Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Tilgangur guðs nær brátt fram að ganga

Tilgangur guðs nær brátt fram að ganga

7. hluti

Tilgangur guðs nær brátt fram að ganga

1, 2. Hvers vegna getum við verið viss um að Guð grípi til aðgerða til að binda enda á illsku og þjáningar?

1 Þó að Guð hafi leyft ófullkomleika og þjáningar lengi út frá mannlegu sjónarhorni leyfir hann ekki slæmu ástandi að halda áfram endalaust. Biblían segir okkur að Guð hafi afmarkað tímaskeið sem hann leyfir þessum atburðum að gerast á.

2 „Öllu er afmörkuð stund.“ (Prédikarinn 3:1) Þegar sá tími, sem Guð hefur úthlutað illsku og þjáningum, rennur út grípur hann inn í málefni mannanna. Hann bindur enda á illsku og þjáningar og framkvæmir þá upprunalegu fyrirætlun sína að fylla jörðina af fullkomnu, hamingjusömu fólki sem nýtur algers friðar og efnahagslegs öryggis við kringumstæður sem eru paradís.

Dómar Guðs

3, 4. Hvernig lýsa Orðskviðirnir árangrinum af íhlutun Guðs?

3 Taktu eftir nokkrum af mörgum spádómum Biblíunnar sem segja hvað íhlutun Guðs, það er að segja afleiðingarnar af dómum hans, muni bráðlega þýða fyrir mennina:

4 „Hinir hreinskilnu munu byggja landið, og hinir grandvöru verða eftir í því. En hinir óguðlegu munu upprættir verða úr landinu, og hinum svikulu verða útrýmt þaðan.“ — Orðskviðirnir 2:21, 22.

5, 6. Hvernig sýnir Sálmur 37 hvað gerist þegar Guð grípur inn í?

5 „Illvirkjarnir verða afmáðir, en þeir er vona á [Jehóva], fá landið til eignar. Innan stundar eru engir guðlausir til framar . . . En hinir hógværu fá landið til eignar, gleðjast yfir ríkulegri gæfu.“ — Sálmur 37:9-11.

6 „Vona á [Jehóva] og gef gætur að vegi hans, þá mun hann hefja þig upp, að þú erfir landið, og þú skalt horfa á, þegar illvirkjum verður útrýmt. Gef gætur að hinum ráðvanda og lít á hinn hreinskilna, því að friðsamir menn eiga framtíð fyrir höndum, en afbrotamönnum verður útrýmt öllum samt, framtíðarvon óguðlegra bregst.“ — Sálmur 37:34, 37, 38.

7. Hvaða góða ráð gefur orð Guðs okkur?

7 Í ljósi þeirrar stórfenglegu framtíðar, sem bíður þeirra sem viðurkenna rétt hins alvalda skapara til að stjórna okkur, fáum við því þessa hvatningu: „Hjarta þitt varðveiti boðorð mín, því að langa lífdaga og farsæl ár og velgengni munu þau veita þér í ríkum mæli.“ Raunin er sú að eilíft líf mun veitast þeim sem velja að gera vilja Guðs. Þess vegna ráðleggur orð Guðs okkur: „Treystu [Jehóva] af öllu hjarta, en reiddu þig ekki á eigið hyggjuvit. Mundu til hans á öllum þínum vegum, þá mun hann gjöra stigu þína slétta.“ — Orðskviðirnir 3:1, 2, 5, 6.

Stjórn Guðs frá himni

8, 9. Hvaða aðferð notar Guð til að hreinsa jörðina?

8 Guð kemur þessari hreinsun jarðarinnar til leiðar með bestu stjórn sem mannkynið getur nokkru sinni fengið. Það er stjórn sem endurspeglar himneska visku vegna þess að hún stjórnar frá himni undir leiðsögn Guðs. Og þessi himneska stjórn mun fjarlægja allar tegundir mannastjórna af jörðinni. Mönnum gefst aldrei aftur kostur á að reyna að stjórna óháðir Guði.

9 Um þetta segir spádómur í Daníel 2:44: „Á dögum þessara konunga [stjórnanna nú á tímum] mun Guð himnanna hefja ríki [á himni], sem aldrei skal á grunn ganga, og það ríki skal engri annarri þjóð í hendur fengið verða [mönnum verður aldrei framar leyft að stjórna óháðir Guði]. Það mun knosa og að engu gjöra öll þessi ríki [sem eru núna til], en sjálft mun það standa að eilífu.“ — Sjá einnig Opinberunarbókina 19:11-21; 20:4-6.

10. Hvers vegna getum við verið viss um að spilling komi aldrei upp í stjórninni þegar himneskt ríki Guðs fer með völd?

10 Mannkynið mun þannig aldrei aftur hafa yfir sér spillta stjórn vegna þess að stjórn manna óháð Guði verður aldrei til framar eftir að hann hefur bundið enda á þetta kerfi. Og ríkið, sem stjórnar frá himni, spillist ekki af því að Guð kom því á fót og varðveitir það. Þess í stað mun það sinna bestu hagsmunum jarðneskra þegna sinna. Vilji Guðs verður þá gerður um gervalla jörðina eins og hann er á himni. Þess vegna gat Jesús kennt lærisveinum sínum að biðja til Guðs: „Komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.“ — Matteus 6:10.

Hversu nærri erum við?

11. Hvar í Biblíunni finnum við spádóma sem hjálpa okkur að komast að því hversu nálægur endir þessa kerfis er?

11 Hversu nærri erum við enda þessa ófullnægjandi heimskerfis og upphafi hins nýja heims Guðs? Spádómar Biblíunnar veita okkur skýrt svar við því. Til dæmis sagði Jesús sjálfur eftir hverju við ættum að svipast til að geta metið stöðu okkar í tengslum við ‚endalok veraldar,‘ eins og Biblían kallar það. Það er skráð í Matteusi 24. og 25. kafla, Markúsi 13 og Lúkasi 21. Páll postuli spáði einnig, eins og skráð er í 2. Tímóteusarbréfi 3. kafla, að það kæmi tímabil, kallað ‚síðustu dagar,‘ þegar ýmsir atburðir myndu staðfesta enn frekar hvar við værum í tímans straumi.

12, 13. Hvað sögðu Jesús og Páll um tíma endalokanna?

12 Jesús sagði að þetta tímabil hæfist með þessum atburðum: „Þjóð mun rísa gegn þjóð og ríki gegn ríki, þá verður hungur og landskjálftar á ýmsum stöðum.“ (Matteus 24:7) Lúkas 21:11 sýnir að hann nefndi líka „drepsóttir . . . á ýmsum stöðum.“ Hann varaði einnig við að „lögleysi [myndi] magnast.“ — Matteus 24:12.

13 Páll postuli spáði: „Vita skalt þú þetta, að á síðustu dögum munu koma örðugar tíðir. Mennirnir verða sérgóðir, fégjarnir, raupsamir, hrokafullir, lastmælendur, foreldrum óhlýðnir, vanþakklátir, vanheilagir, kærleikslausir, ósáttfúsir, rógberandi, taumlausir, grimmir, ekki elskandi það sem gott er, sviksamir, framhleypnir, ofmetnaðarfullir, elskandi munaðarlífið meira en Guð. Þeir hafa á sér yfirskin guðhræðslunnar, en afneita krafti hennar. . . . En vondir menn og svikarar munu magnast í vonskunni, villandi aðra og villuráfandi sjálfir.“ — 2. Tímóteusarbréf 3:1-5, 13.

14, 15. Hvernig staðfesta atburðir tuttugustu aldarinnar að við lifum á síðustu dögum?

14 Hefur það sem Jesús og Páll spáðu átt sér stað á okkar tímum? Já, svo sannarlega. Fyrri heimsstyrjöldin var langversta styrjöldin fram að þeim tíma. Hún var fyrsta heimsstyrjöldin og olli straumhvörfum í nútímasögunni. Stríðinu fylgdi síðan hungursneyð, farsóttir og aðrar hörmungar. Þessir atburðir upp úr 1914 voru, eins og Jesús sagði, „upphaf fæðingarhríðanna.“ (Matteus 24:8) Með þeim hófst hið spáða tímabil sem kallað var „síðustu dagar,“ upphaf síðustu kynslóðarinnar sem sæi Guð leyfa illsku og þjáningar.

15 Líklega þekkir þú atburði tuttugustu aldarinnar. Þú veist um þann glundroða sem orðið hefur. Um 100 milljónir manna hafa verið drepnar í styrjöldum. Hundruð milljóna annarra hafa látist af hungri og sjúkdómum. Jarðskjálftar hafa kostað óteljandi mannslíf. Skeytingarleysi fyrir lífi og eignum fer vaxandi. Ótti við glæpi er orðinn daglegt brauð. Siðferðisstöðlum hefur verið ýtt til hliðar. Gríðarleg fólksfjölgun veldur vandamálum sem ekki er verið að leysa. Mengun er að spilla fyrir lífinu og stofnar því jafnvel í hættu. Sannarlega hafa hinir síðustu dagar staðið yfir síðan 1914 og við nálgumst núna hámark biblíuspádómanna um okkar tíma.

16. Hversu langt tímabil ná hinir síðustu dagar yfir?

16 Hversu langt tímabil áttu þessir síðustu dagar að vera? Jesús sagði um þann tíma sem fengi að reyna „upphaf fæðingarhríðanna“ upp frá 1914: „Þessi kynslóð mun ekki líða undir lok, uns allt þetta er komið fram.“ (Matteus 24:8, 34-36) Þar af leiðandi verður allt það sem á að gerast á hinum síðustu dögum að eiga sér stað á ævi einnar kynslóðar, kynslóðarinnar frá 1914. Sumir þeirra sem voru á lífi árið 1914 verða því enn á lífi þegar þetta kerfi líður undir lok. Sú kynslóð er núna komin mjög til ára sinna sem gefur til kynna að þess sé ekki langt að bíða að Guð bindi enda á þetta núverandi heimskerfi.

17, 18. Hvaða spádómur sýnir að við erum mjög nálægt enda þessa heims?

17 Annar spádómur, sem sýnir að endir þessa kerfis er mjög nálægur, var borinn fram af Páli postula sem sagði: „Dagur [Jehóva] kemur sem þjófur á nóttu. Þegar menn segja: ‚Friður og engin hætta‘, þá kemur snögglega tortíming yfir þá . . . . Og þeir munu alls ekki undan komast.“ — 1. Þessaloníkubréf 5:2, 3; sjá einnig Lúkas 21:34, 35.

18 Nú er kalda stríðinu lokið og alþjóðlegt stríð er ef til vill ekki lengur alvarleg ógnun. Þjóðunum kann því að finnast að þær séu komnar vel á veg inn í nýja heimsskipan. En þegar þeim finnst að viðleitni þeirra sé að bera árangur þýðir það allt annað en þær halda af því að það er lokamerkið um að Guð sé í þann munda að eyða þessu kerfi. Minnstu þess að samningaviðræður stjórnmálamanna og sáttmálar valda ekki neinum raunverulegum breytingum á fólki. Þeir fá ekki fólk til að elska hvert annað. Og veraldarleiðtogarnir eru hvorki að stöðva glæpi né útrýma sjúkdómum og dauðanum. Þú skalt þess vegna ekki setja traust þinn á viðleitni manna til að koma á friði og öryggi og halda að heimurinn sé á leið með að leysa vandamál sín. (Sálmur 146:3) Slík yfirlýsing þýðir í raun að þessi heimur sé mjög nálægt endalokum sínum.

Fagnaðarerindi prédikað

19, 20. Hvaða spádóm um prédikun á síðustu dögum sjáum við rætast?

19 Jesús bar fram annan spádóm sem sýnir að hinir síðustu dagar hafa staðið yfir síðan 1914: „En fyrst á að prédika öllum þjóðum fagnaðarerindið.“ (Markús 13:10) Matteus 24:14 orðar það þannig: „Þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn koma.“

20 Nú á tímum er fagnaðarboðskapurinn um enda þessa heims og komandi nýjan paradísarheim undir stjórn Guðsríkis prédikaður um alla jörðina meira en nokkurn tíma áður í mannkynssögunni. Hverjir gera það? Milljónir votta Jehóva. Þeir prédika í hverju einasta landi á jörðinni.

21, 22. Hvað auðkennir votta Jehóva fyrst og fremst sem sannkristna menn?

21 Auk þess að prédika um Guðsríki hegða vottar Jehóva sér á þann hátt er einkennir þá sem sanna fylgjendur Krists. Jesús sagði nefnilega: „Á því munu allir þekkja, að þér eruð mínir lærisveinar, ef þér berið elsku hver til annars.“ Þannig eru vottar Jehóva sameinaðir í alheimsbræðrafélag með óslítanlegum kærleiksböndum. — Jóhannes 13:35; sjá einnig Jesaja 2:2-4; Kólossubréfið 3:14; Jóhannes 15:12-14; 1. Jóhannesarbréf 3:10-12; 4:20, 21; Opinberunarbókina 7:9, 10.

22 Vottar Jehóva trúa því sem Biblían segir: „Guð fer ekki í manngreinarálit. Hann tekur opnum örmum hverjum þeim, sem óttast hann og ástundar réttlæti, hverrar þjóðar sem er.“ (Postulasagan 10:34, 35) Þeir líta á aðra votta í öllum löndum sem andlega bræður og systur óháð kynþætti eða litarhætti. (Matteus 23:8) Sú staðreynd, að slíkt alheimsbræðrafélag sé til í heiminum nú á dögum, er enn ein sönnun þess að tilgangur Guðs nái brátt fram að ganga.

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 26]

Fullkomið himneskt ríki Guðs verður eina stjórn mannkynsins í nýja heiminum.