Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Á flótta undan harðstjóra

Á flótta undan harðstjóra

Kafli 8

Á flótta undan harðstjóra

JÓSEF vekur Maríu til að segja henni áríðandi fréttir. Engill Jehóva er nýbúinn að birtast honum og flytja honum þessi boð: „Rís upp, tak barnið og móður þess og flý til Egyptalands. Þar skaltu vera, uns ég segi þér, því að Heródes mun leita barnsins til að fyrirfara því.“

Þau forða sér í flýti. Og ekki má tæpara standa því að Heródes hefur komist að raun um að stjörnuspekingarnir hafa blekkt hann og farið úr landi. Þú manst að þeir áttu að koma til hans aftur og segja honum hvar þeir hefðu fundið Jesú. Heródes er afar reiður. Í von um að sér takist að drepa Jesú fyrirskipar hann að allir drengir í Betlehem og nágrenni, tveggja ára og yngri, skuli drepnir. Hann byggir þetta aldursmark á því sem stjörnuspekingarnir frá Austurlöndum höfðu sagt honum áður.

Fjöldamorðin á öllum þessum drengjum eru hryllileg! Hermenn Heródesar brjótast inn í hvert húsið af öðru. Og þegar þeir finna sveinbarn hrifsa þeir það úr faðmi móður sinnar. Við höfum enga hugmynd um hve mörg börn þeir drepa, en hinn mikli grátur og harmur mæðranna uppfyllir spádóm Guðs í Biblíunni sem Jeremía bar fram.

Jósef og fjölskylda hans komast heil á húfi til Egyptalands og setjast þar að. En nótt eina birtist engill Jehóva Jósef enn á ný í draumi. „Rís upp, tak barnið og móður þess og far til Ísraelslands,“ segir engillinn. „Nú eru þeir dánir, sem sátu um líf barnsins.“ Fjölskyldan snýr því aftur heim í land sitt og uppfyllir þar með annan biblíuspádóm þess efnis að sonur Guðs yrði kallaður frá Egyptalandi.

Jósef ætlar sér greinilega að setjast að í Júdeu, en þau bjuggu í Betlehem í Júdeu áður en þau flúðu til Egyptalands. En hann kemst að raun um að hinn illi sonur Heródesar, Arkelás, er konungur í Júdeu og fær bendingu frá Jehóva í öðrum draumi um að hætta sé á ferðum. Hann fer því með fjölskyldu sína norður í land og sest að í bænum Nasaret í Galíleu. Þar elst Jesús upp, fjarri trúarmiðstöð Gyðinga. Matteus 2:13-23; Jeremía 31:15; Hósea 11:1.

▪ Hvaða hræðilega skipun gefur Heródes konungur þegar hann uppgötvar að stjörnuspekingarnir koma ekki aftur til hans, en hvernig kemst Jesús undan?

▪ Hvers vegna sest Jósef ekki aftur að í Betlehem þegar hann snýr heim frá Egyptalandi?

▪ Hvaða biblíuspádómar rætast á þessu tímabili?