Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Umfram allt hafið brennandi kærleika hver til annars“

„Umfram allt hafið brennandi kærleika hver til annars“

„Umfram allt hafið brennandi kærleika hver til annars“

Endir allra hluta er í nánd. . . . Umfram allt hafið brennandi kærleika hver til annars.“ — 1. PÉTURSBRÉF 4:7, 8.

 JESÚS vissi að síðustu stundirnar, sem hann átti með lærisveinum sínum, voru afar dýrmætar. Hann vissi hvað beið þeirra. Þeir áttu feikilegt verk fyrir höndum en yrðu hataðir og ofsóttir líkt og hann. (Jóhannes 15:18-20) Hann minnti þá á það nokkrum sinnum síðasta kvöldið, sem þeir voru saman, að þeir þyrftu að „elska hver annan“. — Jóhannes 13:34, 35; 15:12, 13, 17.

2 Pétur postuli, sem var með þeim þetta kvöld, skildi hvað Jesús átti við. Mörgum árum síðar, skömmu áður en Jerúsalem var eytt, benti hann á hve kærleikurinn væri mikilvægur. Hann gaf kristnum mönnum eftirfarandi ráð: „Endir allra hluta er í nánd. . . . Umfram allt hafið brennandi kærleika hver til annars.“ (1. Pétursbréf 4:7, 8) Þetta eru mjög merkingarrík orð fyrir þá sem eru uppi á „síðustu dögum“ núverandi heimskerfis. (2. Tímóteusarbréf 3:1) Hvað er ,brennandi kærleikur‘? Hvers vegna er áríðandi að hafa brennandi kærleika til annarra? Og hvernig getum við sýnt að við gerum það?

Hvað er ,brennandi kærleikur‘?

3 Margir halda að kærleikur þurfi að kvikna af sjálfu sér. En Pétur var ekki að tala um hvaða kærleika sem er heldur göfugustu mynd hans. Orðið kærleikur í 1. Pétursbréfi 4:8 er þýðing gríska orðsins agaʹpe. Orðið lýsir óeigingjörnum kærleika sem hefur meginreglu að leiðarljósi. Heimildarrit segir: „Hægt er að segja agape-kærleikanum fyrir verkum vegna þess að hann er ekki fyrst og fremst tilfinning heldur viljastýrð ákvörðun sem leiðir til verka.“ Þar sem við höfum arfgenga tilhneigingu til að vera eigingjörn þarf að minna okkur á að sýna hvert öðru kærleika í samræmi við meginreglur Guðs. — 1. Mósebók 8:21; Rómverjabréfið 5:12.

4 Það er ekki svo að skilja að við eigum að elska hvert annað af skyldukvöð einni saman. Agaʹpe-kærleikurinn er alls ekki sneyddur tilfinningu og hlýju. Pétur segir að við verðum að hafa „brennandi [bókstaflega „útteygðan“] kærleika hver til annars“. * (Kingdom Interlinear) Engu að síður kostar hann áreynslu. Fræðimaður segir um gríska orðið sem þýtt er „brennandi“: „Það dregur upp mynd af íþróttamanni sem neytir síðustu kraftanna til að teygja á vöðvunum þegar hlaupinu er rétt að ljúka.“

5 Kærleikur okkar má því ekki takmarkast við það sem er auðvelt eða við fáeina útvalda heldur þarf hann að ,teygja á‘ hjarta okkar þannig að við elskum, jafnvel þó að það kosti áreynslu. (2. Korintubréf 6:11-13) Þetta er kærleikur sem þarf augljóslega að rækta og styrkja, rétt eins og íþróttamaður þarf að þjálfa sig og leggja sig fram við að brýna hæfileika sína. Það er afar mikilvægt að við elskum hvert annað á þennan hátt. Hvers vegna? Fyrir því eru að minnsta kosti þrjár ástæður.

Af hverju eigum við að elska hvert annað?

6 Fyrsta ástæðan er sú að „kærleikurinn er frá Guði kominn“. (1. Jóhannesarbréf 4:7) Jehóva, uppspretta þessa aðlaðandi eiginleika, elskaði okkur að fyrra bragði. Jóhannes postuli segir: „Í því birtist kærleikur Guðs meðal vor, að Guð hefur sent einkason sinn í heiminn til þess að vér skyldum lifa fyrir hann.“ (1. Jóhannesarbréf 4:9) Sonur Guðs var ,sendur‘ í heiminn sem maður til að þjóna hér á jörð og deyja á kvalastaur — til þess að „vér skyldum lifa fyrir hann“. Hvernig ættum við að bregðast við þessu mikla kærleiksverki Guðs? Jóhannes segir: „Fyrst Guð hefur svo elskað oss, þá ber einnig oss að elska hver annan.“ (1. Jóhannesarbréf 4:11) Við tökum eftir að Jóhannes skrifar: „Fyrst Guð hefur svo elskað oss . . .“ — ekki bara þig heldur okkur. Ljóst er að fyrst Guð elskar trúsystkini okkar ber okkur að elska þau líka.

7 Í öðru lagi er sérstaklega mikilvægt núna að elska trúsystkini okkar til að geta rétt þeim hjálparhönd í neyð, vegna þess að „endir allra hluta er í nánd“. (1. Pétursbréf 4:7) Við lifum á erfiðum tímum. (2. Tímóteusarbréf 3:1) Allt leggst á eitt, ástandið í heiminum, náttúruhamfarir og andstaða af ýmsu tagi. Þegar þrengt er að okkur þurfum við að standa þéttar saman. Brennandi kærleikur tengir okkur sterkum böndum þannig að okkur langar til að bera „umhyggju hver fyrir öðrum“. — 1. Korintubréf 12:25, 26.

8 Í þriðja lagi þurfum við að elska hvert annað vegna þess að við viljum ekki ,gefa djöflinum færi‘ á að nota okkur. (Efesusbréfið 4:27) Satan er fljótur til að nýta sér ófullkomleika meðbræðra okkar, veikleika þeirra, galla og mistök, til að bregða fæti fyrir okkur. Hættum við að sækja safnaðarsamkomur ef trúbróðir eða trúsystir er tillitslaus eða óvingjarnleg í framkomu? (Orðskviðirnir 12:18) Við gerum það ekki ef við höfum brennandi kærleika hvert til annars. Kærleikurinn hjálpar okkur að viðhalda friði og einingu og þjóna Guði „einhuga“. — Sefanía 3:9.

Hvernig sýnum við að við elskum hvert annað?

9 Við verðum að sýna kærleika á heimilinu. Jesús sagði að sannir fylgjendur sínir þekktust á því að þeir elskuðu hver annan. (Jóhannes 13:34, 35) Það er ekki nóg að kærleikurinn sýni sig í söfnuðinum. Hann þarf líka að birtast í fjölskyldunni — milli hjóna og milli foreldra og barna. Það er ekki nóg að finna fyrir ást til hinna í fjölskyldunni, við þurfum líka að láta hana í ljós á uppbyggilegan hátt.

10 Hvernig geta hjón sýnt hvort öðru ást sína? Ástríkur eiginmaður sýnir í orði og verki — bæði í einrúmi og meðal fólks — hve mikils hann metur konu sína. Hann virðir sæmd hennar og tekur tillit til skoðana hennar, hugleiðinga og tilfinninga. (1. Pétursbréf 3:7) Hann tekur velferð hennar fram yfir sína eigin og gerir allt sem hann getur til að annast efnislegar, andlegar og tilfinningalegar þarfir hennar. (Efesusbréfið 5:25, 28) Ástrík eiginkona sýnir manni sínum „lotningu“, það er að segja djúpa virðingu, jafnvel þó að hann rísi ekki alltaf undir væntingum hennar. (Efesusbréfið 5:22, 33) Hún styður hann, er honum undirgefin og gerir ekki ósanngjarnar kröfur til hans heldur vinnur með honum að því að hafa andlegu málin alltaf efst á baugi. — 1. Mósebók 2:18; Matteus 6:33.

11 Hvernig getið þið, foreldrar, sýnt að þið elskið börnin? Meðal annars með því að sjá vel fyrir þeim. (1. Tímóteusarbréf 5:8) En börnin þurfa meira en fæði, klæði og húsnæði. Þau þurfa líka að fá andlegt uppeldi til að læra að elska hinn sanna Guð og þjóna honum. (Orðskviðirnir 22:6) Til þess þarf fjölskyldan að taka sér tíma til að læra af Biblíunni, boða fagnaðarerindið og sækja safnaðarsamkomur. (5. Mósebók 6:4-7) Það kostar talsverðar fórnir að vera stefnufastur á þessum sviðum, einkum á þeim erfiðu tímum sem við lifum. Umhyggja ykkar og viðleitni til að annast andlegar þarfir barnanna vitnar um kærleika ykkar því að þannig sýnið þið að þið berið eilífa velferð þeirra fyrir brjósti. — Jóhannes 17:3.

12 Foreldrar þurfa líka að sýna kærleika sinn með því að annast tilfinningalegar þarfir barnanna. Börn eru viðkvæm og varnarlítil og þú þarft að fullvissa þau oft um ást þína. Segðu þeim að þér þyki vænt um þau og sýndu þeim ómælda ást og umhyggju. Það segir þeim að þau séu dýrmæt og elskuverð. Hrósaðu þeim hlýlega og einlæglega því að það segir þeim að þú sjáir og metir viðleitni þeirra. Agaðu þau með ástúð því að leiðréttingin segir þeim að þér sé annt um hvað verði úr þeim. (Efesusbréfið 6:4) Þessi heilnæmu kærleiksverk eiga öll þátt í að byggja upp samheldna og hamingjusama fjölskyldu sem er vel í stakk búin til að standast álag hinna síðustu daga.

13 Kærleikurinn hvetur okkur til að horfa fram hjá göllum annarra. Þegar Pétur hvatti lesendur sína til að ,hafa brennandi kærleika hver til annars‘ gaf hann líka skýringu á því hvers vegna það væri svona mikilvægt. „Því að kærleikur hylur fjölda synda,“ sagði hann. (1. Pétursbréf 4:8) Að ,hylja‘ syndir er ekki það sama og fela alvarlegar syndir. Það er rétt að skýra öldungum safnaðarins frá alvarlegum syndum svo að þeir geti tekið á þeim. (3. Mósebók 5:1; Orðskviðirnir 29:24) Það væri alls ekki kærleiksríkt — né biblíulega rétt — að leyfa ófyrirleitnum syndurum að halda áfram að skaða sakleysingja eða níðast á þeim. — 1. Korintubréf 5:9-13.

14 Langoftast eru mistök og gallar trúsystkina okkar smávægileg. Okkur verður öllum á í orði eða verki af og til, við bregðumst vonum annarra eða særum þá jafnvel. (Jakobsbréfið 3:2) Ættum við að hlaupa til og bera galla annarra á torg? Það myndi einungis valda ósamlyndi í söfnuðinum. (Efesusbréfið 4:1-3) Við ,bakmælum‘ ekki trúsystkinum okkar ef við látum kærleikann ráða ferðinni. (Sálmur 50:20) Kærleikurinn hylur ófullkomleika annarra, rétt eins og pússning og málning hylja misfellur á vegg. — Orðskviðirnir 17:9.

15 Kærleikurinn hvetur okkur til að hjálpa nauðstöddum. Ástandið í heiminum heldur áfram að versna núna á síðustu dögum þannig að trúsystkini okkar komast stundum í nauðir. (1. Jóhannesarbréf 3:17, 18) Hefur einhver í söfnuðinum orðið fyrir fjárhagslegum skakkaföllum eða misst vinnuna? Þá getum við kannski lagt honum eitthvað til eftir efnum okkar og aðstæðum. (Orðskviðirnir 3:27, 28; Jakobsbréfið 2:14-17) Þarf öldruð ekkja aðstoð við að viðhalda heimili sínu? Þá getum við kannski boðist til að vinna eitthvað fyrir hana. — Jakobsbréfið 1:27.

16 Kærleikur okkar takmarkast ekki við þá sem búa í grennd við okkur. Kannski fréttum við af þjónum Guðs í öðrum löndum sem eiga um sárt að binda eftir óveður, jarðskjálfta eða borgarastríð. Ef til vill bráðvantar þá mat, fatnað og fleiri nauðsynjar. Það skiptir ekki máli þótt þeir séu af öðrum kynþætti eða þjóðarbroti en við því að við ,elskum bræðrafélagið‘ um allan heim. (1. Pétursbréf 2:17) Við erum því óðfús að styðja við það hjálparstarf sem skipulagt hefur verið, líkt og söfnuðirnir á fyrstu öld. (Postulasagan 11:27-30; Rómverjabréfið 15:26) Þegar við sýnum kærleika með þessum hætti styrkjum við einingarbandið sem sameinar okkur núna á síðustu dögum. — Kólossubréfið 3:14.

17 Kærleikurinn er okkur hvöt til að segja öðrum frá fagnaðarerindinu um ríki Guðs. Þar er Jesús góð fyrirmynd. Hvers vegna prédikaði hann og kenndi fólki? Hann ,kenndi í brjósti um mannfjöldann‘ vegna þess hve fólk var illa statt í trúarlegum efnum. (Markús 6:34) Trúarleiðtogarnir hefðu átt að kenna því andleg sannindi og vekja von í brjósti þess en þetta voru falskir hirðar og þeir vanræktu hjörðina. Jesús fann til með fólki og þótti innilega vænt um það svo að hann hughreysti það með því að boða „fagnaðarerindið um Guðs ríki“. — Lúkas 4:16-21, 43.

18 Það er eins nú á tímum að margir eru án vonar af því að andlegum þörfum þeirra hefur ekki verið sinnt og þeir hafa verið leiddir á villigötur. Ef við líkjumst Jesú og erum vakandi og næm fyrir andlegum þörfum þeirra sem þekkja ekki hinn sanna Guð, þá langar okkur til að færa þeim fagnaðarerindið um ríki Guðs af því að við finnum til með þeim og berum kærleika til þeirra. (Matteus 6:9, 10; 24:14) Í ljósi þess hve tíminn er orðinn stuttur hefur aldrei verið brýnna að prédika þennan lífgandi boðskap. — 1. Tímóteusarbréf 4:16.

„Endir allra hluta er í nánd“

19 Eins og þú manst sagði Pétur að endir allra hluta væri í nánd, áður en hann hvatti kristna menn til að elska hver annan. (1. Pétursbréf 4:7) Bráðlega víkur þessi illi heimur fyrir réttlátum nýjum heimi Guðs. (2. Pétursbréf 3:13) Við megum því ekki sofna á verðinum. Jesús aðvaraði: „Hafið gát á sjálfum yður, að hjörtu yðar þyngist ekki við svall og drykkju né áhyggjur þessa lífs og komi svo dagur sá skyndilega yfir yður eins og snara.“ — Lúkas 21:34, 35.

20 Við skulum því fyrir alla muni vera vakandi fyrir því hvar við stöndum í tímans rás. (Matteus 24:42) Verum á verði gagnvart öllum freistingum Satans sem gætu dregið til sín athygli okkar. Látum þennan kalda, kærleikslausa heim aldrei koma í veg fyrir að við sýnum öðrum kærleika. Og síðast en ekki síst skulum við nálægja okkur Jehóva, hinum sanna Guði, en messíasarríki hans mun bráðlega hrinda í framkvæmd dýrlegri fyrirætlun hans með jörðina. — Opinberunarbókin 21:4, 5.

[Neðanmáls]

^ gr. 4 Í öðrum biblíuþýðingum segir í 1. Pétursbréfi 4:8 að við verðum að elska hvert annað „innilega“, „djúpt“ eða „einlæglega“.

NÁMSSPURNINGAR

• Hvað ráðlagði Jesús lærisveinunum að skilnaði og hvað sýnir að Pétur skildi það (gr. 1-2)?

• Hvað er ,brennandi kærleikur‘ (gr. 3-5)?

• Af hverju eigum við að elska hvert annað (gr. 6-8)?

• Hvernig geturðu sýnt að þú elskir aðra (gr. 9-18)?

• Hvers vegna megum við ekki sofna á verðinum og hvað ættum við að vera staðráðin í að gera (gr. 19-20)?

[Mynd á bls. 29]

Samheldin fjölskylda er vel í stakk búin til að standast álag hinna síðustu daga.

[Mynd á bls. 30]

Kærleikurinn knýr okkur til að hjálpa nauðstöddum.

[Mynd á bls. 31]

Það er kærleiksverk að segja öðrum frá fagnaðarerindinu um ríki Guðs.