Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hver getur sagt okkur það?

Hver getur sagt okkur það?

2. hluti

Hver getur sagt okkur það?

1, 2. Hvernig er best að finna út í hvaða tilgangi eitthvað sé hannað?

1 Hver getur sagt okkur hver sé í raun og veru tilgangur lífsins? Ef þú heimsæktir vélahönnuð og sæir hann vinna við flókinn vélbúnað sem þú þekktir ekki, hvernig gætir þú þá fundið út til hvers hann væri? Besta leiðin væri að spyrja hönnuðinn sjálfan.

2 Hvað þá um hina mikilfenglegu hönnun sem við sjáum allt í kringum okkur á jörðinni, svo sem í öllum lífverum allt til smæstu lifandi frumu? Jafnvel hinar langtum smærri sameindir og frumeindir innan frumunnar eru stórkostlega hannaðar og kerfisbundnar. Og hvað um mannshugann sem er svo undursamlega hannaður? Eða hvað um sólkerfið okkar, vetrarbrautina okkar og alheiminn? Hlýtur þessi stórkostlega listasmíð ekki að eiga sér hönnuð? Vissulega gæti hann sagt okkur hvers vegna hann bjó allt þetta til.

Hófst lífið af tilviljun?

3, 4. Hvaða líkur eru á því að lífið hafi orðið til af tilviljun?

3 Fræðiritið The Encyclopedia Americana bendir á „hversu óhemjuflóknar lifandi verur eru og skipulagið í líkama þeirra margbrotið“ og segir síðan: „Nákvæm athugun á blómum, skordýrum og spendýrum leiðir í ljós næstum ótrúlega nákvæmt fyrirkomulag hinna einstöku hluta.“ Breski stjörnufræðingurinn Sir Bernard Lovell skrifaði um efnasamsetningu lífvera: „Líkurnar á . . . að eitthvað gerðist af tilviljun, sem leiddi til myndunar einnar hinna minnstu eggjahvítusameinda eru minni en hægt er að ímynda sér. . . . þær eru nánast engar.“

4 Stjarnfræðingurinn Fred Hoyle tók í sama streng er hann sagði: „Enn er því haldið fram á öllum sviðum hinnar hefðbundnu líffræði að lífið hafi komið fram af sjálfu sér. En eftir því sem lífefnafræðingar uppgötva sífellt meira um hina yfirþyrmandi margbrotnu gerð lífsins er samt greinilegt að líkurnar fyrir því að það hafi orðið til fyrir tilviljun eru svo hverfandi að það má algerlega útiloka þær. Lífið getur ekki hafa orðið til af tilviljun.“

5-7. Hvernig staðfestir sameindalíffræðin að lífverur geti ekki myndast af tilviljun?

5 Sameindalíffræði, ein af nýlegri greinum vísinda, kannar lífverur með því að rannsaka gen, sameindir og frumeindir. Sameindalíffræðingurinn, Michael Denton, segir um það sem komið hefur í ljós: „Einfaldasta frumutegundin, sem við þekkjum, er svo flókin að það er ómögulegt að samþykkja að slíkt fyrirbæri hafi orðið til við það að einhvers konar fáránlegur og óhemjuólíklegur atburður hafi skyndilega fleygt því saman.“ „En það sem er virkilega ögrandi er ekki aðeins að lífkerfin skuli vera svona flókin heldur líka hin ótrúlega hugvitssemi sem svo oft má sjá í hönnun þeirra.“ „Það er á vettvangi sameindanna sem . . . snilligáfa líffræðilegrar hönnunar og fullkomnunin í að ná settum markmiðum er mest áberandi.“

6 Denton bætir við: „Hvert sem við lítum, hversu djúpt sem við skyggnumst, finnum við yfirgnæfandi glæsileika og hugvitssemi sem dregur svo mjög úr hugmyndinni um tilviljun. Er það í raun trúlegt að handahófskennd framvinda hafi getað smíðað veröld þar sem smæsta einingin — starfhæft prótín eða gen — er flóknari en okkar eigin sköpunargáfa ræður við, veröld sem er sjálf andhverfa tilviljunarinnar og ber í öllum skilningi af hverju því sem hugvit manna hefur búið til?“ Hann segir einnig: „Milli lifandi frumu og þess ólífræna kerfis þar sem skipulagið er mest, eins og kristals eða snjókorns, er eins feiknamikil og alger hyldýpisgjá og hægt er að ímynda sér.“ Og eðlisfræðiprófessor, Chet Raymo, segir: „Ég er höggdofa . . . Sérhver sameind virðist eins og fyrir kraftaverk úthugsuð fyrir hlutverk sitt.“

7 Niðurstaða sameindalíffræðingsins Michaels Dentons er sú að „þeir sem enn þá haldi því kreddufastir fram að þessi nýi veruleiki sé afleiðing hreinnar tilviljunar“ trúi á goðsögn. Meira að segja kallar hann þá trú, sem kennd er við Darwin, að lifandi verur hafi orðið til af tilviljun „mestu heimsmyndunargoðsögn tuttugustu aldarinnar.“

Hönnun kallar á hönnuð

8, 9. Gefið dæmi sem sýnir að allt sem er hannað hljóti að eiga sér hönnuð.

8 Líkurnar á því að ólífrænt efni gæti orðið lifandi af tilviljun, af einhverju handahófi, eru svo hverfandi að það má útiloka þær. Nei, allar hinar frábærlega hönnuðu lífverur á jörðinni gætu ekki hafa orðið til fyrir slysni af því að allt sem er hannað verður að eiga sér hönnuð. Veist þú um einhverjar undantekningar? Þær eru engar. Því margbrotnari sem smíðin er, þeim mun hæfari verður smiðurinn að vera.

9 Við getum einnig lýst þessu þannig: Þegar við sjáum málverk tökum við það sem merki þess að listmálari sé til. Þegar við lesum bók viðurkennum við að rithöfundur sé til. Þegar við sjáum hús föllumst við á að húsasmiður sé til. Þegar við sjáum umferðarljós vitum við að umferðaryfirvöld eru til. Þeir sem bjuggu allt þetta til gerðu það í ákveðnum tilgangi. Þó að það sé eitthvað sem við skiljum ekki hjá því fólki sem bjó til þessa hluti drögum við tilvist þess ekki í efa.

10. Hvaða vitnisburð má sjá um mikinn hönnuð?

10 Vitnisburð um tilvist mikils hönnuðar má á sama hátt sjá í hönnun, skipulagi og margbrotinni gerð lífveranna á jörðinni. Þær bera allar merki um æðri vitsmuni. Sama gildir um hönnun, skipulag og margbrotna gerð alheimsins með milljörðum vetrarbrauta sem hver um sig hefur milljarða stjarna. Allir þessir himinhnettir lúta stjórn nákvæmra lögmála eins og þeirra sem stjórna hreyfingu, varma, ljósi, hljóði, rafsegulmagni og þyngdarafli. Geta verið til lögmál eða lög án löggjafa? Eldflaugasérfræðingurinn Dr. Wernher von Braun sagði: „Náttúrulögmál alheimsins eru svo nákvæm að við eigum ekki í nokkrum erfiðleikum með að smíða tunglfar, og getum tímasett flugtímann upp á brot úr sekúndu. Einhver hlýtur að hafa sett þessi lögmál.“

11. Hvers vegna ættum við ekki að neita tilvist mikils hönnuðar einungis vegna þess að við getum ekki séð hann?

11 Að vísu getum við ekki séð hinn mikla hönnuð og löggjafa með bókstaflegum augum okkar. En við neitum ekki tilvist fyrirbæra eins og aðdráttarafls, segulmagns, rafmagns eða útvarpsbylgna aðeins vegna þess að við sjáum þau ekki. Við getum séð áhrif þeirra. Hvers vegna skyldum við þá hafna tilvist mikils hönnuðar og löggjafa aðeins vegna þess að við getum ekki séð hann þegar við getum séð afleiðingarnar af undraverðum handaverkum hans?

12, 13. Hvað segir vitnisburðurinn um tilvist skaparans?

12 Paul Davies, eðlisfræðiprófessor, ályktar að tilvist mannsins sé ekki aðeins duttlungar örlaganna. Hann segir: „Okkur er sannarlega ætlað að vera hér.“ Og um alheiminn segir hann: „Vísindastörf mín hafa styrkt meir og meir þá sannfæringu mína að hinn efnislegi alheimur sé settur saman af svo undraverðu hugviti að ég geti ekki sætt mig við að það sé bara staðreynd og ekkert meir. Mér virðist sem það hljóti að vera einhver djúptækari skýring.“

13 Verksummerkin segja okkur þar af leiðandi að alheimurinn, jörðin og lífverurnar á jörðinni hafi ekki getað orðið til aðeins af tilviljun. Þetta ber allt þögult vitni um óhemjugreindan og voldugan skapara.

Það sem Biblían segir

14. Hver er niðurstaða Biblíunnar um skaparann?

14 Biblían, elsta bók mannkynsins, kemst að sömu niðurstöðu. Í Hebreabréfinu, sem Páll postuli skrifaði, er okkur til dæmis sagt: „Sérhvert hús er gjört af einhverjum, en Guð er sá, sem allt hefur gjört.“ (Hebreabréfið 3:4) Síðasta bók Biblíunnar, en hana skrifaði Jóhannes postuli, segir líka: „Verður ert þú, [Jehóva] * vor og Guð, að fá dýrðina og heiðurinn og máttinn, því að þú hefur skapað alla hluti, og fyrir þinn vilja urðu þeir til og voru skapaðir.“ — Opinberunarbókin 4:11.

15. Hvernig getum við skynjað suma eiginleika Guðs?

15 Biblían sýnir að þótt ekki sé hægt að sjá Guð megi skynja hvers konar Guð hann er út frá því sem hann hefur skapað. Hún segir: „Hið ósýnilega eðli [skaparans], bæði hans eilífi kraftur og guðdómleiki, er sýnilegt frá sköpun heimsins, með því að það verður skilið af verkum hans.“ — Rómverjabréfið 1:20.

16. Hvers vegna ættum við að fagna því að menn skuli ekki geta séð Guð?

16 Biblían leiðir okkur þannig frá afleiðingu til orsakar. Afleiðingin — hin stórfenglega sköpun — er vitnisburður um greinda og volduga orsök: Guð. Við getum líka þakkað fyrir að hann skuli vera ósýnilegur af því að sem skapari alls alheimsins býr hann vafalaust yfir slíkum ógnarmætti að menn af holdi og blóði geta ekki vænst þess að sjá hann og lifa það af. Og það er nákvæmlega það sem Biblían segir: „Enginn maður fær séð [Guð] og lífi haldið.“ — 2. Mósebók 33:20.

17, 18. Hvers vegna ætti hugmyndin um skapara að skipta okkur miklu máli?

17 Hugmyndin um meistarahönnuð, hinn Almáttuga — Guð — ætti að skipta okkur miklu máli. Ef skapari bjó okkur til hlýtur hann vissulega að hafa haft ástæðu, tilgang, með því að skapa okkur. Ef við vorum sköpuð til að hafa tilgang með lífinu er ástæða til að vona að aðstæðurnar verði okkur hagstæðari í framtíðinni. Að öðrum kosti lifum við aðeins og deyjum án vonar. Þess vegna er mjög mikilvægt að við komumst að raun um hver sé tilgangur Guðs með okkur. Þá getum við valið hvort við viljum lifa í samræmi við hann eða ekki.

18 Biblían segir þar að auki að skaparinn sé kærleiksríkur Guð sem láti sér mjög annt um okkur. Pétur postuli sagði: „Hann ber umhyggju fyrir yður.“ (1. Pétursbréf 5:7; sjá einnig Jóhannes 3:16 og 1. Jóhannesarbréf 4:8, 16.) Við getum meðal annars séð hversu mikla umhyggju Guð ber fyrir okkur með því að hugleiða hversu undursamlega hann hefur skapað okkur, andlega og líkamlega.

„Undursamlega skapaður“

19. Hvaða sannleika vekur sálmaritarinn Davíð athygli okkar á?

19 Í Biblíunni viðurkenndi sálmaritarinn Davíð: „Ég er undursamlega skapaður.“ (Sálmur 139:14) Það er mikill sannleikur í því vegna þess að hinn mikli hönnuður hefur hannað mannsheilann og mannslíkamann á stórkostlegan hátt.

20. Hvernig lýsir alfræðibók mannsheilanum?

20 Heilinn er til dæmis miklu flóknari en nokkur tölva. Í The New Encyclopædia Britannica segir: „Boðskipti innan taugakerfisins eru flóknari en í stærstu símstöðvum. Mannsheilinn er miklu færari um að leysa viðfangsefni en öflugustu tölvur.“

21. Hvað ættum við að álykta þegar við sjáum hvað heilinn gerir?

21 Hundruð milljóna staðreynda og huglægra mynda eru geymd í heilanum en hann er þó ekki aðeins upplýsingageymsla. Með honum má læra að flauta, baka brauð, tala erlend tungumál, nota tölvu eða fljúga flugvél. Hægt er að ímynda sér hvernig sumarleyfi verður eða hvernig gómsætur ávöxtur bragðist. Hægt er að kryfja mál til mergjar og búa til hluti. Heilinn gerir okkur einnig kleift að gera áætlanir, vera þakklát, elska og setja hugsanir okkar í samhengi við fortíð, nútíð og framtíð. Þar eð við mennirnir getum ekki hannað hluti eins og hinn undraverða mannsheila býr sá sem hannaði hann greinilega yfir visku og hæfni sem er miklu meiri en nokkur maður hefur til að bera.

22. Hvað viðurkenna vísindamenn um mannsheilann?

22 Vísindamaður viðurkennir um heilann: „Hvernig þetta gangverk, sem er svo glæsilega uppbyggt, skipulegt og stórfurðulega flókið, fer að því að gegna þeim störfum sem því er ætlað er gersamlega óljóst. . . . Menn eiga ef til vill aldrei eftir að leysa allar þær aðgreindu, einstöku ráðgátur heilans.“ (Scientific American) Og eðlisfræðiprófessorinn Raymo segir: „Satt best að segja þá vitum við ekki enn þá mikið um hvernig heilinn geymir upplýsingar eða hvernig hann getur kallað fram minningar að vild. . . . Það eru allt upp í hundrað milljarða taugafruma í mannsheilanum. Hver fruma hefur samband við þúsundir annarra fruma gegnum greinótt taugamót. Tengingarmöguleikarnir eru gífurlega margbrotnir.“

23, 24. Nefnið nokkra undursamlega hannaða líkamshluta. Hvað sagði verkfræðingur?

23 Augun í okkur eru nákvæmari og geta lagað sig betur að aðstæðum en nokkur myndavél. Í rauninni eru þau alsjálfvirk, sjálfstillandi litkvikmyndavél. Eyru okkar geta numið margvísleg hljóð og veita okkur stefnu- og jafnvægisskyn. Hjartað er dæla með eiginleika sem bestu verkfræðingar hafa ekki getað líkt eftir. Aðrir líkamshlutar okkar eru einnig stórfenglegir: nefið, tungan og hendurnar, blóðrásarkerfið og meltingarfærin, svo fáeinir séu nefndir.

24 Þar af leiðandi dró verkfræðingur, sem var ráðinn til að hanna og smíða stóra tölvu, þessa ályktun: „Ef tölvan mín krefst hönnuðar, hversu miklu fremur á það ekki við þessa flóknu eðlisefnalíffræðilegu vél sem líkami minn er — sem aftur á móti er aðeins örsmár hluti af svo til óendanlegum alheimi?“

25, 26. Hvað ætti meistarahönnuðurinn að geta sagt okkur?

25 Alveg eins og fólk hefur tilgang í huga þegar það býr til flugvélar, tölvur, reiðhjól og önnur tæki hlýtur hönnuður heila og líkama mannsins að hafa haft tilgang með því að búa okkur til. Og þessi hönnuður hlýtur að búa yfir mun meiri visku en maðurinn af því að enginn okkar getur leikið það eftir sem hann gerði. Það er því rökrétt að hann sé sá sem geti sagt okkur hvers vegna hann skapaði okkur, hvers vegna hann setti okkur á jörðina og hvert leið okkar liggur.

26 Þegar við fræðumst um þetta getum við notað undursamlegan heila okkar og líkama, sem Guð gaf okkur, til að vinna að því að tilgangur okkar í lífinu nái fram að ganga. En hvar getum við fræðst um tilgang Guðs? Hvar gefur hann okkur þær upplýsingar?

[Neðanmáls]

^ gr. 14 Nafn Guðs er stafsett „Jahve“ í sumum þýðingum Biblíunnar en „Jehóva“ í öðrum. Hér eftir verður það í þessum bæklingi sett innan hornklofa inn í texta íslensku biblíunnar þar sem það á að standa samkvæmt frummálunum.

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 7]

Besta leiðin til að finna út hvers vegna eitthvað var hannað er að spyrja hönnuðinn.

[Mynd á blaðsíðu 8]

Af DNA sameindinni má sjá margbrotna gerð og hönnun lífvera.

[Mynd á blaðsíðu 9]

„Mannsheilinn er miklu færari um að leysa viðfangsefni en öflugustu tölvur.“