Hugmyndin kemst inn í gyðingdóminn, kristna trú og íslam
Hugmyndin kemst inn í gyðingdóminn, kristna trú og íslam
„Trúarbrögð eru meðal annars leið til að sætta fólk við þá staðreynd að dag einn verði það að deyja, hvort sem lofað er betra lífi handan grafar, endurfæðingu eða hvoru tveggja.“ — GERHARD HERM, ÞÝSKUR RITHÖFUNDUR.
1. Á hvaða grundvallartrú byggja flest trúarbrögð loforð sín um líf eftir dauðann?
LOFORÐ nánast allra trúarbragða um líf eftir dauðann eru háð þeirri trú að í manninum búi ódauðleg sál sem ferðist við dauðann yfir á annað tilverusvið eða færist yfir í aðra lífveru. Eins og fram kom í kaflanum hér á undan hefur trúin á ódauðleika mannsins verið óaðskiljanlegur hluti austurlenskra trúarbragða allt frá upphafi þeirra. En hvað um gyðingdóminn, kristna trú og íslam? Hvernig varð þessi kenning að þungamiðju þeirra trúarbragða?
Gyðingdómurinn drekkur í sig grískar hugmyndir
2, 3. Segir alfræðiritið Encyclopaedia Judaica að hinar helgu Hebresku ritningar hafi kennt að sálin væri ódauðleg?
2 Rætur gyðingatrúar má rekja um 4000 ár aftur til Abrahams. Ritun hinna helgu Hebresku ritninga hófst á 16. öld f.o.t. og lauk á þeim tíma er Sókrates og Platón voru að móta kenninguna um ódauðleika sálarinnar. Héldu þessar ritningar fram ódauðleika sálarinnar?
3 Alfræðiritið Encyclopaedia Judaica gefur þetta svar: „Ritun Biblíunnar var lokið þegar skýr og ákveðin trú á ódauðleika sálarinnar náði fyrst fótfestu . . . og varð einn af hornsteinum trúar gyðinga og kristinna manna.“ Þar segir líka: „Maðurinn var álitinn ein óskipt heild á biblíutímanum. Skörp skil milli sálar og líkama voru þar af leiðandi ekki til.“ Í upphafi trúðu Gyðingar á upprisu hinna látnu og þeirri trú „verður að halda aðgreindri frá trúnni á . . . ódauðleika sálarinnar,“ bendir þetta alfræðirit á.
4-6. Hvernig varð kenningin um ódauðleika sálarinnar „einn af hornsteinum“ gyðingatrúarinnar?
4 Hvernig varð þá þessi kenning „einn af hornsteinum“ gyðingatrúarinnar? Sagan veitir svar við því. Með leiftursókn árið 332 f.o.t. lagði Alexander mikli undir sig stóran hluta Austurlanda nær. Þegar hann kom til Jerúsalem tóku Gyðingar honum tveimur höndum. Þeir jafnvel sýndu honum, að sögn Flavíusar Jósefusar, Gyðings og sagnfræðings á fyrstu öld, spádóminn í Daníelsbók sem skráður hafði verið 200 árum áður og lýsti greinilega sigurvinningum Alexanders í hlutverki ‚Grikklands konungs.‘ (Daníel 8:5-8, 21) Eftirmenn Alexanders héldu áfram að framkvæma þá áætlun hans að gegnsýra alla hluta heimsveldisins með grískri tungu, menningu og heimspeki. Hjá því varð ekki komist að menning Grikkja og Gyðinga blandaðist saman.
5 Snemma á þriðju öld f.o.t. hófust menn handa við fyrstu þýðingu Hebresku ritninganna yfir á grísku og var hún nefnd Septuaginta. Hún varð til þess að margir heiðingjar kynntust gyðingatrúnni, fóru að bera virðingu fyrir henni og tóku jafnvel upp þá trú sumir hverjir. Gyðingar urðu á hinn bóginn sífellt betur að sér í grískri hugmyndafræði og gerðust sumir þeirra heimspekingar en slíkt hafði aldrei fyrr þekkst þeirra á meðal. Fílon frá Alexandríu á fyrstu öld var einn slíkra heimspekinga Gyðinga.
6 Fílon dáði Platón og leitaðist við að útskýra gyðingatrú með orðfæri grískrar heimspeki. „Með því að steypa á einstakan hátt saman platónskri heimspeki og biblíulegum hefðum,“ segir bókin Heaven — A History, „ruddi Fílón brautina fyrir hugsuði síðari tíma meðal kristinna manna [og gyðinga].“ Hverju trúði Fílon um sálina? Bókin heldur áfram: „Í huga hans endurvekur dauðinn sálina til þeirrar tilveru sem hún átti upprunalega, áður en maðurinn fæddist. Þar sem sálin tilheyrir hinum andlega heimi verður lífið í líkamanum ekkert annað en stuttur og oft óskemmtilegur þáttur í framhaldssögu.“ Af öðrum hugsuðum af gyðingaættum, sem trúðu á ódauðleika sálarinnar, má nefna Isaac Israeli, þekktan lækni á 10. öld, og Moses Mendelssohn, þýskan heimspeking á 18. öld.
7, 8. (a) Hvaða mynd dregur Talmúð upp af sálinni? (b) Hvað segja dulhyggjurit gyðinga frá síðari tímum um sálina?
7 Bók, sem nefnist Talmúð, hafði líka djúpstæð áhrif á hugmyndir og líf gyðinga. Hún er rituð samantekt á munnlega lögmálinu svonefnda með athugasemdum og skýringum sem seinna voru gerðar við það lögmál, tekin saman af rabbínum frá annarri öld e.o.t. og fram á miðaldir. „Talmúð-rabbínarnir,“ segir Encyclopaedia Judaica, „trúðu á áframhaldandi tilveru sálarinnar eftir dauðann.“ Talmúð talar jafnvel um að hinir dánu hafi samband við lifandi fólk. „Líklega má skrifa það á reikning áhrifa platónskunnar,“ segir Encyclopædia of Religion and Ethics, „að [rabbínar] skuli hafa trúað á fortilveru sálarinnar.“
8 Í kabbala, dulhyggjuritum sem gyðingar tóku seinna saman, er jafnvel gengið svo langt að halda fram endurholdgun. Alfræðibókin The New Standard Jewish Encyclopedia segir um þesssa trú: „Hugmyndin virðist eiga uppruna sinn á Indlandi. . . . Í kabbala skýtur hún fyrst upp kollinum í bókinni Bahir en naut síðar, frá tíma Sóars-ritanna, almennrar viðurkenningar dulspekinga og gegndi mikilvægu hlutverki í trú og bókmenntum hasída.“ Í Ísrael nútímans er það útbreidd skoðun að endurholdgun sé gyðingleg kenning.
9. Hver er afstaða flestra greina innan gyðingdómsins nú á tímum til ódauðleika sálarinnar?
9 Hugmyndin um ódauðleika sálarinnar komst þannig inn í gyðingdóminn fyrir áhrif grískrar heimspeki og þessi hugmynd nýtur nú á tímum viðurkenningar flestra greina innan hans. Hvað verður sagt um innreið þessarar kenningar í kristna trú?
Kristin trú tekur upp hugmyndir Platóns
10. Að hvaða niðurstöðu komst þekktur spænskur fræðimaður um það hvort Jesús hafi trúað á ódauðleika sálarinnar?
10 Óbrengluð kristni hófst með Jesú Kristi. Um Jesú skrifaði Miguel de Unamuno, þekktur spænskur fræðimaður á tuttugustu öld: „Hann trúði frekar, að hinum gyðinglega hætti, á upprisu holdsins, ekki á ódauðleika sálarinnar að [grískum] platónskum hætti. . . . Sönnun þess má sjá í hvaða heiðarlegri skýringabók sem er.“ Niðurstaða hans var þessi: „Ódauðleiki sálarinnar . . . er heiðin heimspekikenning.“
11. Hvenær hóf grísk heimspeki að sækja inn í kristnina?
11 Hvenær og hvernig síaðist þessi ‚heiðna heimspekikenning‘ inn í kristnina? Alfræðibókin New Encyclopædia Britannica segir: „Frá miðbiki annarrar aldar eftir Krist þótti kristnum mönnum, sem höfðu fengið einhverja menntun í grískri heimspeki, þeir þurfa að tjá trúna með orðfæri hennar, bæði fyrir sína eigin hugaránægju og til að snúa menntuðum heiðingjum til trúar. Platónisminn var sú heimspeki sem hentaði þeim best.“
12-14. Hvaða hlutverki gegndu Órigenes og Ágústínus í því að bræða platónska heimspeki við kristnina?
12 Tveir slíkir heimspekingar til forna höfðu veruleg áhrif á kennisetningar kristna heimsins. Annar þeirra var Órigenes frá Alexandríu (um 185-254) og hinn var Ágústínus frá Hippó (354-430). Um þá segir New Catholic Encyclopedia: „Það var ekki fyrr en Órigenes í austri og heilagur Ágústínus í vestri komu til sögunnar að slegið var föstu að sálin væri andlegt fyrirbæri og heimspekileg hugtök mynduð um eðli hennar.“ Á hvaða grunni mynduðu Órigenes og Ágústínus hugtök sín og hugmyndir um sálina?
13 Órigenes var nemandi Klemensar frá Alexandríu sem var „fyrstur feðranna til að sækja afdráttarlaust í smiðju grískra arfsagna um sálina,“ segir New Catholic Encyclopedia. Hugmyndir Platóns um sálina hljóta að hafa haft djúp áhrif á Órigenes. „[Órigenes] tók upp eftir Platóni heildarskýringuna á eðli sálarinnar og yfirfærði hana á kenningu kristninnar, sagði guðfræðingurinn Werner Jaeger í The Harvard Theological Review.
14 Sumir í kristna heiminum álíta Ágústínus mesta hugsuð til forna. Áður en Ágústínus snerist til „kristni“ 33 ára að aldri hafði hann haft geysilegan áhuga á heimspeki og gerst nýplatónisti. * Eftir trúskiptin hélt hann áfram að vera nýplatónisti í hugsun. „Hugur hans var sú deigla þar sem trúarbrögð Nýja testamentisins voru í hvað ríkustum mæli brædd saman við platónska útlistun á grískri heimspeki,“ segir The New Encyclopædia Britannica. Bókin New Catholic Encyclopedia viðurkennir að „kennisetningu [Ágústínusar um sálina], sem naut almennrar viðurkenningar á Vesturlöndum fram á ofanverða 12. öld, hafi í mörgu mátt rekja . . . til nýplatónskunnar.“
15, 16. Breytti áhugi þrettándu aldar manna á kenningum Aristótelesar afstöðu kirkjunnar til kenningarinnar um ódauðleika sálarinnar?
15 Á 13. öld áttu kenningar Aristótelesar auknu fylgi að fagna í Evrópu, að miklu leyti vegna þess að verk arabískra fræðimanna, sem höfðu fjallað ítarlega um rit Aristótelesar, urðu fáanleg á latínu. Kaþólskur fræðimaður, Tómas Aquinas að nafni, var mjög hrifinn af hugsunargangi Aristótelesar. Fyrir tilstilli rita Tómasar höfðu viðhorf Aristótelesar meiri áhrif á kenningu kirkjunnar en skoðanir Platóns. Þessi þróun mála hafði hins vegar ekki áhrif á kenninguna um ódauðleika sálarinnar.
16 Aristóteles kenndi að sálin væri tengd líkamanum og yrði ekki skilin frá honum. Einstaklingsbundin tilvera hennar héldi ekki áfram efir dauðann og ef eitthvað eilíft byggi í manninum væri það óhlutbundnir og ópersónulegir vitsmunir. Slíkt viðhorf til sálarinnar samræmdist ekki trú kirkjunnar á einstaklingsbundnar sálir sem lifðu af líkamsdauðann. Tómas Aquinas vék þess vegna að nokkru leyti frá skoðun Aristótelesar á sálinni með því að fullyrða að ódauðleika sálarinnar mætti sanna með skynsamlegum rökum. Trú kirkjunnar á ódauðleika sálarinnar breyttist þar af leiðandi ekki neitt.
17, 18. (a) Innleiddu siðaskiptin á 16. öld umbætur á kenningunni um sálina? (b) Hver er afstaða flestra kirkjudeilda kristna heimsins til ódauðleika sálarinnar?
17 Á 14. og 15. öld, snemma á endurreisnartímanum, var áhugi manna á Platóni endurvakinn. Hin fræga Medici-fjölskylda á Ítalíu aðstoðaði jafnvel við að koma á fót menntastofnun í Flórens til að efla rannsóknir á heimspeki Platóns. Á 16. og 17. öld fór áhuginn á Aristóteles dvínandi. Siðaskiptin á 16. öld komu ekki fram með endurbætur á kenningunni um sálina. Þó að siðbótarmenn mótmælenda hafi snúist gegn kenningunni um hreinsunareld viðurkenndu þeir hugmyndina um eilífa refsingu eða umbun.
18 Kenningin um ódauðleika sálarinnar heldur enn velli í flestum kirkjudeildum kristna heimsins. Það vakti athygli bandarísks fræðimanns sem skrifaði: „Með sanni má segja að fyrir langflesta í okkar heimshluta merki trúin ekkert annað en ódauðleika. Guð innleiddi ódauðleika.“
Ódauðleiki og íslam
19. Hvenær var íslam stofnsett og hver gerði það?
19 Íslam hófst með köllun Múhameðs til spámanns þegar hann var um fertugt. Múslímar trúa því almennt að Múhameð hafi fengið opinberanir á 20 til 23 ára tímabili, frá árinu 610 e.o.t. til dauða síns árið 632. Þessar opinberanir eru skráðar í Kóraninn, helga bók múslíma. Þegar íslam kom fram á sjónarsviðið hafði platónska hugmyndin um sálina þegar náð að síast inn í gyðingdóminn og kristna trú.
20, 21. Hverju trúa múslímar um framhaldslíf?
20 Múslímar álíta að trú sín sé hápunktur þeirra opinberanna sem gefnar voru trúföstum Hebreum og kristnum mönnum til forna. Kóraninn vitnar bæði í Hebresku og Grísku ritningarnar. Hann víkur hins vegar frá þeim ritum hvað snertir kenninguna um ódauðleika sálarinnar. Kóraninn kennir að maðurinn hafi sál sem heldur áfram að lifa eftir dauðann. Hann talar líka um upprisu dauðra, dómsdag og endanleg örlög sálarinnar — annaðhvort líf í himneskum paradísargarði eða refsingu í brennandi víti.
21 Múslímar telja að sál látins manns fari til Barzakh eða „skiptingarinnar,“ „staðarins eða ástandsins sem fólk fer í eftir dauðann og áður en það kemur fyrir dóm.“ (Súra 23:99, 100, The Holy Qur-an, neðanmáls) Þar er sál mannsins með fullri meðvitund og hafi hann verið illur fær hún að reyna það sem kallað er „hegning grafarinnar“ en hafi hann verið trúfastur fær hún sæluvist. En hinir trúföstu verða líka að taka út nokkra hegningu vegna þeirra fáeinu synda sem þeir drýgðu í lifanda lífi. Á dómsdegi mætir sérhver sínum eilífu örlögum og lýkur þá þessu millibilsástandi.
22. Hvaða ólíkar kenningar um örlög sálarinnar settu arabískir heimspekingar fram?
22 Hugmyndin um ódauðleika sálarinnar kom fram í gyðingdómi og kristinni trú vegna áhrifa platónskunnar en var innbyggð í íslam frá byrjun. Þar með er ekki sagt að arabískir fræðimenn hafi ekki reynt að tvinna saman kenningar íslams og gríska heimspeki. Verk Aristótelesar höfðu vissulega veruleg áhrif á arabaheiminn. Þekktir arabískir fræðimenn, eins og Avicenna og Averroës, útlistuðu kenningar Aristótelesar og byggðu á þeim. Í tilraunum sínum til að samræma grískan hugsunargang og kenningar múslíma settu þeir hins vegar fram ólíkar kenningar. Avicenna staðhæfði til dæmis að hin einstaklingsbundna sál sé ódauðleg. Averroës færði á hinn bóginn rök gegn þeirri skoðun. Hvað sem þessum viðhorfum líður trúa múslímar því enn að sálin sé ódauðleg.
23. Hvaða afstöðu tekur gyðingdómurinn, kirkjur kristna heimsins og íslam til þess hvort sálin sé ódauðleg eða ekki?
23 Það er því greinilegt að gyðingdómurinn, kirkjur kristna heimsins og íslam halda öll fram kenningunni um ódauðleika sálarinnar.
[Neðanmáls]
^ gr. 14 Fylgismaður nýplatónsku, nýrrar útgáfu af heimspeki Platóns sem Plotínus setti fram í Róm á þriðju öld.
[Spurningar]
[Mynd á blaðsíðu 14]
Sigurvinningar Alexanders mikla leiddu til þess að grískir menningarstraumar blönduðust menningu Gyðinga.
[Myndir á blaðsíðu 15]
Órigenes, efri myndin, og Ágústínus reyndu að bræða saman platónska heimspeki og kristni.
[Myndir á blaðsíðu 16]
Avicenna, efri myndin, staðhæfði að hin einstaklingsbundna sál sé ódauðleg. Averroës færði rök gegn þeirri skoðun.