Hvers vegna deyjum við?
Hvers vegna deyjum við?
„Jökla yfir enni er nú ró. Hvergi ég kenni í kyrrum skóg náttblævar neins. Söngfuglar sofa í náðum. Bíð þú við, bráðum blundar þú eins.“ — JOHANN WOLFGANG VON GOETHE, ÞÝSKT LJÓÐSKÁLD. (Í þýðingu Hannesar Hafsteins)
1, 2. (a) Hvaða þrá er manninum ásköpuð? (b) Hvers konar lífs nutu fyrstu mannhjónin?
GUÐ skapaði mennina með þrá til að lifa að eilífu. Biblían segir að hann hafi lagt „tilfinningu fyrir eilífðinni í brjóst þeirra.“ (Prédikarinn 3:11, Beck) En Guð gaf mönnum meira en löngunina til að lifa að eilífu. Hann gaf þeim líka tækifæri til þess.
2 Fyrstu foreldrar okkar, Adam og Eva, voru sköpuð fullkomin, gallalaus á huga og líkama. (5. Mósebók 32:4) Hugsa sér — engir þrálátir verkir eða sársauki, enginn hræðilegur ótti eða áhyggjur! Guð gaf þeim enn fremur yndislegt heimili, paradís. Ásetningur Guðs var sá að maðurinn lifði að eilífu og að jörðin fylltist, er tímar liðu, fullkomnum afkomendum hans. (1. Mósebók 1:31; 2:15) Hvers vegna deyjum við þá?
Óhlýðni leiðir af sér dauða
3. Hverju var eilíft líf Adams og Evu háð?
3 Guð gaf Adam fyrirmæli: „Af öllum trjám í aldingarðinum máttu eta eftir vild, en af skilningstrénu góðs og ills mátt þú ekki eta, því að jafnskjótt og þú etur af því, skalt þú vissulega deyja.“ (1. Mósebók 2:16, 17) Eilíft líf til handa Adam og Evu var þess vegna skilyrt; það var háð hlýðni þeirra við Guð.
4. Hvers vegna lá ekki lengur fyrir Adam og Evu að lifa að eilífu í paradís eftir að þau höfðu syndgað?
4 En svo hörmulega fór að Adam og Eva óhlýðnuðust lögum Guðs. (1. Mósebók 3:1-6) Með því urðu þau syndarar af því að „syndin er lögmálsbrot.“ (1. Jóhannesarbréf 3:4) Afleiðingin varð sú að ekki lá lengur fyrir Adam og Evu að lifa að eilífu. Hvers vegna? Vegna þess að „laun syndarinnar er dauði.“ (Rómverjabréfið 6:23) Þess vegna sagði Guð þegar hann kvað upp refsidóminn yfir Adam og Evu: „Mold ert þú og til moldar skalt þú aftur hverfa!“ Fyrstu foreldrar okkar voru því næst reknir út úr paradísarheimili sínu. Jafnskjótt og Adam og Eva höfðu syndgað hófust hægt en örugglega í þeim þær breytingar sem drógu þau að lokum til dauða. — 1. Mósebók 3:19, 23, 24.
‚Dauðinn rann til allra manna‘
5. Hvernig er dauðinn runninn til alls mannkynsins?
5 Syndin hafði núna sett djúpt mark á arfbera Adams og Evu. Þar af leiðandi gátu þau ekki eignast fullkomin afkvæmi frekar en hægt er að fá fullkomna afsteypu úr gölluðu móti. (Jobsbók 14:4) Hver barnsfæðing staðfestir svo sannarlega að fyrstu foreldrar okkar glötuðu fullkominni heilsu og eilífu lífi sjálfum sér til handa og afkomendum sínum. Kristni postulinn Páll skrifaði: „Syndin kom inn í heiminn fyrir einn mann og dauðinn fyrir syndina, og þannig er dauðinn runninn til allra manna, af því að allir hafa syndgað.“ — Rómverjabréfið 5:12; samanber Sálm 51:7.
6. Hvers vegna deyjum við?
6 Vísindamenn nú á dögum vita ekki nákvæmlega hvers vegna menn hrörna með aldrinum og deyja. Biblían útskýrir hins vegar að við deyjum vegna þess að við erum fædd syndug, höfum erft það ástand frá fyrstu foreldrum okkar. En hvað verður um okkur þegar við deyjum?
[Spurningar]