Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hefur lífið tilgang?

Hefur lífið tilgang?

1. hluti

Hefur lífið tilgang?

1. Hvers er oft spurt um tilgang lífsins og hvað sagði maður einn um hann?

 Fyrr eða síðar velta næstum allir fyrir sér hver sé tilgangur lífsins. Er hann sá að vinna hörðum höndum að því að bæta lífsskilyrði okkar, að sjá fjölskyldum okkar farborða, að deyja eftir kannski 70 eða 80 ár og vera svo ekki framar til um alla eilífð? Ungur maður, sem var þannig innanbrjósts, sagði að lífið hefði engan annan tilgang en þann „að lifa, eignast börn, vera hamingjusamur og deyja svo.“ En er það rétt? Og bindur dauðinn enda á allt?

2, 3. Hvers vegna er öflun efnislegs auðs ekki nægilegur tilgangur í lífinu?

2 Bæði í Austurlöndum og á Vesturlöndum finnst mörgum helsti tilgangur lífsins vera sá að afla sér efnislegs auðs. Þeir álíta að það geti veitt þeim hamingju og tilgangsríkt líf. En hvað um fólk sem er nú þegar auðugt? Kanadískur rithöfundur, Harry Bruce, sagði: „Ótrúlegur fjöldi ríks fólks fullyrðir að það sé ekki hamingjusamt.“ Hann bætti við: „Af skoðanakönnunum má ætla að hræðileg bölsýni hafi skotið sér niður í Norður-Ameríku . . . Er einhver hamingjusamur í heimi hér? Ef svo er, í hverju er þá leyndardómurinn fólginn?“

3 Jimmy Carter, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, sagði: „Við höfum komist að raun um að löngun okkar í tilgang í lífinu verður ekki fullnægt með eignum eða neyslu. . . . Tómleikinn í lífi þess sem skortir tiltrú og tilgang verður ekki fylltur með því að hlaða að sér efnislegum munum.“ Annar stjórnmálaleiðtogi sagði: „Ég hef nú um nokkurra ára skeið leitað ákaft að sannleikanum um sjálfan mig og líf mitt; margir aðrir, sem ég þekki, eru að því líka. Fleiri en nokkru sinni fyrr spyrja: ‚Hverjir erum við? Hver er tilgangurinn með tilveru okkar?‘“

Skilyrðin eru verri

4. Hvers vegna efast sumir um að lífið hafi nokkurn tilgang?

4 Margir efast um að lífið hafi tilgang þegar þeir sjá að lífsskilyrðin hafa farið versnandi. Út um heim allan er yfir milljarður manna alvarlega veikur eða vannærður. Í Afríku einni deyja um tíu milljónir barna árlega af slíkum orsökum. Mannfólkinu á jörðinni, sem núna telur næstum 6 milljarða, heldur áfram að fjölga um meira en 90 milljónir á ári, og yfir 90 af hundraði þeirrar aukningar á sér stað í þróunarlöndunum. Þessi sívaxandi fólksfjöldi kallar á aukna matvælaframleiðslu, húsnæði og iðnað, sem aftur veldur frekari spjöllum á lofti, láði og legi vegna iðnaðarúrgangs og annarra mengunarefna.

5. Hvað er að verða um gróður jarðarinnar?

5 Í ritinu World Military and Social Expenditures 1991 greinir svo frá: „Á hverju ári er eytt skóglendi sem er jafnvíðáttumikið og allt [Stóra-Bretland]. Með sama áframhaldi verðum við búin að þurrka út 65 prósent skóglendis á röku hitabeltissvæðunum árið 2000.“ Samkvæmt heimildum frá Sameinuðu þjóðunum eru felld 10 tré á þessum svæðum fyrir hvert eitt sem gróðursett er. Í Afríku er hlutfallið meira en 20 á móti 1. Eyðimerkursvæði fara því stækkandi og ár hvert tapast ræktunarland á stærð við Belgíu.

6, 7. Hver eru nokkur þeirra vandamála sem mannlegir leiðtogar geta ekki leyst, og hvaða spurningum þarf því að svara?

6 Ennfremur hafa fjórfalt fleiri fallið í styrjöldum núna á 20. öldinni en samanlagt á síðustu fjórum öldum þar á undan. Glæpum fer alls staðar fjölgandi, einkum ofbeldisglæpum. Hnignun fjölskyldunnar, fíkniefnanotkun, alnæmi, samræðissjúkdómar og önnur neikvæð atriði gera lífið einnig erfiðara. Og leiðtogar heimsins hafa ekki getað komið fram með lausnir á þeim margvíslegu vandamálum sem þjaka mannkynið. Þess vegna er skiljanlegt að fólk skuli spyrja: ‚Hver er tilgangur lífsins?‘

7 Hvernig hafa fræðimenn og trúarleiðtogar tekið á þessari spurningu? Hafa þeir, eftir allar þessar aldir sem liðnar eru, komið með fullnægjandi svar?

Það sem þeir segja

8, 9. (a) Hvað sagði kínverskur fræðimaður um tilgang lífsins? (b) Hvað sagði maður sem lifði af vist í dauðabúðum nasista?

8 Fræðimaður í kenningum Konfúsíusar, Tu Wei-Ming, sagði: „Hina endanlegu þýðingu lífsins er að finna í okkar hversdagslegu, mannlegu tilveru.“ Samkvæmt þessari skoðun á mannfólkið að halda áfram að fæðast, berjast fyrir tilverunni og deyja síðan. Slíkt viðhorf gefur litla von. Og er það einu sinni sannleikanum samkvæmt?

9 Elie Wiesel, sem lifði af vist í dauðabúðum nasista í síðari heimsstyrjöldinni, lét svo um mælt: „‚Hvers vegna erum við hér?‘ er mikilvægasta spurningin sem maðurinn verður að horfast í augu við. . . . Ég trúi að lífið hafi tilgang þrátt fyrir þau tilgangslausu dauðsföll sem ég hef séð.“ En hann gat ekki sagt hver væri tilgangur lífsins.

10, 11. (a) Hvernig fullyrti leiðarahöfundur að maðurinn kunni ekki svörin? (b) Hvers vegna er viðhorf þróunarfræðings ekki fullnægjandi?

10 Leiðarahöfundurinn Vermont Royster fullyrti: „Vangaveltur okkar um manninn sjálfan, . . . stöðu hans í alheiminum, hafa skilað okkur lítið áfram frá örófi alda. Við sitjum enn þá uppi með spurningar um hverjir við séum, hvers vegna við séum til og hvert við stefnum.“

11 Þróunarfræðingurinn Stephen Jay Gould sagði: „Við þráum ef til vill ‚háleitara‘ svar — en ekkert slíkt er til.“ Slíkir þróunarfræðingar líta á lífið sem baráttu þar sem hinir hæfustu lifa af en síðan deyi þeir sem allir aðrir. Það viðhorf veitir ekki heldur nokkra von. En aftur spyrjum við: Er það sannleikanum samkvæmt?

12, 13. Hver eru viðhorf kirkjuleiðtoga og eru þau eitthvað frekar fullnægjandi en viðhorf veraldlegra könnuða?

12 Margir trúarleiðtogar segja að tilgangur lífsins sé sá að láta gott af sér leiða þannig að sál mannsins geti við dauðann farið til himna og eytt eilífðinni þar. Illmenni fái það hlutskipti að búa við eilífa kvöl í helvíti. En samkvæmt þessari skoðun héldi hin ófullnægjandi tilvera manna á jörðinni áfram á svipaðan hátt og hún hefur verið alla mannkynssöguna. En ef það var tilgangur Guðs að menn ættu að búa á himnum, hvers vegna skapaði hann þá ekki bara strax sem himneskar verur eins og englana?

13 Jafnvel prestar eiga í erfiðleikum með að útskýra þetta sjónarmið. W. R. Inge, doktor í guðfræði og fyrrverandi prófastur við St. Páls-dómkirkjuna í Lundúnum, sagði eitt sinn: „Ég hef alla ævi streist við að finna tilgang með lífinu. Ég hef reynt að svara þremur spurningum sem mér hafa alltaf virst vera undirstöðuatriði: spurninguna um eilífðina; spurninguna um mannseðlið og spurninguna um illskuna. Það hefur ekki tekist. Ég hef engri þeirra svarað.“

Afleiðingin

14, 15. Hvaða áhrif hafa hin gagnstæðu viðhorf á marga menn?

14 Hvaða afleiðingar hafa svona margar ólíkar hugmyndir fræðimanna og trúarleiðtoga um það hver sé tilgangur lífsins haft? Margir bregðast við eins og roskinn maður sem sagði: „Lengstan hluta ævinnar hef ég verið að velta fyrir mér hvers vegna ég sé til. Ef það er einhver tilgangur er það hætt að skipta mig máli.“

15 Verulegur fjöldi þeirra sem taka eftir hversu margvíslegum augum trúarbrögð heimsins líta þessi mál dregur þá ályktun að það breyti engu hverju maður trúir. Þeim finnst trúarbrögð vera aðeins eitthvað sem dreifir huganum, veiti mönnum svolítinn hugarfrið og hughreystingu til þess að þeir geti tekist á við vandamál lífsins. Öðrum finnst trúarbrögð ekkert annað en hjátrú. Þeim finnst að trúarlegar vangaveltur í margar aldir hafi ekki svarað spurningunni um tilgang lífsins né bætt líf manna almennt. Sönnu nær sýnir mannkynssagan að trúarbrögð heimsins hafa oft hamlað framförum mannkynsins og verið orsök haturs og styrjalda.

16. Hversu mikilvægt getur það verið að finna tilgang lífsins?

16 Er það heldur svo mikilvægt að finna sannleikann um tilgang lífsins? Geðlæknirinn Viktor Frankl svaraði því á þessa leið: „Leit mannsins að tilgangi í lífinu er helsta driffjöður hans. . . . Ekkert í heiminum, voga ég mér að segja, er jafnáhrifaríkt til að hjálpa manni að lifa af jafnvel verstu aðstæður en sú vitneskja að líf manns hafi þýðingu.“

17. Hvaða spurningar þurfum við núna að bera upp?

17 Hvert getum við snúið okkur til að komast að raun um hver sé tilgangur lífsins fyrst heimspeki manna og trúarbrögð hafa ekki getað útskýrt hann með viðhlítandi hætti? Er til einhver uppspretta æðri visku sem getur sagt okkur sannleikann í þessu máli?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 4]

„Á hverju ári er eytt skóglendi sem er jafnvíðáttumikið og allt Stóra-Bretland.“

[Mynd á blaðsíðu 5]

„Lengstan hluta ævinnar hef ég verið að velta fyrir mér hvers vegna ég sé til.“