarbókinni 14:8 lýsir engill yfir: „Fallin er, fallin er Babýlon hin mikla.“ Þetta hefur nú þegar átt sér stað. Hún getur ekki lengur hneppt dýrkendur Jehóva í bönd. Það hefur verið flett ofan af spillingu hennar og þátttöku í styrjöldum. Nú bíður hennar endanleg eyðing. Þess vegna hvetur Biblían alla menn alls staðar: „Gangið . . . út úr henni [Babýlon hinni miklu], svo að þér eigið engan hlut í syndum hennar og hreppið ekki plágur hennar. Því að syndir hennar hlóðust allt upp til himins og Guð minntist ranglætis hennar.“ — Opinberunarbókin 18:4, 5.

Hvað er Babýlon hin mikla? Hún er það kerfi heimstrúarbragðanna sem ber einkenni Forn-Babýlonar. (Opinberunarbókin 17. og 18. kafli) Lítum á nokkrar hliðstæður:

• Prestar Forn-Babýlonar tóku virkan þátt í stjórnmálum þjóðarinnar. Hið sama er að segja um flest trúfélög okkar tíma.

• Prestar Babýlonar stuðluðu oft að hernaði þjóðarinnar. Trúfélög okkar daga hafa oft gengið fram fyrir skjöldu að blessa hermenn þegar þjóðirnar hafa farið í stríð.

• Kenningar og siðir Babýloníumanna stuðluðu að gríðarlegri siðspillingu. Trúarleiðtogar nútímans stuðla að stjórnlausu siðleysi meðal klerka og leikmanna með því að virða siðferðisreglur Biblíunnar að vettugi. Eftirtekt vekur að Opinberunarbókin lýsir Babýlon hinni miklu sem skækju en það kemur til af því að hún selur sig heiminum og stjórnmálum hans.

• Biblían segir að Babýlon hin mikla stundi taumlaust „óhóf“. Hofin í Babýlon fortíðar áttu miklar jarðeignir og prestarnir voru umsvifamiklir kaupsýslumenn. Nú á tímum á Babýlon hin mikla feikilegar eignir auk trúarbygginganna, og hún á sterk ítök í viðskiptalífinu. Bæði hún og aðrir í viðskiptalífinu auðgast á kenningum hennar og helgidagahaldi.

• Líkneski, galdrar og særingar voru stundaðar í Babýlon forðum daga, rétt eins og gert er víða enn þann dag í dag. Álitið var að manneskjan flyttist yfir á annað tilverusvið við dauðann. Í Babýlon var sægur af hofum og kapellum helguð guðum hennar en Babýloníumenn voru andsnúnir tilbiðjendum Jehóva. Sömu trúarskoðanir og trúariðkanir einkenna Babýlon hina miklu.

Forðum daga notaði Jehóva voldugar þjóðir og herveldi til að refsa þeim sem þrjóskuðust gegn honum og vilja hans. Því var það að Assýringar lögðu Samaríu í eyði árið 740 f.o.t. Babýloníumenn eyddu Jerúsalem árið 607 f.o.t. og Rómverjar eyddu hana árið 70 e.o.t. Medar og Persar unnu hins vegar Babýlon árið 539 f.o.t. Því er spáð í Biblíunni að pólitískar stjórnir eigi eftir að ráðast eins og villidýr á „skækjuna“, afklæða hana og afhjúpa hvernig hún er innst inni. Síðan tortíma þær henni. — Opinberunarbókin 17:16.

Eiga stjórnir heims eftir að gera þetta í alvöru? Já, Biblían segir að ,Guð leggi þeim það í brjóst‘. (Opinberunarbókin 17:17) Þetta gerist ekki með hægfara þróun heldur skyndilega, óvænt og öllum að óvörum.

Hvað þarftu að gera? Heldurðu þig enn við trúfélag sem er mengað af kenningum og siðum sem tilheyra Babýlon hinni miklu? Ef ekki gætirðu engu að síður spurt þig hvort þú hafir látið afstöðu hennar hafa áhrif á þig. Hvers konar afstaða er það? Það er sú afstaða að vera umburðarlyndur gagnvart lauslæti, að elska efnislega hluti og skemmtanalíf í stað þess að elska Guð eða lítilsvirða orð hans (jafnvel í því sem virðist smátt). Hugleiddu vandlega hverju þú svarar.

Til að eiga velþóknun Jehóva er nauðsynlegt að sýna, bæði í verkum okkar og löngunum, að við tilheyrum alls ekki Babýlon hinni miklu. Það má engan tíma missa. Biblían bendir á að endirinn komi skyndilega: „Svo voveiflega mun Babýlon kollvarpast, borgin mikla, svo að engar menjar skulu eftir verða.“ — Opinberunarbókin 18:21.

En fleira á eftir að gerast. Á ,stund dómsins‘ lætur Jehóva Guð stjórnmálakerfi heimsins svara til saka, svo og valdhafa þess og alla sem hunsa réttmæta stjórn hans, það er að segja himnaríkið í höndum Jesú Krists. (Opinberunarbókin 13:1, 2; 19:19-21) Í Daníelsbók 2:20-45 er brugðið upp spádómlegri sýn af stjórnum heims, allt frá dögum Forn-Babýlonar til nútímans. Þar birtast þær í mynd líkneskis úr gulli, silfri, eiri, járni og leir. Spádómurinn vísar til okkar daga og segir að ,Guð himnanna muni hefja ríki sem aldrei skuli á grunn ganga‘. Biblían segir síðan hvað þetta ríki gerir á dómsstund Jehóva: „Það mun knosa og að engu gjöra öll þessi ríki [mannanna], en sjálft mun það standa að eilífu.“ — Daníel 2:44.

Biblían varar sanna guðsdýrkendur við því að elska það sem í heiminum er — það líferni sem heimurinn hvetur til og ýtir undir — enda er heimurinn fjarlægur Guði. (1. Jóhannesarbréf 2:15-17) Endurspegla ákvarðanir þínar og verk þín að þú standir heilshugar með ríki Guðs? Læturðu það í raun og veru ganga fyrir öllu öðru í lífinu? — Matteus 6:33; Jóhannes 17:16, 17.

[Rammi á bls. 14]

Hvenær kemur endirinn?

„Mannssonurinn kemur á þeirri stundu, sem þér ætlið eigi.“ — Matteus 24:44.

„Vakið . . . , þér vitið ekki daginn né stundina.“ — Matteus 25:13.

„Þetta rætist vissulega og án tafar.“ — Habakkuk 2:3, Biblíurit, ný þýðing 1995.

[Rammi á bls. 14]

Skipti það máli ef þú vissir hvenær?

Myndirðu nota líf þitt einhvern veginn öðruvísi ef þú vissir fyrir víst að dómi Guðs yrði ekki fullnægt fyrr en eftir nokkur ár? Hefur þetta gamla heimskerfi staðið lengur en þú varst búinn að reikna með og hefurðu þar af leiðandi hægt á þér í þjónustu Jehóva? — Hebreabréfið 10:36-38.

Að vita ekki tímann með vissu gefur okkur tækifæri til að sýna að við þjónum Guði af réttu tilefni. Þeir sem þekkja Jehóva vita að það er ekki hægt að slá ryki í augu hans með því að sýna af sér kapp og áhuga á síðustu stundu, því að hann sér hvað í hjartanu býr. — Jeremía 17:10; Hebreabréfið 4:13.

Jehóva er alltaf í fyrsta sæti hjá þeim sem elska hann í raun og veru. Sannkristnir menn vinna flestir veraldleg störf eins og aðrir. En það er ekki markmið þeirra að verða ríkir heldur að sjá fyrir sér og sínum og eiga eitthvað aflögu handa öðrum. (Efesusbréfið 4:28; 1. Tímóteusarbréf 6:7-12) Þeir gera líka ýmislegt sér til tilbreytingar og afþreyingar en þeir gera það til að hvílast og endurnærast en ekki til að fylgja fjöldanum. (Markús 6:31; Rómverjabréfið 12:2) Þeir hafa yndi af því að gera vilja Guðs, alveg eins og Jesús Kristur. — Sálmur 37:4; 40:9.

Sannkristnir menn þrá að lifa og þjóna Jehóva að eilífu. Sú von er jafnverðmæt þó að þeir þurfi að bíða ívið lengur eftir að hún rætist en sumir bjuggust við.

[Rammi/mynd á bls. 15]

Deilan um drottinvaldið

Til að glöggva okkur á því hvers vegna Guð leyfir allar þjáningarnar í heiminum þurfum við að skilja deiluna um drottinvaldið.

Jehóva er skapari alls þannig að hann hefur réttinn til að ráða yfir jörðinni og öllum sem byggja hana. En Biblían upplýsir að snemma í sögu mannkyns hafi þessi réttur Jehóva verið véfengdur. Satan djöfullinn fullyrti að Jehóva setti foreldrum mannkyns óeðlilegar hömlur, hann hefði logið til um það hvernig færi fyrir þeim ef þau brytu lög hans og gerðu það sem þeim sjálfum sýndist, og að þau væru betur sett ef þau réðu sér sjálf og væru honum óháð. — 1. Mósebók 2. og 3. kafli.

Ef Guð hefði tortímt uppreisnarseggjunum þegar í stað hefði það vissulega sýnt fram á mátt hans en það hefði ekki svarað spurningunum sem höfðu vaknað. Í stað þess að eyða uppreisnarseggjunum tafarlaust leyfði Jehóva englum og mönnum að sjá hvaða afleiðingar uppreisnin hefði. Það hefur vissulega valdið ýmsum þjáningum en það hefur líka orðið til þess að við urðum til.

Sjálfur færði Jehóva mikla fórn til að menn, sem hlýddu honum og trúðu á lausnarfórn sonar hans, gætu losnað undan syndinni og afleiðingum hennar og fengið að lifa í paradís. Hann myndi jafnvel reisa þá upp frá dauðum ef með þyrfti.

Með því að ætla nægan tíma til að leysa deilumálið hefur Jehóva líka gefið þjónum sínum tækifæri til að sýna að þeir séu færir um að svara kærleika hans og sanna að þeir séu honum trúir undir öllum kringumstæðum. Til að tryggja tilhlýðilega virðingu fyrir lögum í alheiminum þarf að útkljá deiluna um drottinvald Guðs ásamt deilunni um ráðvendni mannsins. Að öðrum kosti kemst aldrei á sannur friður. *

[Neðanmáls]

^ gr. 36 Þessi deilumál og afleiðingar þeirra eru rædd ítarlega í bókinni Nálægðu þig Jehóva sem gefin er út af Vottum Jehóva.

[Mynd]

Hið pólitíska stjórn- kerfi mannanna líður undir lok.