Óbrigðul von
Óbrigðul von
„Frá þeirri stundu sem mannvera fæðist vofir sífellt yfir sá möguleiki að hún deyi hvenær sem er; og óhjákvæmilega verður þessi möguleiki einhvern tíma að veruleika.“ — ARNOLD TOYNBEE, BRESKUR SAGNFRÆÐINGUR.
1. Hverju hafa menn þurft að taka sem óumflýjanlegum raunveruleika og hvaða spurningar hefur það kallað fram?
HVER getur þrætt á móti þessum augljósu, sögulegu sannindum? Menn hafa alltaf þurft að taka því að dauðinn sé hræðilegur raunveruleiki sem ekki verður umflúinn. Og þvílík vanmáttartilfinning kemur ekki yfir okkur við dauða einhvers sem okkur er mjög kær. Það virðist engin leið til að afturkalla þann missi. Er mögulegt að hitta aftur látna ástvini sína? Hvaða von um hina látnu veitir Biblían? Hugleiddu eftirfarandi frásögn:
‚Vinur okkar er dáinn‘
2-5. (a) Hvernig sýndi Jesús, þegar Lasarus vinur hans dó, fúsleika og getu til að reisa hann upp frá dauðum? (b) Hverju kom þetta upprisukraftaverk til leiðar fyrir utan það að vekja Lasarus til lífs á ný?
2 Það var árið 32. Í smábænum Betaníu, þrjá kílómetra frá Jerúsalem, bjó Lasarus ásamt systrum sínum, Mörtu og Maríu. Þau voru nánir vinir Jesú. Dag nokkurn veiktist Lasarus mjög alvarlega. Áhyggjufullar systur hans létu án tafar færa Jesú fréttirnar en hann var þá staddur hinum megin Jórdanárinnar. Jesú þótti verulega vænt um Lasarus og systur hans og lagði þess vegna innan tíðar af stað til Betaníu. Á leiðinni sagði Jesús við lærisveina sína: „Lasarus, vinur vor, er sofnaður. En nú fer ég að vekja hann.“ Þar sem lærisveinarnir áttuðu sig ekki strax á merkingu þessara orða sagði Jesús berum orðum: „Lasarus er dáinn.“ — Jóhannes 11:1-15.
3 Þegar Marta frétti að Jesús væri að koma til Betaníu hljóp hún út á móti honum. Jesús komst við af sorg hennar og sagði hughreystandi við hana: „Bróðir þinn mun upp rísa.“ Marta svaraði: „Ég veit, að hann rís upp í upprisunni á efsta degi.“ Jesús sagði þá við hana: „Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig, mun lifa, þótt hann deyi.“ — Jóhannes 11:20-25.
4 Jesús fór við svo búið til grafarinnar og bauð að steinninn, sem lokaði innganginum, skyldi tekinn frá. Eftir að hafa beðist fyrir upphátt sagði hann skipandi röddu: „Lasarus, kom út!“ Augu allra mændu á gröfina og ekki stóð á því að Lasarus kæmi út. Jesús reisti Lasarus upp — endurvakti til lífs á ný mann sem hafði verið látinn í fjóra daga! — Jóhannes 11:38-44.
5 Marta trúði á fyrirheitið um upprisuna jafnvel áður en Lasarus var endurvakinn til lífsins. (Jóhannes 5:28, 29; 11:23, 24) Þetta kraftaverk styrkti trú hennar og varð til þess að aðrir öðluðust trú. (Jóhannes 11:45) En hvað er nákvæmlega átt við með hugtakinu „upprisa“?
„Hann rís upp“
6. Hvað þýðir orðið „upprisa“?
6 Orðið „upprisa“ er þýðing á gríska orðinu anaʹstasis sem bókstaflega þýðir „það að standa upp aftur.“ Hebreskir þýðendur grískunnar hafa þýtt anaʹstasis með hebresku orðunum techiyathʹ hammethimʹ sem merkja „endurlífgun látinna.“ * Upprisa felur þess vegna í sér að reisa manninn upp frá hinu lífvana ástandi dauðans — endurvekja einstaklinginn eins og hann var í lifanda lífi.
7. Hvers vegna er það engum vandkvæðum bundið fyrir Jehóva Guð og Jesú Krist að reisa menn upp frá dauðum hvern og einn?
7 Jehóva Guð býr yfir óendanlegri visku og fullkomnu minni og getur því auðveldlega reist mann upp til lífs á ný. Það er engum vandkvæðum bundið fyrir hann að muna eftir því sem einkenndi hina látnu — persónuleikaeinkennum þeirra, lífsreynslu og öllu því sem gerir hvern og einn frábrugðinn öðrum mönnum. (Jobsbók 12:13; samanber Jesaja 40:26.) Uppspretta lífsins er líka hjá Jehóva. Þar af leiðandi getur hann hiklaust vakið sama manninn aftur til lífsins, gefið honum sama persónuleikann í nýmynduðum líkama. Þar að auki er Jesús Kristur, eins og frásagan af Lasarusi gefur til kynna, bæði fús og fær um að reisa dána upp til lífs. — Samanber Lúkas 7:11-17; 8:40-56.
8, 9. (a) Hvers vegna er ekki hægt að samræma upprisuna hugmyndinni um ódauðlega sál? (b) Hvað mun ráða bót á dauðanum?
8 Það sem Biblían kennir um upprisuna samrýmist hins vegar ekki kenningunni um ódauðleika sálarinnar. Ef ódauðleg sál lifir af líkamsdauðann þarf ekki að reisa upp nokkurn mann eða gefa honum líf á ný. Marta lét vissulega ekki í ljós neina hugmynd um ódauðlega sál sem heldur áfram að lifa annars staðar eftir dauðann. Hún trúði ekki að Lasarus væri þegar farinn yfir á eitthvert andlegt tilverusvið til að halda lífi sínu áfram þar. Þvert á móti sýndi hún trú sína á þá fyrirætlun Guðs að ónýta áhrif dauðans. Hún sagði: „Ég veit, að hann rís upp í upprisunni á efsta degi.“ (Jóhannes 11:23, 24) Lasarus sjálfur sagði ekki heldur frá einhverju sem hann upplifði handan grafar. Það var ekki frá neinu að segja.
9 Samkvæmt því sem Biblían segir er ljóst að sálin deyr og upprisan er það sem ráða mun bót á dauðanum. En milljarðar manna hafa dáið frá því fyrsti maðurinn, Adam, gekk á jörðinni. Hverjir verða reistir upp og hvar?
‚Allir í minningargröfunum‘
10. Hvaða fyrirheit gaf Jesús um þá sem eru í minningargröfunum?
10 Jesús Kristur sagði: „Sú stund kemur, þegar allir þeir, sem í gröfunum [„minningargröfunum,“ NW] eru, munu heyra raust hans [Jesú] og ganga fram.“ (Jóhannes 5:28, 29) Já, Jesús Kristur hét því að allir, sem væru geymdir í minni Jehóva, fengju upprisu. Milljarðar manna hafa lifað og dáið. Hverjir þeirra eru geymdir í minni Guðs og bíða upprisu?
11. Hverjir verða reistir upp?
11 Þeir sem hafa lifað grandvöru lífi sem þjónar Jehóva verða reistir upp. En milljónir annarra hafa dáið án þess að sýna hvort þeir myndu kæra sig um að fylgja réttlátum stöðlum Guðs. Þeim var annaðhvort ókunnugt um kröfur Jehóva eða skorti tíma til að gera nauðsynlegar breytingar á lífi sínu. Þetta fólk er líka í minni Guðs og verður reist upp vegna þess að Biblían lofar: „Upp [munu] rísa bæði réttlátir og ranglátir.“ — Postulasagan 24:15.
12. (a) Hvaða sýn var Jóhannesi postula gefin í tengslum við upprisuna? (b) Hverju var „kastað í eldsdíkið“ og hvað er átt við með því orðalagi?
12 Jóhannes postuli fékk í spennandi sýn að sjá hina upprisnu standa frammi fyrir hásæti Guðs. Hann lýsir því með þessum orðum: „Hafið skilaði hinum dauðu, þeim sem í því voru, og dauðinn og Hel skiluðu þeim dauðu, sem í þeim voru, og sérhver var dæmdur eftir verkum sínum. Og dauðanum og Helju var kastað í eldsdíkið. Þetta er hinn annar dauði, eldsdíkið.“ (Opinberunarbókin 20:12-14) Hugleiddu hvað þetta þýðir. Allir hinir dauðu, sem eru í minni Guðs, verða leystir úr Helju, almennri gröf mannkynsins. (Sálmur 16:10; Postulasagan 2:31) Þá verður „dauðanum og Helju“ kastað í það sem kallað er „eldsdíkið“ sem táknar algera eyðingu. Hin almenna gröf mannkynsins hættir að vera til.
Reistir upp hvar?
13. Hvers vegna hefur Jehóva háttað málum þannig að sumir eru reistir upp til lífs á himni og hvers konar líkama gefur hann þeim?
13 Lítill hópur karla og kvenna verður reistur upp til lífs á himni. Þau munu ríkja með Kristi sem konungar og prestar og eiga þátt í að gera að engu áhrif dauðans sem mannkynið tók í arf frá fyrsta manninum, Adam. (Rómverjabréfið 5:12; Opinberunarbókin 5:9, 10) Að sögn Biblíunnar eru þau aðeins 144.000 að tölu og eru valin úr hópi fylgjenda Krists. Hinir trúföstu postular voru þeir fyrstu sem valdir voru í þennan hóp. (Lúkas 22:28-30; Jóhannes 14:2, 3; Opinberunarbókin 7:4; 14:1, 3) Jehóva gefur þeim sem fá slíka upprisu andlegan líkama til þess að þeir geti búið á himni. — 1. Korintubréf 15:35, 38, 42-45; 1. Pétursbréf 3:18.
14, 15. (a) Hvers konar líf eftir upprisuna fær langstærstur hluti þeirra sem látist hafa? (b) Hvaða blessunar munu hlýðnir menn fá að njóta?
14 Þeir sem látnir eru verða hins vegar að langstærstum hluta reistir upp til lífs hér á jörð. (Sálmur 37:29; Matteus 6:10) Hvers konar jörð? Jörðin er nú á tímum full af deilum, blóðsúthellingum, mengun og ofbeldi. Ef hinir látnu ættu að snúa aftur til lífsins á slíkri jörð er hætt við að hamingja þeirra yrði skammvinn. En skaparinn hefur lofað að hann muni brátt binda enda á núverandi heimssamfélag sem er undir stjórn Satans. (Orðskviðirnir 2:21, 22; Daníel 2:44) Réttlátt nýtt samfélag manna — ‚ný jörð‘ — verður þá orðið að veruleika. (2. Pétursbréf 3:13) Þá verður svo komið að „enginn borgarbúi mun segja: ‚Ég er sjúkur.‘“ (Jesaja 33:24) Angist dauðans verður jafnvel á bak og burt af því að Guð „mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.“ — Opinberunarbókin 21:4.
15 Í hinum nýja heimi, sem Guð hefur heitið, munu hinir hógværu „gleðjast yfir ríkulegri gæfu.“ (Sálmur 37:11) Hin himneska stjórn Krists Jesú og 144.000 félaga hans mun stig af stigi leiða mannkynið aftur til þess fullkomleika sem fyrstu foreldrar okkar, Adam og Eva, glötuðu. Meðal íbúa jarðarinnar verða þeir sem reistir munu verða upp frá dauðum. — Lúkas 23:42, 43.
16-18. Hvaða gleði færir upprisan fjölskyldum?
16 Biblían bregður upp mynd af þeirri gleði sem upprisan færir fjölskyldum. Ímyndaðu þér gleðistrauminn sem fór um ekkjuna frá Nain þegar Jesús stöðvaði líkfylgdina og reisti upp einkason hennar. (Lúkas 7:11-17) Nokkru síðar, nálægt Galíleuvatninu, reisti Jesús 12 ára stúlku upp frá dauðum og urðu þá foreldrar hennar „frá sér numdir af undrun [„mikilli gleði,“ NW].“ — Markús 5:21-24, 35-42; sjá einnig 1. Konungabók 17:17-24; 2. Konungabók 4:32-37.
17 Fyrir milljónir manna, sem núna sofa dauðasvefni, mun upprisan hafa í för með sér líf í friðsömum nýjum heimi. Hugsa sér þá hrífandi framtíð sem þetta opnar Tommy og kaupsýslumanninum sem minnst var á í upphafskafla þessa bæklings. Þegar Tommy vaknar upp í paradís á jörð verður hann sá sami Tommy og móðir hans þekkti — en laus við veikindin. Hún mun geta snert hann, vafið hann örmum og elskað hann. Sama má segja um kaupsýslumanninn frá Indlandi. Í stað þess að vera læstur inni í endalausri hringrás endurfæðinga bíður hans sá stórkostlegi möguleiki að geta lokið upp augunum í nýjum heimi Guðs og séð þar syni sína.
18 Að þekkja hið sanna um sálina, vita hvað verður um okkur þegar við deyjum og kunna skil á upprisuvoninni getur líka haft veruleg áhrif á þá sem núna eru á lífi. Við skulum sjá hver þau áhrif eru.
[Neðanmáls]
^ gr. 6 Þó að orðið „upprisa“ komi ekki fyrir í Hebresku ritningunum kemur upprisuvonin greinilega fram í Jobsbók 14:13, Daníel 12:13 og Hósea 13:14.
[Spurningar]
[Mynd á blaðsíðu 26]
Upprisan færir fólki varanlega gleði.