Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Ákjósanlegur stjórnandi

Ákjósanlegur stjórnandi

Kafli 53

Ákjósanlegur stjórnandi

FÓLKIÐ undrast stórlega þegar Jesús mettar það þúsundum saman. „Þessi maður er sannarlega spámaðurinn, sem koma skal í heiminn,“ segja menn. Þeir draga þá ályktun að Jesús hljóti bæði að vera spámaðurinn meiri en Móse og jafnframt hinn ákjósanlegasti stjórnandi. Þeir áforma því að taka hann með valdi og gera hann að konungi.

En Jesús veit hvað fólkið hyggst fyrir og bregst því skjótt við til að hindra það. Hann sendir mannfjöldann burt og knýr lærisveinana til að fara í bátinn og sigla aftur til Kapernaum. Síðan fer hann upp á fjall til að biðjast fyrir og er þar einn um nóttina.

Skömmu fyrir dögun sér Jesús ofan af fjallinu að hvass vindur ýfir öldurnar á vatninu. Tungl er næstum fullt því að liðið er að páskum, og í tunglsljósinu sér Jesús að róðurinn er þungur hjá lærisveinunum þótt þeir rói af öllu afli gegn öldunum.

Jesús fer ofan fjallið og gengur á öldunum í átt að bátnum. Báturinn er kominn um fimm til sex kílómetra frá landi þegar Jesús kemur að honum, en hann heldur áfram eins og hann ætli fram hjá bátnum. „Þetta er vofa,“ æpa lærisveinarnir þegar þeir sjá hann.

Jesús svarar hughreystandi: „Það er ég, verið óhræddir.“

Þá segir Pétur: „Ef það ert þú, herra, þá bjóð mér að koma til þín á vatninu.“

„Kom þú!“ svarar Jesús.

Pétur stígur þá út úr bátnum og gengur á vatninu í átt að Jesú. En þegar hann sér rokið verður hann hræddur, tekur að sökkva og hrópar: „Herra, bjarga þú mér!“

Jesús réttir út höndina þegar í stað, tekur í hann og segir: „Þú trúlitli, hví efaðist þú?“

Vindinn lægir eftir að Pétur og Jesús stíga upp í bátinn. Lærisveinarnir eru agndofa. En þurfa þeir að vera það? Ef þeir hefðu skilið „það, sem gjörst hafði með brauðin,“ það er að segja hið mikla kraftaverk sem Jesús vann nokkrum klukkustundum áður þegar hann mettaði þúsundir manna með aðeins fimm brauðum og tveim smáfiskum, þá hefði þeim ekki þótt svona furðulegt að hann skyldi geta gengið á vatninu og lægt vindinn. En nú veita lærisveinarnir Jesú lotningu og segja: „Sannarlega ert þú sonur Guðs.“

Innan stundar eru þeir komnir til Genesaret sem er fögur og frjósöm slétta í grennd við Kapernaum og leggja bátnum. En þegar þeir stíga á land þekkir fólkið Jesú og fer um allt nágrennið til að leita uppi alla sem sjúkir eru. Komið er með þá á börum og þeir verða alheilir við það eitt að snerta klæðafald Jesú.

Mannfjöldinn, sem varð vitni að því þegar Jesús mettaði þúsundir, uppgötvar að hann er farinn. Fólkið fer nú á bátum, sem komnir eru frá Tíberías, til Kapernaum í leit að Jesú. Þegar menn finna hann þar spyrja þeir: „Rabbí, nær komstu hingað?“ Jesús ávítar þá eins og við komumst fljótlega að raun um. Jóhannes 6:14-25; Matteus 14:22-36; Markús 6:45-56.

▪ Hvað vill fólkið gera við Jesú eftir að hann er búinn að metta þúsundir?

▪ Hvað sér Jesús ofan af fjallinu þar sem hann er einsamall, og hvað gerir hann?

▪ Af hverju áttu lærisveinarnir ekki að undrast það sem Jesús gerði?

▪ Hvað gerist eftir að þeir koma að landi?