Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hegðun sem Guð hatar

Hegðun sem Guð hatar

10. kafli

Hegðun sem Guð hatar

Hvað ætti þér að finnast um það sem Guð segir að sé slæmt? (1)

Hvers konar kynhegðun er röng? (2)

Hvernig ætti kristinn maður að líta á lygi? (3) fjárhættuspil? (3) þjófnað? (3) ofbeldi? (4) spíritisma? (5) ofdrykkju? (6)

Hvernig er hægt að leggja af slæma hegðun? (7)

1. Þjónar Guðs elska það sem gott er. En þeir verða líka að læra að hata það sem er illt. (Sálmur 97:10) Það þýðir að þeir þurfa að forðast vissa hegðun sem Guð hatar. Hvers konar hegðun gæti það verið?

2. Saurlifnaður: Kynmök fyrir hjónaband, hórdómur, kynmök við dýr, sifjaspell og kynvilla eru alvarlegar syndir gegn Guði. (3. Mósebók 18:6; Rómverjabréfið 1:26, 27; 1. Korintubréf 6:9, 10) Ef karl og kona búa saman ógift ættu þau annaðhvort að slíta samvistum eða ganga í löglegt hjónaband. — Hebreabréfið 13:4.

3. Lygi, fjárhættuspil, þjófnaður: Jehóva Guð lýgur ekki. (Títusarbréfið 1:2) Þeir sem vilja velþóknun hans verða að forðast lygi. (Orðskviðirnir 6:16-19; Kólossubréfið 3:9, 10) Einhverja græðgi er að finna í öllum tegundum fjárhættuspila. Kristnir menn taka þess vegna ekki þátt í neins konar fjárhættuspilum, eins og happdrættum, veðreiðum eða bingói. (Efesusbréfið 5:3-5) Kristnir menn stela ekki. Þeir kaupa ekki vísvitandi stolnar vörur eða taka hluti án leyfis. — 2. Mósebók 20:15; Efesusbréfið 4:28.

4. Reiðiköst, ofbeldi: Stjórnlaus reiði getur leitt til ofbeldis. (1. Mósebók 4:5-8) Ofbeldismaður getur ekki verið vinur Guðs. (Sálmur 11:5; Orðskviðirnir 22:24, 25) Það er rangt að hefna sín eða endurgjalda með illu það slæma sem aðrir kunna að hafa gert okkur. — Orðskviðirnir 24:29; Rómverjabréfið 12:17-21.

5. Álög og spíritismi: Sumir leita á náðir andanna til að reyna að lækna sjúkdóma. Aðrir reyna með særingum að leggja álög á óvini sína til að gera þá sjúka eða jafnvel deyða þá. Aflið að baki allri slíkri hegðun er Satan. Þess vegna mega kristnir menn ekki koma nálægt slíku. (5. Mósebók 18:9-13) Besta vörnin við særingum frá öðrum er að halda sér sem næst Jehóva. — Orðskviðirnir 18:10.

6. Ofdrykkja: Það er ekki rangt að drekka lítið eitt af víni, bjór eða öðrum áfengum drykkjum. (Sálmur 104:15; 1. Tímóteusarbréf 5:23) En mikil drykkja og drykkjuskapur er rangt í augum Guðs. (1. Korintubréf 5:11-13; 1. Tímóteusarbréf 3:8) Of mikil drykkja getur eyðilagt heilsu þína og raskað högum fjölskyldunnar. Hún getur líka valdið því að þú látir mjög snarlega undan öðrum freistingum. — Orðskviðirnir 23:20, 21, 29-35.

7. Fólk, sem iðkar það sem Guð segir að sé illt, mun „ekki erfa Guðs ríki.“ (Galatabréfið 5:19-21) Ef þú elskar Guð í raun og veru og vilt þóknast honum getur þú losað þig við hegðun sem þessa. (1. Jóhannesarbréf 5:3) Lærðu að hata það sem Guð segir að sé illt. (Rómverjabréfið 12:9) Vertu með fólki sem hefur tamið sér góða hegðun. (Orðskviðirnir 13:20) Þroskaðir kristnir félagar kunna að reynast þér hjálparhellur. (Jakobsbréfið 5:14) Umfram allt skaltu þó biðja til Guðs og reiða þig á hjálp hans. — Filippíbréfið 4:6, 7, 13.

[Mynd á blaðsíðu 20]

Guð hatar ofdrykkju, ofbeldi, þjófnað og fjárhættuspil.