Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Gat lífið kviknað af tilviljun?

Gat lífið kviknað af tilviljun?

4. kafli

Gat lífið kviknað af tilviljun?

1. (a) Hvað viðurkenndi Charles Darwin í sambandi við uppruna lífsins? (b) Hvaða hugmynd hefur þróunarkenning nútímans endurvakið?

 ÞEGAR Charles Darwin setti fram þróunarkenningu sína viðurkenndi hann að ‚skaparinn hefði kannski upphaflega blásið lífi í fáeinar tegundir eða eina.‘⁠1 En þróunarkenning nútímans minnist sjaldan einu orði á skapara. Þess í stað hefur verið endurlífguð í nokkuð breyttri mynd kenningin um sjálfkviknun lífs sem áður var með öllu hafnað.

2. (a) Hvernig var sannað að hugmyndir manna fyrr á öldum um sjálfkviknun lífs voru rangar? (b) Hverju ganga þróunarsinnar út frá sem gefnum hlut þótt þeir viðurkenni að sjálfkviknun lífs þekkist ekki núna?

2 Hægt er að rekja trú á sjálfkviknun lífs margar aldir aftur í tímann. Á 17. öld aðhylltust jafnvel virtir vísindamenn þá kenningu, þeirra á meðal Francis Bacon og William Harvey. Á 19. öld var ekki annað að sjá en að Louis Pasteur og fleiri vísindamenn hefðu greitt kenningunni banahögg, er þeir sönnuðu með tilraunum að líf getur aðeins kviknað af lífi sem fyrir er. Af illri nauðsyn verður þróunarkenningin þó að ganga út frá því að endur fyrir löngu hafi smásæjar lífverur með einhverjum hætti kviknað sjálfkrafa af lífvana efni.

Nýjar hugmyndir um sjálfkviknun lífs

3, 4. (a) Hvernig hefur uppruna lífsins verið lýst í stórum dráttum? (b) Hverju halda þróunarfræðingar fram þrátt fyrir að mjög ólíklegt sé að lífið hafi kviknað af tilviljun?

3 Bókin The Selfish Gene eftir Richard Dawkins gerir grein fyrir einni kenningu um uppruna lífsins sem nú á fylgi að fagna meðal þróunarfræðinga. Hann getur sér þess til að andrúmsloft jarðar hafi í upphafi verið samsett úr koldíoxíði, metani, ammoníaki og vatnsgufu. Fyrir áhrif sólarorkunnar, og ef til vill einnig eldinga og eldgosa, hafi þessi einföldu efnasambönd klofnað og síðan myndað amínósýrur. Smám saman hafi safnast fyrir í hafinu fjölbreytt úrval þessara amínósýra er hafi svo tengst og myndað efnasambönd lík prótínum. Að síðustu á hafið að hafa orðið að eins konar „lífrænni súpu“ þótt lífvana væri.

4 Síðan gerðist það, að sögn Dawkins, að „alveg einstæð sameind myndaðist fyrir tilviljun“ — sameind sem var fær um að búa til eftirmynd af sjálfri sér. Þótt hann viðurkenni að slík tilviljun sé með afbrigðum ólíkleg heldur hann því fram að hún hljóti eigi að síður að hafa átt sér stað. Líkar sameindir hlupu saman í kökk og loks, aftur fyrir afar ólíklega tilviljun, vöfðu þær um sig hlífðarkápu úr öðrum prótínsameindum, frumuhimnu. Kenningin fullyrðir að þannig hafi fyrsta lifandi fruman myndað sjálfa sig.⁠2

5. Hvernig er venjulega tekið á spurningunni um uppruna lífsins í bókum og blöðum, en hvað segir einn vísindamaður samt?

5 Þegar hér er komið sögu rennur kannski upp fyrir lesandanum hvers vegna Dawkins segir í formálsorðum bókarinnar: „Þessi bók skyldi lesin nánast sem væri hún vísindaskáldsaga.“⁠3 En þeir sem hafa gluggað í rit af þessu tagi þekkja af reynslunni að efnismeðhöndlun hans er ekkert einsdæmi. Flestar bækur um þróunarkenninguna hlaupa lauslega yfir það firnamikla vandamál að skýra hvernig líf varð til af lífvana efni. Prófessor William Thorpe við dýrafræðideild Cambridge-háskóla sagði því við hóp starfsbræðra sinna: „Allar hinar lauslegu vangaveltur og umræður um það hvernig lífið hafi kviknað, sem birst hafa á prenti síðastliðin 10 til 15 ár, hafa verið allt of einfeldnislegar og léttvægar. Lausnin virðist jafnfjarlæg núna og hún hefur alltaf verið.“⁠4

6. Hvað leiðir aukin þekking í ljós?

6 Hin stóraukna þekking síðustu ára hefur einungis dýpkað hyldýpið milli lífvana efnis og lifandi vera. Jafnvel elstu, þekktu einfrumungarnir hafa reynst óskiljanlega flóknir. „Líffræðinni er sá vandi á höndum að finna einfalt upphaf,“ segja stjarnfræðingarnir Fred Hoyle og Chandra Wickramasinghe. „Steingerðar leifar fornra lífsforma, sem fundist hafa í jarðlögunum, gefa ekki til kynna einfalt upphaf . . . þannig að þróunarkenninguna vantar almennilega undirstöðu.“⁠5 Og því meir sem þekking manna vex, þeim mun örðugara reynist að skýra hvernig örverurnar, sem eru svo ótrúlega flóknar að gerð, hafi getað myndast af tilviljun.

7. Hver eru sögð vera meginskrefin fram til uppruna lífsins?

7 Frá sjónarhóli þróunarkenningarinnar eru meginskrefin fram til uppruna lífsins þessi: (1) Frumandrúmsloft með réttri efnasamsetningu og (2) nógu sterk lífræn súpa í höfunum með ‚einföldum‘ sameindum sem eru forsenda lífs. (3) Frá þeim komu prótín og núkleótíð (flókin efnasambönd) sem (4) bundust og fengu um sig frumuhimnu, og að síðustu (5) þróuðu þau með sér erfðalykil og byrjuðu að gera eftirmyndir af sjálfum sér. Eru þessi skref í samræmi við þekktar staðreyndir?

Frumandrúmsloftið

8. Hvað tókst ekki í frægri tilraun Stanleys Millers og hefur ekki tekist enn?

8 Árið 1953 hleypti Stanley Miller rafneista gegnum „andrúmsloft“ vetnis, metans, ammoníaks og vatnsgufu. Við það mynduðust sumar af þeim mörgu amínósýrum sem til eru og prótínin eru gerð úr. Hann náði þó fram aðeins 4 af þeim 20 amínósýrum sem eru undirstaða lífs. Meira en þrem áratugum síðar hefur vísindamönnum enn ekki tekist að mynda allar þessar 20 amínósýrur við skilyrði sem hægt er að telja líkleg.

9, 10. (a) Hvernig halda menn að frumandrúmsloft jarðar hafi hugsanlega verið samsett? (b) Frammi fyrir hvaða valkreppu stendur þróunarkenningin og hvað er vitað um frumandrúmsloft jarðar?

9 Miller gaf sér þá forsendu að frumandrúmsloft jarðar hafi verið líkt að samsetningu og það sem hann hafði í tilraunaflösku sinni. Hvers vegna? Hann og samstarfsmaður hans sögðu síðar: „Nýmyndun efna, sem skipta máli í líffræði, á sér aðeins stað við afoxandi skilyrði [með engu óbundnu súrefni í umhverfinu.]“⁠6 Aðrir þróunarfræðingar leiða hins vegar getum að því að súrefni hafi verið í andrúmsloftinu. Hitching lýsir þessum ógöngum þróunarkenningarinnar þannig: „Ef súrefni hefði verið í andrúmsloftinu hefði fyrsta amínósýran aldrei orðið til; án súrefnis hefði hún eyðst fyrir áhrif geimgeisla.“⁠7

10 Sannleikurinn er sá að sérhver tilraun til að setja upp líkan af frumandrúmslofti jarðar hlýtur að byggjast á hreinum getgátum. Enginn veit með vissu hvernig það var samsett.

Hefði myndast „lífræn súpa“?

11. (a) Hvers vegna er ósennilegt að „lífræn súpa“ hafi safnast upp í hafinu? (b) Hvernig gat Miller bjargað þeim fáeinu amínósýrum sem mynduðust?

11 Hve líklegt er að amínósýrurnar, sem ætlað er að hafi myndast í andrúmsloftinu, hafi svifið niður og myndað „lífræna súpu“ í hafinu? Það er alls ekki líklegt. Sama orkan og hefði klofið einföld efnasambönd andrúmsloftsins hefði á enn skemmri tíma sundrað hverjum þeim flóknu amínósýrum sem myndast hefðu. Þegar Miller gerði tilraun sína með rafneistann sem hann lét fara í gegnum sérstakt „andrúmsloft“ þurfti hann reyndar að forða amínósýrunum fjórum, sem hann fékk fram, af því svæði sem rafneistinn hljóp um. Ef hann hefði látið þær eiga sig þar hefði neistinn sundrað þeim á ný.

12. Hvað hefði orðið um amínósýrurnar, jafnvel þótt sumar þeirra hefðu náð að komast í hafið?

12 En gefum okkur um stund að amínósýrurnar hafi með einhverjum hætti náð að hverfa niður í hafið þar sem þeim var skýlt fyrir útfjólubláum geislum í andrúmsloftinu. Hvað hefði þá gerst? Hitching segir: „Undir vatnsyfirborðinu hefði ekki verið nægileg orka til að valda frekari efnahvörfum; vatn hamlar í öllum tilvikum vexti flóknari sameinda.“⁠8

13. Hvað yrðu amínósýrur í vatni að gera ef þær ættu að mynda prótín, en hvaða önnur hætta myndi þá blasa þar við þeim?

13 Þegar amínósýrurnar eru loks komnar í vatnið verða þær sem sagt að komast upp úr því aftur til að geta myndað stærri sameindir og þróast upp í prótín er gætu nýst við myndun lífs. En um leið og þær eru komnar upp úr vatninu eru þær aftur orðnar berskjaldaðar fyrir útfjólubláa ljósinu sem eyðir þeim! „Með öðrum orðum,“ segir Hitching, „eru hinar fræðilegu líkur á því að ná jafnvel þessu fyrsta og tiltölulega auðvelda stigi í þróun lífsins [að mynda amínósýrur] hverfandi litlar.“⁠9

14. Hver er ein torráðnasta gátan sem þróunarfræðingar standa frammi fyrir?

14 Þótt almennt sé staðhæft að lífið hafi kviknað af sjálfu sér í höfunum er vatn ekki til þess fallið að stuðla að þeim efnabreytingum sem til þarf. Efnafræðingurinn Richard Dickerson skýrir það nánar: „Það er þess vegna vandséð hvernig fjölliðun [efnahvarf þar sem smásameindir tengjast saman í stórsameind] hefði getað átt sér stað í frumhafinu, því að vatn stuðlar frekar að fjölliðusundrun en fjölliðun.“⁠10 Lífefnafræðingurinn George Wald tekur undir þetta sjónarmið og segir: „Sjálfkrafa sundrun er langtum sennilegri og gengur þar af leiðandi langtum hraðar en sjálfkrafa nýmyndun.“ Það þýðir að engin lífræn súpa hefði safnast fyrir í höfunum! Wald álítur þetta „langtorráðnustu gátuna sem við [þróunarfræðingar] stöndum frammi fyrir.“⁠11

15, 16. Hvaða vandkvæði eru á því að mynda lífsnauðsynleg prótín af amínósýrunum í hinni ímynduðu súpu?

15 En það er önnur torráðin gáta sem blasir við þróunarkenningunni. Til eru liðlega 100 amínósýrur. Af þeim þarf aðeins 20 í þau prótín sem er að finna í lífverum. Auk þess eru þær til í tveim gerðum eða myndbrigðum, nefnd hægri- og vinstrihandarmyndbrigði. Ef þær mynduðust af handahófi í lífrænu súpunni sem kenningin gerir ráð fyrir, eru allar líkur á að þær skiptust til helminga í hægri- og vinstrihandarmyndbrigði. Engin ástæða er þekkt fyrir því að önnur gerðin skuli hafa verið tekin fram yfir hina við myndun lifandi vera. En allar hinar 20 amínósýrur, sem prótín lifandi vera eru gerð úr, eru vinstrihandarmyndbrigði!

16 Hvernig gat það atvikast að aðeins þær tegundir, sem þörf var á, skyldu sameinast handahófskennt í frumsúpunni? Eðlisfræðingurinn J. D. Bernal segir: „Það verður að viðurkennast að þetta . . . er enn þá eitthvert vandskýrðasta atriðið varðandi formgerð lífsins.“ Að síðustu segir hann: „Vera má að við getum aldrei skýrt það.“⁠12

Líkurnar á sjálfmyndun prótína

17. Hvaða samlíking sýnir hversu mikill vandinn er?

17 Hverjar eru líkurnar á að réttar amínósýrur hafi tengst og myndað prótínsameind? Því má lýsa með dæmi. Hugsum okkur að þú hafir fyrir framan þig hrúgu af baunum. Þetta eru rúmlega 100 mismunandi baunategundir og skiptast til helminga í hvítar og rauðar. Þeim hefur verið blandað rækilega saman. Hvað heldurðu að þú myndir fá ef þú styngir skóflu í hrúguna? Þú yrðir að fá einungis rauðar baunir — alls engar hvítar — til að hafa í höndunum það sem svarar til byggingareininga prótínsameindar! Og í skóflunni hjá þér mega aðeins vera 20 tegundir rauðra bauna, og hver þarf að vera á fyrirfram ákveðnum stað í skóflunni. Þótt tækist að uppfylla allar þessar kröfur nema eina yrði það í heimi prótínanna þess valdandi að prótínið yrði með öllu ónothæft. Heldurðu að þér myndi takast að fá rétta blöndu og rétta röð í skófluna ef þú hrærðir nógu lengi í ímynduðu hrúgunni okkar og styngir skóflunni nógu oft í hana? Nei. Hvernig hefði það þá getað gerst í hinni ímynduðu lífrænu súpu?

18. Hversu raunhæft er að gera ráð fyrir að einföld prótínsameind hafi myndast af tilviljun?

18 Prótínin, sem lifandi verur þurfa, hafa mjög flókna sameindabyggingu. Hve líklegt er að jafnvel einföld prótínsameind hafi myndast af tilviljun í lífrænni súpu? Þróunarfræðingar viðurkenna að líkurnar séu aðeins einn á móti 10113 (1 með 113 núllum á eftir). En séu líkurnar á að atburður gerist einn á móti 1050 líta stærðfræðingar svo á að hann gerist aldrei. Það gefur nokkra hugmynd um hversu ólíklegt er að prótínsameind myndist af tilviljun, að talan 10113 er hærri en áætlaður heildarfjöldi frumeinda í alheiminum!

19. Hverjar eru líkurnar á að þau ensím, sem lifandi fruma þarf, hafi myndast af tilviljun?

19 Sum prótín eru notuð sem byggingarefni en önnur sem ensím. Hin síðarnefndu eru lífhvatar sem hraða efnahvörfum inni í frumunni. Án þeirra myndi fruman deyja. Frumunni duga ekki aðeins fáein ensím til að geta starfað, heldur þarf hún 2000 prótín til þeirra nota. Hvaða líkur eru á að fá þau öll fram af tilviljun? Þær eru einn á móti 1040.000! „Svo fáránlega litlar líkur að það myndi ekki einu sinni gerast jafnvel þótt allur alheimurinn væri lífræn súpa,“ staðhæfir Fred Hoyle og bætir svo við: „Ef annaðhvort ríkjandi skoðun samfélagsins eða vísindamenntun hefur ekki gert mann hlutdrægan þeirri sannfæringu að lífið hafi kviknað [af sjálfu sér] á jörðinni, þá gengur þetta einfalda reikningsdæmi af hugmyndinni steindauðri.“⁠13

20. Hvers vegna gerir himnan, sem fruman þarf að umlykja sig með, vandamálið enn erfiðara?

20 En líkurnar eru í rauninni langtum minni en þessi ‚fáránlega‘ tala gefur til kynna. Fruman þarf að vera umlukin himnu. Þessi himna er gerð úr prótín-, sykur- og fitusameindum og er ákaflega flókin að gerð. Þróunarfræðingurinn Leslie Orgel segir um hana: „Nútímafrumuhimnur hafa sérhæfðar rásir og dælur sem stýra inn- og útstreymi næringarefna, úrgangsefna, málmjóna og fleiru. Þessar sérhæfðu rásir nota mjög sérvirk prótín, sameindir sem óhugsandi er að hafi verið til þegar í upphafi þróunar lífsins.“⁠14

Hinn einstæði erfðalykill

21. Hvaða líkur eru á því að þau histón, sem DNA þarf, hafi myndast af tilviljun?

21 Núkleótíðin — kjarnsýrurnar RNA og DNA — eru margfalt vandgerðari en nokkuð af því sem á undan er nefnt. Í kjarnsýrusameindinni DNA eru fimm histón, en þau eru talin eiga þátt í að stýra starfsemi genanna. Líkurnar á að einfaldasta histónið hafi myndast af tilviljun eru sagðar vera einn á móti 20100 — önnur firnastór tala „hærri en heildarfjöldi allra frumeinda í öllum stjörnum og vetrarbrautum sem sýnilegar eru með stærstu stjörnusjónaukum.“⁠15

22. (a) Hvernig er hin gamla ráðgáta um ‚hænuna og eggið‘ tengd prótínum og DNA? (b) Hvaða lausn stingur einn þróunarfræðingur upp á og er hún trúverðug?

22 Mesti vandi þróunarkenningarinnar er þó sá að skýra tilurð erfðalykilsins í heild sinni — en hann er forsenda þess að frumur geti fjölgað sér. Gamla ráðgátan um ‚hænuna eða eggið‘ skýtur upp kollinum í sambandi við prótínin og DNA. Hitching segir: „Prótínmyndun er háð DNA, en DNA getur ekki myndast án þess að prótín séu til fyrir.“⁠16 Menn sitja því uppi með þversögnina sem Dickerson kastar fram: „Hvort kom á undan,“ prótínið eða kjarnsýran? Hann staðhæfir: „Svarið hlýtur að vera að þau hafi þróast hlið við hlið.“⁠17 Hann er í reynd að segja að ‚hænan‘ og ‚eggið‘ hljóti að hafa þróast samtímis og hvorugt hafi komið af hinu. Hljómar það trúlega? Rithöfundur, sem skrifar um vísindi, segir: „Uppruni erfðalykilsins er heilmikil ráðgáta, líkt og spurningin um hænuna og eggið, og er enn með öllu óskýranlegur.“⁠18

23. Hvað segja aðrir vísindamenn um gangvirki erfðavísanna?

23 Dickerson lætur þessi athyglisverðu orð falla: „Þróun erfðagangvirkisins er skref sem á sér ekkert tilraunastofulíkan, og þess vegna er hægt að koma fram með endalausar getgátur, án þess að láta óþægilegar staðreyndir þvælast fyrir sér.“⁠19 En eru það góð, vísindaleg vinnubrögð að sópa svona léttilega til hliðar skriðuföllum ‚óþægilegra staðreynda‘? Leslie Orgel kallar tilvist erfðalykilsins ‚óskiljanlegasta atriði ráðgátunnar um uppruna lífsins.‘⁠20 Og Francis Crick segir: „Enda þótt erfðalykilinn sé nánast alls staðar að finna er það samspil, sem hefur þurft til að mynda hann, langtum flóknara en svo að það hafi getað átt sér stað í einu höggi.“⁠21

24. Hvað má segja um náttúruval og fyrstu frumuna sem gat fjölgað sér?

24 Þróunarkenningin reynir að sneiða hjá því að hið ómögulega þurfi að hafa gerst „í einu höggi,“ með því að halda fram að náttúruval hafi getað unnið verk sitt hægt og hægt. En án erfðalykils til að hefja tímgun frumunnar er enginn efniviður fyrir náttúruval til að vinna úr.

Hin undraverða ljóstillífun

25. Hvaða furðulegu ferli gerir þróunarkenningin ráð fyrir að einföld fruma hafi fundið upp á?

25 Nú verður ný hindrun á vegi þróunarkenningarinnar. Einhvers staðar á þróunarbraut sinni þurfti hin frumstæða fruma að finna upp nokkuð sem olli byltingu fyrir allt líf á jörðinni — ljóstillífun. Vísindin hafa enn ekki fullan skilning á þessu efnaferli blaðgrænunnar í jurtunum sem tekur til sín koldíoxíð og gefur frá sér súrefni. Eins og líffræðingurinn F. W. Went orðar það er þetta „ferli sem enginn hefur enn getað líkt eftir á tilraunastofu.“⁠22 Þó er álitið að örsmá, einföld fruma hafi af tilviljun fundið það upp.

26. Hvaða byltingarkenndri breytingu olli þetta ferli?

26 Ljóstillífunin breytti andrúmslofti, sem innihélt ekkert óbundið súrefni, í andrúmsloft þar sem ein sameind af hverjum fimm er súrefnissameind. Með því höfðu skapast skilyrði til dýralífs og ósonlag, er verndað gæti allt líf fyrir skaðlegum áhrifum útfjólublárrar geislunar, gat myndast. Er hægt að skýra þetta merkilega samspil aðstæðna sem hreina tilviljun?

Búa vitsmunir að baki?

27. Hvað hafa sumir þróunarfræðingar neyðst til að gera í ljósi sönnunargagnanna?

27 Þegar þróunarfræðingar standa frammi fyrir því hve óendanlega litlar líkur eru á að lifandi fruma hafi myndast af tilviljun, finna þeir sig sumir tilneydda að draga í land. Þannig fer fyrir höfundum bókarinnar Evolution From Space (Hoyle og Wickramasinghe). Þeir segja: „Þessar spurningar eru margfalt flóknari en svo að tjáð verði í tölum.“ Þeir bæta við: „Það er engin leið . . . að leysa vandann einfaldlega með stærri og betri lífrænni súpu, eins og við sjálfir vonuðumst til fyrir einu eða tveim árum. Tölurnar, sem við reiknuðum út hér að framan, eru í meginatriðum jafnfráleitar fyrir súpu sem nær yfir allan alheiminn og súpu sem aðeins nær yfir jörðina.“⁠23

28. (a) Hver er trúlega skýringin á því að margir neita að viðurkenna að vitsmunir búi að baki tilurð lífsins? (b) Hvað segja þróunarfræðingar, sem trúa á nauðsyn æðri vitsmuna, að ekki geti búið að baki þeim vitsmunum?

28 Höfundarnir viðurkenna að vitsmunir hljóti með einum eða öðrum hætti að hafa staðið á bak við tilurð lífsins, og halda síðan áfram: „Slík kenning er í rauninni svo augljós að undrun sætir að hún skuli ekki almennt viðurkennd sem sjálfsögð. Orsakirnar fyrir því eru fremur sálfræðilegar en vísindalegar.“⁠24 Því mætti draga þá ályktun að ‚sálfræðileg‘ meinloka sé eina trúverðuga skýringin á því að flestir þróunarfræðingar ríghalda í þá hugmynd að lífið hafi kviknað af tilviljun, og hafna sérhverri hugmynd um „hönnun eða tilgang eða stýringu“⁠25 eins og Dawkins orðar það. Jafnvel Hoyle og Wickramasinghe, sem viðurkenna að vitsmunir hljóti að búa að baki tilurð lífsins, segjast ekki trúa að persónubundinn skapari eigi þar hlut að máli.⁠26 Þeir eru þeirrar skoðunar að vitsmunir hljóti að búa að baki en geta ekki fallist á að það sé skapari. Sýnist þér ekki vera nokkur mótsögn í því?

Er hugmyndin vísindaleg?

29. Lýstu rannsóknaraðferð vísindanna.

29 Til að hægt sé að líta á sjálfkviknun lífs sem vísindalega staðreynd þarf að vera hægt að sýna fram á hana með rannsóknaraðferð vísindanna. Þeirri aðferð hefur verið lýst svo: Athugað er hvað á sér stað, sett fram líkleg kenning byggð á þeim athugunum, kenningin prófuð með frekari athugunum og með tilraunum og niðurstöðurnar skoðaðar til að sjá hvort spárnar, sem byggðar eru á kenningunni, hafi ræst.

30. Hvernig hefur tekist til þegar menn hafa reynt að beita rannsóknaraðferð vísindanna á kenninguna um sjálfkviknun lífs?

30 Þegar reynt hefur verið að beita rannsóknaraðferð vísindanna í þessu máli hefur ekki verið mögulegt að fylgjast með sjálfkviknun lífs. Þess finnast engin merki að hún eigi sér stað núna, og að sjálfsögðu var enginn maður viðstaddur við athuganir á þeim tíma sem þróunarsinnar segja að lífið hafi verið að kvikna. Engin kenning um sjálfkviknun lífs hefur verið sannreynd með athugunum. Enginn hefur getað líkt eftir henni á tilraunastofu. Spár, byggðar á kenningunni, hafa ekki ræst. Eru það heiðarleg vísindi að stilla slíkri kenningu upp á stall sem staðreynd, þegar svo greinilega hefur ekki tekist að beita rannsóknaraðferð vísindanna til að sannprófa hana?

31. Hvaða mótsagnakennd viðhorf varðandi sjálfkviknun lífs birtast í orðum eins vísindamanns?

31 Aftur á móti eru yfrið nóg sönnunargögn fyrir þeirri ályktun að líf geti ekki kviknað sjálfkrafa af lífvana efni. Prófessor Wald við Harvard-háskóla viðurkennir: „Manni nægir að íhuga hve sjálfkviknun lífs er umfangsmikið mál til að gera sér grein fyrir að hún er óhugsandi.“ En hverju trúir þessi málsvari þróunarkenningarinnar sjálfur? Hann svarar: „Þó erum við til — að minni hyggju sem afkvæmi sjálfkviknunar lífs.“⁠27 Hljómar þetta sem hlutlæg vísindi?

32. Hvernig viðurkenna jafnvel þróunarfræðingar að slík rökfærsla sé óvísindaleg?

32 Breski líffræðingurinn Joseph Henry Woodger kallar slíka rökfærslu „hreina og beina kreddufestu — menn fullyrða að það sem þeir vilja trúa hafi í raun gerst.“⁠28 Hvernig hafa vísindamenn getað sætt sig við svona augljóst brot á rannsóknaraðferð vísindanna? Hinn kunni þróunarfræðingur Loren Eiseley viðurkennir: „Eftir að hafa álasað guðfræðingnum fyrir það að treysta á goðsögur og kraftaverk eru vísindin sjálf komin í þá óöfundsverðu stöðu að þurfa að búa sér til sína eigin goðafræði: þá ætlun að það sem ekki hefur með langvarandi striti tekist að sýna fram á, hafi í raun gerst langt aftur í grárri forneskju.“⁠29

33. Hvaða ályktun hljótum við að draga af því sem á undan er farið varðandi sjálfkviknun lífs og notkun á rannsóknaraðferð vísindanna?

33 Miðað við sönnunargögnin tilheyrir kenningin um sjálfkviknun lífs greinilega betur heimi vísindaskáldskapar en vísindalegra staðreynda. Margir af málsvörum kenningarinnar hafa bersýnilega á því sviði sagt skilið við rannsóknaraðferð vísindanna til að geta trúað því sem þeir vilja. Þrátt fyrir að líkurnar á því að lífið hafi kviknað af tilviljun séu óendanlega litlar ræður ferðinni þrákelknisleg kreddufesta en ekki sú varfærni sem rannsóknaraðferð vísindanna hvetur að jafnaði til.

Ekki viðurkennd af öllum vísindamönnum

34. (a) Hvernig sýnir eðlisfræðingur nokkur að hann hafi opinn huga? (b) Hvernig lýsir hann þróunarkenningunni og hvað segir hann um marga vísindamenn?

34 Ekki hafa þó allir vísindamenn útilokað hinn möguleikann. Til dæmis segir eðlisfræðingurinn H. S. Lipson, og hefur þá í huga hve margt mælir gegn sjálfkviknun lífs: „Eina viðunandi skýringin er sköpun. Ég veit að þetta orð er bannorð meðal eðlisfræðinga, og er það reyndar einnig hjá mér, en við megum ekki hafna kenningu sem okkur geðjast ekki að ef tilraunaniðurstöður styðja hana.“ Hann segir enn fremur að eftir útkomu bókar Darwins, Uppruna tegundanna, hafi „þróunarkenningin í vissum skilningi orðið vísindaleg trúarbrögð; nánast allir vísindamenn hafa viðurkennt hana og margir eru fúsir til að ‚hagræða‘ niðurstöðum athugana sinna svo að þær samrýmist henni.“⁠30 Þetta eru sorgleg orð en sönn.

35. (a) Hvaða hugmynd hefur prófessor mátt með sársauka láta fyrir róða? (b) Hvernig lýsir hann líkunum á því að lífið hafi þróast af tilviljun?

35 Chandra Wickramasinghe, prófessor við University College í Cardiff, segir: „Allt frá því að ég hóf vísindanám mitt var ég rækilega heilaþveginn til að trúa því að vísindin geti ekki samrýmst beinni sköpun af nokkru tagi. Ég hef orðið að losa mig við þá skoðun og það hefur ekki verið þrautalaust. Mér finnst þessi aðstaða afar óþægileg, þetta hugarástand sem ég er nú í. En það finnst engin rökrétt leið út úr því. . . . Að lífið hafi kviknað af efnafræðilegri hendingu á jörðinni er ámóta líklegt og að leita að ákveðnu sandkorni á öllum sjávarströndum allra reikistjarna alheimsins — og finna það.“ Með öðrum orðum er algerlega óhugsandi að lífið hafi getað kviknað af tilviljunarkenndum efnatengingum. Wickramasinghe segir því að lokum: „Við getum ekki skilið hina nákvæmu uppröðun þeirra efna, sem lífið byggist á, með nokkru öðru móti en því að reikna með sköpun á alheimsmælikvarða.“⁠31

36. Hvað segir Robert Jastrow?

36 Eins og stjarnfræðingurinn Robert Jastrow segir: „Vísindamenn hafa enga sönnun fyrir því að lífið sé ekki afleiðing sköpunarathafnar.“⁠32

37. Hvaða spurningu er varpað fram um þróunarkenninguna og hvar er leitað svars við henni?

37 En jafnvel þótt við gæfum okkur þá forsendu að hin fyrsta lifandi fruma hafi á einhvern hátt orðið til af tilviljun, er þá eitthvað sem ber því vitni að hún hafi þróast upp í allar þær lífverur sem til hafa verið á jörðinni? Steingervingarnir svara því. Í næsta kafla verður fjallað um hvað steingervingaskráin segir.

[Spurningar]

[Rammi á blaðsíðu 44]

„Prótínmyndun er háð DNA en DNA getur ekki myndast án þess að prótínin séu til fyrir.“

[Rammi á blaðsíðu 45]

„Uppruni erfðalykilsins er heilmikil ráðgáta, líkt og spurningin um hænuna og eggið, og er enn með öllu óskýranlegur.“

[Rammi á blaðsíðu 46]

Erfðalykillinn: ‚Óskiljanlegasta atriði ráðgátunnar um uppruna lífsins.‘

[Rammi á blaðsíðu 47]

Ljóstillífun er efnaferli þar sem jurtir virkja sólarorku til að framleiða næringu og súrefni úr koldíoxíði, vatni og steinefnum. Getur einföld fruma hafa fundið það allt upp?

[Rammi á blaðsíðu 50]

Sumir vísindamenn segja í reynd: ‚Það hljóta að búa vitsmunir að baki en það er ekki hægt að fallast á að það sé skapari.‘

[Rammi á blaðsíðu 53]

Vísindamaður játar: „Eina viðunandi skýringin er sköpun.“

[Rammi á blaðsíðu 53]

Jastrow: „Vísindamenn hafa enga sönnun fyrir því að lífið sé ekki afleiðing sköpunar- athafnar.“

[Rammi/Mynd á blaðsíðu 48, 49]

Fruman - hið ótrúlega furðuverk

Lifandi fruma er gífurlega flókið fyrirbæri. Líffræðingurinn Francis Crick freistar þess að lýsa starfsemi hennar með einföldu móti, en viðurkennir að lokum að hann komist aðeins nokkuð áleiðis, „því að hún er svo flókin að lesandinn ætti ekki að reyna að bjástra við öll smáatriðin.“⁠a

Þau fyrirmæli, sem geymd eru í kjarnsýru frumunnar (DNA), „myndu fylla þúsund 600-blaðsíðna bækur ef þau væru skrifuð út,“ segir tímaritið National Geographic. „Hver fruma er heill heimur myndaður úr allt að 200 billjónum örlítilla atómþyrpinga sem nefndar eru sameindir. . . . Væru ‚þræðir‘ hinna 46 litninga mannsins lagðir enda við enda myndu þeir vera yfir 1,8 metrar á lengd. Þó er kjarninn, sem geymir þá, aðeins um 0,01 millimetri í þvermál.“⁠b

Tímaritið Newsweek notar eftirfarandi samlíkingu til að gefa hugmynd um starfsemi frumunnar: „Sérhver af þessum 100 billjónum frumna starfar líkt og víggirt borg. Orkuver framleiða orku fyrir hana. Verksmiðjur framleiða prótín sem eru lífsnauðsynlegur varningur. Flókin flutningakerfi flytja ákveðin efnasambönd frá einum stað til annars innan frumunnar eða út úr henni. Verðir við borgarmúrinn hafa eftirlit með innflutningi og útflutningi og gefa umheiminum gætur til að fylgjast með hvort einhver hætta steðji að. Agaðar líffræðilegar hersveitir eru í viðbragðsstöðu til að ráðast á innrásaraðila. Frá miðlægri stjórnarbyggingu halda genin uppi lögum og reglu.“⁠c

Þegar þróunarkenningu nútímans var fyrst slegið fram gerðu vísindamenn sér sáralitla grein fyrir hve ótrúlega flókin fruman er. Á síðunni á móti er stuttlega lýst fáeinum líffærum dæmigerðrar frumu — öllum pakkað í böggul sem er aðeins 0,025 millimetrar í þvermál.

FRUMUHIMNA

Himna sem stýrir því hvað fer inn í frumuna og út.

RÍBÓSÓM

Korn þar sem prótín eru sett saman úr amínósýrum.

KJARNI

Stjórnstöð frumunnar sem stýrir allri starfsemi hennar. Umlukin tvöfaldri himnu.

LITNINGAR

Þeir geyma kjarnsýru (DNA) frumunnar, vinnuteikningar hennar.

KJARNAKORN

Samsetningarverksmiðjur fyrir ríbósóm.

FRYMISNET

Himnukerfi sem geymir eða flytur prótín mynduð af ríbósómum sem fest eru við það (sum ríbósóm fljóta laus um frumuna).

HVATBERI

Framleiðslumiðstöðvar fyrir ATP, sameindir sem eru orkugjafi frumunnar.

GOLGIKERFI

Hópur flatra himnusekkja sem pakka inn og dreifa prótínum er fruman myndar.

DEILIKORN

Þau liggja nálægt kjarnanum og gegna hlutverki við frumuskiptingu.

[Mynd]

Urðu þínar 100.000.000.000.000 frumur til af tilviljun?

[Rammi á blaðsíðu 52]

Þróunarfræðingar fyrr og nú tjá sig um uppruna lífsins

„Sú tilgáta að lífið hafi þróast af ólífrænu efni er, enn sem komið er, trúaratriði.“ — Stærðfræðingurinn J. W. N. Sullivand

„Líkurnar á að lífið hafi orðið til af tilviljun eru sambærilegar við líkurnar á að til verði orðabók í fullri lengd við sprengingu í prentsmiðju.“ — Líffræðingurinn Edwin Conklin⁠e

„Manni nægir að íhuga hve sjálfkviknun lífs er umfangsmikið mál til að gera sér grein fyrir að hún er óhugsandi.“ — Lífefnafræðingurinn George Wald⁠f

„Heiðarlegur maður, sem býr yfir allri þeirri þekkingu sem við höfum aðgang að núna, getur ekki annað sagt en að þessa stundina líkist tilurð lífsins í vissum skilningi einna helst kraftaverki.“ — Líffræðingurinn Francis Crick⁠g

„Ef annaðhvort ríkjandi skoðun samfélagsins eða vísindamenntun hefur ekki gert mann hlutdrægan þeirri sannfæringu að lífið hafi kviknað [af sjálfu sér] á jörðinni, þá gengur þetta einfalda reikningsdæmi [stærðfræðilegar líkur gegn sjálfkviknun lífs] af hugmyndinni steindauðri.“ — Stjarnfræðingarnir Fred Hoyle og N. C. Wickramasinghe⁠h

[Rammi/Mynd á blaðsíðu 47]

Menn og skepnur anda súrefni að sér og koldíoxíði frá sér. Jurtir taka koldíoxíð til sín og gefa súrefni frá sér.

[Skyringarmynd]

(Sjá uppraðaðan texta í bókinni)

Ljós

Súrefni

Vatnsgufa

Koldíoxíð

[Mynd á blaðsíðu 40]

Ekkert stórhýsi getur staðið án undirstöðu. „Þróunarkenninguna vantar almennilega undirstöðu,“ segja tveir vísindamenn.

[Mynd á blaðsíðu 42]

Allar rauðar, allar af réttri tegund, allar á sínum fyrirfram ákveðna stað — af tilviljun?

[Mynd á blaðsíðu 43]

Amínósýrur eru til í tveim myndbrigðum sem eru spegilmynd hvort annars líkt og hendur. Í lifandi verum eru notuð aðeins vinstrihandarmyndbrigði. Hvers vegna? „Vera má að við getum aldrei skýrt það.“

[Myndir á blaðsíðu 45]

Hvort varð á undan?