Jesús Kristur — hver er hann?
Jesús Kristur — hver er hann?
„MARGIR, sem ekki eru kristnir, telja hann mikinn og vitran kennara. Hann er tvímælalaust einhver áhrifamesti maður sögunnar.“ (The World Book Encyclopedia) Þessi „hann“ er Jesús Kristur, stofnandi kristninnar. Veistu hver hann er? Hefur hann einhver áhrif á líf þitt?
Sagan af þjónustu Jesú er sögð í fjórum guðspjöllum Biblíunnar. Eru þau áreiðanleg söguheimild? Eftir að hafa brotið þau til mergjar skrifaði hinn kunni sagnfræðingur Will Durant: „Ef fáeinir einfaldir alþýðumenn hefðu á einum mannsaldri búið til svo máttugan og hrífandi persónuleika, svo háleita siðfræði og svo frjóvgandi framtíðarsýn um bræðralag mannanna, þá hefði það í sannleika verið enn meira undur heldur en nokkurt þeirra kraftaverka sem frá er sagt í guðspjöllunum.“
Milljónir manna í Austurlöndum fjær og víðar vita hins vegar lítið sem ekkert um Jesú Krist. Þeir trúa kannski að hann hafi verið til en geta ekki ímyndað sér að hann hafi einhverja þýðingu fyrir sig. Sumir hafna Jesú vegna alls þess illa sem svonefndir fylgjendur hans hafa gert. Japanar minna gjarnan á að fylgjendur hans hafi varpað kjarnorkusprengju á Nagasaki, þrátt fyrir að þar byggju fleiri kristnir menn en í flestum öðrum borgum Japans.
En er hægt að kenna lækni um veikindi sjúklings sem hlítir ekki læknisráði? Auðvitað ekki. Kristni heimurinn hefur löngum hunsað fyrirmæli Jesú um það hvernig hægt sé að sigrast á daglegum vandamálum. Væri ekki ráð að fræðast um Jesú í stað þess að hafna honum vegna þeirra sem kalla sig kristna en fara ekki eftir fyrirmælum hans? Skoðaðu Biblíuna og kannaðu hver Jesús er í raun og veru og hvernig hann getur meira að segja breytt lífi þínu.
Kærleikur — „læknisráð“ Jesú
Jesús Kristur var mikill kennari í Palestínu fyrir næstum 2000 árum. Fátt er vitað um bernsku hans. (Matteus, 1. og 2. kafli; Lúkas, 1. og 2. kafli) Þrítugur að aldri hóf hann það starf sitt að ‚bera sannleikanum vitni.‘ (Jóhannes 18:37; Lúkas 3:21-23) Athygli hinna fjögurra ævisöguritara Jesú beindist að þjónustu hans meðal almennings síðustu þrjú og hálft árið sem hann dvaldist á jörð.
Jesús benti lærisveinum sínum á að lausnin á ýmsum vandamálum lífsins væri kærleikur. Í einhverri þekktustu ræðu sem flutt hefur verið, fjallræðunni, kenndi hann lærisveinunum hvernig þeir ættu að sýna náungakærleika. Hann sagði: „Allt sem þér viljið, að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra.“ (Matteus 7:12) Þessi meginregla er kölluð gullna reglan. „Aðrir menn,“ sem Jesús nefnir, geta jafnvel verið óvinir manns. Hann sagði í þessari sömu ræðu: „Elskið óvini yðar, og biðjið fyrir þeim, sem ofsækja yður.“ (Matteus 5:44) Ætli slíkur kærleikur geti ekki leyst mörg af þeim vandamálum sem við eigum við að glíma? Hindúaleiðtoginn Mohandas Gandhi var þeirrar skoðunar. Haft er eftir honum: ‚Þegar við getum sameinast um þær kenningar sem Kristur setti fram í fjallræðunni, þá munum við hafa leyst vandamál alls heimsins.‘ Kærleiksboð Jesú getur læknað meinsemdir mannkynsins ef eftir þeim er farið.
Kærleikur hans að verki
Jesús lifði í samræmi við kenningar sínar. Hann lét hag annarra ganga fyrir sínum eigin og sýndi kærleika í verki. Dag einn höfðu Jesús og lærisveinar hans þjónað miklum mannfjölda án þess að hafa haft næði til að matast. Jesú var ljóst að lærisveinarnir þyrftu að ‚hvílast um stund‘ svo að þeir fóru einir saman á óbyggðan stað. En mannfjöldinn var kominn þangað á undan þeim og beið þeirra. Hvernig hefðir þú brugðist við ef þú hefðir verið í sporum Jesú? Hann „kenndi í brjósti um þá“ og „kenndi þeim margt.“ (Markús 6:30-34) Samúð hans var svo sterk að hann fann sig knúinn til að hjálpa öðrum.
Góðverk Jesú voru ekki einvörðungu fólgin í kennslu heldur einnig í því að fullnægja líkamlegum þörfum fólks. Til dæmis mettaði hann einu sinni 5000 karlmenn (auk kvenna og barna) sem höfðu hlýtt á hann langt fram eftir degi. Síðar mettaði hann 4000 manns. Í fyrra sinnið notaði hann til verksins fimm brauðhleifa og tvo fiska en í hið síðara sjö brauð og fáeina smáfiska. (Matteus 14:14-21; 15:32-38; Markús 6:35-44; 8:1-9) Kraftaverk? Já, hann var kraftaverkamaður.
Jesús læknaði fjölda sjúkra. Hann læknaði blinda, halta, holdsveika og heyrnarlausa. Hann reisti jafnvel upp dána! (Lúkas 7:22; Jóhannes 11:30-45) Einu sinni bað holdsveikur maður hann ásjár: „Ef þú vilt, getur þú hreinsað mig.“ Hvernig brást Jesús við? Hann „rétti út höndina, snart hann og mælti: ‚Ég vil, verð þú hreinn!‘“ (Markús 1:40, 41) Sterk löngun til að hjálpa fólki knúði Jesú til verka. Með kraftaverkum sínum sýndi hann kærleika sinn til bágstaddra.
Ertu vantrúaður á kraftaverk Jesú? Nú voru þau flest unnin í fjölmenni. Andstæðingar Jesú, sem reyndu að finna honum allt til foráttu, gátu ekki neitað því að hann hefði unnið þessi kraftaverk. (Jóhannes 9:1-34) Auk þess gegndu kraftaverkin ákveðnum tilgangi. Þau sýndu fólki fram á að hann væri sendur af Guði. — Jóhannes 6:14.
Þetta örstutta ágrip af ævi og kenningum Jesú snertir okkur og vekur hjá okkur löngun til að líkja eftir kærleika hans. En Jesús getur líka haft áhrif á líf þitt með öðrum hætti. Hann var ekki einasta mikill kennari og kærleiksboðberi heldur sagðist hann einnig vera eingetinn sonur Guðs og kvaðst hafa verið til áður en hann varð maður. (Jóhannes 1:14; 3:16; 8:58; 17:5; 1. Jóhannesarbréf 4:9) Hann skiptir þig enn meira máli sökum þess að hann var reistur upp frá dauðum og er nú krýndur konungur Guðsríkis eins og Biblían greinir frá. (Opinberunarbókin 11:15) Hann sagði: „Það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.“ (Jóhannes 17:3; 20:31) Þekking á Jesú Kristi getur haft í för með sér eilíft líf í paradís. Hvernig getur það verið? Ef þú kynnir þér ævi og kenningar Jesú uppgötvarðu hvernig „kærleiki Krists knýr oss“ til að líkja eftir honum. (2. Korintubréf 5:14) Vottar Jehóva eru meira en fúsir til að veita þér aðstoð. — Jóhannes 13:34, 35.
Nema annað sé tekið fram eru allar biblíutilvitnanir sóttar í íslensku biblíuna frá 1981.