Hvar leita skal svara
Hvar leita skal svara
„Kenningin um eilífa kvöl er ósamrýmanleg trúnni á kærleika Guðs til allrar sköpunarinnar. . . . Að trúa því að sálinni sé refsað um alla eilífð fyrir mistök fáeinna ára, án þess að gefa henni nokkurt tækifæri til að bæta ráð sitt, stríðir gegn allri skynsemi.“ — NIKHILANANDA, HINDÚAHEIMSPEKINGUR.
1, 2. Hvaða spurningar koma upp í ljósi hinna margvíslegu trúarhugmynda um framhaldslíf?
LÍKT og hindúaheimspekingurinn Nikhilananda eiga margir nú á tímum erfitt með að sætta sig við kenninguna um eilífar kvalir. Á sama hátt eiga aðrir erfitt með að skilja hugmyndir eins og þær að öðlast nirvana og að verða eitt með taó.
2 En sökum þeirrar hugmyndar að sálin sé ódauðleg hafa trúarbrögð bæði í austri og vestri komið sér upp breytilegu mynstri trúarhugmynda um framhaldslífið sem erfitt getur verið að átta sig á. Er gerlegt að vita hið sanna um það hvað verður um okkur þegar við deyjum? Er sálin í raun og veru ódauðleg? Hvar getum við leitað svara?
Vísindi og heimspeki
3. Hafa vísindin eða vísindalegar rannsóknaraðferðir svörin við spurningum um líf eftir dauðann?
3 Hafa vísindin eða vísindalegar rannsóknaraðferðir svörin við spurningum um framhaldslífið? Á grundvelli nýlegra frásagna fólks af reynslu sinni við dauðans dyr eða ‚utan líkamans‘ hafa ýmsir rannsóknarmenn reynt að draga ályktanir um líf eftir dauðann. Kaþólski guðfræðingurinn Hans Küng tók til athugunar nokkrar af staðhæfingum þeirra í fyrirlestri sem hann nefndi „Er dauðinn aðgangur að ljósinu?“ Niðurstaða hans var þessi: „Reynsla af þessu tagi sannar ekkert um hugsanlegt líf eftir dauðann; hér er um að ræða síðustu fimm mínúturnar fyrir dauðann en ekki eilíft líf eftir dauðann.“ Hann bætti við: „Spurningin um hugsanlegt líf eftir dauðann er geysilega þýðingarmikil fyrir lífið fyrir dauðann. Hún kallar á svar sem verður að leita annars staðar ef læknavísindin geta ekki gefið það.“
4. Getur heimspekin hjálpað okkur að finna svörin í einhverjum af þeim mörgu möguleikum um framhaldslíf sem trúarbrögðin bjóða upp á?
4 Hvað um heimspekina? Getur hún hjálpað okkur að finna svörin í einhverjum af þeim mörgu möguleikum um framhaldslíf sem trúarbrögðin bjóða upp á? Heimspekileg rannsókn felur í sér „vangaveltur,“ segir 20. aldar heimspekingurinn Bertrand Russell. Að sögn The World Book Encyclopedia er heimspeki „eftirgrennslan í vissri mynd — sérstakt ferli greiningar, gagnrýni, túlkunar og vangaveltna.“ Heimspekilegar vangaveltur um framhaldslífið hafa leitt menn inn á ýmsar brautir, allt frá því að kalla ódauðleika einungis óskhyggju til yfirlýsinga um að hann sé vöggugjöf sérhvers manns.
Einstakur viskubrunnur
5. Hver er elsta bókin sem til er?
5 Til er þó bók sem inniheldur trúverðug svör við mikilvægum spurningum um lífið og dauðann. Það er elsta bókin sem til er en hlutar hennar voru færðir í letur fyrir um 3500 árum. Fyrsti hluti þessarar bókar var skrifaður nokkrum öldum áður en elstu sálmar hindúaritanna, Veda, voru skráðir og um þúsund árum áður en Búddha, Mahāvīra og Konfúsíus voru uppi. Þessi bók var fullgerð árið 98 e.o.t., meira en 500 árum áður en Múhameð stofnsetti íslam. Þessi einstaki brunnur hinnar æðstu visku er Biblían. *
6. Hvers vegna getum við vænst þess að Biblían segi okkur hvað sálin sé?
6 Engin bók er til sem inniheldur eins nákvæma og áreiðanlega fornaldarsögu og Biblían. Sú saga nær allt aftur til upphafs mannkynsins og greinir frá því hvernig við erum til orðin hér á jörðinni. Hún fer jafnvel með okkur lengra aftur í tímann en til sköpunar mannsins. Slík bók getur vissulega veitt okkur skilning á því hvernig maðurinn var skapaður og hvað sálin sé.
7, 8. Hvers vegna getum við leitað til Biblíunnar fullviss um að finna þar sönn og fullnægjandi svör við því hvað verði um okkur þegar við deyjum?
7 Biblían er þar að auki bók spádóma sem reynst hafa óskeikulir. Hún spáði til dæmis ítarlega um ríki Meda og Persa og veldi Grikkja, hvernig þau myndu rísa upp til mikilla áhrifa og líka líða undir lok. Þeir spádómar rættust svo rækilega að sumir gagnrýnendur reyndu árangurslaust að sanna að þeir hefðu verið ritaðir eftir að atburðirnir áttu sér stað. (Daníel 8:1-7, 20-22) Sumir spádóma Biblíunnar eru að uppfyllast rækilega núna á okkar tímum. * — Matteus, 24. kafli; Markús, 13. kafli; Lúkas, 21. kafli; 2. Tímóteusarbréf 3:1-5, 13.
8 Enginn maður, hversu gáfaður sem hann væri, gæti spáð af slíkri nákvæmni um framtíðaratburði. Það gæti aðeins alvaldur og alvitur skapari alheimsins gert. (2. Tímóteusarbréf 3:16, 17; 2. Pétursbréf 1:20, 21) Biblían er sannarlega bók frá Guði. Slík bók getur vissulega gefið okkur sönn og fullnægjandi svör við því hvað verður um okkur þegar við deyjum. Lítum þó fyrst á það sem hún segir um sálina.
[Neðanmáls]
^ gr. 5 Sjá bæklinginn Bók fyrir alla menn, gefinn út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.
^ gr. 7 Sjá bókina The Bible — God’s Word or Man’s?, gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.
[Spurningar]
[Mynd á blaðsíðu 18]
Elsta bókin sem til er.
[Mynd á blaðsíðu 18]
Bók sem veitir áreiðanleg og fullnægjandi svör.