Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Sannleikurinn um sálina skiptir máli

Sannleikurinn um sálina skiptir máli

Sannleikurinn um sálina skiptir máli

„[Þér] munuð þekkja sannleikann, og sannleikurinn mun gjöra yður frjálsa.“ — JÓHANNES 8:32.

1. Hvers vegna er mikilvægt að við skoðum trúarhugmyndir okkar um sálina og dauðann?

 HUGMYNDIR manna um dauðann og framhaldslífið ráðast að mestu af þeim trúar- og menningarjarðvegi sem þeir eru sprottnir upp úr. Eins og við höfum séð ná þær allt frá þeirri sannfæringu að sálin nái ekki lokatakmarki sínu fyrr en eftir fjölda endurfæðinga til þeirrar skoðunar að eitt stutt æviskeið geri út um endanleg örlög mannsins. Þar af leiðandi kann einn að vera fullviss um að renna að lokum saman við hinn endanlega veruleika eftir dauða sinn, annar að vera jafnsannfærður um að öðlast nirvana og enn annar öruggur um sæluvist á himni. Hver er þá sannleikurinn í þessum efnum? Ættum við ekki, vegna þess að trúarskoðanir okkar hafa áhrif á lífsviðhorf okkar, breytni og ákvarðanir, að láta okkur umhugað um að finna svarið við þeirri spurningu?

2, 3. (a) Hvers vegna getum við lagt traust okkar á það sem Biblían segir um sálina? (b) Hver er sannleikurinn um sálina samkvæmt því sem Biblían fullyrðir?

2 Elsta bókin í heiminum, Biblían, rekur sögu mannsins aftur til sköpunar fyrstu mannssálarinnar. Kenningar hennar eru lausar við heimspeki og arfsagnir manna. Biblían tilgreinir vafningalaust hið sanna um sálina: Sál þín er ekkert annað en þú sjálfur, dáið fólk á sér enga tilveru og þeir sem eru í minni Guðs verða reistir upp frá dauðum þegar tími hans til þess er kominn. Hvaða þýðingu getur það haft fyrir þig að vita þetta?

3 „[Þér] munuð þekkja sannleikann, og sannleikurinn mun gjöra yður frjálsa,“ sagði Jesús Kristur við fylgjendur sína. (Jóhannes 8:32) Já, sannleikurinn veitir frelsi. En frá hverju gerir sannleikurinn um sálina okkur frjáls?

Frelsi frá ótta og örvæntingu

4, 5. (a) Hvaða ótta hrekur sannleikurinn um sálina burt? (b) Hvernig gaf upprisuvonin unglingsstúlku með banvænan sjúkdóm mikið hugrekki?

4 „Flestir óttast dauðann og reyna að komast hjá því að hugsa um hann,“ segir The World Book Encyclopedia. Sjálft orðið ‚dauði‘ er orðið næstum ósegjanlegt á Vesturlöndum segir þekktur sagnfræðingur. Í sumum menningarsamfélögum er algengt að nota skrauthvörf eins og „andast“ og „falla frá“ til að segja frá dauða einhvers. Þessi beygur við dauðann er í raun ótti við hið óþekkta vegna þess að í augum flestra er dauðinn ráðgáta. Vitneskjan um hvað verður um menn þegar þeir deyja léttir þessum ótta af fólki.

5 Tökum sem dæmi hugarástand 15 ára stúlku sem hét Michaelyn. Hún var með hvítblæði og horfði fram á að deyja innan skamms. Móðir hennar, Paula, segir svo frá: „Michaelyn sagði að hún væri ekki hrædd við að deyja vegna þess að hún vissi að dauðinn væri aðeins tímabundinn. Við töluðum mikið um nýjan heim Guðs og allt það fólk sem verður þá reist upp frá dauðum. Trú Michaelynar á Jehóva Guð og upprisuna var gríðarlega sterk — það komst ekki að hjá henni hinn minnsti efi.“ Upprisuvonin leysti þessa hugrökku stúlku undan yfirþyrmandi ótta við dauðann.

6, 7. Frá hvaða örvæntingu frelsar sannleikurinn um sálina okkur? Lýstu því með dæmi.

6 Hvaða áhrif hafði sannleikurinn á foreldra Michaelynar? „Við höfum aldrei fundið fyrir öðrum eins sársauka og þegar stúlkan okkar dó,“ segir Jeff, faðir hennar. „En við treystum skilyrðislaust á fyrirheit Jehóva um upprisuna og hlökkum til þess dags þegar við fáum að faðma okkar ástkæru Michaelyn á ný. Það verða aldeilis fagnaðarfundir!“

7 Já, sannleikurinn um sálina frelsar fólk frá þeirri örvæntingu sem iðulega fylgir ástvinamissi. Að sjálfsögðu getur ekkert eytt algerlega þeirri kvöl og sorg sem dauði ástvinar hefur í för með sér. En upprisuvonin linar sorgina og gerir fólki mun léttara að þola kvölina.

8, 9. Við hvaða ótta losar sannleikurinn um ástand hinna dánu okkur?

8 Biblíulegu sannindin um ástand hinna látnu leysir okkur líka undan ótta við framliðna. Eftir að hafa kynnst þessum sannindum hafa margir sem eitt sinn voru í viðjum hjátrúar og siða er tengjast framliðnum ekki lengur áhyggjur af bölbænum, fyrirboðum, töfra- og verndargripum. Þeir bera heldur ekki fram kostnaðarsamar fórnir til að blíðka forfeður sína og afstýra því að þeir ásæki þá sem eru á lífi. Þar sem „hinir dauðu vita ekki neitt“ eru allar slíkar iðkanir til einskis. — Prédikarinn 9:5.

9 Sannleikurinn um sálina, sem Biblían hefur að geyma, er vissulega trúverðugur og leysir fólk úr fjötrum. En hugleiddu líka hinar einstöku framtíðarhorfur sem Biblían segir að þú getir átt.

[Spurningar]

[Innskot á blaðsíðu 29]

Sannleikurinn um sálina frelsar menn frá ótta við dauðann, ótta við hina dánu og frá örvæntingu vegna dauða ástvinar.