Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Fjölbreytni trúarbragðanna reynir á kennarann

Fjölbreytni trúarbragðanna reynir á kennarann

Sem kennari stendur þú frammi fyrir vanda sem kennarar fyrr á öldum þurftu sjaldan að glíma við — trúarbrögð nemenda þinna geta verið margvísleg.

Á MIÐÖLDUM ástunduðu borgarar sama lands yfirleitt sömu trúna. Allt til loka 19. aldar voru einungis fáein megintrúarbrögð þekkt í Evrópu: kaþólsk trú og mótmælendatrú í vestri, rétttrúnaðarkirkjan og íslam í austri, og svo gyðingatrú. Nú á dögum er tvímælalaust miklu algengara að trúarbrögðin séu fleiri og margvíslegri, jafnt í Evrópu sem annars staðar í heiminum. Framandi trúarbrögð hafa náð fótfestu, annaðhvort með því að innfæddir hafa tekið þau upp eða þau borist til landsins með innflytjendum og flóttafólki.

Í löndum eins og Ástralíu, Bretlandi, Frakklandi, Þýskalandi og Bandaríkjunum má því nú á tímum finna fjölda múslíma, búddhatrúarmanna og hindúa. Jafnframt eru vottar Jehóva sem kristnir menn virkir við að ástunda og boða trú sína í meira en 230 löndum og þeir eru orðnir næststærsta trúfélagið á Ítalíu og Spáni. Í 14 löndum eru meira en 100.000 virkir vottar Jehóva. — Sjá  rammann á blaðsíðu 15 með tölum frá árinu 1996.

Margvíslegar trúarathafnir og -siðir í einu og sama byggðarlaginu geta komið kennaranum í nokkurn vanda. Til dæmis gætu komið upp spurningar í tengslum við hátíðisdaga: Getur skólinn farið fram á að allir nemendurnir haldi hátíðirnar, óháð trú sinni? Meirihlutanum getur fundist ekkert athugavert við slík hátíðahöld. En ætti ekki líka að virða viðhorf fjölskyldna sem tilheyra minnihlutahópum? Það er líka annað sem taka skyldi tillit til: Myndi ekki sumum finnast það skjóta skökku við í löndum, þar sem lög mæla fyrir að ríki og trúarbrögð séu aðskilin og að trúfræðsla sé ekki skyldunámsgrein, að skylda skólanemendur til þátttöku í slíkum hátíðahöldum?

Afmælisdagar

Ýmislegt fleira getur valdið misskilningi, til dæmis afmælishald sem virðist lítið eða ekkert tengt trúarbrögðum. Þó að vottar Jehóva virði rétt annarra til að halda upp á fæðingardaga veistu sjálfsagt að þeir kjósa að taka ekki þátt í slíku afmælishaldi. En kannski er þér ókunnugt um hvers vegna þeir og börn þeirra hafa ákveðið að taka ekki þátt í slíku afmælishaldi.

Útbreidd uppsláttarbók í Frakklandi, Le livre des religions (Bókin um trúarbrögðin), kallar þessa siðvenju helgisið (ritúal) og flokkar hana með „veraldlegum helgiathöfnum.“ Þó að það sé nú á tímum álitinn skaðlaus siður að halda upp á afmælisdaga fólks á hann í raun rætur að rekja til heiðni.

Alfræðibókin The Encyclopedia Americana (útgefin 1991) segir: „Hinn forni heimur Egyptalands, Grikklands, Rómar og Persíu hélt upp á afmælisdaga guða, konunga og yfirstéttarmanna.“ Höfundarnir Ralph og Adelin Linton greina frá ástæðunni sem liggur hér að baki. Í bók sinni, The Lore of Birthdays, skrifa þau: „Mesópótamía og Egyptaland, vöggur siðmenningarinnar, voru líka fyrstu löndin þar sem menn minntust og héldu upp á afmælisdaga sína. Til forna var mikilvægt að halda skrá yfir fæðingardaga fyrst og fremst vegna þess að ekki var hægt að lesa ævi manns út frá gangi himintunglanna án þess að vita hvenær hann væri fæddur.“ Þessi beinu tengsl við stjörnuspeki skiptir þann mann miklu máli sem heldur sér frá stjörnuspeki vegna þess sem Biblían segir um hana. — Jesaja 47:13-15.

Það kemur okkur því ekki á óvart að lesa í The World Book Encyclopedia: „Frumkristnir menn héldu ekki upp á fæðingu hans [Krists] vegna þess að þeir álitu það heiðna siðvenju að halda upp á fæðingu manns.“ — 3. bindi, blaðsíða 416.

Vottarnir njóta þess að hittast og eiga ánægjulegar stundir saman.

Af ástæðum sem þessum hafa vottar Jehóva ákveðið að taka ekki þátt í hátíðum sem tengjast fæðingardögum. Vissulega er barnsfæðing ánægjulegur og dásamlegur atburður. Eðlilega er það öllum foreldrum gleðiefni að sjá börnin sín vaxa og þroskast með hverju ári sem líður. Vottar Jehóva hafa líka mikla ánægju af því að sýna kærleika sinn til fjölskyldu og vina með því að gefa gjafir og skemmta sér saman. En með hliðsjón af uppruna afmælishalds kjósa þeir að nota aðra daga ársins til slíkra samverustunda. — Lúkas 15:22-25; Postulasagan 20:⁠35.

Jólin

Jólin eru haldin hátíðleg um heim allan, jafnvel í löndum sem ekki eru kristin. Þar sem langflest trúfélög kristna heimsins halda þessa hátíð kann það að virðast furðulegt að vottar Jehóva skuli kjósi að halda hana ekki. Hvaða ástæðu hafa þeir til þess?

Eins og skýrt kemur fram í mörgum uppsláttarbókum ákváðu menn gjörræðislega að 25. desember skyldi teljast fæðingardagur Jesú til að hann bæri upp á sama dag og heiðin, rómversk hátíð. Það má sjá af eftirfarandi úrdráttum úr ýmsum uppsláttarritum:

„Fæðingardagur Krists er ekki þekktur. Guðspjöllinn gefa hvorki til kynna daginn né mánuðinn.“ — New Catholic Encyclopedia, II. bindi, blaðsíða 656.

„Saturnalia-hátíðin í Róm varð fyrirmyndin að flestum gleðisiðanna yfir jóladagana.“ — Encyclopædia of Religion and Ethics

„Flestir jólasiðanna, sem núna eru ríkjandi í Evrópu eða ritaðar heimildir greina frá, eru ekki ósviknir kristnir siðir heldur heiðnir siðir sem kirkjan hefur tekið upp eða umborið. . . . Saturnalia-hátíðin í Róm varð fyrirmyndin að flestum gleðisiðanna yfir jóladagana.“ — Encyclopædia of Religion and Ethics (Edinborg, 1910), í ritsjórn James Hastings, III. bindi, blaðsíða 608-9.

„Jólin hafa verið haldin hátíðleg 25. desember í öllum kristnum kirkjum frá því á fjórðu öld. Á þeim tíma var þetta dagsetning hinnar heiðnu vetrarsólhvarfahátíðar sem nefnd var ‚fæðing (natale á latínu) sólarinnar‘ vegna þess að sólin virtist endurfæðast þegar daginn tók aftur að lengja. Í Róm tók kirkjan upp þennan gríðarvinsæla sið . . . með því að gefa honum nýja merkingu.“ — Franska uppsláttarritið Encyclopædia Universalis, 1968, 19. bindi, blaðsíða 1375.

„Samanburðurinn við heiðnu hátíðahöldin í tengslum við Sol Invictus (Míþras) hafði áhrif á þróun jólahátíðarinnar. En menn settu líka 25. desember, dag vetrarsólhvarfanna, í samband við ljósið sem kom í heiminn með Kristi og færðu þannig táknmynd Sol Invictus yfir á Krist.“ — Brockhaus Enzyklopädie, 20. bindi, blaðsíða 125.

Hvernig hafa sumir brugðist við þegar þeir kynntust því sanna um jólin? Í The Encyclopædia Britannica er sagt: „Árið 1644 bönnuðu ensku púrítanarnir með lögum frá þinginu sérhvern gleðskap eða guðsþjónustur á þeirri forsendu að þau [jólin] væru heiðin hátíð, og fyrirskipuðu að þau skyldu haldin með föstu. Karl II endurvakti hátíðahöldin en Skotar héldu sér við skoðun púrítana.“ Frumkristnir menn héldu ekki jól, og nú á tímum halda vottar Jehóva hvorki jól né taka þátt í athöfnum sem tengjast jólunum.

Biblían fer hins vegar jákvæðum orðum um það að gefa gjafir eða bjóða fjölskyldu og vinum til ánægjulegrar máltíðar við önnur tækifæri. Hún hvetur foreldra til að venja börnin sín á einlæga gjafmildi í stað þess að gefa gjafir einungis þegar þess er vænst af þeim. (Matteus 6:2, 3) Börnum votta Jehóva er kennt að vera umburðarlynd og kurteis og það felur í sér að virða rétt annarra til að halda jól. Þeir kunna á sama hátt að meta það þegar aðrir virða þá ákvörðun þeirra að taka ekki þátt í jólahaldi.

Aðrar hátíðir

Afstaða votta Jehóva er sú sama til annarra hátíða sem eru að meira eða minna leyti trúarlegar og falla innan skólaársins í ýmsum löndum, eins og öskudagur á Íslandi, júníhátíðarhöldin í Brasilíu, þrettándinn (epifania) í Frakklandi, kjötkveðjuhátíð í Þýskalandi, setsubun í Japan og allraheilagramessukvöld í Bandaríkjunum. Vottum Jehóva eða börnum þeirra væri það sönn ánægja að svara þeim spurningum sem þú kannt að hafa í tengslum við þessar hátíðir eða önnur sérstök hátíðahöld sem ekki eru nefnd hér.