Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Vottar Jehóva stuðla að menntun

Vottar Jehóva stuðla að menntun

Vottar Jehóva eru þekktir um allan heim fyrir biblíufræðslu sína.

SUMIR halda ef til vill að vottar Jehóva hafi ekki áhuga á veraldlegri menntun vegna þess hve mikla áherslu þeir leggja á biblíufræðslu sína. En sú er ekki raunin. Til að geta kennt öðrum verður kennari fyrst að læra sjálfur og þarf því að fá rétta þjálfun og fræðslu. Vottar Jehóva nýta sér vel almenna skólagöngu en þar að auki hafa þeir í áraraðir notið góðs af margvíslegu fræðslu- og skólastarfi sem Varðturnsfélagið hefur haft forgöngu um. Þetta starf hefur hjálpað þeim og öðrum að þroska hugsun sína og taka siðferðilegum og andlegum framförum.

Í mörgum löndum hafa vottar Jehóva þurft að glíma við þann sérstaka vanda að kenna fólki sem nær ekkert tækifæri hefur gefist til mannsæmandi skólagöngu og kann því hvorki að lesa né skrifa. Til að mæta þörfum þessa fólks hefur Varðturnsfélagið beitt sér fyrir lestrar- og skriftarkennslu.

Í Nígeríu, svo dæmi sé tekið, hafa vottar Jehóva haldið lestrarnámskeið frá árinu 1949. Þegar árið 1961 höfðu þúsundir Nígeríumanna lært að lesa, og tiltækar skrár sýna að á árunum 1962 til 1994 hefur alls 25.599 fullorðnum til viðbótar verið kennt að lesa og skrifa á þessum námskeiðum. Nýleg könnun sýndi að meira en 90 af hundraði votta Jehóva í Nígeríu voru læsir og skrifandi en fyrir íbúana í heild er þessi tala innan við 50 af hundraði. Í Mexíkó hefur Varðturnsfélagið haldið námskeið í lestri og skrift síðan 1946. Árið 1994 var meira en 6500 einstaklingum kennt að lesa og skrifa. Frá 1946 til 1994 var meira en 127.000 hjálpað til að verða læs. Lestrar- og skriftarkennslu hefur einnig verið komið á fót í mörgum öðrum löndum, til dæmis Bólivíu, Kamerún, Hondúras og Sambíu.

Slík námskeið hafa iðulega hlotið viðurkenningu frá menntamálayfirvöldum þeirra landa sem þau hafa verið haldin í. Til dæmis skrifaði embættismaður í Mexíkó: „Ég er mjög þakklátur fyrir samvinnu ykkar. Fyrir hönd ríkisstjórnarinnar færi ég ykkur einlægar hamingjuóskir fyrir framsækið og göfugt starf ykkar í þágu fólksins, þá er þið færið hinum ólæsu ljós þekkingarinnar. . . . Ég óska ykkur góðs gengis í fræðslustarfi ykkar.“

Guðveldisskólinn

Nemendur í Guðveldisskólanum fá þjálfun í upplestri og ræðumennsku.

Sökum þess að vottar Jehóva leggja mikla áherslu á biblíufræðslustarf sitt, leitast þeir við að auka hæfni sína í að útskýra kenningar Biblíunnar fyrir öðrum. Til að hjálpa þeim að taka framförum á þessu sviði er sérstök samkoma, sem nefnist Guðveldisskóli, haldin vikulega í hverjum og einum af hinum rúmlega 81.000 söfnuðum þeirra um allan heim. Allir þeir sem í skólann eru skráðir, hvort sem þeir eru vottar eða ekki, skiptast á að flytja stuttar ræður frammi fyrir áheyrendum um fyrirfram valið efni. Allir nemendurnir, óháð aldri þeirra, fá ráðleggingar frá leiðbeinanda með það fyrir augum að gera þá hæfari upplesara og ræðumenn. Jafnvel þeir yngstu geta skráð sig í skólann jafnskjótt og þeir eru orðnir læsir og fengið þessa þjálfun sem hefur líka reynst þeim gagnleg á öðrum sviðum, meðal annars við almenna skólagöngu. Margir kennarar hafa látið þau orð falla að nemendur, sem eru vottar Jehóva, komi gjarnan mjög vel fyrir sig orði.

Í söfnuðum þeirra er hvatt til aukins lestrar og hver fjölskylda er að sama skapi hvött til að koma sér upp fjölskyldubókasafni með fjölbreyttu úrvali rita.

Þar fyrir utan er sérhver söfnuður votta Jehóva hvattur til að hafa í ríkissal (samkomusal) sínum bókasafn með biblíunámsritum, orðabókum og öðrum uppsláttarritum. Þetta bókasafn er opið öllum þeim sem sækja samkomur í ríkissalnum. Í söfnuðum þeirra er hvatt til aukins lestrar og hver fjölskylda er að sama skapi hvött til að koma sér upp fjölskyldubókasafni með fjölbreyttu úrvali rita sem upfylla þarfir barna og fullorðinna.

Aðrir skólar

Varðturnsfélagið starfrækir líka skóla til að búa trúboða af báðum kynjum undir þjónustu í framandi löndum. Auk þess heldur það námskeið fyrir menn sem gegna ábyrgðarstörfum í söfnuðum sínum. Þessir skólar og námskeið bera líka vitni um að vottum Jehóva finnst menntun skipta miklu máli.