Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig nálgast má Guð í bæn

Hvernig nálgast má Guð í bæn

7. kafli

Hvernig nálgast má Guð í bæn

Hvers vegna er mikilvægt að biðja reglulega? (1)

Hvert ættum við að beina bænum okkar, og hvernig? (2, 3)

Hvaða bænarefni er við hæfi? (4)

Hvenær ættir þú að biðja? (5, 6)

Hlustar Guð á allar bænir? (7)

1. Bæn er það að tala við Guð í auðmýkt. Þú ættir að biðja oft til Guðs. Með því getur þú fundið til nálægðar við hann eins og við náinn vin. Jehóva er mikill og máttugur en samt hlustar hann á bænir okkar. Biður þú til Guðs að staðaldri? — Sálmur 65:3; 1. Þessaloníkubréf 5:17.

2. Bænin er þáttur í tilbeiðslu okkar. Við ættum því að biðja aðeins til Guðs, Jehóva. Þegar Jesús var á jörðinni bað hann alltaf til föður síns, ekki til nokkurs annars. Við ættum að fara eins að. (Matteus 4:10; 6:9) Þó ættum við alltaf að biðja í nafni Jesú. Það sýnir að við virðum stöðu Jesú og að við trúum á lausnarfórn hans. — Jóhannes 14:6; 1. Jóhannesarbréf 2:1, 2.

3. Þegar við biðjum til Guðs ættu orð okkar að koma frá hjartanu. Við ættum hvorki að fara með bænir eftir minni né lesa þær upp úr bænakveri. (Matteus 6:7, 8) Við getum beðið hvenær sem er og hvar sem er og í sérhverri stellingu sem sýnir virðingu. Guð getur jafnvel heyrt bænir sem við komum ekki orðum að. (1. Samúelsbók 1:12, 13) Gott er að finna sér kyrrlátan stað til að segja einkabænir sínar einn síns liðs. — Markús 1:35.

4. Um hvað gætir þú beðið? Um allt sem gæti haft áhrif á vináttu þína við Guð. (Filippíbréfið 4:6, 7) Fyrirmyndarbænin, Faðirvorið, sýnir að nafn Jehóva og tilgangur hans er mikilvægt bænarefni. Við getum líka beðið um að fá það sem við þurfum til viðurværis, um fyrirgefningu synda okkar og um hjálp til að standast freistingar. (Matteus 6:9-13) Bænir okkar ættu ekki að vera eigingjarnar. Við ættum aðeins að biðja um það sem samræmist vilja Guðs. — 1. Jóhannesarbréf 5:14.

5. Þú getur beðið hvenær sem hjartað knýr þig til að þakka Guði eða lofa hann. (1. Kroníkubók 29:10-13) Þú ættir að biðja þegar þú átt við vandamál að stríða og þegar trú þín verður fyrir prófraunum. (Sálmur 55:23; 120:1) Það er viðeigandi að biðja áður en tekið er til matar síns. (Matteus 14:19) Jehóva býður okkur að biðja ‚við hvert tækifæri.‘ — Efesusbréfið 6:18.

6. Við þurfum sérstaklega á bæninni að halda ef við höfum drýgt alvarlega synd. Á slíkum stundum ættum við að sárbæna Jehóva um miskunn og fyrirgefningu. Ef við játum syndir okkar fyrir honum og gerum okkar allra besta til að endurtaka þær ekki er Guð „fús til að fyrirgefa.“ — Sálmur 86:5; Orðskviðirnir 28:13.

7. Jehóva heyrir aðeins bænir réttlátra manna. Til þess að Guð heyri bænir þínar verður þú að reyna af fremsta megni að lifa samkvæmt lögum hans. (Orðskviðirnir 15:29; 28:9) Þú verður að sýna auðmýkt í bæninni. (Lúkas 18:9-14) Þú þarft að vinna að því sem þú biður um. Þannig sannarðu að þú hafir trú og meinir í raun og veru það sem þú segir. Aðeins þá svarar Jehóva bænum þínum. — Hebreabréfið 11:6.