Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Ábyrgðin að vera lærisveinn

Ábyrgðin að vera lærisveinn

Kafli 84

Ábyrgðin að vera lærisveinn

EFTIR að Jesús er farinn úr húsi háttsetta faríseans, sem á trúlega sæti í æðstaráðinu, heldur hann áfram ferð sinni til Jerúsalem. Mikill fjöldi fólks er honum samferða. En af hvaða hvötum? Hvað er raunverulega fólgið í því að vera sannur fylgjandi hans?

Á leiðinni snýr Jesús sér að fólkinu og gerir því kannski bilt við þegar hann segir: „Ef einhver kemur til mín og hatar ekki föður sinn og móður, konu og börn, bræður og systur og enda sitt eigið líf, sá getur ekki verið lærisveinn minn.“

Hvað á Jesús við? Hann er ekki að segja að fylgjendur hans eigi að hata ættingja sína bókstaflega, heldur í þeirri merkingu að þeir eigi að elska þá minna en þeir elska hann. Jakob, forfaðir Jesú, er sagður hafa ‚fyrirlitið‘ Leu og elskað Rakel sem merkti að hann elskaði Leu minna en Rakel systur hennar.

Hafðu líka í huga að Jesús sagði að lærisveinn ætti jafnvel að hata „sitt eigið líf.“ Hér er merkingin aftur sú að sannur lærisveinn verði að elska Jesú meira en eigið líf. Jesús leggur þannig áherslu á að það sé mikil ábyrgð að verða lærisveinn hans. Enginn má gera það án vandlegrar umhugsunar.

Það fylgja því erfiðleikar og ofsóknir að vera lærisveinn Jesú eins og hann bendir á: „Hver sem ber ekki sinn kross og fylgir mér, getur ekki verið lærisveinn minn.“ Sannur lærisveinn verður því að vera fús til að þola sama ámæli og Jesús, og jafnvel að deyja fyrir hendi óvina Guðs ef nauðsyn krefur eins og Jesús á eftir að gera innan skamms.

Fólkið, sem fylgir Kristi, þarf því að hugsa sinn gang mjög vandlega áður en það gerist lærisveinar hans. Jesús leggur áherslu á það með dæmisögu. „Hver yðar sest ekki fyrst við, ef hann ætlar að reisa turn, og reiknar kostnaðinn, hvort hann eigi nóg til að ljúka verkinu?“ segir hann. „Ella má svo fara, að hann leggi undirstöðu, en fái ekki við lokið, og allir, sem það sjá, taki að spotta hann og segja: ‚Þessi maður fór að byggja, en gat ekki lokið.‘“

Jesús er því að sýna þeim sem fylgja honum fram á að þeir verði að fullvissa sig um að þeir geti gert það sem krafist er, áður en þeir gerast lærisveinar, alveg eins og maður, sem ætlar að reisa turn, gengur fyrirfram úr skugga um að hann hafi efni á að ljúka við hann. Jesús segir því næst aðra dæmisögu:

„Eða hvaða konungur fer með hernaði gegn öðrum konungi og sest ekki fyrst við og ráðgast um, hvort honum sé fært að mæta með tíu þúsundum þeim er fer á móti honum með tuttugu þúsundir? Sé svo ekki, gerir hann menn á fund hans, meðan hann er enn langt undan, og spyr um friðarkosti.“

Jesús leggur síðan áherslu á meginatriðið í dæmisögum sínum og segir: „Þannig getur enginn yðar verið lærisveinn minn, nema hann segi skilið við allt sem hann á.“ Mannfjöldinn sem fylgir Kristi og allir aðrir, sem læra um hann, verða að vera fúsir til að gera það. Þeir verða að vera reiðubúnir að fórna öllu sem þeir eiga — öllum eigum sínum og jafnvel lífinu — til að vera lærisveinar hans. Ert þú fús til þess?

„Saltið er gott,“ heldur Jesús áfram. Í fjallræðunni sagði hann að lærisveinar hans væru „salt jarðar“ og átti þá við að þeir stuðli að því að vernda fólk líkt og bókstaflegt salt ver gegn rotnun. „En ef saltið sjálft dofnar, með hverju á þá að krydda það?“ segir hann. „Hvorki er það hæft á tún né taðhaug. Því er fleygt. Hver sem eyru hefur að heyra, hann heyri.“

Jesús bendir þannig á að jafnvel þeir sem hafi verið lærisveinar hans um hríð megi ekki hvika frá ásetningi sínum að halda áfram. Ef þeir gera það verða þeir ónothæfir, spottaðir af heiminum, óhæfir frammi fyrir Guði og honum til háðungar. Þeim er því tortímt, já fleygt líkt og daufu og menguðu salti. Lúkas 14:25-35; 1. Mósebók 29:30-33; Matteus 5:13.

▪ Hvað merkir það að ‚hata‘ ættingja sína og sjálfan sig?

▪ Hvaða tvær dæmisögur segir Jesús og hvað merkja þær?

▪ Hvað á Jesús við með lokaorðum sínum um saltið?