Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Ódauðleiki sálarinnar — kenningin verður til

Ódauðleiki sálarinnar — kenningin verður til

Ódauðleiki sálarinnar — kenningin verður til

„Ekkert í tengslum við hið andlega líf mannsins hefur svo gagntekið huga hans sem ástand hans eftir dauðann.“ — „ENCYCLOPÆDIA OF RELIGION AND ETHICS.“

1-3. Hvernig útbreiddu Sókrates og Platón þá hugmynd að sálin sé ódauðleg?

 SJÖTÍU ára fræðimaður og kennari er sakaður um guðleysi og að spilla huga ungra manna með kennslu sinni. Hann ber fram meistaralega vörn við réttarhöldin yfir sér en hlutdrægur kviðdómur finnur hann samt sekan og dæmir hann til dauða. Aðeins fáeinum klukkustundum fyrir aftökuna safnast hópur nemenda að hinum aldraða kennara sem leggur fram nokkrar röksemdir fyrir því að sálin sé ódauðleg og að engin ástæða sé til að óttast dauðann.

2 Sakfelldi maðurinn er enginn annar en Sókrates, hinn nafntogaði gríski heimspekingur fimmtu aldar f.o.t. * Einn nemenda hans, Platón, skráir þessa atburði í ritgerðunum Málsvörn Sókratesar og Faídón. Sókratesi og Platóni er gefinn heiðurinn af því að hafa verið einna fyrstir til að útbreiða þá hugmynd að sálin sé ódauðleg. En þeir voru ekki upphafsmenn þessarar kenningar.

3 Eins og við munum sjá ná rætur hugmyndarinnar um ódauðleika mannsins miklu lengra aftur í tímann. Sókrates og Platón fáguðu hins vegar hugmyndina og breyttu henni í heimspekikenningu og þannig varð hún meira aðlaðandi í augum menntastéttanna á þeirra dögum og æ síðan.

Frá Pýþagórasi til píramídanna

4. Hvaða hugmyndir gerðu Grikkir sér fyrir daga Sókratesar um framhaldslíf?

4 Grikkir fyrir daga Sókratesar og Platóns trúðu því líka að sálin lifði líkamsdauðann. Pýþagóras, hinn frægi gríski stærðfræðingur á sjöttu öld f.o.t., hélt því fram að sálin væri ódauðleg og flakkaði úr einum líkama í annan. Þar áður hélt Þales frá Míletus, sem talinn er vera elsti kunni gríski heimspekingurinn, að ódauðleg sál væri ekki aðeins til í mönnum, dýrum og plöntum heldur líka í segulmögnuðum hlutum af því að þeir geta fært járn úr stað. Forn-Grikkir staðhæfðu að sálir hinna dánu væru ferjaðar yfir ána Styx til víðáttumikils svæðis neðanjarðar sem nefndist undirheimar. Þar dæmdu dómarar sálirnar annaðhvort til að kveljast í fangelsi með háum múrum eða til alsælu í ódáinsheimum, Elysion.

5, 6. Hvernig litu Persar á sálina?

5 Í Íran eða Persíu í austri kom spámaður að nafni Zaraþústra fram á sjónarsviðið á sjöundu öld f.o.t. Hann innleiddi tilbeiðslu sem þekkt varð undir nafninu zaraþústratrú. Þetta urðu trúarbrögð persneska heimsveldisins sem réð lögum og lofum áður en Grikkland varð stórveldi. Í ritningum áhangenda Zaraþústra segir: „Í ódauðleika skal sál hinna réttlátu við fögnuð að eilífu búa, en í pínu skal sál lygarans vissulega vera. Og þessi lög hefir Ahura Mazda [sem merkir „vitur guð“] sett af sínu æðsta valdi.“

6 Kenningin um ódauðleika sálarinnar var líka hluti af írönskum átrúnaði fyrir daga Zaraþústra. Fornir ættflokkar í Íran önnuðust til dæmis sálir hinna framliðnu með því að færa þeim fæði og klæði sem koma mætti þeim að gagni í undirheimum.

7, 8. Hverju trúðu Forn-Egyptar um áframhaldandi líf sálarinnar eftir líkamsdauðann?

7 Trúin á líf eftir dauðann var þungamiðjan í egypskum trúarbrögðum. Egyptar álitu að Ósíris, höfuðguð undirheima, myndi dæma sál hins látna. Til dæmis sýnir papírusskjal, sem sagt er vera frá 14. öld f.o.t., Anubis, guð hinna dánu, leiða sál skrifarans Hunefers fram fyrir Ósíris. Á vogarskálum er hjarta skrifarans, sem táknar samvisku hans, vegið á móti fjöður sem gyðja sannleiks og réttvísi ber á höfðinu. Þoð, annar guð, skráir niðurstöðurnar. Þar sem sekt íþyngir ekki hjarta Hunefers vegur það minna en fjöðrin og er honum hleypt inn í ríki Ósíris þar sem hann öðlast ódauðleika. Papírusinn sýnir einnig kvenófreskju standa við vogarskálarnar reiðubúna til að gleypa hinn látna ef hjartað stenst ekki prófið. Egyptar útbjuggu líka hina látnu sem múmíur og varðveittu líkama faraóanna í tilkomumiklum píramídum af því að þeir héldu að áframhaldandi líf sálarinnar væri háð því að líkaminn varðveittist.

8 Það er því ljóst að ein kenning var sameiginleg ýmsum menningarsamfélögum til forna — kenningin um ódauðleika sálarinnar. Fengu þau þessa kenningu frá einum og sama stað?

Uppruni hennar

9. Hvaða trúarbrögð höfðu áhrif á hugarheim manna í Egyptalandi, Persíu og Grikklandi til forna?

9 „Í fornöld,“ segir bókin The Religion of Babylonia and Assyria, „urðu Egyptaland, Persía og Grikkland fyrir áhrifum af babýlonsku trúarbrögðunum.“ Bókin bætir síðan við: „Í ljósi þess hve samskipti komust snemma á milli Egyptalands og Babýloníu, eins og sést af El-Amarna töflunum, gáfust viðhorfum og venjum Babýloníumanna vissulega kappnóg tækifæri til að seytlast inn í átrúnað Egypta. Í Persíu ber míþrasartrúin óyggjandi merki um áhrif babýlonskra hugmynda . . . Hin sterka blöndun semískra þátta, bæði í elstu myndum grískrar goðafræði og í grískum átrúnaði, er núna svo almennt viðurkennd af fræðimönnum að ekki þarf að fara frekari orðum um það. Þessir semísku þættir eru við nánari greiningu að stórum hluta babýlonskir.“ *

10, 11. Hvert var viðhorf Babýloníumanna til lífs eftir dauðann?

10 En eru ekki hugmyndir Babýloníumanna um það sem tekur við eftir dauðann verulega frábrugðnar skoðunum Egypta, Persa og Grikkja? Lítum til dæmis á hina babýlonsku Gilgameshkviðu. Blákaldur raunveruleiki dauðans gefur hetjunni, hinum aldraða Gilgamesh, ekki stundlegan frið og leggur hún upp í leit að ódauðleika en finnur ekki. Vínmær, sem Gilgamesh hittir á ferð sinni, hvetur hann til að njóta þessa lífs sem best af því að hann finni aldrei endalausa lífið sem hann leitar að. Boðskapur hetjuljóðsins í heild er sá að dauðinn sé óumflýjanlegur og að vonin um ódauðleika sé tálsýn. Gefur þetta til kynna að Babýloníumenn hafi ekki trúað á framhaldslíf?

11 Prófessor Morris Jastrow, yngri, við Pennsylvaníuháskóla í Bandaríkjunum skrifaði: „Hvorki fólkið né leiðtogar trúarlegrar hugsunar [í Babýloníu] horfðust nokkurn tíma í augu við möguleikann á algerri tortímingu þess sem eitt sinn hafði verið veitt líf. Dauðinn var [að þeirra mati] leið yfir til annars konar lífs, og afneitun ódauðleikans undirstrikaði einungis hve ógerlegt var að komast undan þeirri tilvistarbreytingu sem dauðinn olli.“ Já, Babýloníumenn trúðu því líka að líf af einhverju tagi, í einhverri mynd, héldi áfram eftir dauðann. Þeir létu það í ljós með því að jarðsetja muni með hinum látnu sem þeir gætu notað handan grafar.

12-14. (a) Hvar kom kenningin um ódauðleika sálarinnar fyrst fram að loknu heimsflóðinu? (b) Hvernig dreifðist þessi trúarkenning um allar jarðir?

12 Kenningin um ódauðleika sálarinnar á greinilega rætur að rekja til Babýlonar í fornöld. Að sögn Biblíunnar, bókar sem ber merki þess að vera áreiðanleg heimild um mannkynssöguna, var borgin Babel, eða Babýlon, reist af Nimrod sem var sonarsonarsonur Nóa. * Að loknu heimsflóðinu á dögum Nóa höfðu menn aðeins eitt tungumál og eina trú. Nimrod stofnsetti Babel og byggði þar turn og ný trúarbrögð komust þar á laggirnar. Frásaga Biblíunnar sýnir að þegar tungumálið hafði verið ruglað í Babel hafi turnsmiðunum ekki tekist að ljúka verki sínu. Þeir dreifðust í allar áttir, byrjuðu upp á nýtt og tóku með sér trú sína. (1. Mósebók 10:6-10; 11:4-9) Babýlonskar trúarkenningar dreifðust því um allar jarðir.

13 Arfsögn segir að Nimrod hafi dáið á voveiflegan hátt. Eftir dauða hans er eðlilegt að Babýloníumenn hafi hneigst til að hafa hann í miklum heiðri sem stofnanda, byggjanda og fyrsta konung borgar sinnar. Þar sem guðinn Mardúk sjá Jer. 50:2 var álitinn stofnandi Babýlonar hafa sumir fræðimenn sett fram þá tilgátu að Mardúk tákni Nimrod eftir að hann var tekinn í guðatölu. Sé svo hlýtur sú hugmynd að menn hafi sál sem lifi dauðann að hafa verið orðin nokkuð útbreidd að minnsta kosti á þeim tíma er Nimrod dó. Hvað sem því líður sést af spjöldum sögunnar að kenningin um ódauðleika sálarinnar varð til í Babel eða Babýlon, að loknu heimsflóðinu.

14 Hvernig náði þessi kenning að verða þungamiðjan í flestum trúarbrögðum nú á tímum? Í næsta kafla verður kannað hvernig hún komst inn í austurlensk trúarbrögð.

[Neðanmáls]

^ gr. 2 Skammstöfunin f.o.t. merkir „fyrir okkar tímatal“ og e.o.t merkir „eftir okkar tímatali,“ oft kallað „fyrir Krist“ og „eftir Krist.“

^ gr. 9 El-Amarna er staður þar sem rústir egypsku borgarinnar Akhetaton er að finna en hún er sögð hafa verið byggð á 14. öld f.o.t.

^ gr. 12 Sjá bókina The Bible — God’s Word or Man’s, blaðsíðu 37-54, gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 6]

Hugmynd Egypta um sálir í undirheimum.

[Mynd á blaðsíðu 7]

Sókrates hélt því fram að sálin væri ódauðleg.