Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Vottar Jehóva reyna að glæða hjá börnum sínum sönn kristin gildi.

Virðingaverð siðferðisgildi

Virðingaverð siðferðisgildi

Svo lengi sem sögur herma hafa hugrakkir karlar og konur tekið afstöðu sem stangaðist á við tíðarandann. Þau hafa mátt sæta grimmilegri kúgun vegna stjórnmálaskoðana sinna, trúar eða kynþáttar og hafa oft lagt lífið í sölurnar fyrir málstaðinn.

FRUMKRISTNIR menn sýndu einstakt hugrekki. Undir hinum hörðu ofsóknum fyrstu þrjár aldirnar tóku heiðnir Rómverjar marga þeirra af lífi fyrir að neita að tilbiðja keisarann. Stundum var altari komið fyrir á leiksviði hringleikahússins. Hinir kristnu þurftu einungis að brenna örlitlu reykelsi til viðurkenningar á guðlegu eðli keisarans og þá endurheimtu þeir frelsi sitt. En aðeins fáeinir létu undan. Meirihlutinn kaus fremur að deyja en afneita trú sinni.

Nú á tímum taka kristnir vottar Jehóva svipaða afstöðu til hlutleysis í stjórnmálum. Til dæmis er einarðleg afstaða þeirra á tímum nasista söguleg staðreynd. Fyrir síðari heimsstyrjöldina og meðan á henni stóð týndi um það bil fjórðungur þýskra votta Jehóva lífi, að stærstum hluta í fangabúðum, vegna þess að þeir héldu fast við hlutleysi sitt og neituðu að segja „Heil Hitler.“ Börn votta Jehóva voru tekin með valdi frá foreldrum sínum. Þrátt fyrir þetta álag létu börnin ekki bugast og neituðu að láta spillast af óbiblíulegum kenningum sem reynt var að þröngva upp á þau.

Fánahylling

Nú á dögum sæta vottar Jehóva að jafnaði ekki svona hatrömmum ofsóknum. Engu að síður kemur stundum upp misskilningur þegar ungir vottar Jehóva ákveða af samviskuástæðum að taka ekki þátt í þjóðræknisathöfnum, eins og fánahyllingu.

„Gjaldið þá keisaranum það, sem keisarans er, og Guði það, sem Guðs er.“ — Matteus 22:21.

Börnum votta Jehóva er kennt að reyna ekki að aftra öðrum frá að hylla fánann; það er persónulegt mál hvers og eins. Vottarnir sjálfir taka hins vegar óbifanlega afstöðu: Þeir hylla ekki fána nokkurrar þjóðar. Þeir gera það svo sannarlega ekki í þeim tilgangi að sýna einhverja óvirðingu. Þeir virða þjóðfána landsins sem þeir búa í og þeir sýna þá virðingu með hlýðni sinni við landslög. Þeir taka aldrei þátt í neins konar aðgerðum fjandsamlegum stjórnvöldum. Reyndar trúa vottar Jehóva því að þau stjórnvöld, sem nú eru við lýði, séu „skipuð af Guði“ í þeim skilningi að hann hefur leyft tilvist þeirra. Þeir álíta því að Guð ætlist til að þeir greiði slíkum „yfirvöldum“ skatta og sýni þeim virðingu. (Rómverjabréfið 13:1-7) Það er í samræmi við hin frægu orð Krists: „Gjaldið þá keisaranum það, sem keisarans er, og Guði það, sem Guðs er.“ — Matteus 22:21.

‚En hvers vegna heiðra vottar Jehóva þá ekki fánann með því að heilsa honum?‘ spyrja ef til vill sumir. Ástæðan er sú að þeir álíta fánahyllingu jafngilda tilbeiðslu; Guð einan ber að tilbiðja og þess vegna leyfir samviskan þeim ekki að tilbiðja einhvern eða eitthvað annað en Guð. (Matteus 4:10; Postulasagan 5:29) Þeir eru því þakklátir þegar kennarar virða þessa sannfæringu og leyfa börnum votta Jehóva að hlýða trú sinni.

Vottar Jehóva eru ekki einir um að álíta fánahyllingu vera tengda tilbeiðslu, eins og eftirfarandi tilvitnanir sýna:

„Fyrstu fánarnir voru nær eingöngu af trúarlegum toga. . . . Fulltingis trúarbragðanna virðist ávallt hafa verið leitað til að helga þjóðfánana.“ (Leturbreyting okkar.) — Encyclopædia Britannica.

„Fáninn er helgur eins og krossinn. . . . Reglur og ákvæði viðvíkjandi viðhorfi manna til þjóðtákna nota sterk og lýsandi orð, eins og ‚Þjónusta við fánann,‘ . . . ‚Lotning fyrir fánanum,‘ ‚Hollusta við fánann.‘“ (Leturbreyting okkar.) — The Encyclopedia Americana.

„Kristnir menn neituðu að . . . færa verndaranda [rómverska] keisarans fórn — í megindráttum samsvarandi því að neita að hylla fánann eða fara með hollustueiðinn.“ — Those About to Die (1958), eftir Daniel P. Mannix, blaðsíða 135.

Þrír ungir Hebrear neituðu að falla fram fyrir líkneskinu sem Nebúkadnesar konungur í Babýlon lét reisa.

Aftur skal undirstrikað að þegar vottar Jehóva neita að hylla fánann er það ekki til að vanvirða nokkur stjórnvöld eða þá sem halda um stjórnartaumanna. Þeir vilja einfaldlega ekki taka þátt í þeirri tilbeiðsluathöfn að lúta eða hylla táknmynd ríkisins. Þeir álíta það sambærilegt við afstöðuna sem þrír ungir Hebrear tóku á biblíutímanum þegar þeir neituðu að falla fram fyrir líkneskinu sem Nebúkadnesar konungur í Babýlon hafði látið reisa í Dúradal. (Daníel, 3. kafli) Börnum votta Jehóva er þess vegna kennt, þó að aðrir hylli fánann og sverji hollustueið, að fylgja samvisku sinni sem biblíufræðslan hefur mótað. Þegar fánahylling fer fram eru þau stillt og kurteis en taka ekki þátt í henni. Af sömu ástæðu kjósa börn votta Jehóva að vera ekki þátttakendur þegar þjóðsöngurinn er sunginn eða leikinn.

Réttur foreldranna

Nú á tímum virða flest lönd rétt foreldranna til að veita börnunum trúaruppeldi í samræmi við sannfæringu sína. Öll trúfélög viðurkenna þennan rétt eins og eftirfarandi kirkjulög, sem enn eru í gildi í kaþólsku kirkjunni, eru dæmi um: „Foreldrarnir hafa gefið börnum sínum lífið og þeim ber þar af leiðandi alger skylda til að sjá þeim fyrir menntun og hafa líka rétt til að gera það; af þeirri ástæðu hvílir það fyrst og fremst á herðum foreldranna að veita börnum sínum kristna uppfræðslu samkvæmt kenningu kirkjunnar.“ — Kirkjulög 226.

Börn votta Jehóva eru hvött til að sýna öðrum umhyggju.

Vottar Jehóva eru ekki að fara fram á neitt annað. Sem umhyggjusamir foreldrar reyna þeir að glæða hjá börnum sínum sönn kristin gildi og innræta þeim náungakærleika og virðingu fyrir eigum annarra. Þá langar til að fylgja leiðbeiningunum sem Páll postuli gaf kristnum mönnum í Efesus: „Foreldrar, komið ekki þannig fram við börnin ykkar að það reiti þau til reiði. Alið þau heldur upp með kristnum aga og leiðsögn.“ — Efesusbréfið 6:4, Today’s English Version.

Ef hjónin eru ekki sömu trúar

Í sumum fjölskyldum er aðeins annað foreldranna vottur Jehóva. Hann er þá hvattur til að virða rétt maka síns til að uppfræða börnin líka í samræmi við sína trúarsannfæringu. Það er börnum sjaldan til nokkurs skaða að komast í snertingu við mismunandi trúarskoðanir. * Öll börn þurfa fyrr eða síðar að gera upp við sig hvaða trú þau ætli að aðhyllast. Auðvitað kjósa ekki öll börn að fylgja meginreglum trúar foreldra sinna, hvort sem þeir eru vottar Jehóva eða ekki.

Réttur barna til samviskufrelsis

Það er einnig rétt að fram komi að vottar Jehóva leggja mjög mikið upp úr samvisku hvers einstaks kristins manns. (Rómverjabréfið, 14. kafli) Samningurinn um réttindi barnsins, sem allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti árið 1989, viðurkenndi rétt barns til „frjálsrar hugsunar, sannfæringar [samvisku] og trúar“ og rétt þess „til að láta [eigin skoðanir] frjálslega í ljós í öllum málum sem það varða, og skal tekið réttmætt tillit til skoðana þess.“

Engin tvö börn eru nákvæmlega eins. Þess vegna má eðlilega gera ráð fyrir að þær ákvarðanir, sem ungir vottar Jehóva eða aðrir nemendur taka í tengslum við vissa starfsemi og verkefni í skólanum, séu ekki alltaf alveg eins. Við treystum því að þú fallist líka á að samviskufrelsi sé meginregla sem beri að virða.

^ gr. 18 Í bók sinni, Raising Jewish Children in a Contemporary World, segir dr. Steven Carr Reuben um börn sem alast upp í fjölskyldu þar sem foreldrarnir eru ekki sömu trúar: „Börnin verða ráðvillt þegar foreldrarnir fara leynt með trú sína, neita að takast á við trúarleg málefni, þegja um þau þunnu hljóði eða hafa engar skýrar skoðanir á þeim. Þegar foreldrar tjá sig opinskátt, heiðarlega og skýrt um eigin trúarskoðanir, gildismat og hvernig þeir haldi trúarhátíðir sínar, alast börnin upp við það öryggi í trúmálum og þá meðvitund um eigið gildi sem er svo nauðsynlegt til þess að hjá þeim nái að þroskast eðlileg sjálfsvirðing og skilningur á hvar í samfélaginu þau standa.“