Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Lífið – hvernig kviknaði það?

Lífið – hvernig kviknaði það?

1. kafli

Lífið – hvernig kviknaði það?

1. Hve auðug er reikistjarnan jörð af lífi?

 UMHVERFI okkar iðar af lífi. Þess heyrast merki í suði skordýranna, söng fuglanna og skrjáfi smádýranna í lágskóginum. Það er að finna á ísbreiðum heimskautanna og sólbrunnum eyðimörkum. Það á sér fulltrúa allt frá sólbjörtu sjávarborðinu niður í myrkustu djúpála. Smáar lífverur svífa um háloftin og örverur í milljarðatali vinna að því undir fótum okkar að gera jarðveginn frjósaman fyrir grænu jurtirnar sem viðhalda öðru lífi.

2. Hvaða spurningar hafa lengi leitað á hugi margra?

2 Jörðin er svo full af fjölbreyttu lífi að það gengur fram af ímyndunarafli okkar. Hvernig varð allt þetta til? Hverju á reikistjarnan okkar og allir byggjendur hennar tilvist sína að þakka? Hvernig varð sér í lagi mannkynið til? Þróuðumst við af dýrum sem líktust öpum eða vorum við sköpuð? Hvernig urðum við eiginlega til? Og hvað þýðir svarið við þeirri spurningu fyrir framtíð okkar? Spurningar sem þessar hafa lengi leitað á menn og í hugum margra er þeim enn ósvarað.

3. Hvað finnst sumum um þessar spurningar en hvers vegna skipta þær alla menn máli?

3 Þér finnst kannski sem þessar spurningar skipti þig litlu máli. Þú segir ef til vill sem svo: ‚Það gildir einu hvernig ég varð til — ég er hérna. Og sennilega mun ég lifa í 60, 70 eða kannski 80 ár — hver veit? En það breytir engu fyrir mig núna hvort Guð skapaði okkur eða við þróuðumst.‘ Sannleikurinn er þó sá að það getur breytt miklu fyrir þig — bæði hversu lengi þú lifir, hvernig þú lifir og við hvaða aðstæður. Hvernig getur það verið? Það er vegna þess að álit okkar á uppruna lífsins hefur áhrif á gjörvalla afstöðu okkar til lífsins og framtíðarinnar. Og víst er að það hvernig lífið varð til mun hafa áhrif á gang mannkynssögunnar á ókomnum tímum og hlutdeild okkur í henni.

Ólík sjónarmið

4. Hvað finnst mörgum um framtíðarhorfur lífsins á jörðinni?

4 Í hugum þeirra sem taka þróunarkenninguna góða og gilda mun lífið alltaf haldast í hendur við vægðarlausa samkeppni, baráttu, hatur, stríð og dauða. Sumir telja jafnvel að maðurinn kunni að tortíma sjálfum sér í náinni framtíð. Kunnur vísindamaður segir: „Við höfum ef til vill ekki nema fáeina áratugi til umráða fram að dómsdegi. . . . Þróun kjarnorkuvopna og tæknibúnaðar til að flytja þau að skotmarkinu mun fyrr eða síðar hafa í för með sér stórhörmungar fyrir allan heiminn.“⁠1 Jafnvel þótt það gerðist ekki í bráð álíta margir að tilveru manns sé endanlega lokið við dauða hans. Aðrir telja að allt líf á jörðinni muni þurrkast út einhvern tíma í framtíðinni. Þeir halda fram kenningum svo sem þeirri að sólin muni þenjast út og breytast í rauða risastjörnu, og að samhliða því muni „úthöfin sjóða, andrúmsloftið gufa upp út í geiminn og hrikalegustu hamfarir, sem hugsast getur, ríða yfir jörðina.“⁠2

5. (a) Hvaða hugmyndir hafa „vísindalegir sköpunarsinnar“ um jörðina? (b) Hvaða spurningar vekur það viðhorf?

5 Þá sem telja sig „vísindalega sköpunarsinna“ hryllir við slíkum hugmyndum. En túlkun þeirra á sköpunarsögu Biblíunnar er á þá lund að jörðin sé aðeins 6000 ára gömul og að sköpunardagarnir sex í 1. Mósebók séu hver um sig sólarhringur að lengd. Gefa slíkar hugmyndir rétta mynd af því sem Biblían segir? Var jörðin og allt líf á henni skapað á aðeins sex sólarhringum eða má skilja orð Biblíunnar á annan veg?

6. Á hverju ber okkur að byggja ályktanir okkar varðandi uppruna lífsins og hvernig gaf Darwin í skyn að endanleg niðurstaða lægi ekki fyrir?

6 Vinsælar skoðanir eða tilfinningar hafa áhrif á viðhorf margra þegar þeir íhuga spurningar tengdar uppruna lífsins. Til að forðast það og draga réttar ályktanir verðum við að skoða öll málsgögn með opnum huga. Athyglisvert er að jafnvel kunnasti málsvari þróunarkenningarinnar, Charles Darwin, gerði sér grein fyrir takmörkum kenningar sinnar. Í lokaorðum Uppruna tegundanna talar hann um mikilfengleik þeirrar „skoðunar að skaparinn hafi í upphafi blásið lífi, í sínu margvíslega veldi, í fáeinar tegundir eða eina.“⁠3 Með því lét hann greinilega í ljós að enn mætti halda áfram að velta fyrir sér spurningunni um uppruna lífsins.

Ekki er deilt um vísindi

7. Hvað er rétt að taka fram í þessu samhengi varðandi vísindin og virðingu okkar fyrir þeim?

7 Áður en lengra er haldið er rétt að eftirfarandi sé ljóst: Hér er ekki deilt um afrek vísindanna. Sérhverjum upplýstum manni er ljóst að vísindin hafa unnið stórkostleg afrek á fjölmörgum sviðum. Rannsóknarvísindi hafa aukið til muna þekkingu okkar á alheiminum, jörðinni og lifandi verum. Rannsóknir á mannslíkamanum hafa kennt okkur betri leiðir til að lækna sjúkdóma og meiðsli. Örar framfarir í rafeindatækni hafa fært okkur tölvurnar sem eru að breyta lífi okkar á ýmsa vegu. Vísindamenn hafa unnið mikil afrek, jafnvel sent menn til tunglsins og heim aftur. Það er rétt að virða þá kunnáttu sem hefur aukið svo mjög þekkingu okkar á umheiminum, allt frá hinu agnarsmáa til hins ógnarstóra.

8. Hvað er átt við með hugtökunum þróun og sköpun í þessari bók?

8 Þá er og rétt að okkur sé ljós merking hugtaka sem fyrir koma í þessari bók: Með orðinu þróun er átt við lífþróun — þá kenningu að fyrsta lífveran hafi þróast af lífvana efni, síðan fjölgað sér og breyst smám saman í ólíkar lífverur, uns komin voru fram á sjónarsviðið öll þau fjölbreytilegu lífsform sem nú eru til, þeirra á meðal maðurinn. Allt er þetta talið hafa gerst án þess að vitsmunir eða yfirnáttúrlegur máttur hafi komið þar nærri. Með sköpun er hins vegar átt við að tilurð lífsins verði aðeins skýrð með því að til sé alvaldur Guð sem hafi myndað alheiminn og þær megintegundir lífvera sem byggja jörðina.

Nokkrar mikilvægar spurningar

9. Hvað segja málsvarar þróunarkenningarinnar um sköpun, en hvaða spurningar vakna viðvíkjandi bæði sköpun og þróun?

9 Augljóst er að reginmunur er á þróunarkenningunni og sköpunarsögu Biblíunnar. Málsvarar þróunarkenningarinnar halda því fram að sköpunarhugmyndin sé ekki vísindaleg. Með fyllstu sanngirni má þó einnig spyrja: Er þróunarkenningin sjálf í raun vísindaleg? Er sköpunarsaga 1. Mósebókar hins vegar aðeins ein af mörgum sköpunargoðsögnum fortíðar eins og margir halda fram, eða kemur hún heim og saman við uppgötvanir vísindanna? Og hvað um aðrar þær spurningar sem leita á marga: Ef til er alvaldur skapari, hvers vegna eru þá svona miklar styrjaldir, hungur og sjúkdómar sem draga milljónir til dauða langt um aldur fram? Hvers vegna ætti hann að leyfa slíkar þjáningar? Og ef til er skapari, segir hann okkur þá hvað framtíðin ber í skauti sér?

10. (a) Hvert er markmið þessarar bókar og hvaða von bera útgefendur í brjósti? (b) Hvers vegna er mjög þýðingarmikið að íhuga þessi mál?

10 Það er markmið þessarar bókar að leita svara við þessum spurningum og fleirum sem þeim tengjast. Það er von útgefenda að þú grundir efni hennar með opnum huga. Hví skyldir þú gera það? Vegna þess að þær upplýsingar sem hér koma fram geta reynst þér meira virði en þig grunar.

Spurningar

[Rammi á blaðsíðu 7]

Varð lífið til af völdum þróunar eða var það skapað?

[Rammi á blaðsíðu 8]

Álit okkar á uppruna lífsins hefur áhrif á gjörvalla afstöðu okkar til lífsins og framtíðarinnar.

[Rammi á blaðsíðu 10]

Þeir sem aðhyllast þróunarkenninguna halda því fram að sköpunarhugmyndin sé ekki vísindaleg; en er með fyllstu sanngirni hægt að segja að þróunarkenningin sjálf sé í raun vísindaleg?

[Rammi/mynd á blaðsíðu 12, 13]

Sitthvað til umhugsunar

Heimur okkar er fullur af dásemdum:

Hið stóra: Sólsetrið sem litar vesturhimin ægifögrum litum. Stjörnum prýddur næturhiminn. Tignarleg tré í skógi þar sem sólstafir teygja sig niður á milli trjákrónanna. Skörðóttur fjallgarður með snæviþöktum tindum sem glitra í sólinni. Freyðandi ólgusjór. Þessi náttúrufyrirbæri hrífa okkur og fylla lotningu.

Hið smáa: Örsmár fugl flýgur hátt yfir Atlantshafinu. Hann er á leið frá Norður- til Suður-Ameríku en stefnir á Afríku. Í um það bil 6000 metra hæð finnur hann staðvind sem beinir honum til Suður-Ameríku. Eðlisávísun segir honum að halda sínu striki í nokkra daga um 3800 kílómetra leið. Þessi hugrakki fluggarpur vegur aðeins tuttugu grömm. Við fyllumst aðdáun og undrun.

Hið snjalla: Leðurblökur með ómsjá. Álar sem framleiða rafmagn. Mávar sem afselta sjó. Vespur sem búa til pappír. Termítar sem gera sér loftkælikerfi. Smokkfiskar búnir spýtihreyfli. Fuglar sem vefa eða byggja fjölbýlishús. Maurar sem sauma, stunda garðyrkju og halda húsdýr. Eldflugur með innbyggð leifturljós. Við dáumst að slíkri snilli.

Hið einfalda: Þegar nálgast ævilokin beinist athygli okkar oft að hinu smáa sem við höfum oftast áður gengið að sem gefnum hlut — brosi, blíðu viðmóti, vingjarnlegu orði, smáblómi, fuglasöng, yl sólarinnar.

Þegar við hugsum um hið stóra sem fyllir okkur lotningu, hið smáa sem vekur aðdáun okkar, hið snjalla sem hrífur okkur, hið einfalda sem okkur lærist um seinan að meta — hverjum eða hverju þökkum við það? Hvernig fáum við skýrt allt þetta? Hvaðan kom það?

[Heilsíðumynd á blaðsiðu 6]

[Mynd á blaðsiðu 9]

Aðeins 6000 ára gamalt?

[Mynd á blaðsíðu 11]

Það er rétt að virða þau vísindi sem hafa aukið þekkingu okkar svo mjög.