Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Lífið hefur stórfenglegan tilgang

Lífið hefur stórfenglegan tilgang

5. hluti

Lífið hefur stórfenglegan tilgang

1, 2. Hvernig getum við sagt að Guð beri umhyggju fyrir okkur og hvar ættum við að leita svara við spurningum lífsins?

1 Hvernig jörðin og lífverurnar á henni voru úr garði gerðar sýnir að skapari þeirra er kærleiksríkur Guð og sannarlega umhyggjusamur. Og orð hans, Biblían, sýnir að hann ber umhyggju fyrir sköpun sinni. Þar fáum við langbestu svörin við spurningunum: Hvers vegna erum við hér á jörðinni? Hvert er för okkar heitið?

2 Við þurfum að leita í Biblíunni til að finna þessi svör. Orð Guðs segir: „Ef þér leitið hans, mun hann gefa yður kost á að finna sig, en ef þér yfirgefið hann, mun hann yfirgefa yður.“ (2. Kroníkubók 15:2) Hvað leiðir þá leit í orði Guðs í ljós um tilgang hans með okkur?

Hvers vegna Guð skapaði mennina

3. Hvers vegna skapaði Guð jörðina?

3 Biblían sýnir að Guð gerði jörðina fyrst og fremst með mennina í huga. Jesaja 45:18 segir um jörðina að Guð hafi „eigi skapað hana til þess, að hún væri auðn, heldur myndað hana svo, að hún væri byggileg.“ Og hann útbjó jörðina með öllu sem menn þyrftu á að halda, ekki aðeins til að draga fram lífið heldur til að njóta þess til fulls. — 1. Mósebók, 1. og 2. kafli.

4. Hvers vegna skapaði Guð fyrstu mennina?

4 Í orði sínu segir Guð að hann hafi skapað fyrstu mennina, Adam og Evu, og hann opinberar hvað hann hafði í huga með mannkynið. Hann sagði: „Vér viljum gjöra manninn eftir vorri mynd, líkan oss, og hann skal drottna yfir fiskum sjávarins og yfir fuglum loftsins og yfir fénaðinum og yfir villidýrunum og yfir öllum skriðkvikindum, sem skríða á jörðinni.“ (1. Mósebók 1:26) Mennirnir áttu að hafa umsjón með allri jörðinni og dýrunum á henni.

5. Hvar var fyrstu mönnunum komið fyrir?

5 Guð bjó til stóran lystigarð á svæði sem nefnt var Eden og var í Austurlöndum nær. „Þá tók [hann] manninn og setti hann í aldingarðinn Eden til að yrkja hann og gæta hans.“ Það var paradís með öllu sem fyrstu mennirnir þurftu sér til viðurværis. Þar voru meðal annars „alls konar tré, sem voru girnileg á að líta og góð að eta af,“ svo og annar jarðargróði og margar áhugaverðar dýrategundir. — 1. Mósebók 2:7-9, 15.

6. Hvaða líkamlegir og huglægir eiginleikar voru mönnum áskapaðir?

6 Líkamar fyrstu mannveranna voru skapaðir fullkomnir til að þeir veiktust ekki, hrörnuðu eða dæju. Þeim voru einnig gefnir aðrir eiginleikar, eins og sá að hafa frjálst val. Fyrsta Mósebók 1:27 útskýrir hvernig þau voru gerð: „Guð skapaði manninn eftir sinni mynd, hann skapaði hann eftir Guðs mynd, hann skapaði þau karl og konu.“ Þar sem við erum sköpuð í Guðs mynd eru okkur ekki aðeins gefnir líkamlegir og huglægir eiginleikar heldur einnig siðferðislegar og andlegar hneigðir og þeim verður að sinna ef við eigum að vera fullkomlega hamingjusöm. Guð myndi sjá fyrir því sem þyrfti til að uppfylla þær þarfir jafnframt þörf manna fyrir fæðu, vatn og loft. Það er eins og Jesús sagði: „Eigi lifir maðurinn á einu saman brauði, heldur á hverju því orði, sem fram gengur af Guðs munni.“ — Matteus 4:4.

7. Hvaða fyrirmæli fengu fyrstu hjónin?

7 Þar að auki gaf Guð fyrstu mannhjónunum dásamleg fyrirmæli á meðan þau enn voru í Eden: „Verið frjósöm, margfaldist og uppfyllið jörðina.“ (1. Mósebók 1:28) Þau yrðu því fær um að auka kyn sitt og geta af sér fullkomin börn. Og þegar mannfólkinu fjölgaði biði þess það yndislega verkefni að færa út mörk hins upprunalega parasdísargarðs, Edens. Loks yrði öll jörðin gerð að paradís þar sem byggi fullkomið og hamingjusamt fólk sem lifði að eilífu. Biblían fræðir okkur um að eftir að Guð hafi komið öllu þessu af stað hafi hann litið „allt, sem hann hafði gjört, og sjá, það var harla gott.“ — 1. Mósebók 1:31; sjá einnig Sálm 118:17.

8. Hvernig áttu mennirnir að annast um jörðina?

8 Mennirnir áttu augljóslega að nota hina undirgefnu jörð sér til gagns. En það átti að gera á ábyrgan hátt. Mennirnir áttu að vera ráðsmenn jarðarinnar sem bæru virðingu fyrir henni en misþyrmdu henni ekki. Sú eyðing jarðarinnar, sem við verðum vitni að nú á tímum, er á móti vilja Guðs og þeir sem taka þátt í henni ganga þvert á tilganginn með lífinu á jörðinni. Þeir verða að taka út refsingu fyrir það af því að Biblían segir að Guð muni „eyða þeim, sem jörðina eyða. — Opinberunarbókin 11:18.

Enn þá tilgangur Guðs

9. Hvers vegna treystum við því að tilgangur Guðs nái fram að ganga?

9 Frá upphafi var það þannig tilgangur Guðs að fullkomið mannkyn skyldi dvelja að eilífu á jörðinni í paradís. Og það er enn þá tilgangur hans! Það fer ekki hjá því að sá tilgangur nái fram að ganga. Biblían segir: „[Jehóva] allsherjar hefir svarið og sagt: Sannlega, það, sem ég hefi fyrirhugað, skal verða og það, sem ég hefi ályktað, skal framgang fá.“ „Það sem ég tala, það læt ég einnig fram koma, það sem ég áset mér, það gjöri ég einnig.“ — Jesaja 14:24; 46:11.

10, 11. Hvernig töluðu Jesús, Pétur og sálmaritarinn Davíð um paradís?

10 Jesús Kristur talaði um þann tilgang Guðs að endurreisa paradís á jörð þegar hann sagði við mann sem langaði til að eiga framtíðarvon: „Þú munt vera með mér í paradís.“ (Lúkas 23:43, New World Translation) Pétur postuli talaði líka um hinn komandi nýja heim þegar hann spáði: „Eftir fyrirheiti [Guðs] væntum vér nýs himins [nýrrar stjórnar sem ríkir frá himni] og nýrrar jarðar [nýs jarðnesks samfélags], þar sem réttlæti býr.“ — 2. Pétursbréf 3:13.

11 Sálmaritarinn Davíð skrifaði líka um hinn væntanlega nýja heim og hve varanlegur hann yrði. Hann spáði: „Hinir réttlátu fá landið til eignar og búa í því um aldur.“ (Sálmur 37:29) Það var þess vegna sem Jesús lofaði: „Sælir eru hógværir, því að þeir munu jörðina erfa.“ — Matteus 5:5.

12, 13. Lýstu í stuttu máli hver sé hinn stórfenglegi tilgangur Guðs með mannkynið.

12 Það eru sannarlega stórkostlegar framtíðarhorfur að lifa að eilífu á jörðu sem verður paradís, laus við alla illsku, glæpi, sjúkdóma, sorg og kvöl. Í síðustu bók Biblíunnar dregur spádómsorð Guðs þennan stórfenglega tilgang saman með því að segja: „[Guð] mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.“ Það bætir síðan við: „Og sá, sem í hásætinu sat, sagði: ‚Sjá, ég gjöri alla hluti nýja,‘ og hann segir: ‚Rita þú, því að þetta eru orðin trúu og sönnu.‘“ — Opinberunarbókin 21:4, 5.

13 Já, Guð hefur stórfenglegan tilgang í huga. Nýr réttlætisheimur verður að veruleika, eilíf paradís er sá spáði fyrir um sem getur og vill efna það sem hann lofar, af því að ‚orð hans eru trú og sönn.‘

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 20, 21]

Tilgangur Guðs var að menn skyldu lifa að eilífu í paradís á jörð. Það er enn þá tilgangur hans.

[Mynd á blaðsíðu 22]

Eigandinn getur látið leiguliða, sem eyðileggja húsið hans, standa fyrir máli sínu.