Átrúnaður og siðvenjur vanþóknanlegar Guði
11. kafli
Átrúnaður og siðvenjur vanþóknanlegar Guði
Hvers konar átrúnaður og siðvenjur eru rangar? (1)
Ættu kristnir menn að trúa að Guð sé þrenning? (2)
Hvers vegna halda sannkristnir menn ekki jól, páska eða afmælisdaga? (3, 4)
Geta dánir gert lifandi fólki mein? (5)
Dó Jesús á krossi? (6)
Hve mikilvægt er að hlýða Guði? (7)
1. Ekki er allur átrúnaður og siðvenjur slæmar. En þær njóta ekki velþóknunar Guðs ef þær eru runnar frá falstrú eða ganga í berhögg við kenningar Biblíunnar. — Matteus 15:6.
2. Þrenningin: Er Jehóva þrenning — þrjár persónur í einum Guði? Nei! Jehóva, faðirinn, er ‚hinn eini sanni Guð.‘ (Jóhannes 17:3; Markús 12:29) Jesús er frumburður hans og hann er undir Guð settur. (1. Korintubréf 11:3) Faðirinn er meiri en sonurinn. (Jóhannes 14:28) Heilagur andi er ekki persóna; hann er starfskraftur Guðs. — 1. Mósebók 1:2; Postulasagan 2:18.
3. Jól og páskar: Jesús fæddist ekki hinn 25. desember. Hann fæddist í kringum 1. október, á þeim árstíma þegar hirðar tóku hjarðir sínar ekki í hús á nóttunni. (Lúkas 2:8-12) Jesús fyrirskipaði aldrei kristnum mönnum að halda fæðingu sína hátíðlega. Öllu heldur sagði hann lærisveinum sínum að minnast dauða síns. (Lúkas 22:19, 20) Jólin og siðir þeirra koma frá fornum falstrúarbrögðum. Sama gildir um siðvenjur páskanna, eins og notkun páskaeggsins og kanínunnar. Frumkristnir menn héldu hvorki jól né páska og það gera ekki sannkristnir menn nú á dögum heldur.
4. Afmælisdagar: Í Biblíunni er aðeins talað um tvo afmælisdaga og upp á þá héldu menn sem tilbáðu ekki Jehóva. (1. Mósebók 40:20-22; Markús 6:21, 22, 24-27) Frumkristnir menn héldu ekki upp á fæðingardaga. Sú siðvenja er komin frá fornum falstrúarbrögðum. Sannkristnir menn gefa gjafir og eiga góðar stundir saman á öðrum tímum ársins.
5. Ótti við dána: Dánir geta ekkert gert eða skynjað. Við getum ekki hjálpað þeim og þeir geta ekki gert okkur mein. (Sálmur 146:4; Prédikarinn 9:5, 10) Sálin deyr; hún lifir ekki áfram eftir dauðann. (Esekíel 18:4) En stundum þykjast illir andar, nefndir djöflar, vera andar hinna látnu. Hver sú siðvenja, sem tengist ótta við dána eða tilbeiðslu á þeim, er röng. — Jesaja 8:19.
6. Krossinn: Jesús dó ekki á krossi. Hann dó á staur eða stólpa. Gríska orðið, sem þýtt er „kross“ í mörgum biblíum, merkir aðeins eitt tréstykki. Krosstáknið er komið frá fornum falstrúarbrögðum. Frumkristnir menn hvorki notuðu né tilbáðu krossinn. Væri þá rétt af okkur að nota kross við tilbeiðslu? — 5. Mósebók 7:26; 1. Korintubréf 10:14.
7. Það kann að vera mjög erfitt að hverfa frá sumum af þessum átrúnaði og siðvenjum. Ættingjar og vinir reyna ef til vill að fá þig til að breyta ekki trúarskoðunum þínum. En það er þýðingarmeira að þóknast Guði en að þóknast mönnum. — Orðskviðirnir 29:25; Matteus 10:36, 37.
[Mynd á blaðsíðu 22]
Guð er ekki þrenning.
[Mynd á blaðsíðu 23]
Jól og páskar koma frá fornum falstrúarbrögðum.
[Mynd á blaðsíðu 23]
Það er engin ástæða til að tilbiðja hina dánu eða óttast þá.