Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Einstök reikistjarna ber vitni

Einstök reikistjarna ber vitni

10. kafli

Einstök reikistjarna ber vitni

1, 2. Hvað segja sumir um reikistjörnuna okkar, jörðina?

 REIKISTJARNAN okkar, jörðin, er mikið undur — fágætur, fagur gimsteinn í geimnum. Geimfarar hafa haft á orði að blár himinn og hvítar skýjabreiður jarðar hafi gert hana „margfalt meira aðlaðandi en nokkuð annað sem þeir sáu“ utan úr geimnum.⁠1

2 En jörðin er miklu meira en bara fögur. „Jörðin er mesta ráðgáta heimsmyndarvísindanna og hefur til þessa staðið af sér allar tilraunir okkar til að skilja sig,“ segir Lewis Thomas í tímaritinu Discover. Hann bætir við: „Við erum rétt að byrja að gera okkur ljóst hve undarleg og stórkostleg hún er, við stöndum alveg á öndinni, þessi fegursta reikistjarna á braut um sól, umlukin blárri loftbólu, gufuhvolfinu, sem gefur frá sér og andar að sér eigin súrefni, bindur sitt eigið köfnunarefni úr loftinu í eigin jarðveg og býr til sitt eigið veður.“⁠2

3. Hvað segir bókin The Earth um reikistjörnu okkar og hvers vegna?

3 Sú staðreynd er einnig athyglisverð að jörðin er eina reikistjarnan í sólkerfi okkar sem vísindamenn hafa fundið líf á. Og fjölbreytni lífveranna er sannarlega stórfengleg — örverur, skordýr, jurtir, fiskar, fuglar, dýr og menn. Þar að auki er jörðin firnastórt forðabúr er geymir allt sem þarf til viðhalds öllu þessu lífi. Svo sannarlega er jörðin, eins og bókin The Earth kemst að orði, „undur alheimsins, eini hnöttur sinnar tegundar.“⁠3

4. Með hvaða samlíkingu má sýna hve einstæð jörðin er, og hvað hljótum við að álykta?

4 Til að glöggva þig á því hve einstæð jörðin er skaltu gera þér í hugarlund að þú sért staddur í gróðursnauðri eyðimörk þar sem ekkert líf er að finna. Skyndilega gengur þú fram á fallegt hús. Í húsinu er loftkæling, miðstöðvarhitun, pípulögn og rafmagn. Kæliskápur og matarbúr eru full af mat. Í kjallaranum eru birgðir eldsneytis og annarra vista. Setjum sem svo að þú spyrðir einhvern hvaðan allt þetta væri komið, svona í miðri eyðimörkinni. Hvað myndir þú halda ef hann svaraði: „Þetta varð bara til af sjálfu sér“? Myndir þú trúa því? Myndir þú ekki ganga að því sem gefnum hlut að einhver hlyti að hafa teiknað húsið og byggt það?

5. Hvaða líking Biblíunnar hæfir reikistjörnunni okkar?

5 Hvergi hefur fundist líf á nokkurri annarri reikistjörnu sem tekist hefur að rannsaka. En jörðin iðar af lífi sem haldið er við með margbrotnum kerfum er sjá því fyrir ljósi, lofti, hita, vatni og fæðu í fullkomnu, innbyrðis jafnvægi. Hún ber þess merki að vera sérstaklega gerð til að hýsa lifandi verur svo að þeim líði vel — líkt og glæsilegt, vel hannað hús. Það er fullkomlega rökrétt sem einn af biblíuriturunum heldur fram: „Sérhvert hús er gjört af einhverjum, en Guð er sá, sem allt hefur gjört.“ Já, hið óendanlega miklu stærra og undraverðara „hús,“ sem reikistjarnan okkar jörðin er, ber því vitni að það eigi sér afburðagreindan arkitekt og byggingameistara, Guð. — Hebreabréfið 3:4.

6. Hvernig hafa sumir viðurkennt að reikistjarnan jörð beri merki hugvitsamlegrar hönnunar?

6 Því meira sem vísindamenn rannsaka þessa reikistjörnu og lífheim hennar, þeim mun ljósara verður þeim hversu frábær hún er að allri gerð. Tímaritið Scientific American segir í undrunartón: „Þegar við rýnum út í alheiminn og gerum okkur grein fyrir öllum þeim eðlis- og stjarnfræðilegu slysum, sem hafa unnið saman okkur til góðs, er engu líkara en að alheimurinn hafi einhvern veginn vitað að von væri á okkur.“⁠4 Og tímaritið Science News viðurkennir: „Það lítur varla út fyrir að svona sérstök og nákvæm skilyrði hafi getað skapast af hendingu.“⁠5

Rétt fjarlægð frá sólu

7. Með hvaða hætti fær jörðin hæfilega ljós- og varmaorku frá sólinni?

7 Eitt þeirra mörgu, nákvæmu skilyrða, sem eru forsenda lífs á jörðinni, er hæfilegt magn ljóss og varma frá sólinni. Jörðin fær aðeins agnarsmátt brot þeirrar orku sem sólin sendir frá sér, en þó nákvæmlega það sem þarf til viðhalds lífi. Það stafar af því að jörðin er í hæfilegri fjarlægð frá sólu — að meðaltali um 150 milljónir kílómetra. Ef jörðin væri nær sólu eða fjær yrði annaðhvort of heitt eða of kalt á henni til að líf fengi þrifist.

8. Hvers vegna skiptir brautarhraði jarðar um sól svo miklu máli?

8 Á árlegri hringferð sinni um sól siglir jörðin með hraða sem nemur 100.000 kílómetrum á klukkustund. Það er nákvæmlega réttur hraði til að vega upp á móti aðdráttarafli sólar og halda jörðinni í hæfilegri fjarlægð frá henni. Ef dregið væri úr brautarhraða jarðar myndi sólin toga hana til sín. Áður en langt um liði myndi jörðin breytast í skrælnaða auðn eins og Merkúríus sem er næstur sólu. Daghitinn á Merkúríusi fer yfir 300 gráður á Celsíus. Ef brautarhraði jarðar væri hins vegar aukinn myndi hún fjarlægjast sól og breytast í gaddfreðna auðn eins og Plútó sem er fjarlægastur sólu. Á Plútó er nálægt 180 gráða gaddur.

9. Hvaða þýðingu hefur það að jörðin skuli snúast um möndul sinn með ákveðnum hraða?

9 Að auki snýst jörðin alltaf heilan snúning um möndul sinn á 24 stundum. Möndulsnúningurinn veldur því að reglubundið skiptast á ljós og myrkur. En hvernig færi ef snúningstími jarðar um möndul sinn væri til dæmis eitt ár? Það myndi hafa í för með sér að jörðin sneri sömu hlið að sólu í heilt ár. Sú hlið yrði að öllum líkindum sjóðheit eyðimörk meðan fimbulkuldi væri á hinni. Fáar lífverur, ef nokkrar, gætu lifað við slíkar aðstæður.

10. Hvaða áhrif hefur möndulhalli jarðar á loftslag og uppskeru?

10 Snúningsmöndull jarðar hallast um það bil 23,5 gráður miðað við sól. Ef möndulhallinn væri ekki fyrir hendi myndu engin árstíðaskipti vera. Loftslag og veðrátta yrði eins árið um kring. Enda þótt líf myndi þrífast við þær aðstæður yrði það tæplega jafnskemmtilegt. Auk þess myndi það gerbylta vaxtar- og þroskahring jurta á ýmsum stöðum. Ef möndulhalli jarðar væri talsvert meiri yrðu sumrin afarheit og veturnir afarkaldir. Möndulhalli, sem nemur 23,5 gráðum, veldur aftur á móti ánægjulegum árstíðaskiptum og skemmtilegri fjölbreytni. Víða á jörðinni skiptast á upplífgandi vor þegar tré og plöntur vakna og blómgast fagurlega, hlý sumur sem bjóða upp á alls kyns störf og leiki utan dyra, hressandi haustveður með ægifögru litskrúði trjáa og runna og vetur með fannhvítri og fagurri snjóbreiðu um fjöll, skóga og engi.

Hinn undraverði lofthjúpur

11. Hvað gerir lofthjúp jarðar einstakan?

11 Lofthjúpurinn, sem umlykur jörðina, er líka einstæður og undraverður. Engin önnur reikistjarna í sólkerfi okkar hefur slíkan lofthjúp, ekki heldur fylgihnöttur hennar, tunglið. Þess vegna þurftu geimfarar að klæðast sérstökum búningum þegar þeir fóru til tunglsins. Hér á jörðinni þarf enga geimbúninga því að gufuhvolf jarðar inniheldur í réttum hlutföllum þær lofttegundir sem eru algerlega ómissandi öllu lífi. Einar sér eru sumar þessara lofttegunda banvænar, en þar eð þær eru þynntar í réttum hlutföllum í andrúmsloftinu getum við andað þeim að okkur án þess að bíða tjón.

12. (a) Á hverju sjáum við að lofthjúpur jarðar inniheldur nákvæmlega rétt magn súrefnis? (b) Hvaða mikilvægu hlutverki gegnir köfnunarefni?

12 Ein þessara lofttegunda er súrefni sem nemur 21 hundraðshluta andrúmsloftsins. Án þess myndu menn og skepnur deyja á fáeinum mínútum. Of mikið súrefni væri einnig hættulegt. Hvers vegna? Vegna þess að hreint súrefni verkar eins og eitur ef við öndum því of lengi að okkur. Auk þess verða efni eldfimari eftir því sem meira súrefni er í umhverfinu. Væri of mikið súrefni í andrúmsloftinu myndu efni, sem á annað borð geta brunnið, verða afar eldfim. Eldar myndu auðveldlega gjósa upp og erfitt yrði að hemja þá. En svo viturlega er málum háttað að súrefnið er þynnt með öðrum lofttegundum, einkum köfnunarefni sem nemur 78 hundraðshlutum andrúmsloftsins. En köfnunarefnið er miklu meira en bara þynningarefni. Þrumuveður valda milljónum eldinga dag hvern víða um heim. Þegar elding leiftrar gengur köfnunarefni í samband við súrefni og regn skolar síðan efnasamböndunum með sér til jarðar. Þar nota jurtir þau sem næringarefni.

13. Hvaða tilgangi þjónar hæfilegt magn koldíoxíðs í hringrás lífsins?

13 Innan við einn af hundraði andrúmsloftsins er koldíoxíð. Hvaða gagn gerir það í svona litlu magni? Ef það vantaði myndu jurtir deyja. Þetta litla magn nægir plöntunum sem taka það til sín og gefa frá sér súrefni í staðinn. Menn og skepnur anda að sér súrefninu og anda frá sér koldíoxíði. Ef koldíoxíð í andrúmsloftinu ykist til muna yrði það mönnum og skepnum skaðlegt. Ef það minnkaði myndi það ekki nægja gróðrinum. Segja má með sanni að komið hafi verið af stað stórkostlegri, nákvæmri og sjálfvirkri hringrás til viðhalds gróðri, dýrum og mönnum!

14, 15. Hvers konar verndarhjúp myndar gufuhvolfið?

14 Gufuhvolfið gerir meira en að viðhalda lífi. Það er líka verndarhjúpur jarðar. Í um það bil 25 kílómetra hæð frá jörðu er að finna þunnt ósonlag sem síar burt skaðlega geisla frá sólinni. Væri ósonlaginu ekki fyrir að fara gæti slík geislun eytt öllu lífi á jörðinni. Lofthjúpurinn skýlir jörðinni líka fyrir loftsteinahríð. Loftsteinar brenna upp á leið sinni gegnum lofthjúpinn og ná sjaldan alla leið til jarðar. Við sjáum þá sem „stjörnuhrap.“ Án þessa verndarhjúps myndu milljónir loftsteina falla um alla jörð og valda verulegu tjóni á lífi og eignum.

15 Auk þess að vera verndarhjúpur hindrar gufuhvolfið að varmi jarðarinnar sleppi út í fimbulkulda himingeimsins. Og aðdráttarafl jarðar kemur í veg fyrir að sjálfur lofthjúpurinn hverfi út í buskann. Aðdráttaraflið er hæfilega sterkt til þessa, en ekki svo sterkt að okkur verði erfitt um hreyfingar.

16. Hvað má segja um fegurð himinsins?

16 Lofthjúpurinn er ekki aðeins nauðsynlegur lífinu; hann er einnig með því fegursta sem fyrir augu ber. Hið margbreytilega útlit hans og fegurð vekur aðdáun okkar og undrun. Jörðin er umvafin síbreytilegum svipmyndum hans, tignarlegum og litríkum. Á austurhimni boðar gullinn roði komu nýs dags og á vesturhimni kveður dagurinn með ægifögru litaspili, allt frá bleiku, rauðgulu og skærrauðu niður í purpurarautt. Skjannahvít bólstraský boða fagran vor- eða sumardag, og skýjahjúpur, þéttur eins og ullarreyfi, segir okkur að vetur sé í nánd. Á heiðskírri nóttu, þegar dimmt er, blika stjörnurnar á himninum. Tunglskinsnótt býr yfir fegurð sem er engu öðru lík.

17. Hvað sagði greinarhöfundur einn um himininn, og hverjum ber heiðurinn?

17 Já, himinninn og gufuhvolf jarðar er undravert á allan hátt! Það er eins og sagði í bandaríska læknatímaritinu The New England Journal of Medicine: „Þegar allt er talið er himinninn stórkostlegt meistaraverk. Hann gegnir hlutverki sínu jafnóskeikull og allt annað í náttúrunni. Ég efast um að nokkur maður gæti fundið leið til að betrumbæta hann, nema þá hvað helst að flytja til ský hér og þar þegar svo stendur á.“⁠6 Þessi orð minna á það sem maður einn gerði sér ljóst fyrir þúsundum ára þegar honum var bent á slík undur — að þau væru „dásemdir hans, sem fullkominn er að vísdómi.“ Hann átti að sjálfsögðu við hann „er skóp himininn og þandi hann út.“ — Jobsbók 37:16; Jesaja 42:5.

Vatn — alveg einstakt efni

18. Nefndu nokkra af óvenjulegum eiginleikum vatns.

18 Á jörðinni er gríðarlegur forði af vatni — efni sem allt líf er háð. Meira er til af því en nokkru öðru efni. Af hinum mörgu gagnlegu eiginleikum þess má nefna að það kemur fyrir sem lofttegund (vatnsgufa), vökvi (vatn) og fast efni (ís) innan hitastigsmarka jarðar. Menn, skepnur og jurtir þurfa þúsundir hráefna til vaxtar og viðhalds og þau þarf að flytja um lífveruna uppleyst í vökva, svo sem blóði eða æðasafa jurtanna. Vatn er kjörið til slíkra nota vegna þess að fleiri efni leysast upp í því en nokkrum öðrum vökva. Án vatns væri næringarnám óhugsandi því að lifandi verur eru háðar vatni til að leysa upp efnin sem þær nærast á.

19. Hvað er óvenjulegt við vatn þegar það nálgast frostmark, og hvers vegna er það þýðingarmikið?

19 Vatn sýnir af sér óvenjulega eiginleika þegar það kólnar og frýs. Þegar vatnið í höfum og stöðuvötnum kólnar þyngist það og sekkur. Um leið þrýstir það hlýrra og léttara vatninu upp á yfirborðið. En þegar vatnið nálgast frostmark snýst þetta við! Nú léttist það aftur og stígur upp á yfirborðið þannig að ísinn flýtur á yfirborðinu þegar vatnið frýs. Ísinn verkar eins og einangrun og kemur í veg fyrir að vatnið undir honum frjósi. Þannig verndar hann vatna- og sjávarlíf. Ef vatn hefði ekki þennan sérstæða eiginleika myndi sífellt meiri ís sökkva til botns á hverjum vetri, þar sem sólargeislarnir næðu ekki að bræða hann sumarið eftir. Innan tíðar yrði stór hluti áa, vatna og jafnvel úthafa botnfrosinn. Jörðin myndi breytast í klakastykki þar sem líf ætti erfitt uppdráttar.

20. Hvernig verður regnið til og hvernig ber stærð regndropanna vott um hugulsama hönnun?

20 Það er einnig athyglisvert með hvaða hætti landsvæði fjarri ám, vötnum og höfum fá vökvun. Á sekúndu hverri breytir varmi sólarinnar þúsundum milljóna lítra af vatni í gufu. Vatnsgufan er léttari en andrúmsloftið, stígur og myndar ský á himninum. Vindar og loftstraumar bera skýin með sér og við rétt skilyrði fellur vatnið í þeim til jarðar sem regn. En regndroparnir ná einungis takmarkaðri stærð áður en þeir falla til jarðar. Hvernig færi ef regndropar yrðu risastórir? Það hefði hrikalegar afleiðingar! Sem betur fer eru regndroparnir oftast hæfilega stórir og falla svo mjúklega til jarðar að þeir skemma sjaldan eitt einasta grasstrá eða fíngerðasta blóm. Vatnið ber sannarlega merki um snilligáfu og hugulsemi skapara síns! — Sálmur 104:1, 10-14; Prédikarinn 1:7.

‚Hin frjósama jörð‘

21, 22. Hvaða viska birtist í gerð ‚hinnar frjósömu jarðar‘?

21 Einn af riturum Biblíunnar kemst svo að orði að Guð hafi „grundvallað hina frjósömu jörð af speki sinni.“ (Jeremía 10:12, New World Translation) Og þessi ‚frjósama jörð‘ — jarðvegurinn á reikistjörnunni okkar — er athyglisverð. Jarðvegur er gæddur eiginleikum sem eru nauðsynlegir til að jurtir geti vaxið, og öll gerð hans ber vott um mikla speki. Með hjálp ljóssins binda jurtirnar saman næringarefni og vatn úr jarðveginum og koldíoxíð úr loftinu til að mynda fæðu. — Samanber Esekíel 34:26, 27.

22 Í jarðveginum eru frumefni sem eru nauðsynleg mönnum og dýrum. En gróðurinn þarf fyrst að breyta þeim í það form sem líkaminn getur nýtt sér. Örsmáar lífverur í moldinni hjálpa til við það. Í aðeins einni matskeið af mold er að finna milljónir slíkra lífvera! Þær eru af ótalmörgum gerðum en vinna allar að því að breyta dauðum gróðurleifum og öðru úrgangsefni í nothæfa mynd, eða að losa um jarðveginn til að loft og vatn geti síast gegnum hann. Sumir gerlar breyta köfnunarefni í sambönd sem plöntur þurfa til vaxtar. Ormar og ýmis skordýr bera stöðugt með sér jarðvegsagnir neðan að upp í efsta lag moldarinnar og gera hana frjórri.

23. Hvaða endurnýjunarhæfni býr jarðvegurinn yfir?

23 Að vísu hefur misnotkun og fleira orðið þess valdandi að jarðvegurinn er sums staðar orðinn skemmdur. Það tjón þarf þó ekki að vera varanlegt því að jörðin er gædd undraverðri endurnýjunarhæfni. Þessi hæfni sýnir sig glöggt þar sem land hefur eyðst af völdum elda eða eldgosa. Með tíð og tíma klæðir gróðurinn slík svæði aftur sínum fagra búningi. Og land, þar sem mengun hefur spillt gróðri, nær sér aftur þegar mengun eru settar skorður, jafnvel land sem orðið var að gróðurlausri auðn. Skapari jarðarinnar ætlar einnig að gera það sem enn meiri þýðingu hefur. Hann mun ráðast að rótum þess vanda, sem misnotkun jarðarinnar er, með því að „eyða þeim, sem jörðina eyða,“ og varðveita hana sem eilíft heimili mannsins eins og hann skapaði hana til. — Opinberunarbókin 11:18; Jesaja 45:18.

Ekki bara tilviljun

24. Hvaða spurninga getum við spurt okkur um blinda tilviljun?

24 Með hliðsjón af því sem á undan er farið skalt þú íhuga eftirfarandi: Var það blind tilviljun sem staðsetti jörðina í nákvæmlega réttri fjarlægð frá sólinni sem sér henni fyrir birtu og yl? Er það tóm tilviljun að jörðin skuli ganga um sól á réttum hraða, snúast um möndul sinn á 24 stundum og hafa hæfilegan möndulhalla? Var það tilviljun sem myndaði kringum jörðina verndar- og lofthjúp með réttri blöndu lofttegunda til að líf gæti þrifist? Var það tilviljun sem bjó jörðina vatni og jarðvegi til að matjurtir gætu vaxið? Var það tilviljun sem myndaði svona margbreytilega, gómsæta og litríka ávexti, grænmeti og aðrar matjurtir? Er það tilviljun að allt er svo fagurt hvort sem við lítum á himininn og fjöllin, vötnin og árnar, blómin, jurtirnar, trén eða svo margt annað dásamlegt sem lifir?

25. Að hvaða niðurstöðu hafa margir komist um okkar einstæðu reikistjörnu?

25 Margir hafa komist að þeirri niðurstöðu að blind tilviljun hafi tæplega getað búið allt þetta til. Þeir sjá alls staðar umhverfis sig greinileg merki um hugulsemi, hugvit og tilgang. Þeim finnst ekki nema rétt að þeir, þiggjendur alls þessa, ‚óttist Guð og gefi honum dýrð,‘ vegna þess að hann er sá „sem gjört hefur himininn og jörðina og hafið og uppsprettur vatnanna.“ — Opinberunarbókin 14:7.

[Spurningar]

[Rammi á blaðsíðu 129]

Jörðin er „undur alheimsins, eini hnöttur sinnar tegundar.“

[Rammi á blaðsíðu 135]

Án súrefnis myndu menn og skepnur deyja á fáeinum mínútum.

[Rammi á blaðsíðu 137]

‚Himinninn er stórkostlegt meistaraverk.‘

[Rammi á blaðsíðu 137]

Án vatns gætu dýr og jurtir ekki tekið til sín þá næringu sem þau þarfnast.

[Rammi á blaðsíðu 141]

Jörðin ber greinileg merki yfirvegaðrar hönnunar.

[Heilsíðumynd á blaðsíðu 128]

[Mynd á blaðsíðu 131]

Brautarhraði jarðar heldur henni í nákvæmlega réttri fjarlægð frá sólu.

[Mynd á blaðsíðu 136]

Næturhiminninn getur búið yfir fegurð sem er engu öðru lík.

[Mynd á blaðsíðu 138]

Vatn sekkur þegar það kólnar en stígur aftur rétt ofan við frostmark. Þessi eiginleiki kemur í veg fyrir að jörðin verði frosin auðn.

[Mynd á blaðsíðu 139]

Ljós sólarinnar, koldíoxíð úr loftinu og vatn og efni úr jarðveginum sameinast á undraverðan hátt til að mynda matjurtir.

[Mynd á blaðsíðu 140]

Jörðin er gædd furðulegum endurnýjunarkrafti. Nýjar jurtir skjóta upp kollinum á ótrúlega skömmum tíma.

[Mynd á blaðsíðu 141]

Var það blind tilviljun sem færði okkur svo margar dásemdir sem við njótum?

[Mynd/Skyringarmynd á blaðsíðu 130]

Úr því að sérhvert hús verður að eiga sér hönnuð og byggingameistara, hvað þá um jörðina sem er margfalt flóknari og betur búin?

[Skyringarmynd]

(Sjá uppraðaðan texta í bókinni)

Tigulsteinn

Þakgluggi

Þakskífur

Þakrenna

Niðurfall

Múrhúð

Böttungur

Timburklæðning

A, A-10

13, 1

12, 12

E, E, E, E

[Myndir/Skyringarmynd á blaðsíðu 132, 133]

Möndulhalli jarðar veldur ánægjulegum árstíðaskiptum.

Sumar

Haust

Vetur

Vor

[Skyringarmynd]

(Sjá uppraðaðan texta í bókinni)

23,5° möndulhalli

[Mynd/Skyringarmynd á blaðsíðu 134]

Sumar lofttegundirnar myndu vera banvænar einar sér, en blandaðar eins og í andrúmslofti jarðar viðhalda þær lífi.

Samsetning lofthjúpsins

78% köfnunarefni

21% súrefni

1% aðrar lofttegundir

[Skyringarmynd]

(Sjá uppraðaðan texta í bókinni)

Lofthjúpurinn skýlir jörðinni fyrir skaðlegri geislun og loftsteinum.