Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvers vegna leyfir Guð þjáningar?

Hvers vegna leyfir Guð þjáningar?

16. kafli

Hvers vegna leyfir Guð þjáningar?

1. Af hvaða ástæðu efast margir um að til sé skapari?

 HINAR útbreiddu þjáningar í heiminum koma mörgum til að efast um að til sé skapari. Aldalöng grimmd, blóðsúthellingar og hrein og bein mannvonska hefur valdið milljónum saklausra manna miklum kvölum. Og margir spyrja því: ‚Ef til er Guð, hvers vegna leyfir hann þá allt þetta?‘ Við höfum séð að frásögn Biblíunnar af uppruna lífsins kemur best heim og saman við veruleikann. Skyldi Biblían einnig geta skýrt fyrir okkur hvaða ástæðu voldugur skapari gæti haft til að umbera svona miklar þjáningar um svona langan tíma?

2. Hvað segir Biblían um fyrstu mennina og heimili þeirra?

2 Fyrstu kaflar 1. Mósebókar segja forsögu þessa máls. Án hennar verður spurningunni ekki svarað. Þar er sagt frá sköpun heims þar sem engar þjáningar voru. Fyrsti maðurinn og konan voru sett í paradís, fagurt heimili er líktist lystigarði og nefnt var Eden, og þeim var falið ánægjulegt og krefjandi verkefni. Þeim var sagt að ‚yrkja jörðina og gæta hennar.‘ Þeim var einnig falin umsjón með ‚fiskum sjávarins og fuglum loftsins og öllum dýrum sem hrærast á jörðinni.‘ — 1. Mósebók 1:28; 2:15.

3. Hvers konar framtíð gátu Adam og Eva átt í vændum?

3 Þar eð fyrstu mennirnir voru skapaðir fullkomnir á huga og líkama voru þeir gallalausir á allan hátt. Það var því engin ástæða til að þeir yrðu nokkurn tíma veikir, ellihrumir eða dæju. Þeir áttu fyrir sér endalausa framtíð í jarðneskri paradís. — 5. Mósebók 32:4.

4. Hver var tilgangur Guðs með mennina og jörðina?

4 Fyrstu mannlegu hjónunum var enn fremur sagt að ‚vera frjósöm, margfaldast og uppfylla jörðina.‘ Þannig átti hin mannlega fjölskylda að vaxa og færa út mörk paradísar uns hún næði að síðustu um allan hnöttinn. Allt mannkynið átti þannig að vera sameinuð fjölskylda þar sem allir nytu fullkominnar heilsu á jörð sem væri paradís.

Þau urðu að viðurkenna stjórn Guðs

5. Hvers vegna þurftu mennirnir að viðurkenna stjórn Guðs?

5 Til þess að sátt og samlyndi héldist þurftu fyrstu mannlegu hjónin að viðurkenna rétt skaparans til yfirráða yfir manninum. Þau þurftu með öðrum orðum að viðurkenna drottinvald hans. Hvers vegna? Fyrst og fremst vegna þess að það var rétt og sanngjarnt. Sá sem hefur smíðað eitthvað eða búið til hlýtur að hafa rétt til að ráða yfir því að vissu marki. Sú meginregla hefur um aldaraðir endurspeglast í lögum um eignarrétt. Þar að auki þurftu menn að viðurkenna leiðsögn skapara síns af annarri mjög mikilvægri ástæðu: Á sama hátt og þeir gátu ekki haldið lífi án þess að eta, drekka og anda var þeim ekki ásköpuð hæfni til að ráða sjálfum sér farsællega óháð skapara sínum. Mannkynssagan hefur staðfest að Biblían fer með rétt mál er hún segir: „Örlög mannsins eru ekki á hans valdi, né það heldur á valdi gangandi manns að stýra skrefum sínum.“ (Jeremía 10:23) Svo lengi sem menn héldu sér við þær viðmiðunarreglur, sem skaparinn hafði sett þeim, myndu þeir halda áfram að lifa farsælir og hamingjusamir.

6, 7. (a) Hvers konar frelsi gaf Guð mönnunum og hvers vegna? (b) Hvaða slæma ákvörðun tóku fyrstu mennirnir?

6 Mönnum var einnig áskapaður frjáls vilji. Þeim var ekki ætlað að hegða sér eins og vélmenni eða vera knúnir fyrst og fremst af eðlishvöt líkt og dýrin. Þetta frelsi var þó afstætt, ekki algert. Menn urðu að nota það á ábyrgan hátt, innan þess ramma sem lög Guðs settu, lög sem voru öllum fyrir bestu. Taktu eftir hvernig Biblían setur fram þessa meginreglu: „Þér eruð frjálsir menn, hafið ekki frelsið fyrir hjúp yfir vonskuna, breytið heldur sem þjónar Guðs.“ (1. Pétursbréf 2:16) Ef ekki væru lög til að stjórna mannlegum samskiptum myndi ríkja stjórnleysi er væri öllum til tjóns.

7 Afstætt frelsi er því eftirsóknarvert en of mikið frelsi ekki. Sé barni veitt of mikið frelsi getur það leitt til þess að það taki að leika sér úti á fjölfarinni umferðargötu eða leggi höndina beint ofan á heita eldavélarhellu. Takmarkalaust frelsi til allra ákvarðana, án tillits til leiðbeininga skapara okkar, getur leitt til alls kyns vandamála. Þannig fór fyrir fyrstu mannlegu hjónunum. Þau kusu að misnota sér það frelsi sem þeim hafði verið gefið. Þau tóku þá röngu ákvörðun að reyna að verða óháð skapara sínum og þannig „verða eins og Guð.“ Þeim fannst þau geta ákveðið sjálf hvað væri rétt og hvað væri rangt. — 1. Mósebók 3:5.

8. Hvað gerðist þegar Adam og Eva slitu sig undan stjórn Guðs?

8 Þegar fyrstu mennirnir slitu sig frá handleiðslu skapara síns fór fyrir þeim líkt og rafknúinni viftu sem tekin er úr sambandi. Svo lengi sem viftan er tengd veitustraumi snýst hún. Þegar henni er kippt úr sambandi hægir hún smám saman á sér uns hún stöðvast. Þannig fór fyrir Adam og Evu þegar þau slitu sig úr sambandi við skapara sinn, en hjá honum er „uppspretta lífsins.“ (Sálmur 36:10) Úr því að þau kusu að yfirlögðu ráði að gera sig óháð skapara sínum leyfði hann þeim að kynnast til fulls hvað það hafði í för með sér og lét þau sjá um sig sjálf. Eins og meginregla í Biblíunni segir: „Ef þér yfirgefið [Guð], mun hann yfirgefa yður.“ (2. Kroníkubók 15:2) Þegar mennirnir nutu ekki lengur kraftar frá skaparanum sér til viðhalds byrjaði hugur þeirra og líkami smám saman að hrörna. Að síðustu urðu þau ellihrum og dóu. — 1. Mósebók 3:19; 5:5.

9. Hvaða áhrif hefur slæmt val fyrstu mannanna haft á allt mannkynið?

9 Adam og Eva glötuðu fullkomleika sínum um leið og þau kusu að verða óháð skapara sínum. Það gerðist áður en þau eignuðust börn. Afleiðingin varð sú að börnin, sem þau eignuðust síðar, endurspegluðu sama ófullkomleikann sem nú einkenndi foreldra þeirra. Fyrstu mennirnir urðu því eins og gölluð fyrirmynd. Allt sem gert var eftir þeim var líka gallað. Af því leiðir að við erum öll fædd ófullkomin og erfum þá fötlun að veikjast, verða ellihrum og deyja. Þessi ófullkomleiki ásamt aðskilnaði frá skaparanum og lögum hans opnaði flóðgáttir flónsku og forheimskunar. Saga mannkynsins hefur þar af leiðandi verið full af þjáningum, sorg, sjúkleik og dauða. — Sálmur 51:7; Rómverjabréfið 5:12.

10. (a) Hvaða uppreisn átti sér stað í andaheiminum? (b) Hvernig gat slíkt gerst?

10 Er þar með sagt að mennirnir beri einir ábyrgð á að illskan kom í heiminn? Nei, hún er einnig sprottin af öðrum rótum. Mennirnir voru ekki einu vitsmunaverurnar sem Guð skapaði. Áður en þeir urðu til var Guð búinn að skapa ótal andaverur eða engla á himnum. (Jobsbók 38:4, 7) Þeim var líka áskapaður frjáls vilji og gátu valið um hvort þeir vildu fylgja leiðsögn skapara síns eða ekki. Einn þessara engla kaus að láta hugann dvelja við þá löngun að verða óháður Guði. Framasýki hans magnaðist svo upp að hún kom honum til að ögra yfirvaldi Guðs. Hann sagði Evu, konu Adams, að þau gætu brotið lög Guðs og fullvissaði hana: „Vissulega munuð þið ekki deyja!“ (1. Mósebók 3:4; Jakobsbréfið 1:13-15) Með fullyrðingu sinni gaf hann í skyn að þau þyrftu ekki á skapara sínum að halda til að geta notið óslitins lífs og hamingju. Í raun sagði hann að þau myndu bæta hlutskipti sitt og verða eins og Guð ef þau brytu lög hans. Þar með véfengdi hann að lög Guðs væru gild og vakti efasemdir um ágæti stjórnarhátta hans yfir þeim. Í reynd dró hann í efa sjálfan rétt skaparans til að stjórna. Með þessum rangfærslum sínum fékk þessi andavera nafnið Satan sem merkir „andstæðingur,“ og djöfull sem merkir „rógberi.“ Síðastliðin 6000 ár hafa þessi viðhorf Satans haft áhrif á mannkynið og ýtt undir þá stefnu að ‚ríkja eða rústa.‘ — Lúkas 4:2-8; 1. Jóhannesarbréf 5:19; Opinberunarbókin 12:9.

11. Hvers vegna tók Guð uppreisnarseggina ekki strax af lífi?

11 En hvers vegna tók Guð ekki lögbrjótana, bæði menn og andaverur, strax af lífi? Svarið felst í því að komið hafði verið af stað djúpstæðum deilumálum sem snertu alla skynsemigædda sköpun. Eitt þessara deilumála fól í sér spurningar svo sem: Gæti sjálfstæði gagnvart drottinvaldi Guðs einhvern tíma orðið til varanlegs gagns? Hvort væri betra fyrir mannkynið að lúta stjórn Guðs eða sinni eigin? Gætu menn stjórnað þessum heimi farsællega óháðir skapara sínum? Í stuttu máli, höfðu menn einhverja þörf á handleiðslu Guðs? Þessar spurningar kölluðu á svör sem einungis tíminn gat veitt.

Hvers vegna svona lengi?

12. Um hvað hefði mátt saka Guð ef hann hefði gripið snemma inn í?

12 En hvers vegna skyldi Guð hafa gefið þessum málum svona langan tíma áður en hann afgreiddi þau endanlega — um 6000 ár? Hefði ekki verið hægt að útkljá þau með viðunandi hætti fyrir langa löngu? Nei, ef Guð hefði skorist í leikinn fyrir langa löngu hefði einhver getað sakað hann um að gefa mönnum ekki nægan tíma til að þróa með sér hentugt stjórnarfar og nauðsynlega tækni til að tryggja öllum frið og velmegun. Guð vissi að það myndi taka tíma að útkljá deilumálin og í visku sinni gerði hann ráð fyrir nægum tíma til þess.

13, 14. Hvaða afleiðingar hefur sjálfstæði gagnvart Guði haft?

13 Í aldanna rás hefur mannkynið reynt fyrir sér með alls konar stjórnarfari, alls konar þjóðfélagsuppbyggingu og alls konar efnahagskerfum. Að auki hafa menn haft nægan tíma til alls kyns tækniframfara. Þeim hefur meðal annars tekist að beisla kjarnorkuna og komast til tunglsins. En hvaða árangri hefur það skilað? Hefur það byggt upp heim sem færir öllu mannkyni sanna blessun?

14 Því fer víðs fjarri. Ekkert sem menn hafa reynt hefur veitt öllum mönnum sannan frið og hamingju. Að liðnum öllum þessum tíma er ástandið ótryggara en nokkru sinni fyrr. Glæpir, stríð, upplausn heimila, fátækt og hungur herja á hvert landið af öðru. Sjálfri tilveru mannkynsins er ógnað. Kjarnorkuvopn með hinum ægilegasta eyðingarkrafti gætu þurrkað út stærstan hluta mannkyns, ef ekki allt. Þrátt fyrir allt sitt erfiði um þúsundir ára, þrátt fyrir aldalanga reynslu til að byggja á og þrátt fyrir allar sínar tækniframfarir er mannkynið enn að glíma árangurslaust við frumvandamál sín.

15. Hvaða afleiðingar hefur uppreisn mannsins haft fyrir jörðina?

15 Jafnvel sjálf jörðin hefur orðið fyrir skaða. Ágirnd manna og tillitsleysi hefur haft í för með sér eyðingu skóglendis, og við það hafa stór landsvæði breyst í eyðimerkur. Eiturefni og annar úrgangur hafa mengað jarðveg, vatn og andrúmsloft. Lýsing Biblíunnar fyrir 2000 árum á lífinu á jörðinni á enn betur við nú en þá: „Vér vitum, að öll sköpunin stynur líka . . . allt til þessa.“ — Rómverjabréfið 8:22.

Hvað hefur sannast?

16, 17. Hvað hefur sannast með því að láta svo langan tíma líða?

16 Hvað hefur allt það sem gerst hefur á þessum langa tíma sannað? Það að stjórn manna óháð skaparanum er ófullnægjandi. Sýnt hefur verið með óyggjandi hætti fram á að menn eru allsendis ófærir um að stjórna málefnum jarðarinnar svo vel fari án handleiðslu skapara síns. Í Biblíunni er lagt hreinskilnislegt mat á tilraunir manna til að stjórna og mannkynssagan hefur haldið áfram að staðfesta það: „Einn maðurinn drottnar yfir öðrum honum til ógæfu.“ — Prédikarinn 8:9.

17 Viðleitni manna hefur endað með algjörum ósköpum í samanburði við reglu og nákvæmni alheimsins sem stjórnast af lögum skapara síns! Augljóst er að menn þurfa líka að fá slíka stjórn, því að tilraunir þeirra til að spjara sig án hennar hafa haft hrikalegar afleiðingar. Sýnt hefur verið rækilega fram á að við getum ekkert frekar spjarað okkur án handleiðslu Guðs en við getum lifað án lofts, vatns og matar. — Matteus 4:4.

18. Hvernig hefur þessi langi tími til að útkljá deilumálið sett varanlegt fordæmi um alla framtíð?

18 Með því að ætla nægan tíma til að útkljá deilumálin viðvíkjandi stjórn manna hefur Guð auk þess sett varanlegt fordæmi. Því má líkja við mikilvægan hæstaréttardóm. Í eitt skipti fyrir öll er nú fengin niðurstaða í málinu: Stjórn manna óháð Guði getur ekki tryggt æskileg skilyrði á jörðinni. Ef einhver sköpunarvera myndi véfengja starfshætti Guðs einhvern tíma í framtíðinni þyrfti ekki að ætla henni nokkrar árþúsundir til að reyna að færa sönnur á staðhæfingu sína. Allt sem sanna þarf hefur þegar verið sannað á þessum um það bil 6000 árum sem Guð hefur ætlað til slíks. Aldrei að eilífu verður því nokkrum uppreisnarsegg framar leyft að spilla friði og hamingju jarðlífsins eða standa í vegi fyrir drottinvaldi Guðs á nokkrum öðrum stað í alheiminum. Eins og Biblían segir með áhersluþunga: „Þrengingin mun ekki koma tvisvar.“ — Nahúm 1:9.

Lausn Guðs

19. Hvernig mun Guð leysa það vandamál sem illskan í heiminum er?

19 Biblían gefur þannig skynsamlega skýringu á því að til skuli vera þjáningar í heimi sem er skapaður af Guði. Biblían sýnir auk þess greinilega að Guð muni í náinni framtíð beita almætti sínu til að fjarlægja þá sem þjáningunum valda. Orðskviðirnir 2:21, 22 segja: „Hinir hreinskilnu munu byggja landið, og hinir grandvöru verða eftir í því. En hinir óguðlegu munu upprættir verða úr landinu, og hinum svikulu verða útrýmt þaðan.“ Já, Guð mun „eyða þeim, sem jörðina eyða.“ (Opinberunarbókin 11:18) Það mun að lokum einnig ná til Satans djöfulsins. (Rómverjabréfið 16:20) Guð mun ekki leyfa hinum óguðlegu að spilla fögru sköpunarverki hans, jörðinni, miklu lengur. Hver sem ekki samstillir sig lögum hans verður upprættur. Þeir einir sem gera vilja Guðs munu fá að lifa. (1. Jóhannesarbréf 2:15-17) Menn gera sér ekki blómagarð í illgresisreit og setja ekki hænsni og refi í sama búr. Þegar Guð endurreisir paradís handa réttlátum mönnum mun hann því ekki láta skemmdarvarga leika þar lausum hala.

20. Hvernig verða þjáningar fortíðarinnar þurrkaðar út?

20 Enda þótt þjáningar í aldanna rás hafi verið kvalræði fyrir þá sem urðu fyrir þeim hafa þær þjónað góðum tilgangi. Það má telja sambærilegt við það hvernig foreldrar myndu láta barn sitt gangast undir sársaukafulla læknisaðgerð til að ráða bót á alvarlegum sjúkdómi eða fötlun. Langtímaáhrifin eru langtum þyngri á metunum en skammvinnur sársauki. Auk þess mun sú framtíð, sem Guð geymir jörðinni og byggjendum hennar, létta minningunni um kvalir fortíðar af huga þeirra: „Hins fyrra skal ekki minnst verða, og það skal engum í hug koma.“ (Jesaja 65:17) Hverjar þær þjáningar, sem menn hafa mátt þola, verða með tíð og tíma þurrkaðar út úr minni þeirra sem lifa þegar Guð fer með drottinvald yfir allri jörðinni. Margþætt gleði þess tíma mun víkja til hliðar öllum slæmum endurminningum fortíðarinnar, því að Guð „‚mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.‘ Og sá, sem í hásætinu sat, sagði: ‚Sjá, ég gjöri alla hluti nýja.‘“ — Opinberunarbókin 21:4, 5.

21. Hvaða tækifæri munu jafnvel dánir menn fá?

21 Jesús Kristur talaði um þennan komandi nýja heim sem ‚endurfæðingu‘ eða endursköpun. (Matteus 19:28) Þeir sem hafa orðið að þjást og deyja munu þá fá að reyna að Guð ber umhyggju fyrir þeim, því að þá verða þeir sem liggja látnir í gröfum sínum endurskapaðir í bókstaflegri merkingu. Jesús sagði: „Allir þeir, sem í gröfunum eru, munu . . . ganga fram“ í upprisu til lífs hér á jörð. (Jóhannes 5:28, 29) Með þessum hætti verður hinum dánu einnig gefið tækifæri til að beygja sig undir réttláta stjórn Guðs og hljóta þau sérréttindi að lifa að eilífu „í paradís“ eins og Jesús kallaði það. — Lúkas 23:43.

22. Hvaða skilyrði verða endurreist í heimi dýranna?

22 Jafnvel dýrin munu búa saman í friði. Biblían segir: „Úlfur og lamb munu vera saman á beit, og ljónið mun hey eta sem naut.“ Meira að segja mun „smásveinn gæta þeirra.“ Dýrin munu ekki „illt fremja eða skaða gjöra“ í nýjum heimi Guðs og enginn maður vinna öðrum tjón. — Jesaja 11:6-9; 65:25.

23. Hvert mun verða ástand alls sköpunarverksins?

23 „Sjálf sköpunin“ mun þannig á allan hátt „verða leyst úr ánauð forgengileikans til dýrðarfrelsis Guðs barna,“ eins og Rómverjabréfið 8:21 segir. Að lokum verður öll jörðin paradís, byggð fullkomnum mönnum sem aldrei verða sjúkdómum, sorg eða dauða að bráð. Þjáningar munu um eilífð heyra fortíðinni til. Gervallt sköpunarverk Guðs á jörð verður fullkomlega samstillt tilgangi hans og sá ljóti blettur, sem hefur spillt alheimi hans um árþúsundir, verður þurrkaður út.

24. Hvaða spurningar má spyrja varðandi Biblíuna?

24 Á þennan hátt útskýrir Biblían hvers vegna Guð hefur leyft þjáningarnar og hvað hann mun gera til að leysa vandann. En sumir kunna að spyrja: ‚Hvernig fæ ég vitað hvort í raun og veru sé hægt að treysta því sem Biblían segir?‘

[Spurningar]

[Rammi á blaðsíðu 188]

Margir spyrja: ‚Ef til er Guð, hvers vegna leyfir hann þá allt þetta?‘

[Rammi á blaðsíðu 190]

Mönnum var ekki ásköpuð hæfni til að ráða sjálfum sér farsællega óháð skapara sínum.

[Rammi á blaðsíðu 190]

Frelsið átti að vera afstætt, ekki algert.

[Rammi á blaðsíðu 192]

Dvelji hugurinn við það sem rangt er getur það leitt til rangra verka.

[Rammi á blaðsíðu 193]

Það hlaut að taka tíma að útkljá rækilega þau deilumál sem upp höfðu komið.

[Rammi á blaðsíðu 194]

„Öll sköpunin stynur líka . . . allt til þessa.“

[Rammi á blaðsíðu 196]

Skaparinn mun ekki leyfa hinum óguðlegu að spilla þessari fögru jörð miklu lengur.

[Rammi á blaðsíðu 198]

„Sjálf sköpunin“ mun á allan hátt „verða leyst úr ánauð forgengileikans.“

[Mynd á blaðsíðu 189]

Fyrstu mennirnir áttu kost á eilífu lífi á jörð sem var paradís.

[Myndir á blaðsíðu 191]

Adam og Eva hrörnuðu og dóu eftir að þau slitu sig frá uppsprettu lífsins, ekki ósvipað og vifta hægir á sér og stöðvast þegar hún er tekin úr sambandi.

[Mynd á blaðsíðu 194]

Eftir allar þessar aldir er heimsástandið uggvænlegra en nokkru sinni fyrr.

[Mynd á blaðsíðu 195]

Með því að ætla nógu langan tíma til að svara spurningunum hefur Guð sett fordæmi fyrir framtíðina sem líkja má við hæstaréttardóm í mikilvægu prófmáli.

[Mynd á blaðsíðu 197]

Gleðin í nýjum heimi Guðs mun fá menn til að gleyma hverjum þeim þjáningum sem þeir hafa áður mátt þola.