Það sem Biblían segir um sálina
Það sem Biblían segir um sálina
„Þannig varð maðurinn lifandi sál.“ — 1. MÓSEBÓK 2:7.
1. Hvað þurfum við að kanna til að finna út hvað Biblían kennir um sálina?
VIÐ höfum séð að trúarhugmyndir manna um sálina eru margar og margvíslegar. Jafnvel meðal þeirra sem segjast byggja trú sína á Biblíunni er að finna ólíkar hugmyndir um það hvað sálin sé og hvað verði um hana þegar við deyjum. En hvað kennir Biblían í raun og veru um sálina? Til þess að komast að því verðum við að kanna merkingu hebresku og grísku orðanna sem þýdd eru „sál“ í Biblíunni.
„Sálin“ sem lifandi vera
2, 3. (a) Hvaða orð er þýtt „sál“ í Hebresku ritningunum og hver er grunnmerking þess orðs? (b) Hvernig staðfestir 1. Mósebók 2:7 að orðið „sál“ geti átt við manninn í heild?
2 Hebreska orðið, sem þýtt er „sál,“ er neʹfes og það kemur 754 sinnum fyrir í Hebresku ritningunum (Gamla testamentinu eins og það er yfirleitt kallað). Hvað þýðir neʹfes? Að sögn The Dictionary of Bible and Religion „vísar það venjulega til gervallrar lífverunnar, einstaklingsins í heild sinni.“
3 Til dæmis segir í 1. Mósebók 2:7: „Þá myndaði [Jehóva] Guð manninn af leiri jarðar og blés lífsanda í nasir hans, og þannig varð maðurinn lifandi sál.“ * (1. Mósebók 2:7) Taktu eftir að Adam hafði ekki sál; hann var sál — alveg eins og einhver sem verður læknir er síðan læknir. Orðið „sál“ getur því átt við manninn í heild.
4, 5. (a) Nefndu dæmi sem sýna að orðið „sál“ vísi til mannsins í heild sinni. (b) Hvernig styður The Dictionary of Bible and Religion þann skilning að maðurinn sé sál?
4 Út um allar Hebresku ritningarnar er orðið neʹfes (sál) notað með þeim hætti að það styður þennan skilning. Má þar nefna orðalag eins og „nú syndgar einhver [sál]“ (3. Mósebók 5:1), „[hver sú sál], er eitthvert verk vinnur“ (3. Mósebók 23:30), „ef maður verður uppvís að því að stela [sál]“ (5. Mósebók 24:7), „þá varð [sál hans dauðleið] á því“ (Dómarabókin 16:16), „hversu lengi ætlið þér að angra sál mína?“ (Jobsbók 19:2) og „sál mín tárast af trega.“ — Sálmur 119:28.
5 Það er ekkert í þessum ritningarstöðum sem gefur til kynna að sálin sé einhver óljós vera sem lifir áfram eftir dauðann. „Orðalag eins og þegar við segjum að ‚sál‘ ástvinar okkar hafi skilið við hann til að vera með Drottni eða tölum um ‚ódauðlega sál‘ myndi einfaldlega ekki skiljast í menningarheimi Gt [Gamla testamentisins],“ segir The Dictionary of Bible and Religion.
6, 7. Hvaða orð er þýtt „sál“ í kristnu Grísku ritningunum og hver er grunnmerking þess orðs?
6 Orðið, sem þýtt er „sál“ og kemur fyrir meira en hundrað sinnum í kristnu Grísku ritningunum (Nýja testamentinu eins og það er yfirleitt kallað), er psykheʹ. Líkt og neʹfes á þetta orð oft við manninn í heild. Hugleiddu til dæmis eftirfarandi vers þar sem psykheʹ er notað í grískunni: „Nú er sál mín skelfd.“ (Jóhannes 12:27) „Ótta setti að [hverri sál].“ (Postulasagan 2:43) „Sérhver [sál] hlýði þeim yfirvöldum, sem [hún] er [undirgefin].“ (Rómverjabréfið 13:1) „Hughreystið [ístöðulitlar sálir].“ (1. Þessaloníkubréf 5:14) „Í henni frelsuðust fáeinar — það er átta — sálir í vatni.“ — 1. Pétursbréf 3:20.
7 Á sama hátt og neʹfes vísar psykheʹ greinilega til persónunnar í heild. Fræðimaðurinn Nigel Turner segir að þetta orð „nái yfir það sem er einkennandi fyrir manninn, sjálfið, efnislega líkamann sem hefur fengið rûaḥ [anda] Guðs blásinn inn í sig. . . . Áherslan er á manninn sjálfan í allri heild sinni.“
8. Eru dýr sálir? Rökstyddu svarið.
8 Biblían notar orðið „sál“ ekki eingöngu um menn heldur líka um dýr. Þegar 1. Mósebók 1:20 lýsir sköpun sjávardýra segir að Guð hafi sagt: „Verði vötnin kvik af lifandi skepnum [neʹfes á hebresku].“ Og næsta sköpunardag sagði Guð: „Jörðin leiði fram lifandi [sálir], hverja eftir sinni tegund: fénað, skriðkvikindi og villidýr, hvert eftir sinni tegund.“ (1. Mósebók 1:24; samanber 4. Mósebók 31:28.) „Sál“ getur þar af leiðandi vísað til lifandi vera, hvort sem það eru menn eða dýr.
„Sálin“ sem líf hverrar veru
9. (a) Hvaða útvíkkaða merkingu er hægt að eigna orðinu „sál“? (b) Stangast það á við þá hugmynd að sálin sé maðurinn sjálfur?
9 Stundum á orðið „sál“ við lífið sem býr í mannveru eða dýri. Það breytir ekki þeirri skilgreiningu Biblíunnar að sálin sé mannveran sjálf eða dýrið. Þetta má skýra með dæmi: Við segjum að einhver sé lifandi í þeirri merkingu að hann sé lifandi mannvera. Við gætum líka sagt að hann eigi líf. Á sama hátt er lifandi maður sál. Meðan hann er á lífi er engu að síður hægt að segja að hann eigi „sál.“
10. Gefðu dæmi sem sýna að orðið „sál“ geti merkt lífið sem býr í mannveru eða dýri.
10 Til dæmis sagði Guð við Móse: „Þeir eru allir dauðir, sem leituðu eftir [sál þinni].“ (2. Mósebók 4:19) Óvinir Móse voru greinilega á höttunum eftir lífi hans. Svipaða notkun orðsins „sál“ má sjá í eftirfarandi fullyrðingum. „Fyrir því urðum vér hræddir um [sálir vorar].“ (Jósúabók 9:24) „[Þeir] flýðu til þess að forða [sál sinni].“ (2. Konungabók 7:7) „Hinn réttláti er nærgætinn um [sál] skepna sinna.“ (Orðskviðirnir 12:10) „Mannssonurinn er . . . kominn . . . til að þjóna og gefa [sál sína] til lausnargjalds fyrir marga.“ (Matteus 20:28) „Hann lagði [sál] sína í hættu.“ (Filippíbréfið 2:30) Orðið „sál“ þýðir í öllum þessum tilvikum „líf.“ *
11. Hvað má segja um notkun Biblíunnar á orðinu „sál“?
11 Af þessu má sjá að Biblían notar orðið „sál“ (neʹfes eða psykheʹ) um menn eða dýr eða um lífið sem býr í mönnum eða dýrum. Skilgreining Biblíunnar á sál er einföld, sjálfri sér samkvæm og laus við klafa flókinnar heimspeki og hindurvitna manna. En hvað verður um sálina við dauðann? Til að svara þeirri spurningu verðum við fyrst að skilja hvers vegna við deyjum.
[Neðanmáls]
^ gr. 3 Nafn Guðs (á hebresku יחוח) er stafsett „Jahve“ í sumum þýðingum Biblíunnar en „Jehóva“ í öðrum. Í þessum bæklingi er það sett innan hornklofa inn í texta íslensku biblíunnar þar sem það á að standa samkvæmt frummálunum.
^ gr. 10 Matteus 10:28 notar líka orðið „sál“ í merkingunni „líf.“
[Spurningar]
[Myndir á blaðsíðu 20]
Þau eru öll sálir.