Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hlutverk foreldranna

Hlutverk foreldranna

Það er tvímælalaust ekki hlaupið að því í nútímasamfélagi að ala börn upp þannig að þau verði heilsteypt fólk.

GEÐHEILBRIGÐISSTOFNUN Bandaríkjanna birti niðurstöður könnunar meðal foreldra sem töldust hafa náð góðum árangri — foreldra sem áttu börn eldri en 21 árs er „voru iðjusamt fólk og virtust öll hafa aðlagast samfélagi okkar vel.“ Þessi spurning var lögð fyrir foreldrana: ‚Hvert er besta ráðið sem þið getið gefið öðrum foreldrum út frá eigin reynslu?‘ Algengustu svörin voru þessi: ‚Sýnið börnum ykkar ríkulegan kærleika,‘ ‚veitið þeim uppbyggjandi aga,‘ ‚notið tíma til samvista við þau,‘ ‚kennið þeim muninn á réttu og röngu,‘ ‚byggið upp gagnkvæma virðingu,‘ ‚hlustið með athygli á þau,‘ ‚komið með leiðbeiningar frekar en fyrirlestur‘ og ‚verið raunsæ.‘

Kennarar gegna mikilvægu hlutverki í að móta heilsteypt ungmenni.

Foreldrarnir eru þó ekki einir um að gera heilsteypta einstaklinga úr börnunum. Kennararnir gegna líka mikilvægu hlutverki. Reyndur skólaráðgjafi sagði: „Meginmarkmið skólamenntunar er að styðja foreldrana í því að skapa ábyrg ungmenni sem ná góðum þroska, vitsmunalega, líkamlega og tilfinningalega.“

Foreldrar og kennarar hafa því það sameiginlega markmið að móta ungmenni sem á fullorðinsaldri verða þroskaðir og heilsteyptir menn sem njóta lífsins og geta fundið sér sess í samfélaginu.

Samstarfsmenn, ekki keppinautar

Vandamál skjóta hins vegar upp kollinum þegar foreldrar vinna ekki með kennurum barnanna. Sumir foreldrar eru til dæmis alveg áhugalausir um menntun barna sinna; aðrir reyna að keppa við kennarana. Franskt blað tók þetta til umfjöllunar og sagði: „Kennarinn er ekki lengur eini skipstjórinn um borð. Sumir foreldrar, sem einblína á námsárangur barna sinna, kryfja skólabækurnar, gagnrýna og leggja dóm á kennsluaðferðir og bregðast hart við fyrstu lágu einkunnum afkvæmis síns.“ Slík hegðun getur gert kennurunum erfitt um vik.

Vottar Jehóva telja það þjóna betur hagsmunum barnanna að foreldrarnir vinni með kennurunum, sýni skólamenntun barna sinna áhuga og hjálpi þeim með ráðum og dáð.

Vottar Jehóva telja það þjóna betur hagsmunum barna sinna að foreldrarnir vinni með kennurunum, sýni skólamenntun barnanna áhuga og hjálpi þeim með ráðum og dáð. Slík samvinna er að þeirra mati sérstaklega mikilvæg vegna þess að starf kennarans verður sífellt erfiðara.

Skólavandamálin nú til dags

Skólarnir eru spegilmynd samfélagsins og eru þess vegna ekki ónæmir fyrir almennum vandamálum þess. Á undanförnum árum hafa félagsleg vandamál aukist hröðum skrefum. Dagblaðið The New York Times lýsti ástandinu í einum skóla í Bandaríkjunum á þessa leið: „Nemendurnir sofa í tímum, þeir ógna hver öðrum á skólagöngum sem þaktir eru veggjakroti, og hæðast að góðu nemendunum. . . . Næstum allir nemendurnir þurfa að kljást við vanda eins og þann að annast smábörn, eiga foreldra í fangelsi og forða sér undan óaldaflokkum. Dag hvern er næstum fimmtungur þeirra fjarverandi.“

Sérstaklega ógnvekjandi er ofbeldið sem er vaxandi vandamál í skólum um allan heim. Í stað einstakra slagsmála þar sem ýtt var og hrint eru nemendur farnir að nota byssur og hnífa. Vopn eru orðin algengari, árásirnar fólskulegri og börnin fljótari að grípa til ofbeldis, og það yngri að árum.

Vitaskuld er ástandið ekki svona uggvænlegt í öllum löndum eða skólum. Hins vegar standa margir kennarar um heim allan frammi fyrir því sem franska vikublaðið Le Point benti á: „Kennaranum er ekki lengur sýnd virðing; hann hefur ekkert vald.“

Foreldrar, sem ná góðum árangri, nota tíma til samvista við börnin sín.

Slíkt virðingarleysi gagnvart valdi setur öll börn í verulega hættu. Vottar Jehóva reyna þess vegna að kenna börnum sínum að hlýða og að sýna kennurum og skólastjórnendum virðingu, en á það skortir oft í skólastarfi nú á dögum.