Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hinn mikilfenglegi alheimur

Hinn mikilfenglegi alheimur

9. kafli

Hinn mikilfenglegi alheimur

1, 2. (a) Hvernig má lýsa stjörnuhimninum? (b) Hvaða spurninga spyrja hugsandi menn og hvernig geta svörin við þeim hjálpað okkur?

 UM ÞÚSUNDIR ára hafa menn horft með lotningu á stjörnum prýdda himinhvelfinguna. Á heiðskírri nóttu tindra stjörnurnar eins og gimsteinar á dimmu himinhvolfinu. Þegar tunglið skín baðar það jörðina fegurð sem er engu öðru lík.

2 Þeir sem hugsa um þessa mikilfenglegu sjón velta oft fyrir sér: ‚Hvað er eiginlega þarna úti í geimnum? Hvernig er það skipulagt? Getum við fundið út hvernig það varð til?‘ Sé hægt að svara þessum spurningum er það vafalaust skref í áttina til svars við því hvers vegna jörðin, mennirnir og annað líf á henni varð til og hvað framtíðin kann að bera í skauti sér.

3. Hvað hefur aukin þekking á alheiminum meðal annars haft í för með sér?

3 Á öldum áður héldu menn að alheimurinn væri ekki meira en þær nokkur þúsund stjörnur sem hægt er að sjá með berum augum. En nú ráða vísindamenn yfir öflugum tækjum til að kanna himingeiminn og vita að alheimurinn er verulega miklu meira. Það sem menn hafa nú þegar séð er meira að segja langtum stórkostlegra en nokkur hafði gert sér í hugarlund. Mannshugurinn er nánast agndofa yfir því hve mikið og margbrotið það er. Það sem maðurinn er að uppgötva núna um alheiminn hefur „gert hann höggdofa,“ eins og tímaritið National Geographic komst að orði.⁠1

Óravíddir geimsins

4. Hvað uppgötvaðist á þriðja áratug þessarar aldar?

4 Þegar stjarnfræðingar síðustu alda rýndu út í himingeiminn með þeim sjónaukum sem þá voru til, komu þeir auga á allmarga þokukennda, ógreinilega bletti. Þeir gerðu ráð fyrir að þetta væru tiltölulega nálægar gasþokur. En þegar stærri og öflugri sjónaukar voru teknir í notkun á þriðja tug þessarar aldar kom í ljós að „himinþokurnar“ voru margfalt merkilegri og stórfenglegri fyrirbæri: stjörnuþokur eða vetrarbrautir.

5. (a) Hvað er stjörnuþoka eða vetrarbraut? (b) Hvernig er vetrarbrautin okkar samsett?

5 Vetrarbraut er firnastór stjörnuþyrping, ásamt gasþokum og öðru efni sem snýst um miðlægan kjarna. Vetrarbrautir hafa stundum verið kallaðar alheimseyjar af því að hver þeirra er eins og alheimur út af fyrir sig. Við getum til dæmis litið á vetrarbrautina sem okkar eigið sólkerfi, það er að segja sólin, jörðin og aðrar reikistjörnur ásamt tunglum sínum, tilheyrir. Sólkerfið er þó aðeins agnarsmátt brot sjálfrar vetrarbrautarinnar, því að í henni eru yfir 100 milljarðar stjarna! Sumir vísindamenn telja stjörnurnar vera að minnsta kosti 200 til 400 milljarða talsins. Og einn ritstjóri, sem skrifar um vísindi, segir jafnvel: „Í vetrarbrautinni gætu verið allt að fimm til tíu billjónir stjarna.“⁠2

6. Hvert er þvermál vetrarbrautarinnar okkar?

6 Þvermál vetrarbrautarinnar er slíkt að það tekur ljósið, sem fer 299.792 kílómetra á sekúndu, 100.000 ár að komast frá einum jaðri hennar til annars! Hve löng vegalengd er það? Ljósið fer um 9,5 billjónir kílómetra á ári, og með því að margfalda þá tölu með 100.000 fáum við svarið: Vetrarbrautin okkar er um 950 þúsund billjónir (950.000.000.000.000.000) kílómetra í þvermál! Meðalfjarlægð milli stjarnanna í vetrarbrautinni er sögð vera um sex ljósár, það er að segja um 57 billjónir kílómetra.

7. Hve margar eru vetrarbrautir alheimsins taldar vera?

7 Mannshuganum er næstum ómögulegt að bera skyn á slíkar stærðir og vegalengdir. Þó er vetrarbrautin okkar aðeins agnarsmátt brot af því sem er að finna í útgeimnum! Hann er enn stærri í sniðum því að svo margar vetrarbrautir eru nú fundnar að þær eru sagðar vera „jafnalgengar og grösin á engi.“⁠3 Um tíu milljarðar vetrarbrauta eru í hinum sýnilega alheimi! Margar fleiri liggja utan færis þeirra sjónauka sem nú eru til. Sumir stjarnfræðingar áætla að í alheiminum séu hundrað milljarðar vetrarbrauta! Og í hverri vetrarbraut geta verið hundruð milljarða stjarna!

Vetrarbrautaþyrpingar

8. Hvernig er vetrarbrautunum raðað niður?

8 Vetrarbrautunum er þó ekki tvístrað handahófskennt um geiminn. Í flestum tilvikum er þeim raðað saman í greinilegar þyrpingar, ekki ósvipað og vínber í klasa. Þúsundir þessara vetrarbrautaþyrpinga hafa verið greindar og ljósmyndaðar.

9. Hvað er að finna í þeirri þyrpingu sem vetrarbrautin okkar tilheyrir?

9 Sumar þyrpinganna eru tiltölulega smáar. Vetrarbrautin okkar er til dæmis hluti af þyrpingu sem í eru um það bil tuttugu vetrarbrautir. Einn „nágranni“ okkar í þyrpingunni er sýnilegur með berum augum á heiðskírri nóttu. Það er Andrómeduþokan sem er þyrillaga líkt og vetrarbrautin okkar.

10. (a) Hve margar vetrarbrautir kunna að vera í einni þyrpingu? (b) Hver er fjarlægðin milli vetrarbrautanna og milli vetrarbrautaþyrpinganna?

10 Í öðrum vetrarbrautaþyrpingum geta verið margir tugir, jafnvel hundruð eða þúsundir vetrarbrauta. Í einni slíkri þyrpingu eru taldar vera um það bil 10.000 vetrarbrautir! Vegalengdin milli vetrarbrautanna innan hverrar þyrpingar getur verið af stærðargráðunni milljón ljósár. Vegalengdin milli vetrarbrautaþyrpinganna getur hins vegar verið hundrað sinnum meiri. Og ýmislegt bendir til að vetrarbrautaþyrpingunum sé jafnvel raðað í „risaþyrpingar“ líkt og vínberjaklasar á vínviði. Hvílík stærð og hvílíkt skipulag!

Áþekkt skipulag

11. Hvaða áþekka reglu er að finna í sólkerfinu?

11 Ef við lítum okkur nær og skoðum sólkerfið okkar finnum við annað dæmi um frábært skipulag. Sólin, sem er meðalstór stjarna, er sá „kjarni“ sem jörðin og aðrar reikistjörnur með tunglum sínum ganga um eftir hárnákvæmum sporbaugum. Ár eftir ár ganga þær um sól eftir sporbaugi sínum með slíkri nákvæmni að stjarnfræðingar geta með öruggri vissu sagt fyrir stöðu þeirra hvenær sem er í framtíðinni.

12. Hvernig eru atómin uppbyggð?

12 Sé litið á hið nánast óendanlega smáa — atómin — er sömu reglufestuna að finna. Atómið er nákvæm undrasmíð, líkt og agnarsmátt sólkerfi. Í atóminu er kjarni, samsettur úr ögnum sem kallast róteindir og nifteindir, og á braut um kjarnann eru agnarsmáar rafeindir. Allt efni er gert úr þessum öreindum. Það sem gerir eitt frumefni ólíkt öðru er fjöldi róteinda og nifteinda í kjarnanum og fjöldi og niðurskipan rafeindanna sem snúast um hann. Þetta er snilldargóð regla, því að raða má frumefnunum, sem allt efni er gert úr, í ákveðna röð byggða á fjölda þeirra öreinda sem hvert efni er samsett úr.

Hvað stendur á bak við þessa reglu?

13. Hvað einkennir allan alheiminn?

13 Eins og komið hefur fram er stærð alheimsins og niðurskipan slík að við hljótum að fyllast djúpri lotningu. Allt frá hinu óendanlega stóra til hins óendanlega smáa, allt frá vetrarbrautaþyrpingum til atóma, einkennist alheimurinn af framúrskarandi skipulagi. Tímaritið Discover segir: „Við gerðum okkur grein fyrir reglunni fullir undrunar, og heimsfræðingar okkar og eðlisfræðingar uppgötva stöðugt nýja og undraverða þætti reglunnar. . . . Við vorum vanir að segja að þetta væri kraftaverk, og við leyfum okkur enn að tala um alheiminn sem undur.“⁠4 Í orðinu sem stjarnfræðingar nota almennt um alheiminn — „kosmos“ — felst raunar viðurkenning á hinni skipulegu gerð hans. Orðabók skilgreinir orðið þannig: „Alheimurinn sem skipulegt og samstillt kerfi.“⁠5

14. Hvaða orð lét fyrrum geimfari falla?

14 Geimfarinn John Glenn hafði einu sinni orð á „reglufestu alls alheimsins umhverfis okkur,“ og sagði að vetrarbrautirnar gengju allar „eftir ákveðinni sporbraut hver miðað við aðra.“ Hann spurði því: „Getur þetta hafa gerst af hreinni tilviljun? Fóru einhver reköld allt í einu af sjálfsdáðum að búa sér til þessa sporbauga af hreinni slysni?“ Hann bætti við: „Ég get ekki trúað því. . . . Eitthvert afl kom þessu öllu á braut og heldur því þar.“⁠6

15. Um hvað vitnar reglan og nákvæmnin í alheiminum?

15 Svo nákvæmt er skipulag alheimsins að maðurinn getur mælt tímann eftir gangi himintungla. Á bak við nákvæman tímamæli stendur auðvitað rökföst hugsun og sköpunargáfa. Aðeins vitsmunavera getur ráðið yfir rökhugsun og sköpunargáfu. Hvað þá um hið gífurlega flókna og gangvissa sigurverk alheimsins? Ber það ekki líka merki sköpunargáfu og rökhugsunar — já, gáfna og vitsmuna? Og höfum við nokkra ástæðu til að ætla að vitsmunir geti verið ópersónubundnir?

16. Hvaða ályktun hljótum við að draga um alheiminn?

16 Við komumst ekki fram hjá þeirri staðreynd að frábært skipulag kallar á frábæran skipuleggjanda. Lífsreynsla okkar gefur okkur ekkert tilefni til að ætla að skipulag eða regla af einhverju tagi verði til af slysni eða hendingu. Þvert á móti segir öll okkar lífsreynsla að finnum við einhvers staðar skipulag og reglu þá hafi einhver komið henni á. Hver einasta vél, tölva eða bygging, já, jafnvel blað og blýantur, á sér skipulagsgáfu að baki. Rökrétt er því að álykta að á bak við hið margfalt flóknara og mikilfenglega skipulag alheimsins hljóti líka að standa skipuleggjandi eða hönnuður.

Lög útheimta löggjafa

17. Hvað er hægt að segja um lög og alheiminn?

17 Allur alheimurinn, allt frá atómunum til vetrarbrautanna, stjórnast enn fremur af ákveðnum náttúrulögmálum. Ákveðin lögmál gilda til dæmis um varma, ljós, hljóð og þyngdarafl. Eðlisfræðingurinn Stephen W. Hawking segir: „Því meir sem við rannsökum alheiminn, þeim mun betur sjáum við að hann er alls ekki handahófskenndur heldur lýtur vissum, vel skilgreindum lögmálum sem ráða hvert á sínu sviði. Það virðist mjög rökrétt að ætla að til séu einhver gagntæk frumatriði, þannig að öll lögmálin séu hluti einhvers stærra lögmáls.“⁠7

18. Að hvaða niðurstöðu komst eldflaugasérfræðingur?

18 Eldflaugasérfræðingurinn Wernher von Braun gekk skrefi lengra er hann sagði: „Náttúrulögmál alheimsins eru svo nákvæm að við eigum ekki í nokkrum erfiðleikum með að smíða tunglfar, og getum tímasett flugtímann upp á brot úr sekúndu. Einhver hlýtur að hafa sett þessi lögmál.“⁠8 Vísindamenn, sem vilja senda geimfar á braut um jörð eða til tunglsins, verða að vinna í samræmi við slík náttúrulögmál ef þeim á að takast ætlunarverk sitt.

19. Hver er forsendan fyrir tilvist laga?

19 Þegar lög mannlegs samfélags eru annars vegar viðurkennum við að þau séu verk einhvers löggjafa. Stöðvunarskyldumerki á gatnamótum standa að sjálfsögðu þar vegna þess að maður eða hópur manna setti reglur um þau. Hvað þá um hin altæku lög sem stjórna alheiminum? Þessi afburðasnjöllu lög bera að sjálfsögðu vitni um óviðjafnanlega gáfaðan löggjafa.

Skipuleggjandinn og löggjafinn

20. Hvað segir í tímaritinu Science News?

20 Eftir að hafa getið um öll hin sérstöku skilyrði sem bera svo greinilega vitni um lög og reglur alheimsins sagði tímaritið Science News: „Heimsfræðingum verður órótt þegar þeir ígrunda þetta, vegna þess að erfitt er að ímynda sér að svona sérstök og nákvæm skilyrði hafi getað orðið til af hendingu. Ein leið til að taka á spurningunni er sú að segja að allt hafi verið þaulhugsað og eigna það guðlegri forsjá.“⁠9

21. Hvaða ályktun eru sumir fúsir til að horfast í augu við?

21 Margir, þeirra á meðal fjöldi vísindamanna, eru ekki fúsir til þess. Aðrir eru þó fúsir til að viðurkenna það sem öll sönnunargögnin segja okkur í sífellu — að vitsmunir búi að baki. Þeir viðurkenna að gríðarleg stærð alheimsins, nákvæmni hans og lögmál geti ekki verið tilkomin af tómri tilviljun. Allt hlýtur þetta að vera verk æðri vitsmunaveru.

22. Hvað sagði biblíuritari um skapara alheimsins?

22 Þetta er sama niðurstaða og einn biblíuritaranna færði í letur. Hann sagði um himininn: „Hefjið upp augu yðar til hæða og litist um: Hver hefir skapað stjörnurnar? Hann, sem leiðir út her þeirra með tölu og kallar þær allar með nafni.“ Þessi „Hann“ er sagður vera „sá er skóp himininn og þandi hann út.“ — Jesaja 40:26; 42:5.

Orkulindin

23, 24. Hvernig getur efni orðið til?

23 Allt efni lýtur náttúrulögmálunum. En hvaðan kom efnið? Carl Sagan segir í bókinni Cosmos: „Við upphaf alheimsins voru hvorki til vetrarbrautir, stjörnur né reikistjörnur, hvorki líf né menning.“ Umbreytinguna frá því stigi til þess alheims, sem nú er, kallar hann „mikilfenglegustu umbreytingu efnis og orku sem okkur hefur hlotnast að fá nasasjón af.“⁠10

24 Þetta er lykillinn að því að skilja hvernig alheimurinn hefur getað orðið til: Það hlýtur að hafa átt sér stað með umbreytingu orku og efnis. Þetta samband efnis og orku birtist í hinni frægu formúlu Einsteins, E=mc2 (orkan er sama sem massinn sinnum ljóshraðinn í öðru veldi). Ein ályktun, sem draga má af þessari formúlu, er sú að hægt sé að umbreyta orku í efni, alveg eins og umbreyta má efni í gífurlega orku. Atómsprengjan færði sönnur á hið síðarnefnda. Stjarneðlisfræðingurinn Josip Kleczek segir því: „Vera má að unnt sé að skapa flestar, ef ekki allar, öreindir með því að breyta orku í efni.“⁠11

25. Hver er uppspretta þeirrar miklu orku sem þurfti til að skapa alheiminn?

25 Vísindaleg rök hníga þannig að því að sá sem réði yfir ótæmandi orkulind hefði í höndunum hráefni til að skapa úr efnisheiminn. Biblíuritarinn, sem áður var vitnað í, bendir á að þessi orkulind sé lifandi, vitiborin persóna og segir: „Sökum mikilleiks kraftar hans og af því að hann er voldugur að afli verður einskis þeirra [himintunglanna] vant.“ Frá sjónarmiði Biblíunnar var þessi ótakmarkaða orkulind á bak við það sem orð 1. Mósebókar 1:1 lýsa: „Í upphafi skapaði Guð himin og jörð.“

Upphafið var ekki skipulagslaust

26. Hvað viðurkenna vísindamenn yfirleitt núna?

26 Vísindamenn viðurkenna almennt núna að alheimurinn hafi átt sér upphaf. Ein alþekkt kenning, sem notuð er til að reyna að lýsa upphafinu, er stundum kölluð frumsprengingarkenningin eða sprengingin mikla. „Nánast allar umræður nýverið um uppruna alheimsins byggjast á frumsprengingarkenningunni,“ segir Francis Crick.⁠12 Robert Jastrow kallar þessa „sprengingu“ „sjálft sköpunaraugnablikið.“⁠13 Stjarneðlisfræðingurinn John Gribbin viðurkennir þó í tímaritinu New Scientist að enda þótt vísindamenn „segist langflestir geta lýst í smáatriðum“ því sem gerðist eftir þetta „augnablik,“ sé það „hulin ráðgáta“ hvað hafi komið þessu „sköpunaraugnabliki“ til leiðar. Svo bætir hann við: „Kannski var það Guð þegar allt kemur til alls.“⁠14

27. Hvers vegna er frumsprengingarkenningin ófullnægjandi?

27 Fæstir vísindamenn eru þó fúsir til að eigna Guði þetta „augnablik.“ Sprengingin er því oftast sögð hafa verið stjórnlaus, líkt og kjarnorkusprenging. En hefur þess konar sprenging í för með sér betri reglu og skipulag? Verða til fagrar byggingar, gatnakerfi og umferðarmerki þegar sprengjum er varpað á borgir í stríði? Nei, það gagnstæða gerist. Slíkar sprengjur valda tjóni, ringulreið, glundroða og eyðileggingu. Og þegar sprengjan er kjarnorkusprengja er ringulreiðin alger eins og raunin varð í japönsku borgunum Híróshíma og Nagasakí árið 1945.

28. Hvað hljótum við að álykta viðvíkjandi þeim miklu öflum sem voru að verki við sköpun alheimsins?

28 „Sprenging“ ein saman getur ekki hafa skapað hinn mikilfenglega alheim með allri sinni undraverðu reglu og lögmálum. Aðeins voldugur skipuleggjandi og löggjafi gat stýrt þeim miklu öflum, sem að verki voru, þannig að til yrði framúrskarandi skipulag og reglufesta. Bæði vísindagögn og heilbrigð skynsemi styðja því eindregið yfirlýsingu Biblíunnar: „Himnarnir segja frá Guðs dýrð, og festingin kunngjörir verkin hans handa.“ — Sálmur 19:2.

29. Hvað hafa athuganir vísindanna og sjálfra okkar staðfest?

29 Biblían tekur þannig á spurningum sem þróunarkenningin hefur ekki getað gefið nein skýr svör við. Í stað þess að láta okkur fálma í myrkri um það hvað standi á bak við tilurð allra hluta segir Biblían frá því með einföldum, auðskildum hætti. Hún staðfestir niðurstöðu bæði vísindanna og sjálfra okkar þess efnis að ekkert verði til af sjálfu sér. Þótt við höfum ekki verið viðstödd í eigin persónu þegar alheimurinn var myndaður er ljóst að hann hlýtur að eiga sér stórsnjallan byggingameistara eins og Biblían raunar segir: „Sérhvert hús er gjört af einhverjum, en Guð er sá, sem allt hefur gjört.“ — Hebreabréfið 3:4.

[Spurningar]

[Rammi á blaðsíðu 115]

Það sem maðurinn er að uppgötva núna um alheiminn hefur „gert hann höggdofa.“

[Rammi á blaðsíðu 117]

Í vetrarbrautinni okkar eru yfir 100 milljarðar stjarna.

[Rammi á blaðsíðu 118]

Vetrarbrautir mynda þyrpingar, líkt og vínber í klasa.

[Rammi á blaðsíðu 122]

Vísindamenn „uppgötva stöðugt nýja og undraverða þætti reglunnar.“

[Rammi á blaðsíðu 123]

Frábært skipulag kallar á frábæran skipuleggjanda.

[Rammi á blaðsíðu 123]

Alheimurinn „lýtur vissum, vel skilgreindum lögmálum.“

[Rammi á blaðsíðu 125]

„Erfitt er að ímynda sér að svona sérstök og nákvæm skilyrði hafi getað orðið til af hendingu.“

[Heilsíðumynd á blaðsíðu 114]

[Mynd á blaðsíðu 116]

Dæmigerð þyrilþoka.

[Mynd á blaðsíðu 117]

Sólkerfið okkar (í ferningnum að ofan) er agnarsmátt í samanburði við vetrarbrautina.

[Mynd á blaðsíðu 119]

Andrómeduþokan, sem er lík okkar eigin vetrarbraut, er einungis örsmátt brot þess mikilfenglega alheims sem sumir segja að í séu um 100 milljarðar vetrarbrauta.

[Mynd á blaðsíðu 120, 121]

Reikistjörnur sólkerfisins ganga um sól eftir hárnákvæmum sporbaugum.

Atómin eru ekki ósvipuð dvergsmáum sólkerfum.

[Mynd á blaðsíðu 122]

Það þarf sköpunargáfu til að hanna nákvæmt úr. Hlýtur ekki alheimurinn, með sinni langtum meiri nákvæmni, að eiga sér enn snjallari hönnuð?

[Mynd á blaðsíðu 124]

Taka þarf mið af hreyfingarlögmálum og þyngdarlögmáli til að koma geimfari á braut um jörð eða tungl. Slík lög hljóta að vera frá löggjafa komin.

[Mynd á blaðsíðu 125]

Umferðarlög eiga sér upptök í huga einhvers.

[Mynd á blaðsíðu 126]

Kjarnorkusprengjan sýndi að tengsl eru á milli efnis og orku.

Stuðla sprengingar að betra skipulagi bygginga?

[Mynd á blaðsíðu 127]

„Sérhvert hús er gjört af einhverjum, en Guð er sá, sem allt hefur gjört.“ — Hebreabréfið 3:4.