Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Kristni heimurinn hefur svikið Guð og Biblíuna

Kristni heimurinn hefur svikið Guð og Biblíuna

4. hluti

Kristni heimurinn hefur svikið Guð og Biblíuna

1, 2. Hvers vegna skortir suma menn virðingu fyrir Biblíunni, en hvað segir Biblían?

1 Víða um heim hefur fólk sniðgengið Biblíuna og skort virðingu fyrir henni vegna slæmrar hegðunar þeirra sem segjast fylgja henni. Í vissum löndum hefur verið sagt að Biblían sé bók sem komi af stað styrjöldum, að hún sé bók hvíta mannsins og að hún sé bók sem styðji nýlendustefnu. En slíkar skoðanir eru rangar.

2 Biblían, sem skrifuð er í Austurlöndum nær, styður ekki nýlendustyrjaldirnar og hið ágjarna arðrán sem svo lengi hefur farið fram í nafni kristninnar. Ef þú lest Biblíuna og lærir það sem Jesús kenndi að væri sönn kristni sérð þú þvert á móti að Biblían fordæmir kröftuglega styrjaldarrekstur, siðleysi og arðrán. Gallinn liggur hjá ágjörnu fólki, ekki Biblíunni. (1. Korintubréf 13:1-6; Jakobsbréfið 4:1-3; 5:1-6; 1. Jóhannesarbréf 4:7, 8) Láttu þess vegna ekki illt hátterni eigingjarnra manna, sem hegða sér þvert gegn góðum ráðum Biblíunnar, koma í veg fyrir að þú hafir gagn af fjársjóðum hennar.

3. Hvað sýna sögulegar staðreyndir um kristna heiminn?

3 Meðal þeirra sem lifa ekki eftir Biblíunni eru íbúar og þjóðir kristna heimsins. „Kristni heimurinn“ er skilgreindur sem sá hluti heimsins þar sem kristni á að heita ríkjandi trú. Hann er að stærstum hluta hinn vestræni heimur með kirkjustofnunum sínum sem hafa verið áberandi frá því um það bil á fjórðu öld. Kristni heimurinn hefur haft Biblíuna um aldaraðir og klerkar hans staðhæfa að þeir kenni hana og séu fulltrúar Guðs. En kenna klerkar og trúboðar kristna heimsins sannleikann? Gefa athafnir þeirra rétta mynd af Guði og Biblíunni? Er kristni í raun og veru ríkjandi í kristna heiminum? Nei. Allt frá því er trúarbrögð kristna heimsins komust til áhrifa á fjórðu öldinni hefur kristni heimurinn reynst vera óvinur Guðs og Biblíunnar. Já, staðreyndir sögunnar sýna að kristni heimurinn hefur svikið Guð og Biblíuna.

Óbiblíulegar kenningar

4, 5. Hvaða óbiblíulegar kennisetningar kenna kirkjunnar?

4 Grundvallarkenningar kristna heimsins eru ekki byggðar á Biblíunni heldur á fornum goðsögnum — Grikkja, Egypta, Babýloníumanna og annarra. Kennisetningar svo sem um áskapaðan ódauðleika mannssálarinnar, eilífar kvalir í vítiseldi, hreinsunareld og um þrenninguna (þrjár persónur í einum guði) er ekki að finna í Biblíunni.

5 Skoðum til dæmis kenninguna um að vondir menn verði kvaldir að eilífu í vítislogum. Hvað finnst þér um slíka hugmynd? Mörgum býður við henni. Þeim finnst það stríða gegn heilbrigðri skynsemi að Guð píni menn með óbærilegum kvölum að eilífu. Slík djöfulleg hugmynd stangast á við Guð Biblíunnar af því að „Guð er kærleikur.“ (1. Jóhannesarbréf 4:8) Biblían segir greinilega að slík kenning ‚hafi ekki í hug komið‘ alvöldum Guði. — Jeremía 7:31; 19:5; 32:35.

6. Hvernig hrekur Biblían kenninguna um ódauðlega sál?

6 Nú á tímum kenna mörg trúarbrögð, þeirra á meðal kirkjur kristna heimsins, að maðurinn hafi ódauðlega sál sem fari við dauðann til himna eða helvítis. Þetta er ekki kenning Biblíunnar. Þess í stað segir Biblían skorinort: „Þeir sem lifa, vita að þeir eiga að deyja, en hinir dauðu vita ekki neitt . . . því að í dánarheimum [gröfinni], þangað sem þú fer, er hvorki starfsemi né hyggindi né þekking né viska.“ (Prédikarinn 9:5, 10) Og sálmaritarinn segir að þegar menn deyja „[verði þeir] aftur að jörðu, á þeim degi verða áform þeirra að engu.“ — Sálmur 146:4.

7. Hver var refsing Adams og Evu fyrir að brjóta lög Guðs?

7 Mundu líka eftir því að þegar Adam og Eva brutu lög Guðs var refsingin ekki ódauðleiki. Það hefði verið umbun, ekki refsing! Í stað þess var þeim sagt að þau myndu ‚hverfa aftur til jarðarinnar, því að af henni væru þau tekin.‘ Guð undirstrikaði við Adam: „Því að mold ert þú og til moldar skalt þú aftur hverfa!“ (1. Mósebók 3:19) Kenninguna um áskapaðan ódauðleika sálarinnar er þar af leiðandi ekki að finna í Biblíunni heldur tók kristni heimurinn hana að láni hjá heiðnum þjóðum frá því fyrir daga kristninnar.

8. Hvernig hrekur Biblían þrenningarkenningu kristna heimsins?

8 Þrenningarkenning kristna heimsins dregur líka upp þá mynd af Guði að hann sé einhver dularfullur Guð þar sem þrír séu í einum. En þá kenningu er ekki heldur að finna í Biblíunni. Til dæmis segir Guð greinilega í Jesaja 40:25: „Við hvern viljið þér samlíkja mér, að ég sé honum jafn?“ Svarið er augljóst: Enginn getur verið honum jafn. Sálmur 83:19 segir líka blátt áfram: „Þú einn heitir [Jehóva], Hinn hæsti yfir allri jörðunni.“ — Sjá einnig Jesaja 45:5; 46:9; Jóhannes 5:19; 6:38; 7:16.

9. Hvað má segja um kenningar Biblíunnar og kenningar kirkna kristna heimsins?

9 Kenningar Biblíunnar um Guð og tilgang hans eru skýrar, auðskildar og skynsamlegar. Kenningar kirkna kristna heimsins eru það hins vegar ekki. Og það sem verra er, þær ganga í berhögg við Biblíuna.

Óguðlegar athafnir

10, 11. Á hvaða hátt er það sem kenningar Biblíunnar krefjast andstætt því sem kirkjur kristna heimsins hafa verið að gera?

10 Auk þess að kenna falskar kennisetningar hefur kristni heimurinn svikið Guð og Biblíuna með athöfnum sínum. Það sem klerkarnir og kirkjurnar hafa gert á liðnum öldum, og hafa haldið áfram að gera á okkar tímum, er andstætt því sem Guð Biblíunnar krefst og andstætt því sem stofnandi kristninnar, Jesús Kristur, kenndi og gerði.

11 Til dæmis kenndi Jesús fylgjendum sínum að skipta sér ekki af stjórnmálum þessa heims eða blanda sér í styrjaldir hans. Hann kenndi þeim líka að elska frið, að vera löghlýðnir og bera kærleika til annarra manna, án nokkurra fordóma, vera jafnvel fúsir til að fórna lífi sínu frekar en að svipta aðra lífi. — Jóhannes 15:13; Postulasagan 10:34, 35; 1. Jóhannesarbréf 4:20, 21.

12. Hvað sagði Jesús að myndi auðkenna sannkristna menn?

12 Jesús kenndi sannarlega að kærleikur til annarra manna yrði það merki sem myndi greina sannkristna menn frá þeim sem þættust ranglega vera kristnir. Hann sagði þeim sem áttu eftir að fylgja honum: „Nýtt boðorð gef ég yður, að þér elskið hver annan. Eins og ég hef elskað yður, skuluð þér einnig elska hver annan. Á því munu allir þekkja, að þér eruð mínir lærisveinar, ef þér berið elsku hver til annars.“ — Jóhannes 13:34, 35; 15:12.

13, 14. Hvað sýnir að kirkjur kristna heimsins eru ekki fulltrúar Guðs?

13 Þó hafa klerkar kristna heimsins öld eftir öld skipt sér af stjórnmálum og stutt stríð þjóða sinna. Þeir hafa jafnvel stutt andstæðinga í stríði innan kristna heimsins, svo sem í hinum tveim heimsstyrjöldum þessarar aldar. Í þeim átökum báðu klerkar beggja vegna víglínunnar um sigur sinna manna meðan áhangendur þeirra eigin trúar frá einu landi voru að drepa áhangendur sömu trúar frá öðru landi. En Biblían segir að það séu börn Satans sem hegði sér þannig, ekki börn Guðs. (1. Jóhannesarbréf 3:10-12, 15) Þó að klerkarnir og fylgjendur þeirra hafi sagst vera kristnir hafa þeir þannig verið í mótsögn við kenningar Jesú Krists sem sagði fylgendum sínum að ‚slíðra sverðið.‘ — Matteus 26:51, 52.

14 Um aldaraðir unnu kirkjurnar með stjórnmálaveldum kristna heimsins þegar þau lögðu aðrar þjóðir undir sig, þrælkuðu þær og niðurlægðu á tímum nýlendustefnunnar. Þannig var það í Afríku um aldaraðir. Kína fékk einnig að reyna það þegar Vesturlandaþjóðir beittu valdi til að skapa sér yfirráðasvæði, eins og í ópíumstríðunum og boxarauppreisninni.

15. Hvaða illskuverk hefur kristni heimurinn framið?

15 Klerkar kristna heimsins hafa líka verið fremstir í flokki við að ofsækja, pynda og jafnvel drepa þá sem voru þeim ósammála á þeim öldum mannkynssögunnar sem kallaðar eru hinar myrku miðaldir. Á dögum rannsóknarréttarins, sem starfræktur var svo öldum skipti, var djöfullegum pyndingum og morðum haldið uppi gegn heiðvirðu, saklausu fólki. Þeir sem glæpina drýgðu voru klerkastéttin og fylgjendur hennar sem allir sögðust vera kristnir. Þeir reyndu jafnvel að útrýma Biblíunni svo að almúginn gæti ekki lesið hana.

Ekki kristnar

16, 17. Hvers vegna getum við sagt að kirkjurnar séu ekki kristnar?

16 Nei, þjóðir og kirkjur kristna heimsins voru ekki, og eru ekki, kristnar. Þær eru ekki þjónar Guðs. Innblásið orð hans segir um þær: „Þeir segjast þekkja Guð, en afneita honum með verkum sínum. Þeir eru viðbjóðslegir og óhlýðnir, óhæfir til hvers góðs verks.“ — Títusarbréfið 1:16.

17 Jesús sagði að þekkja mætti fölsk trúarbrögð af því sem þau gæfu af sér, af ávöxtum þeirra. Hann sagði: „Varist falsspámenn. Þeir koma til yðar í sauðaklæðum, en innra eru þeir gráðugir vargar. Af ávöxtum þeirra skuluð þér þekkja þá. . . . Þannig ber sérhvert gott tré góða ávöxtu, en slæmt tré vonda. Gott tré getur ekki borið vonda ávöxtu, ekki heldur slæmt tré góða ávöxtu. Hvert það tré, sem ber ekki góðan ávöxt, verður upp höggvið og í eld kastað. Af ávöxtum þeirra skuluð þér því þekkja þá [falsspámenn].“ — Matteus 7:15-20.

18. Hvaða afleiðingar hafa kenningar og athafnir kristna heimsins haft?

18 Trúarbrögð kristna heimsins hafa þannig með kenningum sínum og athöfnum sýnt að sú fullyrðing þeirra að þau trúi á Biblíuna, óttist Guð og séu kristin, er lygi. Þau hafa svikið Guð og Biblíuna. Slík hegðun hefur fyllt milljónir manna viðbjóði og látið fólk snúa baki við trú á æðri mátt, Guð.

19. Hefur Guð og Biblían brugðist af því að kristni heimurinn hefur brugðist?

19 En þótt klerkar og kirkjur kristna heimsins hafi brugðist og þótt önnur trúarbrögð utan kristna heimsins hafi einnig brugðist þýðir það ekki að Biblían hafi brugðist. Það þýðir ekki heldur að Guð hafi brugðist. Þess í stað segir Biblían okkur frá æðri mætti, hinum Almáttuga, sem er vissulega til og lætur sér annt um okkur og framtíð okkar. Hún sýnir hvernig hann mun umbuna heiðarlegu fólki sem vill gera hið rétta, sem vill sjá réttvísi og frið ríkja út um alla jörðina. Hún sýnir líka hvers vegna Guð hefur leyft illsku og þjáningum að vera til og hvernig hann mun losa jörðina við þá sem vinna náunga sínum tjón, svo og þá sem segjast þjóna honum en gera það ekki.

[Spurningar]

[Myndir á blaðsíðu 17]

„Vítislogar“ Dantes

[Credit line]

Ein af myndskreytingum Dorés við Hinn guðdómlega gleðileik Dantes

[Myndir á blaðsíðu 17]

Þrenning kristna heimsins

[Myndir á blaðsíðu 17]

Hindúaþrenning

[Credit line]

Með leyfi Breska þjóðminjasafnsins

[Myndir á blaðsíðu 17]

Egypsk þrenning

[Credit line]

Museo Egizio, Tórínó

[Myndir á blaðsíðu 18]

Andstætt kenningum Jesú hafa klerkar beggja vegna víglínunnar stutt styrjaldir.

[Credit line]

Mynd frá Bandaríkjaher