Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hugmyndin kemst inn í austurlensk trúarbrögð

Hugmyndin kemst inn í austurlensk trúarbrögð

Hugmyndin kemst inn í austurlensk trúarbrögð

„Ég hélt alltaf að ódauðleiki sálarinnar væri algild sannindi sem allir viðurkenndu. Ég var því mjög hissa að komast að því að sumir mestu hugsuða bæði Austurlanda og Vesturlanda hafa af miklum ákafa fært fram rök gegn þessari trúarkenningu. Núna velti ég fyrir mér hvernig þessi hugmynd um ódauðleika komst inn í vitund hindúa.“ — HÁSKÓLANEMI ER ÓLST UPP SEM HINDÚI.

1. Hvers vegna er áhugavert fyrir okkur að vita hvernig kenningin um ódauðleika mannsins kom fram og breiddist út í hinum ýmsu trúarbrögðum?

 HVERNIG komst sú hugmynd að maðurinn hafi ódauðlega sál inn í hindúatrú og önnur austurlensk trúarbrögð? Spurningin er áhugaverð, jafnvel fyrir fólk á Vesturlöndum sem þekkir ef til vill ekki til þessara trúarbragða, af því að þessi trúarkenning snertir viðhorf sérhvers manns til framtíðarinnar. Vegna þess að kenningin um að ódauðleiki búi í manninum er samnefnari flestra trúarbragða nú á tímum getur þekking á því hvernig hugmyndin þróaðist vissulega stuðlað að bættum skilningi og tjáskiptum.

2. Hvers vegna hefur Indland haft áberandi áhrif á framvindu trúarbragða í Asíu?

2 Ninian Smart, guðfræðiprófessor við háskólann í Lancaster á Bretlandseyjum, segir: „Ekkert land í Asíu hefur haft meiri áhrif á trúarbrögðin í þeirri álfu en Indland. Það er ekki aðeins vegna þess að á Indlandi sjálfu hafa sprottið upp fjöldi trúarbragða — hindúatrú, búddhatrú, jainatrú, síkatrú, og svo framvegis — heldur einnig vegna þess að ein þeirra, búddhatrú, náði að hafa veruleg áhrif á menningu svo að segja allrar Austur-Asíu.“ Mörg menningarsamfélög, sem hafa orðið fyrir slíkum áhrifum, „líta enn á Indland sem andlega ættjörð sína,“ segir hindúafræðimaðurinn Nikhilananda. Hvernig fann þessi ódauðleikakenning sér leið inn í Indland og aðra hluta Asíu?

Endurholdgunarkenning hindúatrúar

3. Hverjir tóku, að sögn sagnfræðings, hugsanlega með sér hugmyndina um sálnaflakk til Indlands?

3 Á sjöttu öld f.o.t., þegar Pýþagóras og fylgjendur hans í Grikklandi mæltu fyrir kenningunni um sálnaflakk, voru hindúaspekingar, sem bjuggu við bakka fljótanna Indus og Ganges á Indlandi, að fást við sömu hugmynd. Að þessi hugmynd skyldi koma fram samtímis „í hinum gríska heimi og á Indlandi getur varla verið hrein tilviljun,“ segir sagnfræðingurinn Arnold Toynbee. „Ein hugsanleg sameiginleg uppspretta [þessara áhrifa],“ bendir Toynbee á, „er hið indóevrópska hirðingjasamfélag sem á áttundu og sjöundu öld f.o.t. hélt innreið sína í Indland, Suðvestur-Asíu, gresjusvæðin meðfram norðurströnd Svartahafs, svo og í Balkanskaga og Anatólíuskaga.“ Þessir indóevrópsku ættflokkar virðast hafa í þessum búferlaflutningum tekið hugmyndina um sálnaflakk með sér til Indlands.

4. Hvers vegna höfðaði hugmyndin um sálnaflakk til hindúaspekinga?

4 Hindúatrú var komin fram á Indlandi löngu fyrr. Hún barst þangað með Aríum í kringum 1500 f.o.t. Allt frá upphafi hélt hindúatrúin því fram að sálin og líkaminn væru tvennt ólíkt og að sálin lifði líkamsdauðann. Hindúar stunduðu því forfeðradýrkun og lögðu út mat sem sálir hinna framliðnu áttu að nærast á. Þegar hugmyndin um sálnaflakk náði til Indlands öldum síðar hlýtur hún að hafa höfðað til hindúaspekinganna sem voru að glíma við þá ráðgátu hvers vegna illsku og þjáningar væri alls staðar að finna í mannheimi. Með því að sameina sálnaflakkið því sem kallað er karmalögmálið, lögmál orsakar og afleiðingar, mótuðu hindúaspekingar endurholdgunarkenninguna sem segir að fyrir verðleika sína eða galla í einu lífi fái menn umbun eða refsingu í því næsta.

5. Hvert segir hindúatrúin vera lokatakmark sálarinnar?

5 En það var önnur hugmynd að auki sem hafði áhrif á kenningu hindúatrúar um sálina. „Sannleikurinn virðist vera sá að strax og komin var föst mynd á endurholdgunarkenninguna og karma, eða jafnvel fyrr,“ segir bókin Encyclopædia of Religion and Ethics, „hafi önnur hugmynd . . . smám saman mótast hjá litlum hópi menntamanna á norðanverðu Indlandi — hin heimspekilega hugmynd um Brahman-Ātman [hinn hæsta og eilífa brahmana, hinn endanlega veruleika].“ Þessari hugmynd var steypt saman við endurholdgunarkenninguna til að skilgreina lokatakmark hindúa — lausn undan hringrás sálnaflakksins til þess að verða eitt með hinum endanlega veruleika. Því takmarki trúa hindúar að verði náð með því að leitast við að hegða sér á þann veg sem samfélaginu er þóknanlegt og afla sér sérstakrar hindúaþekkingar.

6, 7. Hvað segir hindúatrú nútímans um líf eftir dauðann?

6 Úr sálnaflakkskenningunni bjuggu vitringar hindúa þannig til endurholdgunarkenninguna með því að samlaga hana lögmáli karma og brahmanahugtakinu. Octavio Paz, nóbelsverðlaunaljóðskáld og fyrrverandi sendiherra Mexíkó á Indlandi, skrifar: „Eftir því sem hindúatrú breiddist út, fór eins með hugmynd . . . sem er þungamiðjan í brahmatrú, búddhatrú og öðrum asískum trúarbrögðum. Hugmyndin er sálnaflakk, síendurtekinn flutningur sálna frá einni tilveru til annarrar.“

7 Endurholdgunarkenningin er máttarstoð hindúatrúar nútímans. Hindúaheimspekingurinn Nikhilananda segir: „Sérhver góður hindúi er sannfærður um að það séu ekki aðeins forréttindi fáeinna útvalinna að öðlast ódauðleika heldur séu allir með þeim rétti fæddir.“

Hringrás endurfæðinga í búddhatrúnni

8-10. (a) Hvernig skilgreinir búddhatrú tilveru mannsins? (b) Hvernig útskýrir búddhískur fræðimaður endurfæðinguna?

8 Búddhatrú var komið á fót á Indlandi um árið 500 f.o.t. Stofnandi búddhatrúarinnar var samkvæmt arfsögnum búddhatrúarmanna indverskur prins sem hét Siddhārtha Gautama en varð síðar kunnur sem Búddha eftir að honum var veitt þekking æðri sanninda. Þar sem búddhatrú spratt af hindúatrú svipar kenningum hennar að ýmsu leyti til kenninga hindúa. Samkvæmt búddhatrú er tilveran látlaus hringrás endurfæðinga og dauða, og eins og í hindúatrú ákvarðast staða hvers einstaklings í yfirstandandi lífi af verkum hans í fyrra lífi.

9 En búddhatrú skýrir ekki tilveru mannsins með þeirri hugmynd að til sé persónuleg sál sem lifir af dauðann. „[Búddha] sá í mannsandanum aðeins skammvinna röð slitróttra geðhrifa sem ástríðan ein heldur saman,“ segir Arnold Toynbee. Samt trúði Búddha því að eitthvað — einhver geðhrif eða kraftur — flytjist frá einu lífi til annars. Dr. Walpola Rahula, búddhískur fræðimaður, gefur eftirfarandi skýringu:

10 „Mannveran er ekkert annað en líkamlegir og andlegir kraftar eða orka lagðir saman. Það sem við köllum dauða er alger stöðnun á starfsemi líkamans. Stöðvast allir þessir kraftar og orka algerlega þegar líkaminn hættir að starfa? Búddhatrúin svarar því neitandi. Viljinn, þráin, hinn ákafi þorsti í að vera til, að halda áfram, að verða meira og meira er gríðarlegur kraftur sem knýr allt líf manna, alla tilveru þeirra, knýr jafnvel allan heiminn. Þetta er mesti krafturinn, mesta orkan í heiminum. Samkvæmt búddhatrúnni stöðvast ekki þessi kraftur þegar starfsemi líkamans hættir, sem er dauði; hann heldur áfram að koma í ljós í annarri mynd, framkallar nýja tilvist sem nefnd er endurfæðing.“

11. Hvað álíta búddhatrúarmenn um líf eftir dauðann?

11 Viðhorf búddhatrúarmanna til framhaldslífsins er þetta: Tilveran er eilíf nema einstaklingurinn nái hinu endanlega marki, nirvana, lausn frá hringrás endurfæðinganna. Nirvana er hvorki það að öðlast eilífa alsælu né að verða eitt með hinum endanlega veruleika. Það er einfaldlega tilvistarleysi — „dauðalausi staðurinn“ handan tilveru einstaklingsins. Webster’s Ninth New Collegiate Dictionary skilgreinir „Nirvana“ sem „stað eða ástand þar sem kvíði, sársauki eða ytri raunveruleiki er gleymdur.“ Í stað þess að sækjast eftir ódauðleika eru búddhatrúarmenn hvattir til að hefjast upp yfir hann með því að ná nirvana, nokkurs konar „algleymi.“

12-14. Hvernig kemur ódauðleikahugmyndin fram í hinum ýmsu myndum búddhatrúarinnar?

12 Þegar búddhatrúin dreifðist út til ýmissa staða í Asíu breytti hún kenningum sínum til að staðbundnar trúarskoðanir gætu rúmast innan hennar. Til dæmis er í mahayana-búddhatrú, þeirri grein búddhatrúar sem er ríkjandi í Kína og Japan, að finna trú á guðdómlega bodhisatta, verðandi búddha. Bodhisattar fresta sínu eigin nirvana til að lifa ótal sinnum svo að þeir geti þjónað öðrum og hjálpað þeim að ná nirvana. Þannig er hægt að kjósa að halda áfram í endurfæðingahringrásinni jafnvel eftir að nirvana er náð.

13 Önnur aðlögun, sem varð sérstaklega áhrifamikil í Kína og Japan, er kenningin um Hreina landið í vestri sem Búddha Amitabha eða Amida skapaði. Þeir sem ákalla nafn Búddha í trú eru endurfæddir inn í Hreina landið eða paradís þar sem aðstæður eru hagstæðari til þess að öðlast hina endanlegu þekkingu æðri sanninda. Hvað hefur þessi kenning framkallað? Prófessor Smart, sem áður var minnst á, útskýrir: „Eins og við mátti búast leysti glæsibragur paradísar, sem lýst er fjörlega í sumum ritningum mahayanatrúarinnar, nirvana brátt af hólmi í ímyndun almennings sem hið æðsta takmark.“

14 Tíbetsk búddhatrú innlimar aðra staðbundna þætti. Hin tíbetska bók hinna látnu lýsir til dæmis hlutskipti manna á millistiginu sem verður eftir að þeir deyja en áður en þeir endurfæðast. Um látna er sagt leika skært ljós hins endanlega veruleika og þeir sem þola ekki ljósið fá ekki lausn heldur endurfæðast. Búddhatrú í sínum margvíslegu myndum ber greinilega með sér ódauðleikahugmyndina.

Forfeðradýrkun í sjintótrú Japans

15-17. (a) Hvernig varð tilbeiðsla forfeðraandanna til í sjintótrúnni? (b) Hvernig er trúin á ódauðleika sálarinnar grundvallaratriði í sjintótrúnni?

15 Trúarbrögð voru til í Japan áður en búddhatrú barst þangað á sjöttu öld e.o.t. Þau voru nafnlaus og byggðust upp á trúarhugmyndum sem tengdust siðgæði og venjum fólksins. Þegar búddhatrúin barst til Japans reyndist hins vegar nauðsynlegt að greina innlendu trúna frá hinni aðkomnu. Þá tóku menn upp nafnið „sjintó“ sem þýðir „vegur guðanna.“

16 Hvað kenndi hin upprunalega sjintótrú um líf eftir dauðann? Með tilkomu votlendisræktunar á hrísgrjónum „útheimti votlendisjarðyrkja vel skipulögð og traust samfélög,“ útskýrir Kodansha Encyclopedia of Japan, „og helgisiðir tengdir jarðyrkju — sem síðar gegndu svo mikilvægu hlutverki í sjintótrúnni — tóku að þróast.“ Ótti við framliðnar sálir fékk fólk til að hugsa upp helgiathafnir til að friða þær. Úr því varð síðan tilbeiðsla forfeðraandanna.

17 Samkvæmt sjintótrúnni hefur „framliðin“ sál enn persónuleika sinn en er óhrein vegna dauðans. Þegar syrgjendurnir halda helgiathafnir til minningar um hinn látna hreinsast sálin af allri illgirni og öðlast friðsamt og góðviljað eðli. Með tíð og tíma færist forfeðraandinn upp í þá stöðu að verða forfeðragoð eða verndari. Sjintótrúin hélt velli samhliða búddhatrúnni og tók þess vegna upp ýmsar kenningar hennar, og ein þeirra er kenningin um paradís. Af þessu má sjá að trúin á ódauðleika er undirstöðuatriði í sjintótrú.

Ódauðleiki í taóisma. Forfeðradýrkun konfúsíusarhyggju

18. Hverjar eru hugmyndir taóista um ódauðleikann?

18 Taóismi var stofnsettur af Lao-tzu sem sagður er hafa verið uppi í Kína á sjöttu öld f.o.t. Samkvæmt taóisma er takmark manna í lífinu að samræma athafnir sínar taó — leið náttúrunnar. Hugmyndir taóista um ódauðleikann má draga saman á þessa leið: Taó er lögmálið sem stýrir alheiminum. Taó hefur hvorki upphaf né endi. Lifi menn í samræmi við taó eru þeir þátttakendur í því og verða eilífir.

19-21. Til hvaða viðleitni leiddu vangaveltur taóista?

19 Í tilraunum sínum til að verða eitt með náttúrunni fengu taóistar er tímar liðu sérstaklega mikinn áhuga á tímaleysi hennar og seiglu. Þeir gátu sér til um að með því að lifa í samræmi við taó, eða leið náttúrunnar, væri kannski á einhvern hátt hægt að skyggnast inn í leyndardóma náttúrunnar og verða ónæmur fyrir líkamlegum meiðslum, sjúkdómum og jafnvel dauða.

20 Taóistar fóru að gera tilraunir með hugleiðslu, öndunaræfingar og mataræði sem talið var að gæti seinkað hrörnun líkamans og dauða. Brátt komust á kreik goðsagnir um ódauðlega menn sem gætu flogið á skýjum og birst og horfið að vild. Þeir byggju á helgum fjöllum eða afskekktum eyjum í ótalmörg ár með dögg eða töfraávexti sér til viðurværis. Í sögu Kína eru sagnir af því að árið 219 f.o.t. hafi Ch’in Shih Huang Ti keisari sent skipaflota með 3000 piltum og stúlkum til að finna þjóðsagnaeyjuna P’eng-lai, bústað hinna ódauðlegu, til þess að sækja þangað ódáinsjurtina. Vart þarf að taka fram að þau sneru ekki aftur með ódáinsveigina.

21 Leitin að eilífu lífi leiddi taóista út í tilraunir til að búa til ódauðleikapillu með efnafræðilegum aðferðum, gullgerðarlistinni svonefndu. Taóistar líta svo á að líf verði til þegar tvö gagnstæð öfl, jin (karllegt) og jang (kvenlegt) renna saman. Með því að bræða saman blý (dökkt, eða jin) og kvikasilfur (bjart, eða jang) voru gullgerðarmennirnir þar af leiðandi að líkja eftir gangi náttúrunnar og þeir héldu að afurðin yrði ódauðleikapilla.

22. Hvaða afleiðingar höfðu búddhísk áhrif á trúarlíf Kínverja?

22 Á sjöundu öld e.o.t. braut búddhatrú sér leið inn í trúarlíf Kínverja. Afleiðingin varð samkrull þátta úr búddhatrú, spíritisma og forfeðradýrkun. „Bæði búddhatrú og taóismi,“ segir prófessor Smart, „mótuðu form og megininntak trúarhugmynda um líf eftir dauðann sem fram að því voru frekar losaralegar í forfeðradýrkun Kínverja til forna.“

23. Hver var afstaða Konfúsíusar til forfeðradýrkunar?

23 Annar helsti spekingur í Kína á sjöttu öld var Konfúsíus og urðu heimspekikenningar hans grundvöllur konfúsíusarhyggju. Konfúsíus fór ekki mörgum orðum um lífið eftir dauðann. Þess í stað lagði hann áherslu á gott siðferði og hegðun sem samfélagið gæti sætt sig við. En hann var hlynntur forfeðradýrkun og lagði mikla áherslu á að menn héldu helgisiði og athafnir sem tengdust öndum látinna forfeðra.

Önnur austræn trúarbrögð

24. Hvað kennir jainatrú um sálina?

24 Jainatrú var stofnsett á Indlandi á sjöttu öld f.o.t. Stofnandi hennar, Mahāvīra, kenndi að allt sem lifir hafi eilífa sál og að frelsun sálarinnar úr fjötrum karma sé möguleg einungis með ströngu meinlætalífi og sjálfsaga, svo og með því að halda sér fast við að meiða ekki né deyða nokkra skepnu. Játendur jainatrúar halda í þessar hugmyndir fram á þennan dag.

25, 26. Hvaða kenningar hindúatrúar er líka að finna í síkatrú?

25 Indland er líka fæðingarstaður síkatrúar en hana iðka um 19 milljónir manna. Þessi trúarbrögð komu fram á 16. öld þegar gúrúinn Nānak ákvað að bræða saman það besta úr hindúatrú og íslam og mynda eina sameinaða trú. Síkatrú tók upp trúarkenningar hindúatrúar um ódauðleika sálarinnar, endurholdgun og karma.

26 Sú trú að lífinu ljúki ekki við líkamsdauðann er augljóslega óaðskiljanlegur þáttur í flestum austurlenskum trúarbrögðum. En hvernig er þessu háttað í kristinni trú, gyðingatrú og íslam?

[Spurningar]

[Kort á blaðsíðu 10]

(Sjá uppraðaðan texta í blaðinu)

MIÐ-ASÍA

KASMÍR

TÍBET

KÍNA

KÓREA

JAPAN

Banaras

INDLAND

Buddh Gaya

MYANMAR

TAÍLAND

KAMBÓDÍA

SRÍ LANKA

JAVA

ÞRIÐJA ÖLD F.O.T..

FYRSTA ÖLD F.O.T.

FYRSTA ÖLD E.O.T.

FJÓRÐA ÖLD E.O.T.

SJÖTTA ÖLD E.O.T.

SJÖUNDA ÖLD E.O.T.

Búddhatrú hafði áhrif á alla Austur-Asíu.

[Mynd á blaðsíðu 9]

Endurholdgun er máttarstoð hindúatrúar.

[Mynd á blaðsíðu 11]

Taóisti reynir að verða eilífur með því að lifa í samhljóðan við náttúruna.

[Mynd á blaðsíðu 12]

Konfúsíus var hlynntur forfeðradýrkun.