Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvers vegna allar þessar þjáningar og óréttlæti?

Hvers vegna allar þessar þjáningar og óréttlæti?

6. hluti

Hvers vegna allar þessar þjáningar og óréttlæti?

1, 2. Hvaða spurninga mætti spyrja í ljósi reynslu manna?

1 En ef það var tilgangur hins alvalda Guðs að fullkomið fólk lifði að eilífu á jörðinni við paradísaraðstæður og það er enn þá tilgangur hans, hvers vegna er þá engin paradís hér núna? Hvers vegna hefur mannkynið í staðinn mátt búa við þjáningar og óréttlæti svo öldum skiptir?

2 Það fer ekki á milli mála að mannskynssagan er full af eymd af völdum styrjalda, landvinninga heimsvaldasinna, arðráns, óréttlætis, fátæktar, hamfara, sjúkdóma og dauða. Hvers vegna hafa svona margir saklausir mátt þola svona margt illt? Ef Guð er alvaldur hvers vegna hefur hann þá leyft þessar óhemjumiklu þjáningar í þúsundir ára? Úr því að Guð hannaði og skipulagði alheiminn svo vel, hví skyldi hann leyfa ringulreið og eyðingu á jörðinni?

Dæmi

3-5 (a) Hvaða samlíking gæti hjálpað okkur að skilja hvers vegna Guð, sem hefur reglu á öllu, skyldi leyfa ringulreið á jörðinni? (b) Hvaða möguleiki af þremur á við ástandið hér á jörðinni?

3 Við skulum nota dæmi til að sýna hvers vegna Guð, sem hefur allt í röð og reglu, leyfði ringulreið á jörðinni. Ímyndaðu þér að þú værir á gangi í skógi og kæmir að húsi. Þegar þú skoðar húsið kemst þú að því að það er illa farið. Gluggarnir eru brotnir, þakið verulega sigið, timburveröndin öll götótt, hurðin hangir á einni löm og pípulögnin virkar ekki.

4 Myndir þú álykta, í ljósi þessara galla, að útilokað sé að nokkur skynsemigæddur hönnuður hefði hannað þetta hús? Myndi ringulreiðin sannfæra þig um að tilviljunin ein hefði getað byggt húsið? Eða ef þú kæmist að þeirri niðurstöðu að einhver hefði nú hannað og byggt það, myndi þér þá finnast að sá aðili hafi hvorki verið leikinn né hugsunarsamur?

5 Þegar þú rannsakar húsið betur sérð þú að það var í upphafi vel byggt og ber vitni um mikla umhugsun og vandvirkni. En núna er það einfaldlega í niðurníðslu og að eyðileggjast. Hvað gætu gallarnir og skemmdirnar gefið til kynna? Þær gætu bent til að (1) eigandinn sé dáinn, (2) hann sé hæfur smiður en hirði ekki lengur um húsið, eða (3) að hann hafi um tíma leigt eign sína fólki sem ekki kann að meta hana. Hið síðastnefnda svipar til ástandsins hér á jörðinni.

Það sem fór úrskeiðis

6, 7. Hvað kom fyrir Adam og Evu þegar þau brutu lög Guðs?

6 Frásagan fremst í Biblíunni kennir okkur að það hafi ekki verið tilgangur Guðs að fólk skyldi þjást og deyja. Fyrstu foreldrar okkar, Adam og Eva, dóu einungis vegna þess að þau óhlýðnuðust Guði. (1. Mósebók, 2. og 3. kafli) Þegar þau óhlýðnuðust voru þau ekki lengur að gera vilja Guðs. Þau drógu sig undan umhyggjusamri verndarhendi Guðs. Í raun slitu þau tengsl sín við Guð, en hjá honum „er uppspretta lífsins.“ — Sálmur 36:10.

7 Líkt og vél, sem hægir á sér og stöðvast þegar hún er tekin úr sambandi við aflgjafann, tók líkama þeirra og huga að hnigna. Afleiðingin varð sú að Adam og Evu fór hrakandi með tímanum og að lokum dóu þau. Hvað gerðist þá? Þau fóru aftur til þess staðar sem þau komu frá: „Mold ert þú og til moldar skalt þú aftur hverfa.“ Guð hafði varað þau við að afleiðingin af óhlýðni við lög hans yrði dauði: „Skalt þú vissulega deyja.“ — 1. Mósebók 2:17; 3:19.

8. Hvernig hafði synd fyrstu foreldra okkar áhrif á mannkynið?

8 Það var ekki aðeins að fyrstu foreldrar okkar dæju heldur urðu allir niðjar þeirra, allt mannkynið, undirorpnir dauðanum. Hvers vegna? Vegna þess að samkvæmt erfðalögmálinu ganga eiginleikar foreldranna í arf til barnanna. Og það sem öll börn fyrstu foreldra okkar erfðu var ófullkomleiki og dauði. Rómverjabréfið 5:12 segir okkur: „Syndin kom inn í heiminn fyrir einn mann [Adam, forföður mannkyns] og dauðinn fyrir syndina, og þannig er dauðinn runninn til allra manna, af því að allir hafa syndgað [með því að þeir erfðu ófullkomleika, það er að segja syndugar tilhneigingar].“ Og þar sem synd, ófullkomleiki og dauði er það eina sem fólk þekkir álíta sumir að þetta sé eðlilegt og óumflýjanlegt. Fyrstu mennirnir voru þó skapaðir með getu og löngun til að lifa að eilífu. Það er þess vegna sem flestum finnst svo gremjulegt að vita til þess að dauðinn bindi enda á líf þeirra.

Hvers vegna svona lengi?

9. Hvers vegna hefur Guð leyft þjáningum að halda svona lengi áfram?

9 Hvers vegna hefur Guð leyft mönnum að fara sínar eigin götur svona lengi? Hvers vegna hefur hann leyft þjáningum að vera til allar þessar mörgu aldir? Ein mikilvæg ástæða er sú að mjög þýðingarmikið deilumál kom upp: Hver hefur réttinn til að stjórna? Ætti Guð að stjórna mönnunum eða geta þeir stjórnað sjálfum sér svo vel fari án hans?

10. Hvaða hæfileiki var mönnum gefinn og hvaða ábyrgð fylgdi honum?

10 Mennirnir voru skapaðir með frjálsan vilja, það er að segja hæfni til að velja. Þeir voru ekki gerðir eins og vélmenni eða eins og dýr sem stjórnast af eðlishvöt. Menn geta þess vegna valið hverjum þeir vilja þjóna. (5. Mósebók 30:19; 2. Korintubréf 3:17) Þar af leiðandi ráðleggur orð Guðs: „Þér eruð frjálsir menn, hafið ekki frelsið fyrir hjúp yfir vonskuna, breytið heldur sem þjónar Guðs.“ (1. Pétursbréf 2:16) Mennirnir hafa fengið þá dásamlegu gjöf að hafa frjálsan vilja en verða hins vegar jafnframt að taka afleiðingum gerða sinna.

11. Hver var eina leiðin til að komast að raun um hvort hegðun, sem væri óháð Guði, leiddi til farsældar?

11 Fyrstu foreldrar okkar völdu rangt. Þeir völdu sjálfstæði frá Guði. Að vísu hefði Guð getað tekið þessi fyrstu uppreisnargjörnu hjón af lífi strax eftir að þau höfðu misnotað frjálsan vilja sinn. En það hefði ekki svarað spurningunni um rétt Guðs til að stjórna mönnunum. Þar sem fyrstu hjónin vildu sjálfstæði frá Guði verður að svara spurningunni: Gæti sú lífsstefna leitt af sér hamingjuríkt og farsælt líf? Eina leiðin til að komast að því var að láta fyrstu foreldra okkar og niðja þeirra fara sína eigin leið fyrst þau völdu að gera það. Tíminn myndi leiða í ljós hvort mennirnir væru skapaðir til að stjórna sér farsællega óháðir skapara sínum.

12. Hvernig mat Jeremía stjórn manna og hvers vegna er það þannig?

12 Biblíuritarinn Jeremía vissi hver afleiðingin yrði. Undir leiðsögn hins öfluga heilaga anda Guðs eða starfskraftar skrifaði hann þessi sannleiksorð: „Ég veit, [Jehóva], að örlög mannsins eru ekki á hans valdi, né það heldur á valdi gangandi manns að stýra skrefum sínum. Refsa [„Leiðréttu,“ New World Translation] oss, [Jehóva].“ (Jeremía 10:23, 24) Hann vissi að mennirnir yrðu að njóta leiðsagnar himneskrar visku Guðs. Hvers vegna? Einfaldlega vegna þess að Guð skapaði ekki mennina til að lifa farsællega án leiðsagnar hans.

13. Hvað hafa afleiðingar stjórnar manna um þúsundir ára tvímælalaust sýnt?

13 Afleiðingar mörg þúsund ára stjórnar manna sýna án minnsta vafa að það er ekki mönnum gefið að stjórna málum sínum án skapara síns. Þeir hafa reynt það og geta aðeins kennt sjálfum sér um hörmulegar afleiðingar þess. Biblían sýnir það greinilega: „Bjargið [Guð] — fullkomin eru verk hans, því að allir vegir hans eru réttlæti. Trúfastur Guð og tállaus, réttlátur og réttvís er hann. Þeir hafa sjálfir hegðað sér skaðvænlega; þeir eru ekki börn hans, gallinn er þeirra eigin.“ — 5. Mósebók 32:4, 5, vers 5 samkvæmt New World Translation.

Guð skerst brátt í leikinn

14. Hvers vegna mun Guð ekki draga lengur að grípa inn í málefni manna?

14 Guð hefur leyft vanhæfni mannsins til að stjórna að koma nægilega í ljós í aldaraðir og getur þess vegna farið að grípa inn í málefni mannanna og stöðva þjáningar, sorg, sjúkdóma og dauða. Guð hefur leyft mönnum að ná hátindi afreka sinna á vettvangi vísinda, iðnaðar, lækninga og annarra sviða, og þess vegna er ekki lengur nokkur þörf fyrir hann að gefa mönnum fleiri aldir til að leiða í ljós hvort þeir geti, óháðir skapara sínum, komið á friðsælum heimi sem er eins og paradís. Þeir hafa ekki gert það og geta það ekki. Sjálfstæði frá Guði hefur haft í för með sér mjög ljótan, hatursfullan og banvænan heim.

15. Hvaða ráðleggingum Biblíunnar ættum við að fara eftir?

15 Þótt til hafi verið einlægir stjórnendur sem hafa viljað hjálpa mannkyninu hefur viðleitni þeirra ekki borið árangur. Nú á tímum sjást þess alls staðar merki að stjórn manna hafi farið úrskeiðis. Þess vegna ráðleggur Biblían: „Treystið eigi tignarmennum, mönnum sem enga hjálp geta veitt.“ — Sálmur 146:3.

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 24, 25]

Jafnvel einlægir stjórnendur hafa ekki getað komið á friðsamlegum heimi sem líkist paradís.