Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Er líf eftir dauðann?

Er líf eftir dauðann?

Er líf eftir dauðann?

„Því að tréð hefir von, sé það höggvið, þá skýtur það nýjum frjóöngum . . . Þegar maðurinn deyr, lifnar hann þá aftur?“ — MÓSE, SPÁMAÐUR Í FORNÖLD.

1-3. Hvernig leita margir huggunar þegar þeir hafa misst ástvin í dauðann?

 Í ÚTFARARSTOFU í New York ganga vinir og fjölskylda hljóðlega fram hjá opinni líkkistu. Þeir einblína á lík sautján ára pilts. Skólafélagar hans þekkja hann varla. Lyfjameðferð hefur þynnt á honum hárið; krabbameinið hefur gert hann horaðan. Getur þetta virkilega verið vinur þeirra? Fyrir aðeins fáeinum mánuðum var hann uppfullur af hugmyndum, spurningum og orku — geislandi af lífsþrótti. Niðurbrotin móðir drengsins reynir að finna von og huggun í þeirri hugmynd að sonur hennar sé á einhvern hátt enn á lífi. Tárvot endurtekur hún aftur og aftur það sem henni hefur verið kennt: „Tommy líður betur núna. Guð vildi hafa Tommy hjá sér á himni.“

2 Í um það bil 11.000 kílómetra fjarlægð, í Jamnagar á Indlandi, aðstoða þrír synir kaupsýslumanns við að leggja lík 58 ára föður síns á útfararbálköst. Í bjartri morgunsólinni hefur elsti sonurinn líkbrennsluathöfnina með því að kveikja með kyndli í trjábolunum og hella ilmandi blöndu af kryddi og reykelsi yfir lífvana líkama föður síns. Snarkið í eldinum nær ekki að yfirgnæfa rödd bramanins sem endurtekur í sífellu bænarþulu á sanskrít sem þýðir: „Megi sálin, sem aldrei deyr, halda áfram þeirri viðleitni sinni að sameinast hinum endanlega veruleika.“

3 Þegar bræðurnir þrír fylgjast með bálförinni spyr hver þeirra sig í hljóði: ‚Trúi ég á líf eftir dauðann?‘ Þeir hafa hlotið menntun sína í ólíkum heimshlutum og svara ekki allir eins. Sá yngsti þykist viss um að ástkær faðir þeirra endurholdgist til lífs á hærra virðingarstigi. Næstyngsti bróðirinn trúir því að hinir dánu séu í vissum skilningi sofandi, að þeir hafi alls enga meðvitund. Sá elsti reynir einfaldlega að viðurkenna þann raunveruleika sem dauðinn er vegna þess að hann álítur að enginn geti vitað með vissu hvað verður um okkur þegar við deyjum.

Ein spurning, mörg svör

4. Hvaða spurning hefur angrað menn öldum saman?

4 „Er líf eftir dauðann?“ er spurning sem hefur vafist fyrir fólki um þúsundir ára. „Jafnvel guðfræðingar komast í vandræði þegar hana ber á góma,“ segir Hans Küng, kaþólskur fræðimaður. Í aldanna rás hefur fólk í öllum samfélögum hugleitt þetta viðfangsefni og ekki vantar að stungið hafi verið upp á mörgum svörum.

5-8. Hvað kenna hin ýmsu trúarbrögð um líf eftir dauðann?

5 Margir sem segjast kristnir trúa á himin og helvíti. Hindúar trúa aftur á móti á endurholdgun. Um viðhorf múslíma segir Amir Muawiyah, aðstoðarmaður við íslamska trúarmiðstöð: „Við trúum því að eftir dauðann komi dómsdagur þegar maður gengur fram fyrir Guð, Allah, alveg á sama hátt og gengið er inn í dómsal.“ Samkvæmt íslamskri trú mun Allah þá vega og meta lífshlaup hvers og eins og senda menn í paradís eða til helvítis.

6 Á Sri Lanka skilja bæði búddhistar og kaþólskir dyr og glugga eftir galopna þegar einhver deyr á heimilinu. Kveikt er á olíulampa og líkkistan er lögð þannig að fætur hins látna snúi að framdyrunum. Þeir trúa að þessar ráðstafanir auðveldi anda eða sál hins látna að fara út úr húsinu.

7 Frumbyggjar Ástralíu trúa því, að sögn Ronalds M. Berndt við háskólann í Vestur-Ástralíu, að „anda mannsins verði ekki eytt.“ Sumir ættflokkar í Afríku trúa því að eftir dauðann verði venjulegt fólk að vofum en frammámenn verði aftur á móti að forfeðraöndum sem menn heiðra sem ósýnilega leiðtoga samfélagsins og leita til í bæn.

8 Í sumum löndum eru trúarhugmyndir um það sem menn álíta vera sálir hinna dánu blanda staðbundinna arfsagna og kristni að nafninu til. Til dæmis er það siðvenja hjá mörgum kaþólskum og mótmælendum í Vestur-Afríku að breiða yfir spegla þegar einhver deyr til þess að enginn líti í þá og sjái ef til vill anda hins látna manns. Fjörutíu dögum eftir lát hans halda vinir og vandamenn hátíðlega uppstigningu sálar ástvinar síns til himins.

Sameiginlegt stef

9, 10. Um hvaða grundvallartrúarkenningu eru flest trúarbrögð sammála?

9 Svörin við spurningunni um hvað tekur við þegar við deyjum eru eins margvísleg og siðvenjur og trúarhugmyndir fólksins sem veitir þau. Samt eru flest trúarbrögð sammála um eina grundvallarhugmynd: Eitthvað innra með manninum — sál, andi, vofa — er ódauðlegt og lifir af líkamsdauðann.

10 Trúna á ódauðleika sálarinnar er að finna hjá nær öllum þeim þúsundum trúflokka og sértrúarhópa sem mynda hinn kristna heim. Hún er líka opinber kennisetning í gyðingdómnum. Í hindúatrú er þessi trúarskoðun sjálfur grundvöllur kenningarinnar um endurholdgun. Múslímar trúa því að sálin verði til um leið og líkaminn en lifi áfram eftir að líkaminn deyr. Önnur trúarbrögð — afrísk andatrú, sjintótrú og jafnvel búddhatrú — kenna tilbrigði af þessu sama stefi.

11. Hvert er viðhorf sumra fræðimanna til hugmyndarinnar um ódauðleika sálarinnar?

11 Sumir eru á öndverðum meiði og álíta að meðvituðu lífi ljúki við dauðann. Þeim finnst það óskynsamleg hugmynd að tilfinninga- og vitsmunalíf haldi áfram í ópersónulegri, óljósri sál sem er aðgreind frá líkamanum. Spænski 20. aldar rithöfundurinn og fræðimaðurinn Miguel de Unamuno skrifar: „Trú á ódauðleika sálarinnar er ósk um að sálin sé ódauðleg, en óskhyggjan er þá orðin svo áköf að skynseminni er ýtt til hliðar og óraunsæið eitt eftir.“ Meðal þeirra sem féllust ekki á að í hverjum og einum byggi ódauðleiki eru hinir nafnkunnu, fornu heimspekingar Aristóteles og Epíkúros, læknirinn Hippokrates, skoski heimspekingurinn David Hume, arabíski fræðimaðurinn Averroës og fyrsti forsætisráðherra Indlands eftir að landið fékk sjálfstæði, Jawaharlal Nehru.

12, 13. Hvaða mikilvægar spurningar vakna um kenninguna um ódauðleika sálarinnar?

12 Spurningin er þessi: Erum við með ódauðlega sál? En ef sálin er ekki ódauðleg í raun og veru hvernig gæti þá slík falskenning verið óaðskiljanlegur hluti flestra trúarbragða nú á tímum? Hvar átti þessi hugmynd upptök sín? Ef tilveru sálarinnar lýkur raunverulega við dauðann, hvaða von er þá um hina látnu?

13 Getum við fundið sönn og fullnægjandi svör við slíkum spurningum? Já! Á næstu blaðsíðum verður þessum og öðrum spurningum svarað. Fyrst skulum við þó athuga hvernig kenningin um ódauðleika sálarinnar varð til.

[Spurningar]