Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Æska Jesú og fjölskyldulíf

Æska Jesú og fjölskyldulíf

Kafli 9

Æska Jesú og fjölskyldulíf

JESÚS elst upp í Nasaret sem er lítt þekktur smábær í hæðunum í Galíleu, skammt frá hinum fagra Jesreeldal.

Jesús er ef til vill um tveggja ára þegar Jósef og María flytjast þangað frá Egyptalandi, og er þá greinilega eina barn Maríu. En fljótlega fjölgar börnunum. María og Jósef eignast drengina Jakob, Jósef, Símon og Júdas og einnig dætur. Jesús á því að minnsta kosti sex yngri systkini.

Hann á líka aðra ættingja. Við vitum þegar um frænda hans Jóhannes sem býr suður í Júdeu. En Salóme, sem er að öllum líkindum systir Maríu, býr í grenndinni. Salóme er gift Sebedeusi, þannig að Jesús og synir þeirra tveir, þeir Jakob og Jóhannes, eru þá systrabörn. Við vitum ekki hvort Jesús er mikið með þessum drengjum á uppvaxtarárunum, en síðar verða þeir nánir vinir hans.

Jósef þarf að vinna hörðum höndum til að sjá fjölskyldu sinni farborða. Hann er trésmiður. Hann elur Jesú upp sem sinn eigin son og Jesús er því nefndur „sonur smiðsins.“ Jósef kennir honum líka trésmíði og drengurinn er námfús. Þess vegna segja menn síðar um Jesú: „Er þetta ekki smiðurinn?“

Tilbeiðslan á Jehóva Guði er þungamiðja fjölskyldulífsins. Í samræmi við lögmál Guðs fræða Jósef og María börn sín um andleg mál ‚þegar þau eru heima, þegar þau eru á ferðalagi, þegar þau leggjast til hvíldar og þegar þau fara á fætur.‘ Í Nasaret er samkunduhús og við getum verið viss um að Jósef fer líka að staðaldri með fjölskyldu sína þangað til að tilbiðja Guð. En vafalaust hafa þau mesta ánægju af reglulegum ferðum til musteris Jehóva í Jerúsalem. Matteus 13:55, 56; 27:56; Markús 15:40; 6:3; 5. Mósebók 6:6-9.

▪ Hve mörg yngri systkini á Jesús að minnsta kosti? Nefndu sum þeirra.

▪ Nefndu þrjá, þekkta frændur Jesú.

▪ Hvaða iðn lærir Jesús og hvers vegna?

▪ Hvaða mikilvæga fræðslu veitir Jósef fjölskyldu sinni?