Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Einstök uppspretta æðri visku

Einstök uppspretta æðri visku

3. hluti

Einstök uppspretta æðri visku

1, 2. Hvers vegna ættum við að rannsaka Biblíuna?

1 Greinir Biblían frá þessari æðri visku? Getur hún gefið okkur sönn svör við hinum mikilvægu spurningum sem snerta tilgang lífsins?

2 Biblían verðskuldar sannarlega athugun okkar. Ein ástæðan er sú að hún er óvenjulegasta bókin sem tekin hefur verið saman, mjög ólík öllum öðrum bókum. Hugleiddu eftirfarandi staðreyndir.

Elsta og útbreiddasta bókin

3, 4. Hversu gömul er Biblían?

3 Biblían er elsta bókin sem skrifuð hefur verið. Hlutar hennar voru skrifaðir fyrir um það bil 3500 árum. Hún er mörgum öldum eldri en nokkur önnur bók sem álitin er heilög. Hin fyrsta af þeim 66 bókum, sem hún hefur að geyma, var skrifuð um þúsund árum fyrir daga Búddha og Konfúsíusar og um tvö þúsund árum fyrir daga Múhameðs.

4 Sagan, sem skráð er í Biblíunni, nær aftur til upphafs mannkynsins og skýrir hvernig við erum til komin hér á jörðinni. Hún fer jafnvel með okkur aftur fyrir sköpun mannsins og veitir okkur upplýsingar um myndun jarðar.

5. Hversu mörg gömul handrit af Biblíunni eru til í samanburði við veraldleg fornrit?

5 Aðeins fáein afrit eru enn til af gömlum handritum annarra trúarrita, svo og veraldlegra rita. Um það bil 11.000 handskrifuð afrit af Biblíunni eða hlutum hennar eru til á hebresku og grísku og sum þeirra eru aðeins lítið eitt yngri en frumritin. Þessi afrit hafa varðveist jafnvel þó að ráðist hafi verið gegn Biblíunni af því mesta offorsi sem hægt er að ímynda sér.

6. Hversu víða hefur Biblíunni verið dreift?

6 Auk þess er Biblían langsamlega útbreiddasta bók sögunnar. Um þremur milljörðum eintaka hefur verið dreift af Biblíunni, í heild eða að hluta, á um tvö þúsund tungumálum. Sagt er að 98 af hundraði mannkynsins hafi aðgang að Biblíunni á sinni tungu. Engin önnur bók kemst í námunda við þessa útbreiðslu.

7. Hvað má segja um nákvæmni Biblíunnar?

7 Engin önnur forn bók jafnast heldur á við Biblíuna hvað nákvæmni snertir. Vísindamenn, sagnfræðingar, fornleifafræðingar, landfræðingar, málvísindamenn og aðrir eru sífellt að staðfesta frásagnir Biblíunnar.

Vísindaleg nákvæmni

8. Hversu nákvæm er Biblían í vísindalegum efnum?

8 Þó að Biblían hafi til dæmis ekki verið skrifuð sem kennslubók í vísindum er hún samhljóða sönnum vísindum þegar hún fjallar um vísindalegt efni. Aðrar fornar bækur, sem álitnar eru helgibækur, innihalda vísindalegar goðsagnir, ónákvæmni og hrein og bein ósannindi. Líttu á aðeins fjögur af mörgum dæmum um vísindalega nákvæmni Biblíunnar:

9, 10. Hvað segir Biblían um undirstöður jarðarinnar í stað þess að endurspegla óvísindalegar hugmyndir síns tíma?

9 Hvernig jörðinni er haldið uppi í geimnum. Til forna, þegar verið var að skrifa Biblíuna, voru uppi miklar vangaveltur um það hvernig jörðinni væri haldið uppi í geimnum. Sumir trúðu að jörðin hvíldi á fjórum fílum sem stæðu á stórri sæskjaldböku. Aristóteles, grískur heimspekingur og vísindamaður á fjórðu öld f.o.t., kenndi að jörðin gæti aldrei hangið í tómum geimnum. Hann kenndi að himintunglin væru fest á yfirborð fastra, gagnsærra kúlna og væri hver kúla inni í annarri. Álitið var að jörðin væri á þeirri innstu, stjörnurnar á þeirri ystu.

10 Í stað þess að endurspegla fráleitar, óvísindalegar kenningar, sem uppi voru þegar Biblían var rituð, segir hún einfaldlega (um árið 1473 f.o.t.): „[Guð] lætur jörðina svífa í tómum geimnum.“ (Jobsbók 26:7) Á frumhebreskunni merkir orðið, sem þýtt er hér „í tómum geimnum,“ „ekki nokkur hlutur“ og þetta er í eina skiptið sem það kemur fyrir í Biblíunni. Sú mynd, sem það dregur upp af jörðinni umkringdri tómum geimnum, er viðurkennd af fræðimönnum sem eftirtektarverð framsýni á þeim tíma. Theological Wordbook of the Old Testament segir: „Það er sláandi að Jobsbók 26:7 skuli lýsa heiminum, sem þá þekktist, sem svífandi í geimnum og þar með vera á undan vísindauppgötvunum framtíðarinnar.“

11, 12. Hvenær fóru menn að skilja sannleikann í Jobsbók 26:7?

11 Nákvæm fullyrðing Biblíunnar var sett fram meira en 1100 árum fyrir daga Aristótelesar. Samt var haldið áfram að kenna skoðanir Aristótelesar sem staðreyndir í um það bil 2000 ár eftir dauða hans! Loks, árið 1687, birti Sir Isaac Newton þær niðurstöður athugana sinna að jörðin héldist á sínum stað í geimnum miðað við önnur himintungl vegna gagnkvæms aðdráttarafls, það er að segja þyngdaraflsins. En það var allt að 3200 árum eftir að Biblían hafði sagt með tígulegum einfaldleik að jörðin svifi „í tómum geimnum.“

12 Já, fyrir næstum 3500 árum tók Biblían réttilega fram að jörðin hefði engar sýnilegar undirstöður, staðreynd sem er samhljóða þyngdar- og hreyfilögmálum sem menn skildu frekar nýlega. „Þeir sem afneita innblæstri Heilagrar ritningar,“ sagði fræðimaður, „eiga erfitt með að svara því hvernig Job vissi sannleikann.“

13. Hvað álitu menn um lögun jarðar fyrr á öldum, en hvað breytti skoðun þeirra?

13 Lögun jarðar. The Encyclopedia Americana segir: „Hinar elstu, þekktu hugmyndir manna um jörðina voru á þá lund að hún væri flatur, ósveigjanlegur pallur í miðjum alheiminum. . . . Það var fyrst á endurreisnartímanum sem almennt var farið að líta á jörðina sem hnött.“ Sumir sjófarendur fyrri alda óttuðust meira að segja að þeir kynnu að sigla fram af brún þessarar flötu jarðar. En þá gerði tilkoma áttavitans og aðrar framfarir mönnum kleift að fara í lengri sjóferðir. Þessar „landkönnunarferðir sýndu mönnum,“ eins og önnur alfræðibók skýrir frá, „að jörðin var hnöttótt en ekki flöt eins og flestir höfðu haldið.“

14. Hvernig lýsti Biblían lögun jarðar og hvenær?

14 Þó sagði Biblían fyrir um það bil 2700 árum, löngu fyrir slíkar sjóferðir, í Jesaja 40:22: „Það er hann, sem situr hátt yfir jarðarkringlunni.“ Hebreska orðið, sem hér er þýtt „kringla,“ getur einnig merkt „hnöttur“ eins og ýmis heimildarrit benda á. Þess vegna segja sumar biblíuþýðingar „jarðarhnöttur“ (Douay-þýðingin) og „hnöttótt jörð“ — Moffatt.

15. Hvers vegna höfðu óvísindalegar skoðanir um jörðina ekki áhrif á Biblíuna?

15 Biblían var þannig ekki undir áhrifum óvísindalegra skoðana sem ríkjandi voru á þeim tíma um undirstöður jarðar og lögun hennar. Ástæðan er einföld: Höfundur Biblíunnar er höfundur alheimsins. Hann skapaði jörðina og ætti því að vita hvernig hún svífur í geimnum og hver lögun hennar er. Þess vegna sá hann til þess, þegar hann innblés Biblíuna, að engin óvísindaleg viðhorf væru tekin inn í hana, hversu mjög sem aðrir á þeim tíma kunna að hafa trúað þeim.

16. Hvernig kemur efnasamsetning lífvera heim og saman við fullyrðingu Biblíunnar?

16 Efnin í lífverunum. „Þá myndaði [Jehóva] Guð manninn af leiri jarðar,“ segir 1. Mósebók 2:7. The World Book Encyclopedia segir: „Öll frumefnin, sem lífverurnar eru búnar til úr, er einnig að finna í lífvana efni.“ Öll efnin, sem lífverurnar að manninum meðtöldum eru gerðar úr, er þannig að finna í jörðinni sjálfri. Það kemur heim og saman við fullyrðingu Biblíunnar sem tilgreinir hvaða efni Guð notaði við sköpun manna og allra annarra lífvera.

17. Hver er sannleikurinn um það hvernig lífverur urðu til?

17 „Eftir sinni tegund.“ Biblían segir að Guð hafi skapað fyrsta manninn og konuna og af þeim séu síðan allir menn komnir. (1. Mósebók 1:26-28; 3:20) Hún segir að það sama hafi gilt um aðrar lífverur, eins og fiska, fugla og spendýr. Þær hafi komið fram „eftir sinni tegund.“ (1. Mósebók 1:11, 12, 21, 24, 25) Þetta er einmitt það sem vísindamenn hafa séð í náttúrunni, að sérhver lífvera kemur af foreldri sömu tegundar. Á því er engin undantekning. Um þetta segir eðlisfræðingurinn Raymo: „Líf leiðir af sér líf. Það gerist án afláts í hverri frumu. En hvernig leiddi lífleysið af sér líf? Það er ein af stærstu ósvöruðu spurningum líffræðinnar og enn sem komið er geta líffræðingar boðið upp á lítið annað en getgátur út í loftið. Einhvern veginn lánaðist lífvana efni að koma á lífrænu skipulagi hjá sér. . . . Höfundur 1. Mósebókar kann að hafa hitt naglann á höfuðið eftir allt saman.“

Söguleg nákvæmni

18. Hvað segir lögfræðingur um sagnfræðilega nákvæmni Biblíunnar?

18 Af öllum bókum sem til eru hefur Biblían að geyma nákvæmustu sögu fornaldar. Bókin A Lawyer Examines the Bible dregur fram sögulega nákvæmni hennar á eftirfarandi hátt: „Í ástarsögum, þjóðsögum og ósönnum vitnisburði er þess gætt vandlega að finna atburðunum, sem greint er frá, stað í fjarlægu landi og á óvissum tíma og þar með eru brotnar fyrstu reglurnar sem við lögfræðingar lærum um góðan málflutning, að ‚málsskjalið þurfi að tilgreina stund og stað.‘ Frásagnir Biblíunnar gefa okkur stund og stað atburðanna sem sagt er frá af hinni mestu nákvæmni.“

19. Hvað segir heimildarrit um söguleg smáatriði í Biblíunni?

19 Í The New Bible Dictionary er þessi athugasemd: „[Ritari Postulasögunnar] setur frásögn sína í ramma samtíðarsögu. Síður bókarinnar eru fullar af tilvísunum til borgarfógeta, héraðsstjóra, lénskonunga og þess háttar og hvað eftir annað reynast þessar tilvísanir eiga nákvæmlega við þann stað og stund sem um ræðir.“

20, 21. Hvað segir biblíufræðingur um sagnfræði Biblíunnar?

20 Í bókinni í The Union Bible Companion skrifar S. Austin Allibone: „Sir Isaac Newton . . . var líka framúrskarandi fornritagrúskari og rannsakaði Heilaga ritningu af mikilli nákvæmni. Hver er úrskurður hans um þetta atriði? ‚Ég finn,‘ segir hann, ‚öruggari merki um trúverðugleika í Nýjatestamentinu en í nokkurri veraldlegri sagnfræði.‘ Dr. Johnson segir að við höfum meiri sannanir fyrir því að Jesús hafi dáið á Hauskúpuhæð, eins og guðspjöllin segja, en því að Júlíus Sesar hafi dáið í þinghúsinu. Við höfum sannarlega miklu meiri sannanir.“

21 Þetta heimildarrit bætir við: „Spyrðu hvern þann sem segist efast um sannleiksgildi guðspjallasögunnar hvaða ástæðu hann hafi til að trúa að Sesar hafi dáið í þinghúsinu eða að Leó páfi III hafi krýnt Karlamagnús keisara Vestrómverska ríkisins árið 800. . . . Hvernig veist þú að maður eins og Karl I [af Englandi] hafi nokkru sinni verið til og hafi verið hálshöggvinn, og að Oliver Cromwell hafi tekið við völdum í hans stað? . . . Sir Isaac Newton er eignuð uppgötvun þyngdarlögmálsins . . . Við trúum öllum þessum fullyrðingum um ofangreinda menn, og það gerum við vegna þess að við höfum sagnfræðilegar sannanir fyrir þeim. . . . Ef einhver neitar enn að trúa þegar sannanir svo sem þessar eru lagðar fram, þá látum við hann eiga sig sem heimskan þverhaus eða vonlausan fáfræðing.“

22. Hvers vegna neita sumir að viðurkenna trúverðugleika Biblíunnar?

22 Höfundur segir síðan: „Hvað eigum við þá að segja um þá sem segjast ekki sannfærðir þrátt fyrir þær ríkulegu sannanir sem nú hafa verið lagðar fram um trúverðugleika Heilagrar ritningar? . . . Við höfum svo sannarlega ástæðu til að ætla að það sé frekar hjartanu en höfðinu að kenna — að þeir vilji ekki trúa því sem lækkar í þeim rostann og neyðir þá til að breyta um lífsstefnu.“

Innra samræmi og hreinskilni

23, 24. Hvers vegna er innra samræmi Biblíunnar svo óvenjulegt?

23 Ímyndaðu þér að byrjað hafi verið að skrifa bók á tímum Rómaveldis og að ritun hennar hafi verið haldið áfram út í gegnum miðaldir og verið lokið núna á 20. öld, og að margir ólíkir ritarar lagt þar hönd að verki. Hverju myndir þú búast við ef ritararnir hefðu verið jafnólíkir og hermenn, konungar, prestar, sjómenn, fjárhirðar og læknar? Myndir þú reikna með góðu samhengi og samræmi út í gegnum bókin? ‚Tæplega!‘ svarar þú kannski. En Biblían var rituð við slíkar kringumstæður. Þó er hún algerlega sjálfri sér samkvæm, ekki aðeins hvað varðar heildarhugmyndirnar heldur líka í minnstu smáatriðum.

24 Biblían er safn 66 bóka sem skrifaðar voru á 1600 ára tímabili sem hófst árið 1513 f.o.t. og lauk árið 98 e.o.t. Ritararnir voru um 40. Þeir voru af ólíkum þjóðfélags- og starfsstéttum og margir höfðu engin tengsl við hina. Eigi að síður er bókin, sem þeir skrifuðu, eins og hún eigi sér einn höfund því að hún fylgir einu samfelldu meginstefi frá upphafi til enda. Og gagnstætt því sem sumir halda þá er Biblían ekki afsprengi vestrænnar menningar. Ritarar hennar voru austurlandabúar.

25. Hvaða fullyrðingu biblíuritaranna styður heiðarleiki Biblíunnar og hreinskilni?

25 Meginþorri ritara til forna greindi aðeins frá velgengni sinni og dyggðum en ritarar Biblíunnar viðurkenndu opinskátt mistök sín og annmarka konunga sinna og leiðtoga. Þriðja Mósebók 20:1-13 og 5. Mósebók 32:50-52 segja frá göllum Móse, og það var hann sem skrifaði þessar bækur. Jónas 1:1-3 og 4:1 segir frá göllum Jónasar sem skrifaði þá frásögn. Matteus 17:18-20; 18:1-6; 20:20-28 og 26:56 greina frá lítilmannlegum eiginleikum lærisveina Jesú. Heiðarleiki og hreinskilni biblíuritaranna styður þannig fullyrðingu þeirra um að þeir séu innblásnir af Guði.

Það sem einkennir hana mest

26, 27. Hvers vegna er Biblían svona nákvæm í vísindalegum efnum sem og öðrum?

26 Biblían sýnir sjálf hvers vegna hún er svona nákvæm þegar hún fjallar um vísindi, mannkynssögu eða önnur efni og hvers vegna hún er svona samkvæm sjálfri sér og heiðarleg. Hún sýnir að alvaldur Guð, skaparinn sem gerði alheiminn, er höfundur Biblíunnar. Hann notaði mennska biblíuritara einungis sem skrifara sína og knúði þá með öflugum starfskrafti sínum til að skrifa það sem hann blés þeim í brjóst.

27 Páll postuli segir í Biblíunni: „Sérhver ritning er innblásin af Guði og nytsöm til fræðslu, til umvöndunar, til leiðréttingar, til menntunar í réttlæti, til þess að sá, sem tilheyrir Guði, sé albúinn og hæfur gjör til sérhvers góðs verks.“ Páll postuli skrifaði einnig: „Þegar þér veittuð viðtöku því orði Guðs, sem vér boðuðum, þá tókuð þér ekki við því sem manna orði, heldur sem Guðs orði, — eins og það í sannleika er.“ — 2. Tímóteusarbréf 3:16, 17; 1. Þessaloníkubréf 2:13.

28. Hvaðan er þá Biblían komin?

28 Biblían er þannig hugverk eins höfundar — Guðs. Það var einfalt mál fyrir hann, sem býr yfir ógurlegum mætti, að sjá svo um að ritaði textinn varðveittist heill og óskertur allt til okkar daga. Um það sagði einn fremsti heimildarmaður um biblíuhandrit, Sir Frederic Kenyon, árið 1940: „Stoðunum hefur verið kippt undan síðustu efasemdunum um að Ritningin hafi borist okkur efnislega eins og hún var rituð.“

29. Hvaða dæmi mætti nota til að lýsa getu Guðs til að koma boðskap á framfæri?

29 Mennirnir eru færir um að senda útvarps- og sjónvarpsmerki til jarðar úr mörg þúsund kílómetra fjarlægð utan úr geimnum, jafnvel frá tunglinu. Ómönnuð geimför hafa sent til jarðarinnar eðlisfræðilegar upplýsingar og myndir frá reikistjörnum sem eru í hundruð milljóna kílómetra fjarlægð. Vissulega gat skapari mannsins, skapari útvarpsbylgnanna, að minnsta kosti jafnað það met. Raunar var það einfalt mál fyrir hann að nota alvald sitt til að senda orð og myndir inn í huga þeirra sem hann valdi til að rita Biblíuna.

30. Vill Guð að menn komist að því hver sé tilgangur hans með þá?

30 Það er auk þess margt sem tengist jörðinni og lífinu á henni sem ber vitni um áhuga Guðs á mannkyninu. Þess vegna er skiljanlegt að hann skuli vilja hjálpa mönnunum að komast að hver hann sé og hver sé tilgangur hans með þá með því að skýra greinilega frá því í bók — varanlegu riti.

31. Af hverju skarar innblásinn boðskapur, sem er skráður niður, langt fram úr þeim sem berst munnlega frá manni til manns?

31 Hugleiddu líka yfirburði bókar, sem Guð hefur samið, í samanburði við upplýsingar sem ganga einungis munnlega mann fram af manni. Munnleg frásaga væri ekki áreiðanleg þar sem menn myndu umorða boðskapinn og merkingin brenglast er tímar liðu. Þeir myndu koma upplýsingum munnlega áfram út frá sínu eigin sjónarhorni. En miklu ólíklegra er að villur slæðist inn í varanlega, ritaða frásögn sem er innblásin af Guði. Þar að auki má afrita og þýða bók til þess að fólk, sem les mismunandi tungumál, geti haft gagn af. Er það þess vegna ekki skynsamlegt að skapari okkar skuli hafa notað slíka aðferð til að koma upplýsingum á framfæri? Raunar er það meira en skynsamlegt vegna þess að skaparinn segir að þetta sé það sem hann hafi gert.

Uppfylltir spádómar

32-34. Hvað hefur Biblían sem engin önnur bók inniheldur?

32 Þessu til viðbótar ber Biblían áberandi og einstakt merki innblásturs frá Guði. Hún er bók spádóma sem hafa uppfyllst og halda áfram að gera það án þess að skeika.

33 Til dæmis var eyðingu Týrusar til forna, falli Babýlonar, endurbyggingu Jerúsalem og uppgangi og falli konunga Medíu-Persíu og Grikklands öllu spáð í verulegum smáatriðum í Biblíunni. Spádómarnir voru svo nákvæmir að sumir gagnrýnendur reyndu, en þó árangurslaust, að halda því fram að þeir væru skráðir eftir að atburðirnir gerðust. — Jesaja 13:17-19; 44:27–45:1; Esekíel 26:3-6; Daníel 8:1-7, 20-22.

34 Spádómar Jesús um eyðingu Jerúsalem árið 70 uppfylltust nákvæmlega. (Lúkas 19:41-44; 21:20, 21) Og spádómar sem Jesús og Páll postuli báru fram um ‚síðustu daga‘ eru að uppfyllast í smáatriðum núna á okkar dögum. — 2. Tímóteusarbréf 3:1-5, 13; Matteus 24; Markús 13; Lúkas 21.

35. Hvers vegna geta spádómar Biblíunnar aðeins verið komnir frá skaparanum?

35 Enginn mannshugur, hversu gáfaður sem hann var, gat spáð ókomnum atburðum svona nákvæmlega. Til þess þurfti huga almáttugs og alviturs skapara alheimsins eins og við lesum í 2. Pétursbréfi 1:20 og 21: „Enginn þýðir neinn spádóm Ritningarinnar af sjálfum sér. Því að aldrei var nokkur spádómur borinn fram að vilja manns, heldur töluðu menn orð frá Guði, knúðir af heilögum anda.“

Hún veitir svörin

36. Hvað segir Biblían okkur?

36 Biblían ber þar af leiðandi á margan hátt merki þess að vera innblásið orð hins hæsta Guðs. Sem slík bók segir hún okkur hvers vegna mennirnir eru á jörðinni, hvers vegna svona margir þurfa að þjást, hvað verður um okkur og hvernig ástandið mun breytast til hins betra. Hún opinberar okkur að til sé mikill Guð sem hafði tilgang með því að skapa mennina og þessa jörð og að tilgangur hans muni ná fram að ganga. (Jesaja 14:24) Biblían opinberar okkur líka hvaða trúarbrögð séu sönn og hvernig við getum fundið þau. Þannig er hún eina uppspretta æðri visku sem getur sagt okkur sannleikann um allar hinar þýðingarmiklu spurningar lífsins. — Sálmur 146:3; Orðskviðirnir 3:5; Jesaja 2:2-4.

37. Hvers verður að spyrja um kristna heiminn?

37 En þótt ríkulegar sannanir séu fyrir áreiðanleika og sannsögli Biblíunnar má spyrja hvort allir sem viðurkenna hana fylgi kenningum hennar. Lítum til dæmis á þjóðirnar sem segjast iðka kristni, það er að segja kristna heiminn. Þær hafa haft aðgang að Biblíunni um aldaraðir. En endurspegla hugsanir þeirra og verk í sannleika sagt hina miklu visku Guðs?

[Spurningar]

[Myndir á blaðsíðu 11]

Sir Isaac Newton áleit að þyngdaraflið héldi jörðinni á sínum stað í geimnum miðað við önnur himintungl.

Sú mynd, sem Biblían dregur upp af jörðinni umkringdri tómum geimnum, er viðurkennd af fræðimönnum sem eftirtektarverð framsýni á þeim tíma.

[Mynd á blaðsíðu 12]

Sumir sjófarendur fyrri alda óttuðust meira að segja að sigla fram af brún flatrar jarðarinnar.

[Mynd á blaðsíðu 13]

Það eru meiri sannanir fyrir því að Jesús Kristur hafi verið uppi en fyrir því að Júlíus Sesar, Karlamagnús keisari, Oliver Cromwell eða Leó páfi III hafi verið til.

[Mynd á blaðsíðu 15]

Títusarboginn í Róm ber vitni um uppfyllingu spádómsins sem Jesús bar fram um eyðingu Jerúsalem árið 70.