Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Brátt verður paradís á jörð

Brátt verður paradís á jörð

19. kafli

Brátt verður paradís á jörð

1, 2. (a) Hver er eðlileg þrá manna en hvað kemur í veg fyrir að hún rætist? (b) Hvaða skilyrði væru ákjósanleg?

 GÆTIR þú hugsað þér að lifa endalaust — heill og hamingjusamur? Þú svarar líklega játandi. Það er svo margt áhugavert til að gera, svo margir hrífandi staðir til að sjá og svo margt nýtt til að læra.

2 Ýmis vandamál, sem virðast óleysanleg, spilla þó fyrir því að menn fái notið óskertrar lífsgleði. Til dæmis er æviskeið manna tiltölulega stutt eins og nú er. Lífinu fylgja líka oft sjúkdómar, sorgir og erfiðleikar. Til að fólk gæti notið lífsins til hins ýtrasta á öllum sviðum þyrfti það að búa við (1) umhverfi sem líkist paradís, (2) fullkomið öryggi, (3) ánægjulega vinnu, (4) fullkomna heilsu og (5) endalaust líf.

3. Hver einn getur tryggt mannkyni slík skilyrði?

3 En er ekki til of mikils mælst að ætlast til alls þessa? Frá mannlegum bæjardyrum séð er það vissulega svo. Mannkynssagan hefur sýnt að menn geta ekki af eigin rammleik búið sér slík kjörskilyrði. En frá sjónarhóli skaparans eru þessi skilyrði ekki aðeins möguleg — þau eru óumflýjanleg! Hvers vegna? Vegna þess að frá byrjun var það ætlun Guðs að slík skilyrði ríktu hér á jörðinni. — Sálmur 127:1; Matteus 19:26.

Paradís endurreist

4. Hver var upphaflegur tilgangur Guðs með jörðina?

4 Eins og komið hefur fram í köflunum á undan voru tvær fyrstu mannverurnar ekki eins og dýr. Þær voru skapaðar fullkomlega mennskar. Upprunalegt heimili þeirra, garðurinn Eden, var „paradís unaðarins.“ (1. Mósebók 2:8, Douay) Þær áttu að ‚yrkja aldingarðinn og gæta hans.‘ (1. Mósebók 2:15) Auk þess fengu þær þetta verkefni fram yfir dýrin: „Verið frjósöm, margfaldist og uppfyllið jörðina og gjörið ykkur hana undirgefna.“ (1. Mósebók 1:28) Er afkomendum þeirra fjölgaði myndu þeir fá það verkefni að stækka þennan undurfagra garð og breyta allri jörðinni smám saman í paradís. Hve lengi átti hún að standa? Biblían er sjálfri sér samkvæm í því að jörðin eigi að standa „um aldur og ævi.“ (Sálmur 104:5; Prédikarinn 1:4) Hin jarðneska paradís átti því um alla framtíð að vera unaðslegt heimili fullkominna manna er lifðu þar eilíflega. — Jesaja 45:11, 12, 18.

5. Hvers vegna getum við treyst því að tilgangur Guðs verði að veruleika?

5 Enda þótt uppreisnin í Eden tefði um stund fyrir því að tilgangur Guðs næði fram að ganga hefur sá tilgangur ekki breyst. Guð hefur komið fram með það ráð sem dugir til að stöðva eyðilegginguna og endurreisa paradís. Þetta ráð er ríki hans, hin himneska stjórn sem Jesús lét skipa svo áberandi sess í boðskap sínum til mannanna. (Matteus 6:10, 33) Við megum vera viss um að upphaflegur tilgangur Guðs verður að veruleika. Hinn almáttugi skapari fullvissar okkur: „Eins er því farið með mitt orð, það er útgengur af mínum munni: Það hverfur ekki aftur til mín við svo búið, eigi fyrr en það hefir framkvæmt það, sem mér vel líkar, og komið því til vegar, er ég fól því að framkvæma.“ — Jesaja 55:11.

6, 7. (a) Hvernig vitum við að endurreisn paradísar er í nánd? (b) Hverjir munu lifa af endalok þessa heimskerfis og hverjir ekki?

6 Það er uppörvandi að sjá atburðina í heiminum uppfylla „tákn“ hinna ‚síðustu daga.‘ (Matteus 24:3-14; 2. Tímóteusarbréf 3:1-5) Það gefur til kynna að sá tími sé nálægur er „orð“ Guðs mun ‚koma því til vegar er hann fól því að framkvæma.‘ Hinn alvaldi Guð mun sjálfur grípa inn í málefni manna til að tryggja að tilgangur hans verði að veruleika. (Jeremía 25:31-33) Í allra nánustu framtíð megum við búast við að sjá rætast hinn spádómlega sálm sem segir: „Illvirkjarnir verða afmáðir, en þeir er vona á [Jehóva], fá landið til eignar. Innan stundar eru engir guðlausir til framar, . . . Hinir réttlátu fá landið til eignar og búa í því um aldur.“ — Sálmur 37:9-11, 29; Matteus 5:5.

7 Þeir sem kjósa að vera óháðir skapara sínum verða því „afmáðir.“ Þeir sem ‚vona á Jehóva‘ munu lifa af endalok þessa heimskerfis og hefja endurreisn paradísar. Smám saman mun hún stækka uns hún nær um alla jörðina. Svo víst er að þessi paradís komi að Jesús gat hiklaust lofað illvirkjanum, sem tekinn var af lífi við hlið hans: „Sannlega segi ég þér í dag: Þú munt vera með mér í paradís.“ — Lúkas 23:43, New World Translation.

Jörðinni umbreytt

8, 9. Hvað mun gerast í sambandi við jörðina sjálfa?

8 Lýsing Biblíunnar á paradís er undurfögur. Til dæmis segir hún frá áhrifamiklum breytingum á ástandi jarðar. Þú manst ef til vill að fyrstu mönnunum var sagt, er þeir voru reknir úr Eden, að jörðin myndi bera þyrna og þistla og að ræktun matvæla myndi kosta svita og erfiði. (1. Mósebók 3:17-19) Alla tíð síðan hefur maðurinn átt í stöðugri baráttu við ásæknar eyðimerkur, ófrjóa jörð, þurrka, illgresi, skordýr, plöntusjúkdóma og uppskerubrest. Allt of oft hefur hungursneyðin unnið bardagann.

9 En dæmið á að snúast við: „Eyðimörkin og hið þurra landið skulu gleðjast, öræfin skulu fagna og blómgast sem lilja. . . . því að vatnslindir spretta upp í eyðimörkinni og lækir á öræfunum. Sólbrunnar auðnir skulu verða að tjörnum og þurrar lendur að uppsprettum.“ „Þar sem áður voru þyrnirunnar, mun kýpresviður vaxa, og þar sem áður var lyng, mun mýrtusviður vaxa.“ (Jesaja 35:1, 6, 7; 55:13) Tilgangur Guðs felur þannig í sér að mannkynið muni njóta þess mjög svo ánægjulega verkefnis að umbreyta jörðinni í unaðsreit sem verða mun byggjendum sínum til eilífrar gleði. En tilgangur Guðs felur í sér meira en aðeins fegurðina.

Fátækt tekur enda

10, 11. Hvernig mun Jehóva eyða hungri?

10 Er víðáttumiklum eyðimörkum og þurrkasvæðum verður breytt í frjósöm svæði eykst ræktanlegt land stórum. Undir umsjón skaparans mun mönnum takast að gera jörðina frjósamari en nokkru sinni fyrr: „Þá gefur og [Jehóva] gæði, og land vort veitir afurðir sínar.“ (Sálmur 85:13) Þær „afurðir“ munu gefa „gnóttir korns . . . í landinu, á fjallatindunum.“ (Sálmur 72:16) Aldrei framar munu milljónir manna svelta. — Jesaja 25:6.

11 Þá mun atvinnuleysi einnig taka enda fyrir fullt og allt. Allir munu njóta ávaxta erfiðis síns: „Þeir munu planta víngarða og eta ávöxtu þeirra. . . . eigi munu þeir planta og aðrir eta.“ (Jesaja 65:21, 22) Allt mun þetta veita þess konar efnahagsöryggi sem lýst er í Esekíel 34:27: „Tré merkurinnar munu bera sinn ávöxt, og jörðin mun bera sinn gróða, og þeir munu búa óhultir á sinni jörð.“

12. Hverjir munu fá mannsæmandi húsnæði í paradís?

12 Mönnum er eiginlegt að vilja eiga snoturt heimili og landspildu til að rækta á blóm, tré og matjurtir. Eru það viðunandi húsakynni þar sem milljónum manna er troðið í stór fjölbýlishús eða niðurnídd fátækrahverfi, eða fólk hreinlega býr á götunum? Ekkert af því tagi mun verða í hinni komandi paradís því að Guð hefur ákveðið annað: „Þeir munu reisa hús og búa í þeim, . . . Eigi munu þeir reisa og aðrir í búa.“ Þessi mikla framkvæmdaáætlun um heim allan mun heppnast fullkomlega: „Mínir útvöldu skulu sjálfir njóta handaverka sinna. Eigi munu þeir erfiða til ónýtis.“ (Jesaja 65:21-23) Þægilegt húsnæði verður því ekki forréttindi auðugs minnihluta heldur munu allir sem beygja sig undir stjórn Guðs njóta þess.

Sjúkdómar og dauði verða liðin tíð

13, 14. Hvað mun verða um veikindi, fötlun og meira að segja dauðann?

13 Orð Guðs fullvissar okkur einnig um að hvorki bæklun, sjúkdómar né dauði muni spilla hamingju manna í paradís: „Enginn borgarbúi mun segja: ‚Ég er sjúkur.‘“ (Jesaja 33:24) „[Guð] mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.“ — Opinberunarbókin 21:4.

14 Hugsaðu þér heim þar sem allir sjúkdómar og hvers konar fötlun verður læknuð! Orð Guðs segir: „Þá munu augu hinna blindu upp lúkast og opnast eyru hinna daufu. Þá mun hinn halti létta sér sem hjörtur og tunga hins mállausa fagna lofsyngjandi.“ (Jesaja 35:5, 6) Það verður stórfengleg umbreyting! Og hugsaðu þér þær framtíðarhorfur að geta þaðan í frá lifað jafnlengi og Guð — að eilífu! Aldrei framar mun mannkynið verða undir bölvun dauðans því að Guð „mun afmá dauðann að eilífu.“ — Jesaja 25:8.

15. Hvernig mun fara fyrir öldruðu fólki sem lifir af endalok heimskerfisins?

15 En hvað um þá sem lifa af endalok þessa heimskerfis og eru þegar orðnir aldraðir? Munu þeir einungis komast til góðrar heilsu en vera aldraðir um alla eilífð? Nei, því að Guð hefur mátt til að snúa öldruninni við og það mun hann gera. Biblían lýsir því þannig: „Þá svellur hold hans af æskuþrótti, hann snýr aftur til æskudaga sinna.“ (Jobsbók 33:25) Hinir öldruðu munu smám saman hljóta fullkomleika sem karlar og konur, þann fullkomleika sem Adam og Eva nutu í Eden. Það verður ein afleiðing þeirrar ‚endurfæðingar‘ sem Jesús talaði um. — Matteus 19:28.

Varanlegur friður um allan heim

16, 17. Hvers vegna mun stríð eða ofbeldi ekki spilla friði paradísar?

16 Munu stríð og ofbeldi einhvern tíma fá raskað hinni friðsælu paradís? Ekki þegar „hinir hreinskilnu munu byggja landið, og hinir grandvöru verða eftir í því. En hinir óguðlegu munu upprættir verða úr landinu, og hinum svikulu verða útrýmt þaðan.“ (Orðskviðirnir 2:21, 22) Þegar friðarspillar eru ekki til framar geta hvorki orðið styrjaldir né ofbeldisverk.

17 Hvers vegna eru þeir sem „verða eftir,“ þegar Guð hefur útrýmt hinum svikulu og óguðlegu, kallaðir ‚hreinskilnir‘ og ‚grandvarir‘? Vegna þess að þeir hafa þegar hlotið menntun frá Guði um friðarstaðla hans og samstillt sig þeim. Slík þekking á Guði og hlýðni við lög hans er grundvöllur friðarins í paradís því að Biblían segir: „Hvergi . . . munu menn illt fremja eða skaða gjöra, því að jörðin er full af þekkingu á [Jehóva], eins og djúp sjávarins er vötnum hulið.“ (Jesaja 11:9) Jesús sagði einnig: „Þeir munu allir verða af Guði fræddir,“ og bætti við að þeir sem tækju við kenningu hans og lifðu eftir henni myndu fá „eilíft líf.“ — Jóhannes 6:45-47.

18. Hverjir hljóta nú þegar menntun til undirbúnings friðsömu lífi í paradís?

18 Þessi menntun um vegi Guðs, sem fer fram um alla jörðina, mun skapa friðsælan heim sem er laus við glæpi, fordóma og hatur, laus við stjórnmálasundrung og stríð. Gildi þessarar menntunar sést nú þegar meðal milljóna votta Jehóva um víða veröld. Þeir mynda alþjóðlegt bræðrafélag er byggist á kærleika og gagnkvæmri virðingu. (Jóhannes 13:34, 35) Friður þeirra og eining um allan heim er órjúfanleg. Ekki einu sinni ofsóknir eða heimsstyrjaldir geta komið þeim til að taka sér vopn í hönd gegn náunga sínum einhvers staðar í heiminum. Fyrst slík eining og friður getur fyrirfundist í sundruðum heimi nútímans mun örugglega vera miklu auðveldara að halda áfram á sömu braut undir stjórn Guðs í paradís. — Matteus 26:52; 1. Jóhannesarbréf 3:10-12.

19. Hvaða spádómur, sem nú er að rætast, mun halda áfram að gera það í paradís?

19 Allt frá því er endurreisn paradísar hefst mun því ríkja friður um víða veröld. Og þeir sem lifa af heimsstríð Guðs við Harmagedón munu halda áfram að fylgja orðum spádómsins sem þeir eru að uppfylla núna: „Engin þjóð skal sverð reiða að annarri þjóð, og ekki skulu þær temja sér hernað framar.“ Þess vegna getur spádómurinn bætt við: „Hver mun búa undir sínu víntré og undir sínu fíkjutré og enginn hræða þá.“ (Míka 4:3, 4) Hversu lengi? Hið hrífandi loforð hljóðar svo: „Friðurinn [mun] engan enda taka.“ — Jesaja 9:7.

20. Hvað mun Jehóva gera við þjóðirnar og vígbúnað þeirra?

20 Hinar hervæddu þjóðir hafa að vísu vígbúist í ríkari mæli en nokkru sinni fyrr, en vígbúnaður þeirra má sín lítils gagnvart honum sem skapaði alheiminn með mætti sínum. Hann segir okkur hvað hann mun bráðlega gera við öll hervopn þjóðanna: „Komið, skoðið dáðir [Jehóva], hversu hann framkvæmir furðuverk á jörðu. Hann stöðvar styrjaldir til endimarka jarðar, brýtur bogann, slær af oddinn, brennir skjöldu í eldi.“ (Sálmur 46:9, 10) Með því að gersigra þjóðirnar og herafla þeirra er brautin rudd fyrir varanlegan heimsfrið í paradís. — Daníel 2:44; Opinberunarbókin 19:11-21.

Friður við dýraríkið

21, 22. Hvaða samband mun aftur komast á milli manna og dýra?

21 Til að fullkomna heimsfriðinn í paradís verður aftur komið á sátt og samlyndi milli manna og dýra eins og ríkti í Eden. (1. Mósebók 1:26-31) Núna óttast maðurinn mörg dýr og þeim stafar jafnframt hætta af honum. En svo verður ekki í paradís. Guð mun viðhalda friði milli manna og dýra í paradís á hvern þann veg sem hann gerði það í Eden. Þá munu menn á ný ríkja yfir dýrunum í anda kærleikans.

22 Um þetta segir skaparinn: „Á þeim degi gjöri ég fyrir þá sáttmála við dýr merkurinnar og fugla himinsins og skriðkvikindi jarðarinnar.“ (Hósea 2:18) Með hvaða árangri? „Ég mun gjöra friðarsáttmála við þá og reka öll illdýri úr landinu, svo að þeir skulu óhultir búa mega í eyðimörkinni og sofa í skógunum.“ — Esekíel 34:25.

23. Hvaða róttæka breytingu innan dýraríkisins segir Jesaja fyrir?

23 Sá friður, sem ríkja mun meðal manna og milli manna og dýra, mun einnig endurspeglast innan dýraríkisins. „Þá mun úlfurinn búa hjá lambinu og pardusdýrið liggja hjá kiðlingnum, kálfar, ung ljón og alifé ganga saman og smásveinn gæta þeirra. Kýr og birna munu vera á beit saman og kálfar og húnar liggja hvorir hjá öðrum, og ljónið mun hey eta sem naut. Brjóstmylkingurinn mun leika sér við holudyr nöðrunnar, og barnið nývanið af brjósti stinga hendi sinni inn í bæli hornormsins. Hvergi á mínu heilaga fjalli munu menn illt fremja eða skaða gjöra.“ — Jesaja 11:6-9.

24. Hvernig lýsir Sálmur 37 þeim friði sem ríkja mun í paradís?

24 Það er fögur lýsing sem Biblían gefur á þeim fullkomna friði sem ríkja mun í paradís! Það er engin furða að Sálmur 37:11 skuli lýsa lífinu í hinum nýja heimi þannig: „Hinir hógværu fá landið til eignar, gleðjast yfir ríkulegri gæfu.“

Dauðir snúa aftur

25, 26. (a) Hvaða fyrirheit gefur orð Guðs varðandi hina dánu? (b) Hvers vegna er það skaparanum engin ofraun að muna eftir öllum sem dáið hafa?

25 Gæði paradísar munu ekki aðeins ná til þeirra sem lifa af endalok núverandi heimskerfis. Undir stjórn ríkis Guðs á himnum mun eiga sér stað einstakur sigur — fullnaðarsigur yfir dauðanum. Bæði verður hinn arfgengi dauði yfirunninn, og auk þess munu þeir sem dánir eru verða endurlífgaðir og gefið tækifæri til að lifa í paradís! Orð Guðs fullvissar okkur um að „upp muni rísa bæði réttlátir og ranglátir.“ (Postulasagan 24:15) Mikil verður sú gleði þegar hver kynslóðin á fætur annarri kemur til baka úr gröfinni og ástvinir hittast á ný! — Lúkas 7:11-16; 8:40-56; Jóhannes 11:38-45.

26 Jesús sagði: „Sú stund kemur, þegar allir þeir, sem í gröfunum eru, munu heyra raust hans og ganga fram, þeir, sem gjört hafa hið góða, munu rísa upp til lífsins, en þeir, sem drýgt hafa hið illa, til dómsins.“ (Jóhannes 5:28, 29) Já, þeir sem Guð geymir í minni sér verða vaktir upp til lífs. Ekki skulum við halda að slíkt sé Guði ofviða. Munum að hann skapaði stjörnur í hundruð milljarða- eða öllu heldur billjónatali. Og Biblían segir að hann kalli þær allar „með nafni.“ (Jesaja 40:26) Þeir menn, sem lifað hafa og dáið, eru aðeins brot þess fjölda. Guð á því létt með að muna eftir þeim og lífsmynstri þeirra.

27. Hvaða tækifæri munu allir fá í paradís?

27 Allir sem upprisu hljóta öðlast menntun í réttlátum stöðlum Guðs og hún fer fram í umhverfi sem orðið er paradís. Þá mun hvorki illska, þjáningar né misrétti, sem þeir máttu þola í sínu fyrra lífi, vera þeim fjötur um fót. Ef þeir viðurkenna drottinvald Guðs og samlaga sig stöðlum hans verða þeir dæmdir verðugir þess að lifa áfram. (Efesusbréfið 4:22-24) Ef illvirkinn, sem var staurfestur við hlið Jesú, á að halda áfram að lifa í paradís verður hann að snúa baki við fyrra líferni og verða heiðarlegur. Þeim sem gera uppreisn gegn réttlátri stjórn Guðs verður ekki leyft að lifa áfram til að spilla friði og gleði annarra. Þeir fá óhagstæðan dóm. Sérhver maður mun því fá fullt og sanngjarnt tækifæri til að sýna hvort hann kann að meta það að lifa í paradís á jörð þar sem „réttlæti býr.“ — 2. Pétursbréf 3:13.

28. Hvað er þá rétt framundan?

28 Hinir upprisnu munu síðan, ásamt þeim sem lifa af Harmagedón, hljóta eilíft líf sem er fullt af hrífandi viðfangsefnum. Fullkominn mannsheili, með sinni ótrúlegu hæfni til þekkingaröflunar, mun endalaust geta drukkið í sig þekkingu. Hugsaðu þér hvað við munum læra um jörðina og alheiminn ásamt vetrarbrautunum í milljarðatali! Hugsaðu um það krefjandi og ánægjulega starf sem bíður okkar við húsasmíðar, fegrun lands, jarðyrkju, kennslu, listir, tónlist og ótalmargt annað. Lífið verður hvorki leiðigjarnt né innihaldslaust. Þess í stað mun hver dagur í paradís vera fullur af „ríkulegri gæfu“ eins og Biblían spáir. (Sálmur 37:11) Stórkostlegir tímar eru því rétt framundan.

[Spurningar]

[Rammi á blaðsíðu 232]

Menn geta ekki komið á fullkomnum skilyrðum en það getur Guð.

[Rammi á blaðsíðu 236]

Jörðin sjálf mun taka áhrifamikilli breytingu.

[Rammi á blaðsíðu 242]

Með því að gersigra þjóðirnar og herafla þeirra er rudd braut varanlegs friðar.

[Rammi á blaðsíðu 244]

Þeir munu „gleðjast yfir ríkulegri gæfu.“

[Rammi á blaðsíðu 246]

Stórkostlegir tímar eru rétt framundan.

[Mynd á blaðsíðu 233]

Við fullkomin skilyrði sem þessi gætum við notið lífsins til hins ýtrasta.

Paradísarumhverfi

Fullkomið öryggi

Ánægjuleg vinna

Fullkomin heilsa

Endalaust líf

[Mynd á blaðsíðu 234]

Þeir sem kjósa að vera óháðir skaparanum verða afmáðir.

[Mynd á blaðsíðu 235]

‚Þeir sem vona á Jehóva‘ munu lifa af.

[Mynd á blaðsíðu 236, 237]

Mannkynið mun fá það ánægjulega verkefni að breyta jörðinni í paradís.

[Mynd á blaðsíðu 238]

Allir munu búa við fjárhagslegt öryggi.

[Mynd á blaðsíðu 239]

Hvorki sjúkdómar, fötlun né dauði munu spilla paradís.

[Mynd á blaðsíðu 240]

„Þá svellur hold hans af æskuþrótti, hann snýr aftur til æskudaga sinna.“ — Jobsbók 33:25.

[Mynd á blaðsíðu 241]

Hvorki verður stríð né ofbeldi í paradís. Öll vopn verða eyðilögð. — Esekíel 39:9, 10.

[Mynd á blaðsíðu 243]

Aftur verður komið á sátt og samlyndi milli manna og dýra.

[Mynd á blaðsíðu 245]

Hinir dauðu munu snúa aftur og fá tækifæri til að lifa í paradís. Orð Guðs lofar að „upp muni rísa bæði réttlátir og ranglátir.“