Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Tilgangur þessa bæklings

Tilgangur þessa bæklings

HOLLENSKI heimspekingurinn Spinoza skrifaði: „Ég hef reynt að hlæja hvorki að mannlegum athöfnum né tárfella yfir þeim og því síður að hata þær, heldur leitast við að skilja þær.“ Sem kennari þarft þú að glíma við þann vanda að skilja viðhorf, bakgrunn og lífsskoðanir nemenda þinna, og eru börn votta Jehóva þar með talin. Afstaða slíkra nemenda til vissra mála kann stundum að virðast brjóta í bága við ríkjandi hefðir. En þegar sannfæring nemandans í trúmálum eða siðferðismálum liggur greinilega að baki athöfnum hans verðskuldar hún að þú gefir henni gaum. Biblíu- og smáritafélagið Varðturninn (útgáfufélag votta Jehóva) gefur út þennan bækling í þeim tilgangi að hjálpa þér að skilja betur nemendur sem eru vottar Jehóva. Við vonum að þú takir þér tíma til að lesa hann vandlega.

Þó að menn öðlist skilning á trúarskoðunum annarra er ekki þar með sagt að þeir þurfi að samþykkja þær eða fylgja þeim, og upplýsingamiðlun er ekki sama og trúboð. Þessi bæklingur leitast ekki við að þröngva trúarskoðunum vottanna upp á þig eða nemendur þína. Við viljum einfaldlega upplýsa þig um þær grundvallarreglur og trúarhugmyndir sem foreldrar sumra nemenda þinna kenna þeim svo að þér reynist auðveldara bæði að skilja börn vottanna og vinna með þeim. Það sem börnin læra heima hjá sér og það sem þau gera fer að sjálfsögðu ekki alltaf saman vegna þess að hvert barn er að læra að þroska sína eigin samvisku.

Eins og flestir foreldrar vilja vottar Jehóva að börnin sín nýti sér skólagönguna sem best. Með það í huga kenna þeir börnum sínum að vera samvinnuþýð við kennarana. Að sama skapi kunna vottar Jehóva og börn þeirra vel að meta það að kennararnir sýni þeim skilning og virðingu.

Vottar Jehóva eru kristnir menn sem þekktir eru um víða veröld. Menn miskilja þá hins vegar stundum. Von okkar er því sú að þessi bæklingur hjálpi þér að skilja betur þá nemendur þína sem eru börn votta Jehóva. Einkum vonumst við til að þú sjáir hvers vegna þessi börn áskilja sér rétt til að fá, við sérstakar aðstæður, að skera sig úr hópnum.