Hoppa beint í efnið

Hughreysting fyrir niðurdregna

Hughreysting fyrir niðurdregna

Hughreysting fyrir niðurdregna

„Öll sköpunin stynur saman og þjáist saman allt til þessa.“ (Rómverjabréfið 8:22, New World Translation) Þrautir manna voru miklar þegar þetta var ritað fyrir meira en 1900 árum. Margir voru niðurdregnir. Kristnir menn voru því hvattir til að ‚hughreysta niðurdregnar sálir.‘ — 1. Þessaloníkubréf 5:14, NW.

Núna er álagið jafnvel enn meira á fólki og fleiri en nokkru sinni fyrr eru niðurdregnir. En ætti það að koma okkur á óvart? Í raun ekki, því að af Biblíunni má glöggt sjá að við lifum núna á „síðustu dögum,“ tímum sem hún kallar „örðugar tíðir.“ (2. Tímóteusarbréf 3:1-5) Jesús Kristur spáði að á hinum síðustu dögum myndi verða „angist þjóða“ og „menn [myndu] gefa upp öndina af ótta og kvíða fyrir því, sem koma mun yfir heimsbyggðina.“ — Lúkas 21:7-11, 25-27; Matteus 24:3-14.

Langvarandi angist, ótti, sorg eða aðrar slíkar neikvæðar tilfinningar geta valdið þunglyndi. Þunglyndi eða mikil depurð getur lagst á menn vegna dauða ástvinar, hjónaskilnaðar, atvinnuleysis eða langvinnra veikinda. Menn geta einnig orðið þunglyndir ef þeim fer að finnast þeir einskis nýtir, algerlega misheppnaðir eða hafa brugðist öllum. Mikið álag og streita getur dregið kjark úr hverjum sem er, en þegar vonleysistilfinningin er orðin allsráðandi og maður kemur ekki auga á neina útgönguleið getur það leitt til alvarlegs þunglyndis.

Menn til forna þekktu sams konar tilfinningar. Job mátti þola veikindi og ólán. Honum fannst Guð hafa yfirgefið hann og því lét hann í ljós lífsleiða. (Jobsbók 10:1; 29:2, 4, 5) Jakob var harmi sleginn þegar hann hélt son sinn dáinn og vildi ekki láta huggast heldur óskaði sér dauða. (1. Mósebók 37:33-35) Fullur sektarkenndar vegna alvarlegrar misgerðar sagði Davíð konungur: „Ég . . . ráfa um harmandi daginn langan. Ég er lémagna.“ — Sálmur 38:7, 9; 2. Korintubréf 7:5, 6.

Nú á tímum hafa margir ofkeyrt sig með því að reyna að halda uppi daglegum lífsháttum sem þeir hafa hvorki andlegt, tilfinningalegt né líkamlegt atgervi til, og orðið niðurdregnir fyrir vikið. Svo virðist sem streita, samfara neikvæðum hugsunum og tilfinningum, geti haft áhrif á líkamann og stuðlað að efnafræðilegu ójafnvægi í heilanum sem getur valdið þunglyndi. — Samanber Orðskviðina 14:30.

Hjálp sem þeir þarfnast

Epafrodítus, kristinn maður frá Filippí sem var uppi á fyrstu öld, varð ‚niðurdreginn út af því að vinir hans höfðu heyrt að hann hefði orðið sjúkur.‘ Epafrodítus, sem veiktist eftir að vinir hans sendu hann til Rómar með vistir handa Páli postula, fannst hann ef til vill hafa brugðist vinum sínum og hélt að þeir myndu líta á hann sem misheppnaðan mann. (Filippíbréfið 2:25-27; 4:18) Hvernig kom Páll postuli honum til hjálpar?

Hann sendi Epafrodítus heim með bréf til bræðranna í Filippí. Í því stóð: „Takið því á móti [Epafrodítusi] í nafni Drottins með öllum fögnuði, og hafið slíka menn í heiðri.“ (Fílippíbréfið 2:28-30) Það að Páll skuli hafa talað svo vel um Epafrodítus og að Filippímenn tóku á móti honum með hlýju og ástúð hlýtur að hafa hughreyst hann og hjálpað honum að vinna bug á þunglyndi sínu.

Vafalaust er það ráð Biblíunnar að ‚hughreysta niðurdregnar sálir‘ það besta sem til er. „Maður þarf að vita að öðrum sé annt um mann sem einstakling,“ sagði kona sem þjáðist af þunglyndi. „Maður þarf að heyra einhvern segja: ‚Ég skil; þú nærð þér á strik aftur.‘“

Sá sem er niðurdreginn eða þunglyndur þarf oft að eiga frumkvæðið og leita uppi hluttekningarsaman einstakling sem hann getur gert að trúnaðarmanni sínum. Sá ætti að vera góður áheyrandi og mjög þolinmóður. Hann ætti að forðast að halda fyrirlestur yfir hinum niðurdregna eða koma með dæmandi fullyrðingar eins og ‚Þér ætti ekki að finnast það‘ eða ‚Þetta er rangt viðhorf.‘ Tilfinningar hins þunglynda mega ekki við miklu og gagnrýnar athugasemdir sem þessar munu aðeins styrkja neikvæða sjálfsmynd hans.

Ef þú ert niðurdreginn getur þér fundist þú vera einskis virði. (Jónas 4:3) En mundu að það sem raunverulega skiptir máli er hvernig Guð lítur á þig. Menn ‚mátu Jesú Krist einskis,‘ en það breytti ekki því hvernig Guð mat hann. (Jesaja 53:3) Þú getur verið viss um að Guð elskar þig eins og hann elskar son sinn. — Jóhannes 3:16.

Jesús kenndi í brjósti um þá sem voru hrjáðir og reyndi að hjálpa þeim að skilja að þeir væru verðmætir einstaklingar. (Matteus 9:36; 11:28-30; 14:14) Hann útskýrði að jafnvel lítill, ómerkilegur spörvi hefði gildi í augum Guðs. „Ekki einn þeirra [er] gleymdur Guði,“ sagði hann. Hversu miklu meira metur hann ekki menn sem reyna að gera vilja hans! Jesús sagði um slíka menn: „Hárin á höfði yðar eru jafnvel öll talin.“ — Lúkas 12:6, 7.

Að vísu getur sá sem á við alvarlegt þunglyndi að stríða og finnst veikleikar sínir og gallar alveg yfirþyrmandi átt erfitt með að trúa því að Guð meti hann svo mikils. Hann kann að vera sannfærður um að hann verðskuldi ekki ást og umhyggju Guðs. „Hjarta vort kann að dæma oss,“ viðurkennir orð Guðs. En ræður það úrslitum? Nei. Guði er ljóst að syndugir menn hugsa stundum neikvætt og fordæma jafnvel sjálfa sig. Þess vegna hughreystir orð hans þá: „Guð er meiri en hjarta vort og þekkir alla hluti.“ — 1. Jóhannesarbréf 3:19, 20.

Já, kærleiksríkur himneskur faðir okkar sér meira en syndir okkar og mistök. Hann veit hvað við höfum okkur til málsbóta, þekkir allt lífshlaup okkar, hvatir okkar og ætlanir. Hann veit að við erfðum synd, sjúkleika og dauða og að okkur eru þess vegna mikil takmörk sett. Við verðum leið og gröm út í sjálf okkur og það er í sjálfu sér sönnun þess að við viljum ekki syndga og höfum ekki gengið of langt. Biblían segir að við höfum verið „undirorpin fallvaltleikanum“ gegn vilja okkar. Guð sér því aumur á aumkunarverðu ástandi okkar og tekur samúðarfullur tillit til veikleika okkar. — Rómverjabréfið 5:12; 8:20.

Við erum fullvissuð um að Jehóva sé „náðugur og miskunnsamur.“ „Svo langt sem austrið er frá vestrinu, svo langt hefur hann fjarlægt afbrot vor frá oss. Því að hann þekkir eðli vort, minnist þess að vér erum mold.“ (Sálmur 103:8, 12, 14) Svo sannarlega er Jehóva „Guð allrar huggunar, sem huggar oss í sérhverri þrenging vorri.“ — 2. Korintubréf 1:3, 4.

Sú hjálp, sem niðurdregnir þarfnast hvað mest, felst í því að nálægja sig miskunnsömum Guði sínum og þiggja boð hans um að ‚varpa áhyggjum sínum á hann.‘ Hann getur vissulega ‚lífgað hjörtu hinna sundurkrömdu.‘ (Sálmur 55:23; Jesaja 57:15) Orð Guðs hvetur okkur til að biðja og segir: „Varpið allri áhyggju yðar á [Jehóva], því að hann ber umhyggju fyrir yður.“ (1. Pétursbréf 5:7) Já, með bæn og beiðni er hægt að nálægja sig Guði og njóta ‚friðar Guðs sem er æðri öllum skilningi.‘ — Filippíbréfið 4:6, 7; Sálmur 16:8, 9.

Raunhæfar breytingar á daglegum lífsvenjum geta líka hjálpað fólki að sigrast á þunglyndi. Líkamsæfing, heilnæm fæða, ferskt loft og nægileg hvíld, svo og að forðast óhóflegt sjónvarpsgláp, skiptir allt miklu máli. Kona nokkur hefur hjálpað niðurdregnum með því að fá þá út í hressilega göngutúra. Þegar þunglynd kona sagði: „Mig langar ekki að fara út að ganga,“ svaraði konan mild en ákveðin: „Jú, auðvitað kemur þú með.“ Konan segir svo frá: ‚Við gengum meira en sex kílómetra. Þegar við komum til baka var hún þreytt en henni leið betur. Menn trúa ekki hversu gagnleg röskleg hreyfing er fyrr en þeir reyna það sjálfir.‘

Stundum er hins vegar ógerningur að sigrast algerlega á þunglyndi, jafnvel þótt allt sé reynt, þar með talin læknismeðferð. „Ég hef reynt allt,“ sagði miðaldra kona, „en þunglyndið heldur áfram.“ Oft er líka ógerlegt núna að lækna blinda, heyrnarlausa eða lamaða. Þunglyndir geta samt sem áður fengið hughreystingu og von með því að lesa reglulega orð Guðs sem veitir fólki örugga von um varanlega lækningu á öllu því sem hrjáir manninn. — Rómverjabréfið 12:12; 15:4.

Þegar enginn er framar niðurdreginn

Þegar Jesús hafði lýst þeim ógnum sem kæmu yfir jörðina á hinum síðustu dögum bætti hann við: „En þegar þetta tekur að koma fram, þá réttið úr yður og lyftið upp höfðum yðar, því að lausn yðar er í nánd.“ (Lúkas 21:28) Jesús var að tala um þá lausn sem verða mun í nýjum og réttlátum heimi Guðs þar sem „sjálf sköpunin [mun] verða leyst úr ánauð forgengileikans til dýrðarfrelsis Guðs barna.“ — Rómverjabréfið 8:21.

Hvílíkur léttir það verður fyrir menn að vera leystir undan álagi fortíðarinnar og vakna hvern dag með kristaltæran huga, ákafir að takast á við verkefni dagsins. Drungi þunglyndisins mun aldrei framar verða nokkrum til trafala. Óbrigðult loforð Guðs til manna hljóðar svo: „[Guð] mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.“ — Opinberunarbókin 21:3, 4.

Nema annað sé tekið fram eru allar tilvitnanir í Biblíuna teknar úr íslensku biblíunni frá 1981.